15.12.1960
Neðri deild: 40. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

134. mál, efnahagsmál

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Fundur fjhn. var haldinn í morgun um þetta mál, og þó að nm. væru ekki svo mjög ósammála viðvíkjandi 1. gr. í þessu frv., þá höfðum við báðir, sem í stjórnarandstöðunni erum, sitthvað við þessi mál í heild að athuga, sem olli því, að við flytjum hvor um sig allmargar brtt. við efnahagslöggjöfina og gefum þess vegna út sérstök nál. Mitt nál. var látið í prentun í dag fyrir 5, en er ekki komið enn þá, enda alllangt, en þær brtt., sem ég flyt, eru á sérstöku þskj., 221.

Ég verð því að ræða þetta mál, án þess að mitt nál. liggi fyrir, en verð þá að reyna að bæta það upp með því að gera skýrari grein fyrir mínu máli og þeim till., sem ég flyt.

Þetta mál, efnahagsmálalöggjöfin, kemur nú fyrir okkur í ekki alveg ósvipuðu formi og því, sem var síðla á síðasta þingi, og það er raunverulega engin tilviljun, að þessi mál tvö, það mál, sem víð vorum að ræða hér fyrir nokkru, söluskatturinn, og þessi efnahagsmálalöggjöf, — skuli nú koma fyrir aftur og koma þetta seint. Það er raunverulega tvennt, sem er þarna að verki. Sumpart er þarna um að gera, að hinir upphaflegu útreikningar, sem gerðir hafa verið í sambandi við þessi efnahagsmál og tekjumál ríkissjóðs, hafa reynzt rangir. Satt að segja virðist það svo, að sérfræðingar ríkisstj. séu alveg sérstakir sérfræðingar í að reikna vitlaust. Það eru raunar ekki aðeins sérfræðingar þessarar ríkisstj. núna í sambandi við þetta mál, það sama sýndi sig líka 1950, þegar gengið var lækkað þá. Það er eins og í hvert einasta skipti, sem íslenzk ríkisstj. vill reyna að treysta sérstaklega á það, að einhverjir sérfræðingar, sem að meira eða minna leyti eru komnir hingað að undirlagi Alþjóðabankans,fari að skipta sér af efnahagsmálum Íslendinga, Þá komi tóm vitleysa út. Síðan þurfi hæstv. ríkisstj. að vera jafnvel tvisvar á sama þinginu að vera að reyna að leiðrétta þessar vitleysur. Stundum kemur þetta hins vegar af því, að hæstv. ríkisstj. þykir ekki skemmtilegt að horfast í augu við staðreyndir. Hún kýs þá að kalla þær uppbætur, sem hún er að koma á, svo sem í því tilfelli, sem hér liggur fyrir, einhverju öðru nafni en slíku. Rétt eins og forðum daga, 1951, þegar við stóðum frammi fyrir bátagjaldeyrinum, þegar kerfið hafði brugðizt, en ómögulega mátti viðurkenna fyrr en mörgum mánuðum seinna, að það hefði brugðizt þá, og það mátti ómögulega kalla bátagjaldeyrinn uppbætur, eins er með það, sem nú liggur fyrir.

En raunverulega hefði kannske ekki verið sérstaklega mikil ástæða til þess að ræða mikið þetta mál, svo framarlega sem það hefði einvörðungu verið þessi 1. gr., sem um væri að ræða. Það, sem hins vegar knýr mig til þess að gera eins ýtarlegar brtt. við þetta mál og ég geri, þó ekki nærri nógu ýtarlegar, er, að sjálf efnahagsstefna ríkisstj. er nú komin í slíkt ástand, að Alþ. getur ekki annað en tekið það upp til alvarlegrar athugunar, og ég verð að lýsa óánægja minni yfir því, hve seint þetta mál kemur fyrir.

Það er með þetta mál alveg eins og söluskattinn, að það var hægur vandi fyrir hæstv. ríkisstj. að vera búin að leggja bæði þessi mál fyrir Alþ. fyrir löngu. Þetta er afgreiðsla, sem raunverulega nær ekki nokkurri átt og mundi ekki yfirleitt geta farið fram nema vegna þess, að stjórnarandstaðan sýnir ríkisstj, svo mikið umburðarlyndi í svona málum, þegar þau eru komin í öngþveiti, að hún reynir að létta henni á allan hátt afgreiðslu mála, sem hún ætti raunverulega varla skilið að fá afgreidd. Auðvitað var hægt að leggja bæði söluskattinn og þessi efnahagsmál, sem hér liggja fyrir, fyrir Alþ. fyrir löngu. Auðvitað var hægt að láta fjhn. þessarar hv. d. fá tækifæri til þess að ræða við sérfræðinga ríkisstj. um þessi mál. Auðvitað var möguleiki til þess að láta umr. um þetta mál fara fram með eðlilegum hætti, að láta líða rétta fresti á milli, láta vera hægt að útbýta skjölum og annað þess háttar. En það er ekki hægt vegna þessa ódæma trassaskapar, sem er raunar ekki sérkenni á þessari ríkisstj., — það hafa verið svo að segja flestar ríkisstj. hérna, sem hafa þann vandræðasið að koma rétt fyrir jólin með meginið af öllum þeim málum, sem þurfa að komast í gegn. Þess vegna var það svo í dag, þegar við óskuðum eftir því, að sérfræðingar ríkisstj., m.a. viðskmrh. og ráðuneytisstjóri efnahagsmrn., Jónas Haralz, mættu hjá okkur í fjhn. þessarar deildar, sem raunar hefur ekki fengið allt of mikið tækifæri til þess að ræða við þessa sérfræðinga ríkisstj. á þessu þingi, þegar við óskuðum eftir, að þeir mættu hjá okkur, voru þeir suður í París. (Gripið fram í.) Jæja, hins vegar hefur hann haft núna allmikil tækifæri til þess að tala við þm., svo að ég vona, að hæstv. forsrh. noti þá tækifærið núna. Nú er tækifærið: Hver veit, nema ég verði annars kominn til Moskvu næst, ef hann sleppir tækifærunum, þegar þau gefast honum. Það er verst, ef hann hefur ætlað að biðja mig fyrir eitthvað til Moskvu, þá er það náttúrlega mjög slæmt, ef ég hef átt eitthvað að útrétta fyrir hann, eins og stundum áður.

