13.12.1960
Neðri deild: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

134. mál, efnahagsmál

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki þreyta langar kappræður um þetta mál, m.a. vegna þess, að ég er meðmæltur efni þess. En eins og fram kom í því, sem ég sagði hér áður, gefur þetta frv. tilefni til að láta ýmsar hugleiðingar koma fram varðandi efnahagsmálin og afstöðu sjávarútvegsins sérstaklega og þess vegna hvarf ég að því ráði þá. En nú kveð ég mér hljóðs eiginlega eingöngu út af þeim aths., sem hæstv. ráðh. lét falla í tilefni af því, sem ég sagði.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri vondur sleggjudómur, að erfiðleikar sjávarútvegsins nú stöfuðu af ráðstöfunum ríkisstj. Þessu væri alveg þveröfugt farið. Þær hefðu orðið yfirleitt til gagns fyrir atvinnuvegina og sjávarútveginn sérstaklega, en vandkvæðin væru vegna aflaleysis og verðfalls. Á hinn bóginn kynni þó að vera, að eitthvað af því, sem gert hefði verið, kæmi sér ekki sem allra bezt fyrir menn yfirleitt og þá útgerðina líka, en þá væri þess að gæta, að ef svo væri, þá væri það eingöngu því að kenna, hversu hörmulegur viðskilnaður vinstri stjórnarinnar hefði verið. Út af því hefðu menn neyðzt til þess að gera ýmislegt, sem þeir gjarnan hefðu viljað láta ógert.

Út af þessu vil ég aðeins segja þetta: Þegar vinstri stjórnin fór frá, var þannig ástatt, að það var greiðslujöfnuður á ríkisbúskapnum. Og sá afgangur, sem þá varð, nægði nokkuð stjórn hæstv. núverandi sjútvmrh. til þess að éta út yfir tvennar kosningar og halda með því leyndu, hvernig raunverulega var ástatt um verðlagsmálin og sérstaklega ástatt með fyrirætlanir hæstv. ráðh. og hans félaga að kosningunum loknum. Þarna var sem sagt um talsverðan greiðsluafgang að ræða. Gjaldeyrisstaðan var þá jákvæð. En eftir eins árs stjórn hæstv. ráðh., sem þá var forsrh., var gjaldeyrisstaða bankanna orðin talsvert óhagstæð. Hún var hagstæð, staða bankanna, þegar vinstri stjórnin fór frá. Vandinn hjá vinstri stjórninni var á hinn bóginn fólginn í því, að fram undan var stórfelld hækkun á verðlagi og kaupgjaldi, ef vísitölunni væri fylgt út í æsar. Það var vandinn. Og þá var sýnilegt, að ef því færi fram, mundi verða mjög erfitt að gera fullnægjandi ráðstafanir til þess, að framleiðsluatvinnuvegirnir gætu gengið.

En það var sýnt fram á, að þó að þarna væri verulegur vandi á ferðinni, þá var hægt að leysa hann án þess að leggja út í þær stimpingar, sem hæstv. núv. ríkisstj. hefur staðið fyrir. Efnahagsmálaráðunautar stjórnarinnar sýndu fram á, að það væri hægt að gera ráðstafanir til þess að jafna þann skakka, sem þarna var fyrir hendi, og halda óbreyttum kaupmætti tímakaupsins, eins og hann var í október eða febrúar 1958. Þetta var sýnt fram á og að það var hægt að gera það með því að endurbæta uppbótakerfið. Þá gat þetta staðizt og verið blómleg aðstaða fyrir atvinnuvegina og góð afkoma fyrir almenning. Þetta var hægt með þessum aðferðum, og var margsýnt fram á það. En allar þessar ferlegu aðfarir, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir, hafa aftur á móti leitt til þess, að nær öll helztu framleiðslufyrirtæki landsins væru nú þegar stöðvuð, ef ekki hefðu nú þegar verið gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að fleyta þeim áfram með bráðabirgðalánum. Og kaupmáttur tímakaupsins, eftir upplýsingum, sem fram hafa komið, virðist hafa lækkað a.m.k. um 12% frá 1958.

Það er því ekkert smávegis ólán, sem hefur hent með því að leggja út í þetta. Og það var ekkert í ástandinu, eins og það var, þegar vinstri stjórnin fór frá, sem gaf á nokkurn hátt tilefni til þess að fara svona að. Það var ekkert, sem gaf tilefni til þess.

