08.02.1961
Sameinað þing: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í D-deild Alþingistíðinda. (3136)

176. mál, aðild ríkisstofnana að Vinnuveitendasambandi Íslands

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Fsp. þessi hljóðar um það, hvaða ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki séu aðilar að Vinnuveitendasambandi Íslands og hvert hafi verið tillag þessara stofnana og fyrirtækja til Vinnuveitendasambandsins seinustu árin. Ástæðan til þess, að ég hef leyft mér að bera þessa fsp. fram, er í fyrsta lagi sú, að mér finnst það óeðlilegt fyrirkomulag að ríkið eða ríkisstofnanir séu aðilar að Vinnuveitendasambandinu. Með þessu er síður en svo átt við það, að ég áliti ekki vinnuveitendasambönd eða samtök vera eðlileg og nauðsynleg. Ég tel, að þau séu sjálfsögð. En ég tel jafnframt, að ríkið eigi að standa utan og ofan við stéttadeilurnar, eigi ekki að vera aðili að neinum stéttasamtökum, heldur sé hlutverk þess einmitt að vera sáttasemjari milli stéttanna. Af þessari ástæðu tel ég þetta fyrirkomulag óeðlilegt, að ríkisfyrirtæki og ríkisstofnanir séu aðilar að Vinnuveitendasambandi Íslands. Auk þess er svo það að athuga, að þessu mun fylgja verulegur kostnaður. Ég man eftir því, að árið 1958 fékk ég upplýsingar um það, að gjöld Skipaútgerðar ríkisins til Vinnuveitendasambandsins hefðu numið tæpum 100 þús. kr. á því ári, og ég býst við, að þau gjöld hafi ekki lækkað síðan. Ýmis önnur fyrirtæki ríkisins, sem eru aðilar að Vinnuveitendasambandinu, munu jafnvel hafa greitt hærri upphæðir en þetta, að því er mér hefur verið sagt. Ég hef óskað eftir því, að þessar upplýsingar um tillög viðkomandi fyrirtækja til Vinnuveitendasambandsins næðu nokkuð langt aftur í tímann, m.a. til þess að fá um þetta sem fyllstar upplýsingar, og. svo enn fremur, að ég hef talið rétt að láta það koma fram, að ég er ekkí að ásaka núverandi hæstv. ríkisstj. fyrir það, að þetta fyrirkomulag hefur komizt upp, heldur hafa fyrirrennarar hennar skapað fordæmið í þessum efnum. En mér finnst þetta vera jafnóheppilegt fyrirkomulag fyrir það og þess vegna ætti að vinna að því, að það sköpuðust eðlileg samtök sem allra flestra um það, að þessu verði breytt.