Herra forseti. Ég held þess vegna, að að þessum inngangi loknum um aðferðina við að leggja þessi mál fyrir og það tækifæri, sem fjhn. hefur gefizt, snúi ég mér að því, sem brýnast er. Það er, að nú, þegar þessi höfuðefnahagsmálalöggjöf ríkisstj. liggur hér fyrir til umr., þá álít ég, að ástandið sé orðið þannig, afleiðingin af hinni svokölluðu viðreisn sé komin svo greinilega í ljós, að það verði nú að freista þess, hvort hægt sé að fá hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsmenn til þess að athuga nokkuð um, hvar þeir standa. Þess vegna hef ég flutt hér ýmsar till. og mun í minni ræðu reyna að gera nokkra grein fyrir ástæðunum til þess, að ég álít það alveg óhjákvæmilegt. Ég verð að vísu um leið að harma það, að undanfarið, þegar þessi efnahagsmál hafa veríð á dagskrá í sambandi við hina og aðra dagskrárliði, þá hefur hæstv. ríkisstj. og hennar fylgismenn fengizt lítt til þess að ræða þessi mál. En nú, þegar efnahagsmálin liggja sjálf fyrir, höfuðlöggjöf ríkisstj. um þetta, þá vona ég, að hún fáist til þess, enda er raunverulega ástandið í landinu orðið þannig, að það væri algert ábyrgðarleysi af stjórnarfl. að fást ekki til þess að ræða um þessi mál.

Fyrir okkur liggur yfirlýsing frá aðalmönnum sjávarútvegsins, samtökum hans, Landssambandi ísl. útvegsmanna, um, að sjávarútveginum verði ekki haldið áfram á þeim grundvelli, sem ríkisstj. hafi lagt síðasta vetur með samþykkt efnahagsmálalöggjafarinnar í febr., og það er ekkert enn þá, sem bendir til þess, að nein lausn sé fundin á þessu máli. Fundi Landssambands ísl. útvegsmanna var frestað nú nýlega þangað til 12. des., hann kom saman 12. des., þá var honum frestað aftur, ég veit ekki þangað til hvenær, og ekkert virðist liggja fyrir um, að það sé öruggt, að sjávarútvegurinn verði yfirleitt í gangi eftir nýár. Hvað gerist svo á sama tíma, á meðan þannig lítur út víðvíkjandi þeim atvinnulega grundvelli, sem þjóðin fyrst og fremst byggir á, sjávarútveginum? Það lítur þannig út hjá okkur í landi, að hér er atvinnan meira og minna að stöðvast. Húsbyggingarnar, sem verið hafa einn mjög veigamikill þáttur í atvinnulífi Reykjavíkur og margra annarra bæja, eru að stöðvast: Það er byrjað á hverfandi fáum nýjum húsum, víða svo að segja engum. Það er hætt við, að bygging stöðvist á svo og svo mörgum af þeim húsum, sem eru meira eða minna hálfbyggð. Það er byrjað atvinnuleysi t.d. hjá trésmiðum. Það er að vaxa atvinnuleysið úti um allt land nema helzt á þeim stöðum, þar sem útfærsla landhelginnar hefur bjargað ýmsum smáþorpum í landinu, þar sem vélbátaútgerð er sæmileg. Á stærri stöðum, sem byggja meira á iðnaði, byggingum og öðru slíku, Akureyri, Reykjavík, þar er atvinnuleysið að byrja. Á Akureyri er það orðið alltilfinnanlegt nú þegar. Í Reykjavík er farið að bera á því í vaxandi mæli, og hver einasti aðili, sem með atvinnumálin hefur að gera, segir, að upp úr nýárinu muni hins vegar fjöldi fyrirtækja stöðvast, — fyrirtæki, sem reyna að halda út núna í des. Hér er þegar komið svo, að eftirvinna er að mjög miklu leyti hætt og vinna er orðin mjög stopul. Einmitt nú fyrir jólin falla úr fjölmargir dagar hjá mönnum, og hvern einasta morgun verða hér niðri við höfnina 40–50 manns að hverfa frá kl. 8–9 um morguninn eftir að hafa verið á snöpum eftir vinnu. Smærri iðngreinarnar eru sumar svo að seg ja að stöðvast. Það þarf ekki nema t.d. hlusta á tilkynningarnar frá húsgagnaiðnaðinum í útvarpinu til þess að heyra, hvernig ástandið muni vera þar. Það þarf ekki nema tala við bílstjórana, fólksbílstjórana og vörubílstjórana, til þess að heyra, hvernig þeirra atvinna hefur minnkað, jafnvel um allt að því helming. Hvar sem drepið er niður, er alls staðar rýrnun lífskjaranna, óvissa, minnkandi atvinna, jafnvel gjaldþrot og hrun, sem vofa yfir hjá ýmsum smáatvinnurekendum, sem oft máske af litlum efnum hafa verið að reka sín litlu atvinnufyrirtæki, en fyrst og fremst hafa getað treyst á eitt, sem verið hefur einkennið á íslenzkum þjóðarbúskap á undanförnum árum, fulla atvinnu og góða kaupgetu almennings. Jafnhliða fjölgar í Lögbirtingablaðinu auglýsingum um uppboð á íbúðum. Þeir menn, sem af mikilli bjartsýni, miklum dugnaði og mikilli fórnfýsi hafa lagt í það að reyna að byggja vel upp okkar bæi, eru að missa sínar íbúðir. Við þekkjum ósköp vel, hvernig á því stendur, að menn hafa getað lagt í eins góðar íbúðir og menn hafa verið að byggja sér hér. Menn hafa unnið eftirvinnu, 2–3–4 klst., menn hafa unnið á laugardögum og sunnudögum, menn hafa unnið í orlofinu sínu, menn hafa yfirleitt lagt saman dag og nótt svo að segja til þess að reyna að borga niður af íbúðinni sinni, enda líka oft og tíðum svo, að af launum manna hafa farið jafnvel upp í 3–4 þús. kr. á mánuði í afborganir af íbúð. Og það er vitanlegt, að svona ástand hefur ekki getað gengið nema vegna þess, að þjóðin hefur unnið afskaplega mikið og hún hefur á undanförnum árum lagt eins mikið fram og hún hefur gert. Það, sem nú er að gerast, er, að henni er meinað að fá að þræla svona, fá að þræla fyrir því að eignast íbúðir, fá að framkvæma það, sem Sjálfstfl. hefur lýst sem sinni stefnu, að hver maður ætti að eiga sína eigin íbúð. Þess vegna er það svo nú, að fjölmargir eru ýmist að gefast upp við að fullgera þær íbúðir, sem þeir hafa byrjað á, eða þá að missa þær íbúðir, sem þeir hafa verið að byggja sér, eru kannske fluttir í fyrir skömmu og geta nú ekki aflað sér tekna til að standa undir hinum hröðu afborgunum af þeim.

Það, sem veldur öllum þessum vandræðum, öllu þessu hruni, sem þarna er að færast yfir, allri þessari stöðvun, sem þarna er að verða, það er kaupgetuminnkunin hjá almenningi, kaupgetuminnkunin hjá alþýðu manna. Og hún stafar af tvennu. Hún stafar í fyrsta lagi af því, hve mikið kaupgjaldið hefur lækkað. Ég skal koma að því nánar síðar, en lækkunin frá því í febrúar þetta ár og þangað til núna er a.m.k. um 15% af kaupgetu tímakaupsins, miðað við vörur og þjónustu. Og í öðru lagi stafar hún af því, að atvinnan hefur minnkað, þannig að atvinnutekjurnar hafa minnkað jafnvel enn þá meira en sem nemur kaupgeturýrnun tímakaupsins. M.ö.o.: atvinnuleysið er byrjað, og strax og atvinnuleysið er byrjað, eru lífskjör almennings náttúrlega rýrð meira og tilfinnanlegar með því en með nokkru öðru.