Meira að segja eftir að hæstv. núv. sjútvmrh. hafði stýrt á vegum sjálfstæðismanna í eitt ár með sínum mönnum í stjórninni, og hafði þó sigið drjúgum á ógæfuhlið, því að búið var að éta upp ríkissjóðsafganginn og gjaldeyrisstaðan orðin óhagstæð, — meira að segja þá var heldur engin frambærileg ástæða til þess að leggja út í þessi ósköp.

Það var af þeim, sem þá tóku við og hafa nú staðið fyrir þessu, sagt, að það vantaði 200–250 millj. kr. til að rétta skakkann í kerfinu. Það er glöggt nú af því, sem fram er komið, að þarna hefur verið drjúgum vel í lagt, þannig að sjálfsagt hefur ekki einu sinni þurft þessa fjárhæð. Það var sýnt fram á og hefur margsinnis verið sýnt fram á, að með því að endurbæta uppbótakerfið og gera aðrar viðeigandi ráðstafanir var hægt að jafna þann skakka með alveg smávægilegum ráðstöfunum samanborið við það, sem út í var lagt.

En þá kemur að því, hvað raunverulega hefur verið gert.

Það var gert allt í senn að breyta genginu mjög verulega og leggja á stórfelldar nýjar skattaálögur til ríkissjóðs. Þetta hefur aldrei verið gert áður samhliða, þetta hefur aldrei farið saman fyrr, svo að mér sé kunnugt. Af þessu stöfuðu náttúrlega geigvænlegar verðhækkanir á öllum sviðum. En þetta var alls ekki látið nægja, og það er enn stórfelld nýjung í þessu máli ásamt fleiru. Síðan var sem sé bætt við verulegum lánasamdrætti, tilbúnum, beinlínis gerðar ráðstafanir til þess að loka inni og gera óvirkan helminginn af sparifé landsmanna og lækka það, sem lánað var af Seðlabankans hendi út á afurðir. Þ.e.a.s. krónutölunni var haldið út á afurðir, þó að afurðaverð hlyti auðvitað að hækka vegna gengisbreytingarinnar og allur tilkostnaður að stórhækka. Síðan voru settir á okurvextir, sem ekkert fyrirtæki getur greitt, og það er bókstaflega bros, — nei, það er ekki broslegt, heldur er það sorglegt, að nokkrum manni, sem til þekkir um atvinnurekstur, skyldi detta í hug, að íslenzkur atvinnurekstur gæti borgað 12% vexti. Hvar hafði leynzt sá óhemjugróði, sem hefði þurft að vera í íslenzkum atvinnurekstri og framleiðslu, til þess að slíkt gæti staðizt? Og hvaða nauður rekur til að gera svona lagaðar ráðstafanir? Mikill hluti af vaxtaskattinum, — ég kalla þetta vaxtaskatt, þetta er bókstaflega vaxtaskattur á almenning og framleiðsluna, innheimta á endurkeyptum afurðavíxlum, sem Seðlabankinn kaupir af hinum bönkunum og hefur sáralitinn kostnað af. En jafnvel á þeim víxlum voru vextirnir hækkaðir úr 5 og upp í 9%, fyrir utan hina almennu hækkun á vöxtunum. Þetta er hreinn skattur, sem lagður er á framleiðsluna. Og ekki nóg með þetta, heldur var það upplýst í fyrravetur, þegar þessar ráðstafanir voru gerðar, að þegar ríkisstj. hefði reiknað dæmið sitt fyrir framleiðsluna og fyrirtækin í landinu, hvernig þau ættu að sjá sér farborða, þá hefði ekki verið reiknað með vaxtahækkuninni. Það kom fram, að það hefði ekki verið reiknað með vaxtahækkuninni, henni hefði verið dengt ofan á aukalega. Hún var ekki tekin inn í dæmið um það, hvað framleiðendurnir þurftu að fá, heldur var henni dengt ofan á aukalega. Og enn fremur var það upplýst, að þegar ríkisstj. hafði reiknað dæmi sitt og lagt fram sínar tillögur, var líka bætt við á eftir 175 millj, kr. nýjum álögum í aðflutningssöluskatti, sem var ekki heldur reiknað með, hvorki í þeim útreikningum, sem höfðu verið gerðir um áhrif viðreisnarinnar á afkomu almennings, og ekki heldur í, þeim dæmum, sem höfðu verið reiknuð um framleiðsluna og afkomu fyrirtækjanna. Þessu var öllu dengt á á eftir.

