08.02.1961
Sameinað þing: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í D-deild Alþingistíðinda. (3140)

176. mál, aðild ríkisstofnana að Vinnuveitendasambandi Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er rétt, að það komi fram, um leið og verið er að ræða og gefa upplýsingar um þetta, að eftir þessum upplýsingum er sem sé ætlað, að stærstu fyrirtæki ríkisins, áburðarverksmiðjan og sementsverksmiðjan, séu bæði utan við Vinnuveitendasamband Íslands og þess vegna ekki að neinu leyti bundin af þeim skuldbindingum, sem Vinnuveitendasamband Íslands kann að hafa skuldbundið sína meðlimi með, sem raunar hefði verið fróðlegt að fá að vita einnig, en um það mundi þurfa að spyrja sérstaklega, hvers konar skuldbindingar það eru, sem fyrirtæki ríkisins hafa gengið undir viðvíkjandi skaðabótum og öðru slíku með því að ganga í Vinnuveitendasamband Íslands.

Áburðarverksmiðja ríkisins er utan við þetta vinnuveitendasamband, og vegna þess að ég býst við, að margir hafi í huga þær vinnudeilur, sem fyrir dyrum standa, og möguleika á kauphækkunum, sem atvinnurekendur í Vinnuveitendasambandi Íslands nú mjög sverja fyrir að þeir geti látið í té, þá er rétt að minna á, að áburðarverksmiðja ríkisins hefur greitt í vinnulaun samkv. reikningum næstsíðasta árs 5 millj. kr. til verkamanna sinna og hefur 3 tekjuafgang 11 millj. kr., sem mundi nægja, ef þeim tekjuafgangi væri varið einvörðungu til kauphækkunar, til þess að þrefalda kaupgreiðslur, þó að það sé að vísu ekki tillaga mín. En við sjáum á þessu eina fyrirtæki, sem við höfum þarna reikninga fyrir um, hvílíkur ofsagróði liggur þarna fyrir, og það væri æskilegt, að upplýsingar kæmu um fleiri fyrirtæki, líka þau, sem innan Vinnuveitendasambandsins eru, áður en sverfur til stáls.