Ég vil vekja alveg sérstaka athygli á þeirri staðreynd: Ég hef oft átt tal við ýmsa menn úr stjórnarliðinu á undanförnum mánuðum og rætt við marga hér úr ræðustól, einkanlega um efnahagsstefnuna, sem upp var tekin, vegna þess að ég var alltaf að reyna að vara við henni og hvert hún mundi leiða. Viðkvæðið hjá þorranum af þeim fylgismönnum ríkisstj., sem ég hef talað við, bæði innan þings og utan, hefur verið það: Við höfum líklega lifað um efni fram, og við höfum þess vegna orðið að rýra kaupgjald. — Og þegar ég hef spurt þá: Hvað segið þið svo um það atvinnuleysi, sem kemur? — Þá hafa þeir sagt: Atvinnuleysi, það kemur ekki, og það má ekki koma, það er óþolandi. — Ég held, að allir þeir menn, sem ég hef talað við um þetta, hafi talað út úr sínu hjarta.

Það er ekkert spursmál um það, að eftir að við Íslendingar nú í 18 ár, að tveim árum undanteknum, höfum, a.m.k. hér í Reykjavík og á suðvesturhorni landsins, búið við fulla atvinnu, 15–16 ár af þessum 18, þó að nokkrum sinnum hafi verið brestur á því úti á landi, þá held ég, að það sé óhætt að fullyrða, að atvinnuleysi er fyrirbrigði, sem þjóðin alls ekki undir neinum kringumstæðum sættir sig við, og mér er nær að halda, að þorrinn af þeim, sem stjórninni fylgja, innan þings og utan, hugsi sem svo gagnvart atvinnuleysinu, að það sé hlutur, sem menn geti ekki undir neinum kringumstæðum þolað né eigi að þola. Og ég vil taka undir þær hugmyndir. Ég álít, að atvinnuleysið sé glæpur og að hvert þjóðfélag, sem kemur atvinnuleysi á hjá sér, það þjóðfélagsform á ekki skilið að vera til. Það er dauðadómur yfir hverju þjóðfélagsskipulagi, ef það innleiðir hjá sér atvinnuleysi. Atvinnuleysi er slík árás, ekki bara á lífskjör manna, heldur á alla þeirra liðan, að það gengur glæpi næst. Þess vegna er það algerlega óþolandi, að nú er raunverulega með þessari svokölluðu viðreisnarstefnu verið að skipuleggja atvinnuleysi á Íslandi. Ég hef haldið því fram frá upphafi, í öllum þeim ræðum, sem ég hef flutt um þetta mál, frá því að það fyrst kom fram, að afleiðingin af því hlyti m.a. að verða atvinnuleysi, og ég hef haldið því fram og mun reyna að færa sönnur á það, að þeir sérfræðingar ríkisstj., sem ráðlagt hafa henni, hafi miðað við það að skapa hér atvinnuleysi. En viðkvæðið hefur sífellt verið úr stjórnarherbúðunum: Atvinnuleysi munum við ekki þola, — þetta er þvert á móti til þess að tryggja atvinnuna í landinu. — Þess vegna álít ég, þegar atvinnuleysið nú er komið og það þýðir ekkert fyrir neinn mann að ætla að berja höfðinu við steininn og neita því, að svo framarlega sem hæstv. ríkisstj. og þeir þm., sem hana styðja, fást ekki til þess að ræða þessi mál nú, þá sé það vegna þess, að þegar atvinnuleysið loksins er komið, þá líta þeir þannig á, að þetta sé alveg óhjákvæmilegt, trúa því, sem þeirra sérfræðingar koma til með að segja nú um, að þetta hafi orðið að fylgjast að, þetta sé eðlileg afleiðing af efnahagsráðstöfununum. Við vitum ósköp vel, að í því landi, sem þessar efnahagsráðstafanir eru upp sprottnar í, í Bandaríkjunum, þar er atvinnuleysi. Við vitum ósköp vel, að afleiðingin af þeirri stefnu, sem hér var verið að innleiða með viðreisninni, er atvinnuleysi. Og við vitum, að þeir sérfræðingar, sem ríkisstj. hefur, þeir vita þetta og þeir koma beinlínis með sínar tillögur út frá því, að þetta atvinnuleysi hljóti að koma, enda er viðkvæðið orðið svo nú, að atvinnurekendur sumir hér í Reykjavík og það jafnvel í íslenzkum iðnaði, sem hafa byggt sína velgengni á því undanfarið að geta selt sínar vörur hér, þeir eru farnir að segja núna, ekki bara leynt, heldur ljóst: Hæfilegt atvinnuleysi er alveg nauðsynlegt. — M.ö.o.: hungrið og skorturinn þarf að vera nauðsynlegur fylgifiskur til þess að viðhalda því kerfi, sem hér á að koma á. Þetta er bezt að horfast í augu við.

Verkföll höfum við haft á undanförnum áratugum, en við höfum ekki haft þau átök, sem atvinnuleysi skapar. Þau átök eru harðvítugri en nokkur verkföll. Það vita þeir, sem reynt hafa atvinnuleysi hér í Reykjavík. Það vita þeir, sem muna enn þá eftir kreppuárunum, þeir, sem muna enn þá eftir 9. nóv. 1932. Og þegar nú er verið að skipuleggja kreppu hér á Íslandi, heimatilbúna kreppu, sem engin ástæða var til að innleiða hér, þá verða þeir menn, sem koma til með að bera ábyrgðina á þessu, að horfast í augu við afleiðingarnar af sínum gerðum. Þessi ameríska sýki, þetta atvinnuleysi, sem hér er verið að koma á núna samkvæmt ráðum amerísklærðra sérfræðinga með efnahagsráðstöfunum, sem eru runnar undan rótum Alþjóðabankans, þetta kerfi, sem hér er farið núna að sýna sínar afleiðingar, það mun upp skera eins og með því hefur verið sáð. Þess vegna er nauðsynlegt, áður en lengra er komið og ástandið orðið alvarlegra, ef menn vilja ekki beinlínis horfa upp á það, að þetta atvinnuleysi komist hér á í allri sinni ógn, að gera ráðstafanir nú þegar til þess að stöðva það.