Þó að allt hefði verið rétt reiknað, áður en þetta kom til, var náttúrlega gersamlega óhugsandi annað en þetta hlyti að hleypa öllu í strand, — bara þessir aukabaggar, þeir einir hlutu að hleypa öllu í strand, enda var margsýnt fram á í fyrravetur, að verðhækkunaráhrifin af öllu þessu gátu aldrei orðið minni en 1100 millj. eða svo, miðað við svipaða umsetningu að vísu og hafði verið á þjóðarbúinu fyrir samdráttinn. Og hverjum gat dottið í hug, að slíkt væri hægt að gera í þjóðfélagi, þar sem allar þjóðartekjurnar hafa verið metnar á fimm milljarða, án þess að af því leiddi fullkomna upplausn og öngþveiti, eins og nú er komið fram? Það var aldrei hugsanlegt, að þetta gæti staðizt, og var sýnt fram á þetta glögglega fyrir fram, þó að þeir, sem að þessu stæðu, væru svo gersamlega dáleiddir af einhverjum, — ég veit ekki hverjum — að þeir virtust lokaðir fyrir því að hlusta á það, sem aðrir sögðu, og líka hafa gersamlega misst sjónar á einföldustu undirstöðuatriðum í íslenzkum atvinnurekstri og framleiðslu.

Ég skil ekki, hvernig mönnunum gat dottið í hug, að þetta gæti staðizt, enda gefur auga leið, hvernig komið er. Að vísu hefði ástandið ekki orðið alveg eins geigvænlegt og það er í dag, ef orðið hefði verðhækkun, t.d. á lýsi og mjöli, frá því, sem orðið var, þegar þessar ráðstafanir voru gerðar. En á hinn bóginn var mikill hluti verðlækkunarinnar eða mestur hluti verðlækkunarinnar kominn fram, þegar þetta var gert. En samt sem áður skirrðust menn ekkert við að bæta vaxtahækkuninni og innflutningssöluskattinum ofan á allt hitt. Það var svo sem ekki verið að draga neitt úr höggunum, þó að það væri þá þegar ljóst, að verð hafði lækkað. öðru nær, þeir hertu bara á sér að berja.

Mér finnst það þurfa sterkt brjóst til að kalla þetta læknisaðgerðir. Ég veit, hvaða orð væri nær sanni, en ég vil ekki nota það orð, sem réttast væri að hafa yfir þetta háttalag. Það er undarlegt, að jafnglöggir menn og hér eiga hlut að máli, skyldu vefjast inn í að gera þetta svona. Þessar ráðstafanir voru svo miklar í eina átt, að það hlaut að fara undir kvið. Því miður verður afleiðingin af þessu sú, að það verður verra við þessi málefni að fást nú í framtíðinni en oftast áður. Það kemur smátt og smátt í ljós.

Það væri hægt að rekja marga aukaliði í þessu, sem hafa gerzt mjög örlagaríkir, t.d. eins og það, hvernig vaxtahækkunin, sem var mjög ógiftusamleg, hefur t.d. verkað á það verðlag, sem selt hefur verið á út úr landinu. Sannleikurinn er sá, að framleiðendur hafa bókstaflega neyðzt til þess að framkvæma hálfgerðar „paniksölur“ á afurðum til að þurfa ekki að borga lengi þessa okurvexti innanlands. Ég hika ekkert við að fullyrða, að í vissum dæmum a.m.k. hafa þessir geigvænlegu vextir í landinu haft áhrif til lækkunar á það verð, sem selt hefur verið á út úr landinu. Það er sem sé svo óskaplegur skattur að liggja með afurðirnar, að framleiðendum er gert það með öllu ókleift, og hugsa þeir því varla um annað en reyna að losna við vörurnar, þótt fyrir lægra verð sé. Mér finnst, að hvar sem litið er á þessa vaxtaráðstöfun, hafi hún verið ákaflega misheppnuð. Og þó að það hafi verið talsverður vandi á höndum, þegar vinstri stjórnin fór frá, eins og ég hef lýst, þá var hægt að leysa hann með viðunanlegum aðferðum. Það voru því engin rök fyrir því að grípa til slíkra ofboðsráðstafana sem hæstv. ríkisstj. hefur gert, sem gera allt hálfu verra en það var. Hver vill leyfa sér að líkja þeim vanda, sem nú blasir við, við þann vanda, sem þá var, og því ástandi um afkomu almennings og framleiðslufyrirtækjanna við það, sem þá var, haustið 1958? Ég hygg, að það mundu fáir treysta sér til að halda því fram, að nú væri æskilegra ástand í þessum málum en var í árslok 1958. Það fyndist mér vera mikið ofstæki að halda því fram. Ég held, að þeir menn, sem því héldu fram, hafi ekki gefið sér tóm til að kynna sér nákvæmlega, hvernig raunverulega er ástatt hjá almenningi í þessu landi fyrr og nú.

