15.12.1960
Neðri deild: 40. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í B-deild Alþingistíðinda. (324)

134. mál, efnahagsmál

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég skila sérstöku áliti um þetta frv., en það er ekki enn komið, og stafar það af því, að það er mjög skammt liðið, síðan málið var afgr. frá fjhn., — það var ekki fyrr en um hádegisbilið í dag, — og síðan hafa verið að heita má stöðugir fundir hér í þingi og lítill tími hefur gefizt til þess að ganga frá áliti.

Það er efni þessa frv., að lagt er til, að útflutningsskatturinn, sem á var lagður, að því er sagt var í því skyni að greiða halla á útflutningssjóði, á að falla niður um næstu áramót, þó þannig, að það á að innheimta skatt af framleiðsluvörum frá árinu 1960, þó að þær verði ekki allar útfluttar um áramótin. Og síðan eru fyrirmæli um það, að fé, sem afgangs verður í útflutningssjóði, skuli ráðstafað á sérstakan hátt. Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir því, að eitthvað verði afgangs í útflutningssjóði, þegar hann er búinn að ljúka öllum sínum skuldbindingum, jafnvel þó að skatturinn verði ekki lagður á framleiðsluvörur næsta árs.

Það er eins og fyrri daginn, að það hefur gengið erfiðlega að fá ábyggilegar upplýsingar um hag þessa sjóðs, og áætlanir hæstv. ríkisstj. um þá stofnun hafa veríð ákaflega mikið á reiki frá fyrstu tíð.

Þegar stjórnin lagði fram sitt efnahagsmálafrv. snemma á þessu ári, voru áætlanir í grg. með frv. um sjóðinn. Þar er gert ráð fyrir því, að skuldbindingar hans mundu vera um 270 millj. kr. Ákveðið var, að sjóðurinn fengi gengishagnað af þeim birgðum útflutningsvara, sem til voru í landinu 16. febrúar, og var áætlað af stjórninni, að þessi gengismunur, sem sjóðurinn fengi, mundi nema um 150 millj. kr. Þá var eftir að sögn um 120 millj. kr. skuld hjá sjóðnum, og til þess að mæta þeim kröfum á sjóðinn var lagður á 5% útflutningsskattur. Talið var, að sá skattur mundi gefa 120 millj. kr. á árinu 1960. Þannig átti að mæta þessum halla, sem talinn var að væri á útflutningssjóði. Þetta var, eins og ég hef getið um, í grg. með efnahagsmálafrv. eða m.ö.o. í ríkisútgáfu stjórnarinnar, sem hún kallaði „Hvíta bók“.

En svo gerðist það síðar á þinginu, að stjórnin fékk fram komið breyt. á lögunum um það, að skatturinn skyldi ekki vera 5% af útflutningsvörunum, heldur 21/2%. Og þegar það mál var til meðferðar hér í d. og hjá fjhn., var óskað eftir því, að upplýsingar kæmu um ástæður sjóðsins. Þá fékk fjhn. bréf frá Fiskifélaginu, dags. 23. maí 1960, sem ritað er eftir beiðni sjútvmrn., og í þessu bréfi eru veittar nokkrar upplýsingar varðandi útflutningssjóðinn. Helzt er að sjá af því bréfi, að þá hafi verið gert ráð fyrir, að þær kröfur, sem sjóðurinn þyrfti að meta, væru nokkru meiri en 270 millj., — um 293 millj. kr. Þá var aftur reiknað með því, að gengishagnaðurinn, sem sjóðurinn ætti að fá, mundi gefa miklu meira en 150 millj., hann mundi nema 2271/2 millj. og af útflutningsskatti þyrfti þá 651/2 millj., til þess að sjóðurinn yrði sléttur, þegar öllu væri lokið, innborgunum og útborgunum hjá sjóðnum, og þetta lét þá nærri, að þessi 21/2% skattur mundi nægja, það mundi fást þegar á þessu ári nóg til að jafna hallann.