Það er ekki lengra síðan en ég held eitthvað hálfur mánuður, að ég sagði það hér í þessum stól, að atvinnuleysi væri byrjað á Íslandi, og einn hv. þm. hér, einn elzti þm. þingsins, stóð hér upp og spurði, hvernig mér dytti í hug að tala um atvinnuleysi, hvers konar órar þetta væru í kollinum á mér. Ég bauð honum með mér í ferðalag út um land. Ég bauð honum að fara með til Ísafjarðar og ganga þar að hraðfrystihúsunum, þar sem slagbrandur er fyrir. Ég bauð honum að koma með til Akureyrar, ef hann vildi telja á ráðningarskrifstofunni atvinnuleysingjana, sem höfðu skráð sig þar. Og ég upplýsti hann um það um leið, að einmitt þennan sama dag hefðu skráð sig þrír trésmiðir atvinnulausir hjá félagi trésmiða hér í Reykjavík, þannig að líka hér væri atvinnuleysi að byrja. Hann þagnaði, hefur ekkert sagt síðan. Ég veit ekki, hvort hæstv. ríkisstj. og hennar stjórnarliðar muni hafa sama hátt á nú, en ég vil vara menn við því, að ef menn vilja ekki horfast í sugu við staðreyndirnar, þá verða staðreyndirnar því óþægilegri að horfast í augu við menn á eftir.

Það er rétt að taka það fram um leið í sambandi við þessi mál, að ég er ekki alveg viss í, að hæstv. ríkisstj. sjálf og þeir menn, sem henni fylgja, geri sér alveg grein fyrir afleiðingunum af þeirri stefnu, sem hennar sérfræðingar mæla með, vegna þess að ég efast um, að þessir sérfræðingar segi allan sinn hug við ríkisstj. Ég hef haft kynni af þessum sérfræðingum áður, líka í annarri ríkisstj., og veit nokkurn veginn, hvernig þeir eru. Ég skal t.d. taka það fram, eins og öllum hlýtur að vera ljóst, að afleiðingin af þessari stefnu, sem hér hefur verið tekin upp, eins og nú er að byrja að koma í ljós, er eyðing landsbyggðarinnar.

Svo framarlega sem kapítalisminn fær að leika lausum hala á Íslandi óheftur, þýðir það að eyða smátt og smátt landsbyggðinni og færa það, sem eftir er af byggð á Íslandi, hingað til Reykjavíkur og hér í kring. En það þýðir annað meira. Ef haldið er áfram með þessa stefnu, sem virðist stefnt að, þá verður Ísland innlimað í Vestur-Evrópu og Bandaríkin, efnahagslega séð, sem einn lítill hreppur, sem eitt lítið svæði í stóru efnahagskerfi. Hvað þýðir það? Það þýðir landflótta. Það þýðir, að menn fara burt af Íslandi, fleiri og fleiri, til þess að sækja atvinnu annars staðar. Atvinnulífið á Íslandi þrífst því aðeins bezt, að Íslendingar stjórni því sjálfir og einir. Tilhögun atvinnulífsins á Íslandi verður að vera með þeim hætti, að það sé miðað við hagsmuni Íslendinga og Íslendinga einna. Eigi að gera Ísland einn lítinn part úr stóru efnahagskerfi, þá þýðir það að eyða stóran hluta landsbyggðarinnar. Sá landflótti er þegar byrjaður, sem viðreisnarstefnan, þessi innlimunarstefna, leiðir af sér, byrjar á sérfræðingunum, eins og eðlilegt er, þeim mönnum, sem menntaðastir eru, við skulum segja verkfræðingunum. Ég held jafnvel, að annað stjórnarblaðið hafi verið að hæla sér af því sem sérstökum árangri af viðreisnarstefnunni með stóru letri, að 20 verkfræðingar hefðu nýlega flúið land, sem eins konar pólitískir flóttamenn, flúið sælu viðreisnarinnar til Svíþjóðar. Er það þetta, sem á að halda áfram? Og er þó ekki atvinnuleysi orðið hjá verkfræðingastéttinni enn. Bara launakúgun. Það er þess vegna engum efa bundið, að það, sem gerzt hefur nú þegar, og það, sem blasir við, er ekki aðeins yfirvofandi stöðvun og hrun í atvinnuvegum landsins, heldur líka vaxandi kreppa og fátækt og rýr lífskjör hjá almenningi.

Og nú vildi ég leggja fyrir hæstv. ríkisstj. eina fyrirspurn, sem mig satt að segja langar mjög mikið til að hún svari. Hún er þessi: Ef hér verður kreppa og atvinnuleysi, hefur þá viðreisnarstefna ríkisstj. heppnazt eða hefur hún misheppnazt, að áliti ríkisstj.? Þetta er það, sem mig langar til að vita, því að það er svo erfitt að dæma þessa stefnu öðruvísi en hafa nokkra hugmynd um, hvað frumkvöðlar hennar hafa ætlazt til með henni. Ég skal segja um leið mitt álit. Ég álít, að það sé vísvitandi stefna þeirra manna, sem ríkisstj. hefur sótt ráð sitt til, að afleiðing stefnunnar eigi að verða mátuleg kreppa og atvinnuleysi á Íslandi. Hvort þeir ráða við að halda kreppunni mátulegri„ það skal ég hins vegar ekkert fullyrða um. Reikningarnir fram að þessu gefa ekki svo góða reynslu, að það geti ekki komið fyrir, að kreppan sé komin undan yfirráðum ríkisstj., áður en hún viti af. Ég held, að frumkvöðlar þessarar stefnu hafi ætlazt til þess, að hér á Íslandi yrði kreppa, hér yrði hrun, hér yrði rýrnun lífskjara. Ég held þeir hafi ætlazt til þess, að launþegar á Íslandi byggju við verri laun en áður. Ég held þeir hafi ætlazt til þess, að millistéttin á Íslandi yrði efnahagslega séð skorin niður. Ég held þeir hafi ætlazt til þess, að sjávarútvegurinn gengi úr sér sem aðalatvinnuvegur Íslendinga. En ég er nú svo barnalegur, að ég hef ætlað meginhluta ríkisstj. og hennar stjórnarliði, að þeir hafi ekki haldið, að þetta mundi verða afleiðingin af stefnunni. Ég held og mun halda áfram að trúa því, þangað til ég sé annað. Ég held, að þorrinn af bæði hæstv. ráðh. og hv. þm. stjórnarflokkanna hafi haldið, að þessi stefna væri eitthvað, sem væri bráðnauðsynlegt að taka upp, og ég undra mig ekkert á því. Það er svo barnaleg trú hjá mönnum hér í þessum þingsölum á ráð þessara svokölluðu sérfræðinga, svo hlægilega barnaleg trú. Ég heyri t.d. vitnað í hér hvað eftir annað, hvað fyrrverandi forsrh., sem fór frá fyrir tveimur árum, Hermann Jónasson, hafi sagt, þegar hann sleit vinstri stjórninni. Og menn spyrja: Hvernig í ósköpunum stendur á því, ef ástandið var ekki verra í des. 1958 en menn nú eru sammála um að það hafi verið, að maðurinn skyldi segja svona nokkuð? En það liggur í augum uppi, af hverju hann sagði það, sem hann sagði. Hann trúði þeim sérfræðingum, sem hæstv. ríkisstjórn hefur stuðzt við, þeim sérfræðingum, sem útmála fyrir hverri einustu ríkisstj. á Íslandi, að það sé alltaf allt að fara til andskotans, ef fólkinu líður sæmilega. Þeir sjá hyldýpi fram undan, þótt það sé rennislétt gata. Og það má mikið vera, ef sá sérfræðingur, sem drap vinstri stjórnina, á ekki eftir að drepa þessa líka með sínum ráðum. Ef menn halda áfram að trúa þessum sérfræðingum svona í vitleysu og hlusta aldrei á nein rök né sjá neinar staðreyndir, sem stangast á við allar þeirra kenningar, þá munu þeir halda áfram að drepa hverja ríkisstjórnina á fætur annarri á Íslandi, þangað til ríkisstjórnirnar á Íslandi drepa þá af sér. (Gripið fram í:. Hver var talinn hafa drepið ríkisstj.?) Þessi sérfræðingur, mér er það alveg ljóst.