Það er einnig alveg þýðingarlaust að halda því fram, að það ástand, sem var í árslok 1958, hafi verið eins og það var, vegna þess að þjóðin hafi lifað um efni fram og það hafi verið búið að sökkva öllu. Það er alveg vonlaust að halda slíku fram, því að það er ósatt. Gjaldeyrisstaðan var þá jákvæð, eins og ég hef margupplýst. Það var greiðsluafgangur hjá ríkissjóði. Það var hægt að leysa verðlags- og kaupgjaldsmálin með tiltölulega einföldu móti, og lántökur, sem þá höfðu átt sér stað, voru yfirleitt til þýðingarmikillá og arðbærra framkvæmda, og þjóðartekjurnar höfðu farið vaxandi lengi ár eftir ár. Og þó að það hefði þurft, eins og ég tók fram áðan, að gera ráðstafanir út af því, hvernig ástatt var í fyrravetur, þá hefðu þær ekki þurft að vera nema eins og lítið brot af því, sem nú hefur verið gert.

Þá er hæstv. ráðh. mjög óánægður yfir því, að við höfum leyft okkur að benda á, að þessar margvíslegu ráðstafanir, sem hann og hæstv. ríkisstj. er að gera til stuðnings útveginum og náttúrlega allar eru þannig, að sízt veitir af, — ráðherrann er óánægður yfir því, að við skulum telja þessar ráðstafanir bera vott um, að stefna ríkisstj. hafi beðið skipbrot. En ég held, að hæstv. ráðh. verði að sætta sig við þetta, vegna þess að hann hlýtur sjálfur að sjá, að þegar því var lýst yfir í fyrravetur, að þessar ráðstafanir ættu að tryggja, að ekki þyrfti að gera neinar sérlegar ráðstafanir út af efnahagsmálunum fyrst um sinn, þau mundu passa sig sjálf í þeim farvegi, sem búið væri að leggja þau í, og þetta væri allt saman miðað við, að framleiðsluatvinnuvegir landsmanna gætu gengið stuðningslaust, — þegar hæstv. ráðh. athugar þetta, þá held ég, að hann hljóti að sjá, að það verður að skoða sem skipbrot þessarar stefnu, þegar hæstv. ríkisstj, er önnum kafin við að gera alls konar stuðnings- og styrktarráðstafanir til þess, að aðalatvinnuvegir þjóðarinnar stöðvist ekki gersamlega. Mér finnst ekki vera hægt að deila á okkur fyrir það, þó að við bendum á, að þetta er öruggur vottur þess, að hin nýja stefna hefur ekki heppnazt í framkvæmdinni, því þó að orðið hafi verulegur aflabrestur á togurunum, þá útskýrir það á enga lund það geigvænlega ástand, sem orðið er um rekstur bátaflotans, frystihúsanna og landbúnaðarins, svo að aðeins séu tekin dæmi. Aflabrestur togaranna skýrir ekki það geigvænlega ástand, sem orðið er um þennan atvinnurekstur, héldur koma þar til mest hinar misheppnuðu ráðstafanir.

Þá segir hæstv. ráðh., að menn megi ekki kippa sér upp við sumt af þessu, því að það hafi þekkzt áður, eins og t.d. afskipti af því, að menn fái heppileg lán til nótakaupa, og greiðsla síldaruppbóta eftir sérreglum, sem hefur verið gripið til vegna þess, hve útvegurinn stendur höllum fæti. Þetta megi menn ekki kippa sér upp við, vegna þess að þetta hafi þekkzt áður. En eru þetta nokkur rök hjá hæstv. ráðh.? Var ekki einmitt tilætlunin sú, að allt svona lagað félli gersamlega niður og þetta gæti allt saman vegið sig sjálft? Var það ekki einmitt nýja stefnan, sem verið var að innleiða, og þýðir þess vegna nokkuð að vera að vísa í fordæmi frá liðinni tíð, þegar skakkt var á öllu tekið að dómi hæstv. ríkisstj.? Ég held, að það standist ekki.