En í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, og athugun þess í fjhn. var enn óskað eftir því að fá nú nýjar upplýsingar um útflutningssjóð. Og fjhn. fékk afrit af bréfi, sem hæstv. sjútvmrh. hefur fengið 2. þ.m. frá útflutningssjóði, þar sem eru, eins og þeir segja, gerðar áætlanir um horfur á afkomu útflutningssjóðs. Það er nú ekki að öllu leyti gott að átta sig á þessu, en helzt verður þó af þessum upplýsingum skilið, að nú sé gert ráð fyrir, þegar sjóðurinn er búinn að taka á móti væntanlegum tekjum og greiða væntanleg gjöld, þá muni verða tekjuafgangur hjá honum 59.9 millj., eða rétt um 60 millj. kr. Ég vildi nú fá nánari skýringar á þessum hlutum og óskaði eftir því að fá upplýsingar um, hvað áætlað væri, að útflutningssjóðurinn hafi miklar tekjur eftir 16. febr. þetta ár, í fyrsta lagi af gengishagnaðinum, sem hann átti að fá, og í öðru lagi af útflutningsskatti, og hv. formaður fjhn., 6. landsk. þm., hefur í dag verið að reyna að fá svör við þessum spurningum, en ekki tekizt. Við höfum nú ekki nánari skýringar á þessu. En eins og þetta stendur í dag, þá virðist helzt mega gera ráð fyrir, að sjóðurinn hafi í tekjuafgang um 60 millj. kr. Sagt er í þessu bréfi, eða það er helzt hægt að finna út úr því, að þessi 21/2% útflutningsskattur muni nema alls 45–48 millj. kr. Sé þetta svo, þá kemur fram, að það hefur verið algerlega óþarft að leggja á þennan útflutningsskatt, því að eftir því sem nýjustu plögg sýna, þá hefði verið nokkur tekjuafgangur, líklega kringum 10 millj. hjá sjóðnum, þó að enginn skattur hefði verið á lagður.

Ég verð að segja, að það er alveg furðulegt, hvernig á þessum málum hefur verið haldið, bæði á síðasta þingi og nú, að það skuli aldrei vera hægt að fá upplýsingar, sem mark er takandi á, um þennan sjóð. Hérna skakkar geysimiklu, eins og menn sjá, frá því, sem hæstv. ríkisstj. lét frá sér fara í ríkisútgáfunni í fyrravetur.

Um þetta frv., sem hér liggur fyrir, er það að segja, að ég tel rétt að samþykkja það, afnema þennan skatt af útflutningnum nú frá áramótum. En ég tel, að það þurfi að gera breyt. á frv., og hef flutt um það till., sem búið er að útbýta. Þær eru á þskj. 226.

Í 2. gr. segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Fé það, sem verður afgangs í útflutningssjóði, þegar hann hefur innt af hendi greiðslur þær, er um ræðir í bráðabirgðaákvæðum laganna, stafliðum b, c og f, skal afhenda útvegsmönnum á þann hátt, að það gangi til greiðslu vátryggingariðgjalda fiskiskipa á árinu 1960. Þó skal útflutningsskattur samkv. 1. mgr. þessarar gr. af öðrum vörum en sjávarafurðum renna í ríkissjóð og honum ráðstafað í þágu landbúnaðarins samkv. ákvörðun ríkisstjórnarinnar.“