Ég átti einu sinni dálítið saman við Sjálfstfl. að sælda, einmitt það sumar. Það er í raun og veru mjög skemmtilegt, og ég ætla að segja frá því, fyrst hæstv. forsrh. kemur nú með fyrirspurn. Sjálfstfl. studdi ákveðnar launakröfur, sem almenningur var með þá, og virtist ekki sjá nein vandkvæði á, að ríkisstj. og þjóðarbú gæti vel orðið við þeim launakröfum, og ég var sömu skoðunar. Ég áleit, að þjóðarbúið gæti vel borgað launakröfur, og mér þótti mjög vænt um, að Sjálfstfl. var þessarar sömu skoðunar, og ég vona, að það hafi ekki verið nein hræsni hjá Sjálfstfl. Ég vona, að hann hafi ekki verið að stuðla neitt að því að setja þjóðarbúið á höfuðið, og ég vona, að þeir menn úr Alþfl., sem stóðu þá með því, að launahækkanir væru mjög nauðsynlegar, hafi verið þeirrar skoðunar, að þjóðarbúið bæri þetta vel. En ég býst við, að þeir hafi gert sér ljóst alveg eins og ég, að það þurfti að gera ákveðnar breytingar á þjóðarbúinu, til þess að það stæði undir þessu. Þær breytingar var auðvelt að gera og er auðvelt að gera, og vegna þess, hve suðvelt er að gera þær, þá flyt ég einmitt á þskj. 221 tillögur um að hækka nú launin, þau komast samt ekki upp í það, sem þau voru 1958, og ég vona, að Sjálfstfl. og Alþfl, bregðist nú jafnvel við þeim launahækkunum, sem þar er farið fram á, eins og þeir brugðust við sumarið 1958, því að það er enn þá miklu auðveldara að hækka þetta en þá var. Og ég get nú þegar með tveggja ára reynslu síðan lagt fyrir þessa hv. flokka ráðin til þess að standa undir þessum launahækkunum og meira að segja legg fram svo og svo mikið af þeim ráðum nú þegar í þeim brtt., sem ég legg hér fyrir, eins og ég mun koma að síðar. Ég held þess vegna, að ef hæstv. forsrh. álítur, að ég hafi drepið vinstri stjórnina, sem ekki var, — ég gerði allt til þess að bjarga henni með því að reyna að koma vitinu fyrir hana, en mér tókst það ekki, af því að hún hafði svo slæman efnahagssérfræðing, — ég held þess vegna, ef hæstv. forsrh. nú getur eitthvað lært af reynslunni í þessu, af því að hann hefur sama efnahagssérfræðinginn, þá sjái hann að sér í tíma, taki tillit til minna ráðlegginga, sem felast hér á þskj. 221, og sjái nú um, að hans lið samþykki þær tillögur hér í kvöld við meðferð þessa máls.

M.ö.o.: það liggur nú í augum uppi, að það ástand, sem viðreisnin hefur skapað hér á Íslandi, er gersamlega óviðunandi og verður ekki þolað. Hvað er það þá, sem við verðum að gera til þess að afstýra þeirri kreppu, sem er að byrja, til þess að vega upp á móti þeirri lífskjararýrnun, sem þegar er orðin, til þess að stöðva það hrun, sem er að verða í okkar atvinnuvegum, og til þess að gera Ísland aftur byggilegra, þannig að fólkið flýi það ekki, heldur geti búið hér og búið við betri kjör jafnvel en í löndunum í kring, eins og okkur hefur tekizt að gera á undanförnum árum? Til þess að svo megi verða, er alger stefnubreyting nauðsynleg. Það er nauðsynlegt, að frá þeirri stefnu, sem tekin var upp í febrúar þessa árs, sé algerlega horfið og þeim dýru tilraunum, sem gerðar hafa verið þetta sumar og haust, verði ekki haldið áfram.

Þegar þessi nýja svokallaða viðreisnarstefna var tekin upp, var því haldið fram af mörgum af hennar formælendum, að með henni væri verið að gera allt frjálst í landinu. Það var blessað frelsið, sem menn áttu að fá að njóta aftur, og jafnvel hæstv. forsrh. hugsaði til sinna gömlu, góðu daga, þegar hann var ungur og allt var frjálst, og menn héldu, að það væri nú eitthvað slíkt, sem ætti að innleiða. Það er rétt að taka fram um leið, til þess að það valdi ekki neinum misskilningi, að það þjóðskipulag, sem við höfum átt við að búa á undanförnum árum oft og kvartað hefur verið um að væri mjög heft á ýmsan hátt, höftin væru þar hér og hvar, það hefur verið nokkuð, sem við jafnvel gætum kallað haftaauðvaldsskipulag, ef við vildum líta þannig á það, og það hefur verið auðvaldsskipulag, þar sem svo að segja allir flokkar þings í mismunandi samsteypum á síðustu 18 árum hafa tekið höndum saman um að koma í veg fyrir ýmsa verstu galla auðvaldsskipulagsins, hefta þá á ýmsan hátt. Og það, sem átti að innleiða í febrúar í vetur, var svo að segja eftir boðskap formælendanna hið óhefta auðvaldsskipulag. Að vísu hefur það ekki orðið svo. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki aldeilis sleppt öllum höftum af atvinnulífinu. Hæstv. ríkisstj. hefur í gegnum ríkisbankana gert einhverjar harðvítugustu haftaráðstafanir, sem nokkurn tíma hafa verið gerðar gagnvart íslenzku atvinnulífi, með lánsfjárbanninu og vaxtaokrinu, þannig að því fer ákaflega fjarri, að atvinnulifið hafi á nokkurn hátt fengið að þróast frjálst. Það hefur ekkert frelsi verið á Íslandi víðvíkjandi lánum, hvorki innanlands né utan. Alveg sama er um verzlunina, þó að mikið væri. talað um verzlunarfrelsið. Hins vegar hefur verzluninni,. með áhrifum ríkisstj, fyrst og fremst á útflutningsverzlunina, allri saman verið beint í ákveðna átt, verið stefnt að því að eyðileggja ákveðna markaði, en reyna að vinna upp aðra, sem svo hefur ekki tekizt. M.ö.o.: þetta hefur verið sambland af almennu skipulagsleysi, almennum glundroða og hins vegar neikvæðum afskiptum ríkisvaldsins til stórtjóns fyrir atvinnulífið.

Það, sem er nauðsynlegt í fyrsta lagi að gerist, er, að horfið sé algerlega frá þessari stefnu, bæði frá glundroðanum í atvinnulífinu og frá neikvæðum afskiptum ríkisstj. af atvinnulífinu og tekin upp aftur sú stefna og þá betri en nokkru sinni fyrr, að ríkisvaldið hafi jákvæð afskipti af atvinnulífinu, til þess að efla það, til þess að þróa það, til þess að skapa öruggan grundvöll fyrir íslenzkt atvinnulíf. Það er aðeins hægt með því að taka hér upp áætlunarbúskap, taka hér upp heildarstjórn, fyrst og fremst á fjárfestingunni. Um það hef ég lagt fyrir frv., sem ég ætla ekki að fara að ræða hér, frv., sem liggur enn þá hjá fjhn., og í því frv. felst og hlýtur alltaf að felast fyrsta og höfuðviðleitnin í því að komast hjá þeim glundroða, sem við nú búum við. Ég gerði grein fyrir í því frv., að með þeim aðferðum, sem þar væri lagt til að beita, væri hægt að tryggja árlega a.m.k. 4–8% raunverulega lífskjarabót almennings án verðbólgu. Ég vil undirstrika þetta sérstaklega, vegna þess að reynslan, sem við höfum af öllu atvinnulífi alls staðar hér í kringum okkur, jafnt því kapítalíska sem því sósíalistíska, er, að svona skipulagningar sé þörf. Þegar sérfræðingar ríkisstj. segja henni, að hér skuli menn bara gefa allt frjálst og þá skuli lögmál kapítalismans sjá um hlutina, sjá um þróunina, þá er þetta rangt. Tökum Ameríku. Þar er ekki aðeins, að ríkisvaldið skipti sér af atvinnurekstrinum. Þar er ekki aðeins, að ríkisvaldið kaupi upp alla offramleiðslu landbúnaðarins og selji hana m.a. hingað undir PL-fyrirkomulaginu. Sjálfir atvinnurekendurnir skipuleggja framleiðsluna. Helmingurinn af öllu atvinnulífi Ameríku er undir stjórn fjögurra stórra auðfélaga, auðhringasamsteypu. Það er, ef ég mætti nota það orð yfir slíkt, harðvítugur áætlunarbúskapur, það er harðvitugt skipulag hjá þessum auðhringum, það er skipulag í ákaflega stórum stíl, þar sem gerðar eru áætlanir fyrir fram um hlutina. Kapítalisminn hefur bjargað sér út úr glundroða þeirrar gömlu, frjálsu samkeppni, sem efnahagssérfræðingar ríkisstj. enn þá eru raunverulega að boða henni, með því að skipuleggja auðhringana, alveg eins og við á áratugnum 1920—1930 vorum að reyna að bjarga okkur út úr glundroða gömlu frjálsu samkeppninnar með skipulagningu hringanna þá, t.d. fiskhringsins. Og það var engin tilviljun, að þegar kreppan þá dundi yfir, þá var það einmitt núv. hæstv. forsrh., í fyrsta skipti sem hann er ráðherra á Íslandi, sem verður að grípa til þess að bjarga undan kreppunni, bjarga undan fjárskortinum, sem vofði yfir íslenzka þjóðarbúskapnum, yfir Landsbankanum og yfir stærstu og voldugustu auðfyrirtækjunum á Íslandi, með því að taka ríkiseinokum á sig. Það hefur aldrei verið neitt annað ráð við öllum glundroða og öllu skipulagsleysi frjálsrar samkeppni, skipulagsleysi kapítalismans,. heldur en annaðhvort að koma á harðvítugum, sterkum auðhringum, sem jafnvel tækju ríkisvaldið í sína þjónustu, eða þá að koma á sósíalisma, með hvaða móti sem það væri gert, jafnvel með því að byrja áætlunarbúskap í kapítalísku skipulagi. Þess vegna er svo hörmulegt að horfa upp á, að reynsla, sem við erum búin að ganga í gegnum fyrir 30 árum og; við, sem eldri erum orðnir, þekkjum og vitum, að er sár reynsla, að yngri kynslóðin eigi nú að fara sjálf að ganga í gegnum þetta aftur og þegar hún ekki þurfi að lenda í neinni kreppu, þá sé kreppan skipulögð yfir hana af sérfræðingum, sem glápa á Ameríku og sjá ekki nokkurn skapaðan hlut og þekkja engar staðreyndir hér heima.

Það að taka upp áætlunarbúskap hér er fyrsta skilyrðið til þess að gerbreyta um, leggja grundvöll ,að bættum lífskjörum hér heima, leggja grundvöll að því, að allir verkfræðingar líka hafi nóg að gera hér á Íslandi. Ég vil vekja athygli manna á því, hvernig gengur núna ár eftir ár, t.d. á sviði rafmagnsframleiðslunnar, vegna þess að menn skeyta ekkert um þetta, að það er alltaf ráðizt 2–3 árum of seint og þá í allt of smáar rafvirkjanir, af því að menn fást aldrei til þess í tíma og hafa ekki fengizt til þess í 15 ár, sem ég hef lagt til hér í þessum þingsölum, að taka það fyrir eins og menn, sem hefðu vit á efnahagsmálum, að gera ráðstafanir í senn um þá iðju, sem þeir ætla að koma upp á Íslandi, og þau raforkuver, sem þeir ætla að byggja. Það er hart að þurfa að standa hér áratug eftir áratug við að reyna að koma mönnum í skilning um þetta og sjá svo hver mistökin eftir önnur.

Ég skal láta útrætt um þennan þátt viðvíkjandi áætlunarbúskapnum.

En í öðru lagi er það, sem verður að gera til þess að stöðva þá kreppu, sem hér er verið að skipuleggja yfir okkur, að taka utanríkisverzlunina undir yfirstjórn ríkisins, hætta allri þessari vitleysu um svokallaða frjálsa verzlun. Við sjáum, hvernig er að fara fyrir okkur á þessu sviði nú þegar. Við sjáum, hvernig ísfisktúrunum út fjölgar. M.a. vegna vaxtaokursins eru togararnir reknir út. Við sjáum, hvernig við erum að sökkva meir og meir niður á stig hráefnanýlendunnar, hvernig við flytjum meira og meira af vörum út óunnið í staðinn fyrir áð gera stórkostlegar ráðstafanir til þess að vinna úr þeim, fullvinna þær hér heima. Það er kvartað yfir, að síldin hafi brugðizt okkur í ár. Þær 100 þús. tunnur og meira en það, sem við söltuðum af síld, gátu gefið okkur tífalt meira verðmæti en þær gefa, svo framarlega sem við legðum þessa síld niður í stað þess að flytja hana út eins og við gerum. Og við erum að missa þá markaði, sem við höfum verið að vinna á undanförnum árum, af því að við gerum þetta ekki í tíma. En til þess að gera þessa hluti þurfum við að leggjast á eitt, þurfum að skipuleggja þetta, þurfum að beita bönkunum, þurfum að beita okkar valdi í utanríkissamningum og öðru slíku. Við getum ekki unnið þessa hluti öðruvísi en að þjóðarheildin leggist á eitt um að skipuleggja þetta með viti og forsjá. Það er verið að lýsa því nú fyrir okkur sem einhverjum árangri af stjórnarstefnunni, að verzlunarjöfnuðurinn skuli vera eitthvað skárri, það sé flutt minna inn til landsins. Er það árangur? Jafnvel höfuðblað stjórnarinnar er stolt af þessu. Er einhver vandi að skapa slíkt ástand í einu landi, skapa verzlunarjöfnuð með því, að innflutningurinn minnki? Er það einhver vandi, og er það einhver lausn á málum að gera fólkið í landinu þeim mun fátækara, að það neyðist til að neita sér um ýmsar nauðsynjar? Það ástand, að útflutningur sé meiri en innflutningur, getið þið fengið í hvaða nýlendu sem þið viljið, löndum, sem eru arðrænd af svokölluðum móðurlöndum, flytja út þaðan dýrmæt hráefni, vinna úr þeim hjá sér, selja rándýrt til baka, og fólkið í nýlendunni hefur litla peninga og getur lítið keypt. Það er enginn vandi að leysa efnahagsmál Íslands á þeim grundvelli að gera fólkið svo fátækt, að það geti ekki keypt inn. Það hefur aldrei verið. Það hefur hins vegar öðru hverju á undanförnum áratugum verið leitazt við að leysa vandamál Íslands á þeim grundvelli, að við ykjum okkar útflutning og gerðum okkar fólki mögulegt að flytja meira inn, njóta meira af þeim gæðum, sem lífið býður, veita sér meira. Okkur hefur orðið nokkuð ágengt í þessu, m.a. af því, að við höfum ekki hlustað á ráð eins og það, að verzlunarjöfnuðinn eigi að laga með því að gera fólkið fátækt, vegna þess að við höfum verið að leitast við að fara þá leið að gera almenning á Íslandi ríkan, auka útflutninginn, kaupa skip, kaupa verksmiðjur, gera vöruna dýrmætari, sem við flytjum úr landi, og jafnvel fá meira verð fyrir hana. Til þess að við getum gert slíkt, þurfum við að hafa utanríkisverzlunina þannig, að þó að hún væri ekki í höndum ríkisins, þá væri hún undir eftirliti þess, þá væri hún undir óbeinni yfirstjórn þess.

M.ö.o.: við þurfum að komast burt úr því ástandi, sem nú er verið að skapa, að verzlunarjöfnuðurinn verði skapaður með því að gera fólkið fátækt. Danskir einokunarkaupmenn léku sér að því um margar aldir að hafa verzlunarjöfnuðinn á Íslandi ákaflega hagstæðan. Þeir fluttu meira út héðan en hingað var flutt inn. Það er enginn vandi að feta í þeirra fótspor, gera Íslendinga nógu fátæka, svo að þeir geti ekki keypt hlutina. Hitt er vandi og hitt er pólitík, sem íslenzka þjóðin hefur verið að glíma við í 100 ár með allgóðum árangri, að reyna að skapa, að auka og bæta sín lífskjör þannig, að hún geti veitt sér meira, reist sig úr kútnum, sem verzlunarjöfnuður einokunarinnar setti hana í á sínum tíma.

Þess vegna er okkur næst á eftir heildarstjórn á þjóðarbúskapnum nauðsynlegt að hafa yfirstjórn ríkisins á utanríkisverzluninni.

Þannig gæti ég rakið nokkuð áfram það, sem við þurfum að gera til þess að breyta alveg um í þessum efnum. En ég ætla ekki að fara lengra út í það í svipinn. Ég geri þetta aðeins vegna þess, að það er svo oft verið að tala um það af hálfu ríkisstj. eða þeirra, sem henni fylgja, að þá vanti að vita, hvað það er, sem við viljum gera í þessum efnum. Ég vil aðeins benda á þetta tvennt í því sambandi og er reiðubúinn að ræða það nánar við stjórnarflokkana, svo framarlega sem þeir vilja taka upp rökræður um þessi mál. Það, sem ég hins vegar flyt af brtt. á þskj. 221, er aðeins örlítið af því, sem við álítum að þurfi að gera, aðeins gripið út úr þeirri heildarstefnu, sem við álítum að þurfi að fylgja, og ég skal nú gera grein fyrir þeim brtt.

Það er þá fyrst till., sem er nr. 1 á því þskj., um að breyta 23. gr. l. eins og þar stendur. Með 23. gr. l. var bannað að reikna eftir vísitölu í samningum atvinnurekenda og verkalýðs. Vísitölufyrirkomulagið, sem staðið hafði í 18 ár, var afnumið með lögum. Samningum verkamanna og atvinnurekenda var rift. Sama ríkisstj. sem annars álítur, að samningar séu helgir á öllum mögulegum sviðum, ef það snertir veð eða eign eða annað slíkt, áleit, að ákvæðin, sem fátæk alþýða hafði sett til þess að tryggja sig gegn dýrtíð, væru svo lítt heilög, að þeim mætti rifta. Ég veit ekki, út frá hverju hæstv. ríkisstj. og hennar flokkar hafa gengið, þegar þeir settu þessi ákvæði, hvort þeir hafa e.t.v. gengið út frá því, að þessu mundi verða rift rétt á eftir með stórfelldum verkföllum af hálfu verkalýðsins í landinu, sem mundi ekki sætta sig við það. Ég veit ekki, hvort þeir hafa hugsað sér, að launþegarnir í landinu mundu bíða eins lengi og þeir raunverulega hafa nú þegar beðið með að láta það koma á daginn, svo að ekki verði mótmælt, hvað í viðreisninni bjó, hverjar afleiðingar viðreisnarstefnan hlaut að hafa. Hvað er nú komið á daginn viðvíkjandi þróun launakjaranna? Ég vil í því sambandi taka fram, að það þýðir ekkert að vera með neinn feluleik í sambandi við vísitöluna, eins og tekið var upp af hálfu hæstv. ríkisstj. nú 1. okt., að fara að breyta sjálfri vísitölunni og hennar útreikningi frá því, sem áður var. Slíkt gefur náttúrlega ekki neina mynd af hlutunum.

Það, sem gefur mynd af þróuninni, sem orðið hefur á kaupmætti tímakaupsins, er að miða við það, sem kallað er í vísitölunni frá 1. okt. 1960 vísitala fyrir vöru og þjónustu. Ég lét reikna út í fyrra í fyrsta skipti vísitöluna allt frá 1945. Torfi Ásgeirsson hagfræðingur gerði það. Og ég man eftir, að málgagn Alþfl., annars stjórnarflokksins, varð alveg sérstaklega hrifið af þessum útreikningi, og ritstjóri blaðsins birti þennan útreikning, sem fylgdi með frv. mínu um áætlunarráð, undir stórum fyrirsögnum, sem Alþýðublaðið heldur mjög mikið upp á, til þess að sýna fram á, hve vel alþýðunni venjulega vegnaði, þegar Alþfl. væri við stjórn. Það var sem sé á árinu 1959, þá var meðaltalið, sem kom út um kaupgetu tímakaupsins, 99.8, vegna þess að kauphækkanirnar, sem orðið höfðu 1958 um haustið, ollu því, að í janúar 1959 var þessi vísitala hvorki meira né minna en 109 stig eða með því hæsta, sem hún hefur komizt. Hún hafði þó lækkað alla mánuði ársins annars, en þetta varð nóg til þess að gefa nær eitt stig á hverjum mánuði til uppfyllingar. Hvernig hefur svo gengið, síðan núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum og þessi vísitala í febrúar 1960 var 99 stig? Þá hefur þróunin orðið þessi, með leyfi hæstv. forseta: Þessi vísitala er í marz 98, í apríl 93, í maí 92, í júní 89, í júlí 88, í ágúst 88, í september 88 — eða ef við tökum það nákvæmlega 87.5, í október 86 — ef við tökum það nákvæmlega 86,2, í nóvember 86 — ef við tökum það nákvæmlega 85,54, hækkað upp alltaf, ef það er yfir helming, og nú í desember er hún 85 — ef við tökum það nákvæmlega 85.1. M.ö.o.: þessi vísitala, sem Alþfl. er svo hrifinn af sem mælikvarða á kaupmátt tímakaupsins, er nú komin niður í 85.1. Þessi vísitala hefur á undanförnum 18 árum aðeins 2 ár verið lægri. Það eru árin 1951, þá er hún 84.7, og árið 1952, þá er hún 84.9. Nú er hún 85.1, það munar 0.2 og 0.4, að hún sé komin niður í það lægsta, sem hún hefur verið á síðustu 18 árum á Íslandi.

Þetta er þróun kaupmáttar tímakaupsins. Þetta eru staðreyndir, sem menn verða að horfast í augu við og menn verða að taka jafnvel, hvort sem þessar tölur koma tiltölulega vel út fyrir árið 1959 eða þær koma mjög illa út fyrir árið 1960. Árin 1951 og 1952 var atvinnuleysi hér í Reykjavík. Árin 1950-52 minnkaði meira að segja mjólkurneyzlan í Reykjavík svo mikið á þremur árum, að hún hefur aldrei verið lægri og komst aldrei upp í það, sem hún hafði verið í marz 1950, í 3 ár, aldrei, eftir að gengið var fellt. Þá var ástandið þannig hér í Reykjavík, að það var farið að sjá á börnum hinna fátækustu, vegna þess að þau höfðu ekki nóg að borða. Þetta er það ástand, sem er verið að byrja að skapa á ný. Og menn skulu gá að því, að það segir fljótar til sín, þegar atvinnuleysið er byrjað hér í Reykjavík og skorturinn, vegna þess að það er ekki fylgzt eins vel með því hér og er úti um land, þar sem menn þekkja meira hver annan. Þess vegna skulu menn ekkert undrast, þó að það verði harðari barátta út af þessu, þegar svona ástand fer að skapast. Nú er þetta fyrsti mánuðurinn með svona lágt. En hann segir fyrir um, hvert stefnir.

Þessi útreikningur tímakaupsins merkir sem sé aðeins kaupmáttinn. Hann segir ekkert um, hvort menn fá nokkurt tímakaup, heldur aðeins hvað menn geta keypt fyrir það, ef menn fá eitthvert kaup. Hann segir ekkert um, hvernig mönnum líður, þegar þeir fá ekki að vinna, þegar þeir verða að fara hér burt úr hafnarskýlinu kl. 9 um morguninn og hafa ekki fengið neina vinnu þann daginn. Þess vegna er nú orðið greinilegt, að þessi launalækkun er orðin þannig hvað snertir kaupmátt tímakaupsins, að hún verður ekki þoluð. Verkalýðurinn hefur borið þetta með miklu langlundargeði. Hann hefur e.t.v. hugsað svo viðvíkjandi viðreisninni, eins og segir hjá Ibsen á einum stað:

„Fyrst þarf ormurinn út úr skel

og afskræming tímans sjást svo vel,

að ranghverfan öll snúi út“.

Ég býst við, að þorrinn af verkalýðshreyfingunni hafi hugsað sem svo, að það sé máske eins rétt, að menn fái að horfast í augu við það, hvað þessi viðreisn þýðir, að það sé ekki aðeins verið að vega að launakjörum manna, það sé líka verið að vega að lífi og lífsafkomu manna með því að koma á atvinnuleysi. En þá býst ég við, að mönnum sé um leið ljóst, að sú barátta, sem verður háð á móti þessari viðreisn, þegar hún þýðir atvinnuleysi, það er barátta, sem verður ekki aðeins háð með verkföllum og kaupdeilum, heldur hlýtur það að vera pólitísk barátta, þegar það er orðið baráttan um atvinnulífið, baráttan um það að afnema atvinnuleysið. Hún verður ekki háð öðruvísi.

M.ö.o.: viðreisnin hefur sýnt sig að vera skipulögð fátækt, skipulögð rýrnun á lífskjörunum, bæði með minnkuðum kaupmætti launanna og með því að koma á atvinnuleysi. Þing A.S.Í., sem haldið var nú í síðasta mánuði, tók þessi mál fyrir. Þessi samtök launþeganna, sem telja 30 þús. meðlimi, gerðu þær kröfur í sinum ályktunum um launamál, að auk ýmissa annarra krafna var farið fram á raunverulegar launahækkanir um 15–20%, auk þess styttingu vinnuvikunnar, breytingu á föstum vikulaunum og ýmislegt annað fleira.

Það er gefið mál, að íslenzk launþegasamtök munu ekki lengi enn sætta sig við þá launalækkun, sem þegar hefur orðið, og þau samningsrof, sem lagaboð frá Alþ. hafa valdið. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hefur gert samsvarandi kröfur, kröfur um 20–25% launahækkun. