18.01.1961
Sameinað þing: 32. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í D-deild Alþingistíðinda. (3114)

139. mál, ríkisábyrgðir vegna togarakaupa

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Eins og fsp. ber með sér, er hér spurt um fjögur atriði: 1) Hverjum hafi verið veittar ríkisábyrgðir til togarakaupa á árunum 1959 og 1960. 2) Hver sé lánstími og önnur kjör á þeim lánum, sem ábyrgzt hafa verið. 3) Hve miklu lánin nemi á hvert skipanna. 4) Hve miklum hluta af kaupverði skipanna lánið nemi, m.ö.o. það komi fram, hvert kaupverð skipanna hefur verið hvers um sig.

Ég þori ekki að fullyrða, hvað í gildi er af heimildum til að ábyrgjast lán til togarakaupa, en ég vil aðeins minnast á tvennt. Það er í fyrsta lagi, að í fjárlögum 1959 er heimild til þess að ábyrgjast fyrir Axel Kristjánsson eða væntanlegt hlutafélag í Hafnarfirði tiltekna fjárhæð til togarakaupa. Þá var sett 1956 löggjöf um skipakaup ríkisins, og eftir því sem ég bezt fæ vitað, mun framkvæmd þeirra laga hafa snúizt upp í, að í stað þess að ríkið keypti beinlínis skip og seldi þau aftur, hafi verið ábyrgzt lán til félaga og einstaklinga til skipakaupa. Ýmsar tilkynningar hafa komið á þessum árum um þessar framkvæmdir. Stundum hefur verið getið um, að ríkisstj. stæði fyrir skipakaupum samkv. þessum lögum, og stundum fregnir um það, að aðrir hafi keypt skip. En heildaryfirlit hefur ekki komið fram um framkvæmd þessara laga, og vænti ég, að það fáist með svörum við þeim fsp., sem hér eru nú gerðar.