Í aths. við lagafrv. kemur það fram, að ákvæði frv. um, að tekjuafgangur í sjóðnum skuli fara til að greiða vátryggingariðgjöld fiskiskipa á þessu ári, er sett samkv. óskum L.Í.Ú. Það kemur fram í aths. um frv. Ég tel því, að það sé alveg sjálfsagt, að Stéttarsamband bænda fái að segja um það, hvernig varið verður þeim hlutanum, sem á að fara til landbúnaðarins. Þetta eru alveg hliðstæðar stofnanir, Landssamband íslenzkra útvegsmanna fyrir sjávarútveginn og Stéttarsamband bænda, sem er samtök þeirra, er landbúnað stunda. Því miður vildi ekki meiri hl. fjhn, fallast á þessa brtt., en ég hef flutt hana, — það er fyrsta brtt. á þskj. 226. Ég legg til, að í stað orðanna „samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar“ komi „samkvæmt tillögum Stéttarsambands bænda“. Ég tel það alveg sjálfsagt, að báðum þessum samtökum sé gert jafnhátt undir höfði. Úr því að nokkru af sjóðnum er ráðstafað samkv. óskum L.Í.Ú., þá á líka að ráðstafa þeim hluta, sem fer til landbúnaðarins, samkv. tillögum Stéttarsambands bænda. Ég vænti þess, að hv. þd. sjái, að þetta sé mjög eðlilegt og samræmi í þessu.

En það er ýmislegt fleira í efnahagslögunum, sem ég tel ástæðu til að breyta, og hef ég því flutt fáeinar tillögur til viðbótar þessari.

Í lögunum um efnahagsmál frá síðasta þingi er m.a. ákvæði í 23. gr. þeirra um það, að óheimilt skuli vera að láta kaupgjald og aðrar slíkar greiðslur breytast eftir breytingum á vísitölu. Á síðasta þingi bar ég fram brtt. við þessa grein, og var hún um umorðun á greininni. Ég lagði til, að hún yrði þannig orðuð:

„Ríkisstjórnin vinni að því að koma á samkomulagi milli launþega og framleiðenda um stöðvun víxlhækkana á milli kaupgjalds og verðlags.“

Þessi till. er tekin alveg orðrétt upp úr kosningastefnuskrá sjálfstæðismanna við síðustu alþingiskosningar. Ég veit ekki, hvaða ástæður hafa til þess legið, að þeir snerust á móti þessu strax á fyrsta þingi eftir kosningarnar, og mér finnst rétt að gera aðra tilraun, vita, hvort þeir vilja ekki lögfesta sína eigin stefnu í þessu máli, og flyt því þessa tillögu aftur, nákvæmlega eins og hún var flutt hér í fyrra og eins og hún var í kosningastefnuskrá þeirra sjálfstæðismanna í fyrrahaust.

Strax í upphafi þessa þings báru framsóknarmenn í þessari d. fram frv. til laga um breyt. á lögunum um efnahagsmál. Það er 31. mál þingsins. Efni þessa frv. er þetta: Í fyrsta lagi er lagt til, að útlánsvextir færist niður í 8% hæst, eins og þeir voru, áður en efnahagslögin voru sett. Vextir af afurðavíxlum færist niður í 51/2% hæst, og mun það vera það hámark, sem var á þeim áður. Í þriðja lagi, vextir og lánstími ræktunarsjóðs og fiskveiðasjóðs, byggingarsjóðs sveitanna, byggingarsjóðs fyrir kauptún og kaupstaði, raforkusjóðs og byggingarsjóðs verkamanna verði eins og áður en efnahagslögin voru sett. Og í fjórða lagi, að hætt verði að heimta til frystingar í Seðlabankanum helminginn af sparifjáraukningunni. Útlánamöguleikar geta þá aukizt að sama skapi. Frv. þessu var vísað til fjhn., og það fór fram atkvgr. um það í n. nú fyrir þremur dögum. Hv. þm. stjórnarflokkanna í n. sáu sér ekki fært að mæla með frv., heldur greiddu atkv. gegn því í n. En til þess að fá nú þegar úrskurð þd. um þetta mál, þá flyt ég tillögurnar úr frv. framsóknarmanna sem brtt. við stjórnarfrv., sem hér liggur fyrir. Ég tel, að það sé þannig um þessi atriði, að það megi ekki fresta því að gera þær breytingar á l., sem þar eru till. um. Og ég vil hér fara nokkrum orðum um þessar brtt.

