01.03.1961
Sameinað þing: 43. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í D-deild Alþingistíðinda. (3155)

199. mál, lánveitingar úr ræktunarsjóði og byggingarsjóði sveitabæja

Fyrirspyrjandi (Páll Þorsteinsson):

Ég vil þakka hæstv. landbrh. þau svör, sem hann hefur gefið við þessum fyrisspurnum. En út af því, sem fram kom í svari hans, að þessu máli hefði verið svarað vegna óformlegrar fyrirspurnar fyrir viku, vil ég taka það fram, að það mun hafa átt sér stað, að ég ætla, við umr. í Nd., en þar sem ég á sæti í Ed., var mér ekki um það kunnugt. Og á hinn bóginn ber fyrirspurnin það með sér, að þetta er 199. mál þingsins, og mun þá hafa verið búið að leggja fsp. fram í handriti, þótt nokkur dráttur yrði á, að þskj. yrði prentað. Í öðru lagi má ætla, að hæstv. ráðherra finnist það ekki miður farið, að slíkar fsp. komi fram á prentuðu þskj., eins og þingsköp mæla fyrir um. En um efni málsins er það að segja, að ég fagna því, að hæstv. ráðh. hefur lýst því yfir hér, að lánveitingar úr ræktunarsjóði og byggingarsjóði út á þær umsóknir, sem enn eru óafgreiddar, muni fara fram í þessum mánuði eða hinum næsta, og vil ég treysta því, að þetta bregðist ekki. Ráðh. staðfesti með svari sínu það, sem ég gaf í skyn í fyrri ræðu minni, að óafgreiddar umsóknir mundu vera svo margar, að sjóðirnir þyrftu að hafa til ráðstöfunar nokkrar milljónir til að geta afgreitt þær. Það kom fram í svari hæstv. ráðh., að til þess muni þurfa 9.1 millj. kr. samtals.