25.01.1961
Sameinað þing: 34. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í D-deild Alþingistíðinda. (3125)

954. mál, viðræður varðandi lán til framkvæmda

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Ég þarf ekki langan formála fyrir þessari fsp. Ég fór áðan nokkrum orðum um fjárfestingarmálin almennt og skal ekkert endurtaka af því. En ég vil minna á, að hæstv. ríkisstj. hefur lýst því yfir, að hún ætli að láta semja framkvæmdaáætlun fyrir næstu ár, og einkum hefur hæstv. forsrh. drepið á þetta og m.a. lýst þessu yfir í áramóbaræðunni nú síðast. Ástæðan til þess, að ég kom með þessa fsp., er nánast sú, að í þessari ræðu lét hæstv. forsrh. þess getið, að viðræður væru hafnar við erlendar fjármálastofnanir, sem lagt gætu fjármagn til slíkra framkvæmda, eins og hann sagði orðrétt. En þar sem málið er svona langt komið áleiðis að farið er að ræða við erlendar fjármálastofnanir um einstakar framkvæmdir í þessu sambandi, eða þannig hef ég skilið þessi ummæli, þá finnst mér bráðnauðsynlegt, að hæstv. ríkisstj. greini Alþingi frá því, hvaða framkvæmdir það eru, sem hún hefur valið úr og telur að eigi að sitja fyrir í þessu efni og er þá væntanlega byrjað að ræða við erlendar fjármálastofnanir um. Ég vil í því sambandi alveg sérstaklega láta í ljós, að þar sem það er eitt höfuðatriðið í þjóðarbúskapnum að velja úr, hvað eigi að gera, þá tel ég mikla nauðsyn, að hæstv. ríkisstj. hafi samráð um það við Alþingi, og það er einnig ástæðan fyrir því, að ég taldi tímabært að spyrja um þessi mál nú.