Í 32. gr. efnahagslaganna frá síðasta þingi var ríkisstj. veitt heimild til að ákveða vaxtakjör og lánstíma hjá allmörgum stofnlánasjóðum. Það eru þeir sjóðir, sem ég gat um áðan. Ríkisstj. notaði heimildina þannig, að hún hækkaði til mikilla muna vexti hjá sjóðunum, og einnig var lánstíminn styttur hjá sumum þeirra. Fram til þess tíma, er þessi lög voru sett á siðasta þingi, hafa lánakjörin hjá þessum sjóðum verið ákveðin í lögum frá Alþ. Þannig á þetta að vera. Það er því lagt til í einni brtt. minni, að 32. gr. laganna verði felld úr gildi. Verði á þetta fallizt, koma aftur til framkvæmda þau lagaákvæði, er áður giltu um þessa sjóði og um vexti og lánstíma hjá þeim.

En hæstv. ríkisstj. lét sér ekki nægja að hækka vexti hjá ýmsum stofnlánasjóðum. Hún beitti sér einnig fyrir og kom fram vaxtahækkun hjá bönkunum, sem er svo gífurleg, að það mun ekki hægt að finna dæmi um slíkt í öðrum löndum. Þessi vaxtahækkun hefur lagt mjög þungar byrðar — og segja má óviðráðanlegar — á fjölda manna og valdið miklum erfiðleikum hjá þeim, sem fást við atvinnurekstur. Ég geri ráð fyrir, að það sé erfitt að finna fyrirtæki, sem geta borgað milli 11. og 12% ársvexti af lánum, og það er víst, að aðalatvinnuvegir þjóðarinnar geta ekki risið undir þessum vaxtagreiðslum. Það má t.d. benda á það, að meðan slíku er haldið uppi, þá eru Íslendingar ekki samkeppnisfærir með vörur sínar á erlendum mörkuðum. Það mun ekki vera hægt að finna dæmi þess, að nokkrir keppinautar okkar þar búi við slík kjör. Það ætti því öllum að vera ljóst, að það þarf strax að nema úr gildi ákvarðanir stjórnarinnar um vextina og færa þá aftur í fyrra horf. Ég hef því flutt brtt. um þetta. Þetta er fyrsta skrefið, sem þarf að stíga til þess að forða frá enn meiri vandræðum en þegar eru orðin. Það er áreiðanlega miklu skynsamlegra að gera þetta nú þegar, að létta þessari óhóflegu vaxtabyrði af mönnum og af atvinnufyrirtækjunum, heldur en að fara nú að reyna að útvega sérstök lán, eins og ríkisstj. er að vinna að, til þess að atvinnurekendur geti borgað okurvextina. Það er miklu skynsamlegra að létta þeim af, svo að minna þurfi af lánsfé til atvinnurekstrarins. Þetta þolir enga bið, og því er þessi brtt. hér flutt.

Þegar hæstv. ríkisstj. ákvað vaxtahækkunina snemma á þessu ári, hélt hún því fram, að sú ráðstöfun mundi verða til þess að örva sparifjársöfnun í landinu til mikilla muna. Undir venjulegum kringumstæðum er það líka svo og að öðru óbreyttu, að ef innlánsvextir eru hækkaðir, þá hvetur það til aukinnar sparifjármyndunar. En sú hefur ekki orðið hér raunin á, og koma þar aðrar ástæður til. Opinberar skýrslur sýna, að sparifjáraukningin hefur orðið miklu minni á þessu ári en undanfarin ár. Í Hagtíðindum sjáum við skýrslur um þessi mál. Þar eru tekin upp nokkur atriði úr reikningum bankanna, eins og menn þekkja, við og við, og einnig eru gefnar þar upplýsingar um innlán og útlán hjá sparisjóðunum. Síðustu tölur, sem nú eru til um innlánin hjá bönkum og sparisjóðum, eru miðaðar við októberlok nú í haust, þ.e.a.s. þær sýna, hvernig ástandið var að þessu leyti fyrir einum og hálfum mánuði, og ég hef athugað, hvað miklar innstæðurnar hafa verið hjá bönkum og sparisjóðum í októberlok 1960, og til samanburðar, hvað þær voru miklar á sama tíma næstu þrjú árin á undan, 1957—1959. Ég hef lagt hér saman spariinnlán og innlán á hlaupareikningi, en það er aðskilið í þessum skýrslum í Hagtíðindunum. Aftur á móti hef ég sleppt sérstökum lið, sem er bara í skýrslum bankanna, það er mótvirðisfé á hlaupareikningi. Það er gefið upp sérstaklega, en ég tel ekki rétt að taka það með. Það breytist eftir fyrir fram ákveðnum reglum, og hafa satt að segja orðið mjög litlar breyt. á því undanfarin ár, og ég tek bara það, sem aðrir eiga.