Þá skil ég alls ekki, þar sem það liggur fyrir, að greiða þarf, til þess að allt stöðvist ekki, öll vátryggingariðgjöld bátaflotans, að ráðh. skuli hneykslast á því, að það sé kölluð uppbótastefna. Þetta var kölluð uppbótastefna áður. Nú hittist aðeins svo á, að hæstv. ríkisstj. hefur þarna talsvert margar krónur, sem hún ætlar að slöngva í þetta, og heitir það afgangur í útflutningssjóði. En hugsum okkur, að þessar krónur hefðu ekki verið þarna. Þá hefði hæstv. ríkisstj. orðið að koma með nýja tekjuöflun í þessu skyni. Og þá hefði þetta allt saman verið miklu skýrara. Þó að svo sé ekki, þá er þetta samt svo skýrt, að hvert barn sér það. Þarna er uppbótakerfið komið, aftur vegna þeirra stórfelldu erfiðleika, sem orðið hafa. Það er ástæðulaust að vera að þrasa um það núna, hvað menn hafa sagt varðandi greiðslu á iðgjöldunum, ef ekki hrykki til féð úr útflutningssjóðnum. Ég vil ekki gera neinum getsakir í því efni. En ekki þætti mér það ólíklegt, — það kemur þá í ljós síðar, — að ef eitthvað vantaði þarna upp á, þá yrði það hlutskipti hæstv. ríkisstj. að gangast fyrir því, ef hún lifir svo lengi, að greiða þann mismun. Ég hef ekki trú á því, ef það kæmi t.d. í ljós, að það vantaði eitthvað upp á iðgjöldin, að þá yrði látið við það sitja. Það verður vafalaust gengið í að útvega það fé, sem vanta kynni, og það alls ekki að ástæðulausu, eins og hagur útvegsins er. Þetta þykir mér ekki ólíklegt. En ég skal ekki gera neinum upp orð í því sambandi. Ég vil þó benda á þetta.

Þá er það sama með þessar ráðstafanir, sem fyrir dyrum standa varðandi lánveitingar til útgerðarinnar, sem hæstv. ráðh. af hæversku kallar að eigi að verða til þess að bæta úr rekstrarfjárskorti. Það er náttúrlega ákaflega mikil hæverska að kalla það rekstrartap, sem á útveginum hefur skollið vegna ráðstafana ríkisstj., að kalla það rekstrarfjárskort. En það verður nú tap því miður eigi að síður, þótt það sé kallað öðru nafni, og það stafar náttúrlega að verulegu leyti af þeim gífurlegu vöxtum og öðrum hækkunum, sem orðið hafa.

Ég vil taka undir það, að það er áreiðanlega full ástæða til þess að gera ráðstafanir í þessa átt að útvega heppilegt og gott lánsfé inn í sjávarútveginn, og ég vil vona, að hæstv. ríkisstj. takist að finna sanngjarna og heppilega reglu fyrir úthlutun á því fé. Enn fremur vildi ég vona, að hæstv. ríkisstj. athugaði í leiðinni að sjálfsögðu, hvernig ástatt er um hliðstæða atvinnuvegi nú, eins og t.d. landbúnaðinn, sem ég fyrir fram vil alls ekki draga í efa að hún muni gera. Hæstv. ráðh. sagði, að hann gæti ekki á þessu stigi málanna upplýst, hvernig þessum lánveitingum yrði háttað, og ég get skilið það. Það stafar þá sjálfsagt af því, að málið er á rannsóknarstigi og hæstv. ríkisstj. hefur ekki enn þá haft tök á að setja um þetta reglur. En þá heyrum við væntanlega um það síðar.

Alveg sama er að segja um þær ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að gera til að fresta afborgunum vegna þess vanda, sem yfir útgerðina hefur skollið. Allt er þetta í sömu átt, eins og ég hef þegar tekið fram.

Það virðist vera eitthvert lát á hæstv. ríkisstj. í vaxtamálunum, og máske verður það áður en langt um líður, að vextirnir verði eitthvað lækkaðir. En ég fyrir mitt leyti vil leggja höfuðáherzlu á, að það verði reynt að breyta viðhorfinu með því að lækka vextina strax ofan í það, sem þeir voru. Það er nokkurn veginn augljóst, að það hefur aldrei verið hugsun hæstv. ríkisstj., að þessir vextir ættu að verða til þess að auka sparifjármyndunina í landinu, enda annað veifið gefið í skyn, að þeir ættu að vera aðeins til bráðabirgða. Ég vil eindregið skora á hæstv. ríkisstj. að lækka vextina strax alveg ofan í það, sem þeir voru, af því að það er algerlega vonlaust, að það takist að reisa íslenzkt atvinnulíf við, nema það skref verði stigið. Það verður mönnum gersamlega um megn, bæði þessari hæstv. ríkisstj. og öðrum, að moka því fé inn í atvinnureksturinn með lánum eða öðru, sem dugir til þess að standa undir öllum venjulegum rekstrarkostnaði og þessum gífurlegu vaxtabyrðum. Þess vegna er lífsnauðsyn að lækka vextina strax.