25.01.1961
Sameinað þing: 34. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í D-deild Alþingistíðinda. (3127)

954. mál, viðræður varðandi lán til framkvæmda

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Ég vil fyrst segja, að ég tek ekki sérlega hátíðlega þessar yfirlýsingar hæstv. forsrh. um, að hinar nýju efnahagsmálaráðstafanir ríkisstj. opni einhverja sérstaka möguleika eða muni vekja traust á Íslandi erlendis. Við getum talað um það á öðrum vettvangi. Það er nú upplýst, hvernig ástatt er með greiðsluútkomuna eða greiðsluhallann og þjóðarbúskapinn yfir höfuð eftir þetta fyrsta ár viðreisvarinnar, og það er hægt að segja ýmsum, en tæplega okkur, sem til þekkjum, að sú útkoma sé sérstaklega traustvekjandi, enda er ekkert nýtt í því, að Ísland fái lán erlendis. Það hefur verið stöðugt sannband við Export Import bankann í Washington og margar lántökur verið framkvæmdar þar svo að segja árlega og eins efnahagsmálastofnun Bandaríkjanna. Það eina nýja, sem hefur gerzt í þessu, er þá það, að hingað hefur komið þessi nefnd frá Alþjóðabankanum. En eins og kunnugt er, voru síðustu viðskiptin við hann þau, að hann neitaði Íslendingum um lán til sementsverksmiðjunnar, af því að hún væri ríkisrekin.

Fram komu þær upplýsingar hjá hæstv. forsrh.. að hitaveitan væri sú eina framkvæmd, sem ríkisstj. hefði farið fram á að fá lán til, eða þannig skildi ég hann, og hann leiðréttir það þá, ef það er misskilningur, — hitaveitan væri númer eitt, og geri ég ekki ráð fyrir því, að nokkur vilji finna að því.

En þá kom fram hjá honum, að þeir hefðu drepið á í þessum umr. við Allþjóðabankann, skildist mér, hafnarmál og vegamál og raforkuframkvæmdirnar. Vildi ég sérstaklega spyrja út af þessu, hvaða vegagerðir það eru, sem hæstv. ríkisstj. hefur þar sérstaklega í huga, og þá hvort Keflavíkurvegurinn nýi er þar í. Og einnig vildi ég leyfa mér, fyrst vegamálin ber hér á góma, að spyrja hæstv. forsrh. að því, hvernig ríkisstj. hefur hugsað sér að útvega fjármagn til Keflavíkurvegarins, því að það hefur ekki verið skýrt frá því hér á hv. Alþingi enn þá.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ég legg áherzlu á, að hæstv. ríkisstj. hafi samráð við Alþingi um, hvaða framkvæmdir verða látnar sitja í fyrirrúmi, áður en hún fer lengra í þessum málum. Mér finnst það alveg eðlilegt og sjálfsagt.