Þá er það fyrst um bankana að segja, að í lok okt. 1957 voru innstæður þar 1501 millj., á sama tíma 1958 1815 millj., á sama tíma 1959 2161 millj. og í októberlok 1960 2423 millj. Innstæðuaukningin hefur því orðið þessi: Frá 1. nóv. 1957 til 31. okt. 1958 314 millj., og það er 20.9% hækkun á sparifénu hjá bönkunum. Á tímabilinu frá októberlokum 1958 til októberloka 1959 er aukningin 346 millj. eða 19.1% viðbót, en síðasta árið, frá októberlokum 1959 til októberloka 1960, er aukningin 262 millj., eða 12.1%. Maður fær vitanlega réttasta mynd af þessu með því að bera saman hreyfingarnar, eins og þær hafa orðið hlutfallslega, og þá kemur þetta út t.d. í þessu dæmi, að frá októberlokum 1957 til sama tíma 1958 hafa innlán í bönkunum aukizt um 20.9%, en á sömu mánuðum 1959–60 ekki nema 12.1%. Þetta er að segja um bankana.

Ef við tökum svo í öðru lagi sparisjóðina á sama hátt, þá er það þannig, að í lok okt. 1957 voru innlán hjá þeim 427 millj., í októberlok 1958 518 millj., í októberlok 1959 642 millj., og í októberlok 1960 725 millj. Innstæðuaukningin hefur því orðið þessi hjá sparisjóðunum: Frá októberlokum 1957 til októberloka 1958 91 millj., eða. 21.2%. Frá októberlokum 1958 til sama tíma 1959 124 millj., eða 23.9%. En síðasta árið, frá októberlokum 1959 til októberloka 1960, 83 millj., eða 13%. Það er aðeins 13% aukning á móti 21.2 1957–58 og á móti 23.9 1958–59. Ég hef hér aðeins talið innstæðurnar í heilum millj., en sleppt alls staðar broti úr milljón.

Af þessum samanburði sést, að síðustu 12 mánuðina fyrir 1. nóv. þetta ár hefur sparifjáraukningin í bönkum og sparisjóðum orðið tiltölulega langtum minni en næstu tvö árin þar á undan þrátt fyrir vaxtahækkunina. Hún er reyndar minni líka í krónutölu þetta síðasta ár heldur en hin árin, en þó kemur mismunurinn enn meir fram vitanlega, ef þetta er reiknað út hlutfallslega, og það gefur réttasta mynd af breytingunni, sem orðið hefur.

Það er nefnilega þannig, að til þess að sparifé aukist, er það eitt ekki nóg að hækka vexti af því. Það út af fyrir sig kemur að litlu haldi, ef jafnframt er þrengt svo að fólki, að það getur ekki. lagt fé fyrir og verður þess í stað að ganga á eignir, sem fyrir voru. Þetta er það, sem hefur verið að gerast hér. Aðalorsök þess, að svo mjög hefur dregið úr sparifjáraukningunni, er vafalítið sú, að ráðstafanir hæstv. ríkisstj. hafa orðið landsmönnum ákaflega þungar í skauti. Þær hafa valdið mikilli kjaraskerðingu, svo að menn eiga nú við mikla fjárhagserfiðleika að búa. Á slíkum tímum er vitanlega ekki hægt að búast við, að sparifjársöfnun aukist, heldur þvert á móti. Það liggur þannig fyrir, að sá tilgangur, sem ríkisstj. sagði, að hún hefði með því að hækka svo mjög vextina, eða a.m.k. var það eitt af því helzta, sem var fært fram til réttlætingar þessari ráðstöfun, að sparifé mundi aukast og það þyrfti að aukast meira en áður, hefur ekki náðst. Og þá vil ég spyrja: Hvers vegna er þá lengur verið að halda í þessa háu vexti, þegar það liggur fyrir, að þetta er í rauninni óbærilegt öllum almenningi, sem eitthvað þarf á lánum að halda, og hefur leitt hinar mestu þrengingar yfir allan atvinnurekstur í þjóðfélaginu?

Þá er hér einnig brtt., sem ég hef ekki enn minnzt á. Hún er um það að fella úr lögum Landsbankans heimild, sem þar er til þess að skylda viðskiptabanka, sparisjóði og innlánsdeildir til þess að afhenda bankanum fé til geymslu. Þessi ákvæði eru í 16. gr. landsbankalaganna, nr. 63 frá 1957. Þau eru um það, að það megi skipa svo fyrir, að bankar og sparisjóðir skuli eiga innistæður í Seðlabankanum. Þetta heimildarákvæði hefur aldrei verið notað fyrr en á þessu ári. Þá var ákveðið, að helmingur þeirrar innistæðuaukningar, sem verða kynni hjá þessum innlánsstofnunum, skyldi afhentur Seðlabankanum til geymslu. Enn fremur skyldi sama gilda um innlánsdeildir kaupfélaganna samkvæmt heimild, sem núverandi stjórnarflokkar beittu sér fyrir og komu inn í landsbankalögin fyrr á þessu ári, eða réttara sagt, þeir munu hafa sett ákvæðið um það í efnahagslögin.

Ég legg til, að þessi heimild til fjárheimtu verði afnumin. Það er mjög mikil þörf fyrir fé sparisjóðanna og innlánsdeildanna til atvinnurekstrar og framkvæmda í héruðunum, þar sem þessar stofnanir eiga heima, og því þarf að nema þessa heimild úr lögum. Það þarf að hindra áframhaldandi flutning á sparifénu úr héruðunum inn í Seðlabankann. Mér þykir mjög sennilegt, að einmitt þetta ákvæði og beiting þess eigi nokkurn þátt í því, að sparifjáraukningin er nú minni en hún hefur verið á undanförnum árum. Ég er nærri viss um það, að þetta ákvæði fælir ýmsa menn frá því að leggja fé inn í sparisjóði, þó að þeir hafi eitthvað laust milli handanna. Menn hafa fyrir augum miklar þarfir heima fyrir, þarfir fyrir fé til atvinnurekstrar og nauðsynlegra framkvæmda, og þá þykir þeim vitanlega ekki fýsilegt, þó að þeir hafi eitthvað af lausum aurum, að leggja þá inn í sjóði með þeim skilmálum, að helmingurinn flytjist út úr héraðinu inn í banka hér í höfuðstaðnum, — burt úr héruðunum, þar sem flármagnsskorturinn er mönnum einmitt mikill fjötur um fót. Með þessu hefur hæstv. ríkisstj., sem beitti sér fyrir þessum ráðstöfunum, innleitt ný höft, það er einn þátturinn í ráðstöfunum hennar til þess að koma á höftum hér, þó að stöðugt sé talað um aukið frelsi. Með þessu er mönnum meinað að nota sitt eigið fé til nauðsynlegra hluta heima í héruðunum, þar sem þeir eru búsettir, þeim er meinað að nota það til uppbyggingar og framfara þar. Þetta er þáttur í viðleitni ríkisstj. til að skapa lánsfjárkreppu, þáttur í viðleitni hennar til að þoka þjóðinni aftur á bak. Þetta tel ég því, að eigi tafarlaust að nema úr lögum:

Ég held, að ég hafi þá gert nokkra grein fyrir þeim brtt. við frv., sem ég flyt, og skal því ekki að svo stöddu segja meira um málið.