01.03.1961
Sameinað þing: 43. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1165 í D-deild Alþingistíðinda. (3150)

191. mál, vistheimili fyrir stúlkur

Fyrirspyrjandi (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. menntmrh. fyrir hans glöggu upplýsingar í sambandi við þetta mál. Það gefst að sjálfsögðu ekki tími hér til þess að ræða hin einstöku atriði. Til þess að það sé hægt verður að bera málið fram í öðru formi, þar sem umræður í fyrirspurnatímum eru takmarkaðar. En hér eru svo margar upplýsingar athyglisverðar, að þær gefa mér tilefni til þess að hreyfa málinu á ný og ræða þá sérstaklega staðarvalið, þar sem ég tel, að ríkisstj. uppfylli ekki ákvæði 1. gr. l. frá 1947, nema því aðeins að hún hefjist handa strax um að ákveða stað og stærð heimilisins. Það er skýrt ákveðið í l., að þetta skuli gert. Ég er engan veginn sammála þeirri nefnd, sem skipuð var síðar, og sýnist mér, að verk hennar hafi verið til þess að torvelda þetta mál. en ekki til þess að bjarga því, því að ég hygg, að ef það verður lagt undir dóm óvilhallra manna, þá sé Úlfarsá einhver áheppilegasti staðurinn fyrir slíkt heimili og tillaga um þann stað beinlínis til skemmdar fyrir málið, en ekki til að hjálpa því áfram. Því vænti ég þess, að hæstv. ráðh. láti þegar hefjast handa um að ákveða, hvar heimilið skuli reist og hve stórt það skuli vera.

1956 lágu fyrir teikningar um bæði stúlkna- og drengjaheimili, og þá voru áætlanir um, að hvort heimilið um sig ætti að vera fyrir 30 vistmenn og kosta um 6 millj. kr. hvort á þeim tíma, svo að heimilið í Breiðuvík, sem er nú komið upp í 31/2 millj., hefur þó ekki náð þeirri upphæð enn, sem gert var ráð fyrir, enda engan veginn getað tekið við nema 15 nemendum. Hitt er svo vitað, að sá árangur, sem hefur náðst í Breiðuvík, er miklu meiri en sem svarar því fé, sem lagt er til þess

árlega. Það vita þeir bezt, sem þar hafa unnið að. Ég skal ekki ræða um þetta mál nánar nú, en mér gefst kannske tækifæri til þess að ræða annan þátt málsins, sem er sending stúlknanna til útlanda, því að það er miklu alvarlegra mál en kemur fram í þessum umræðum.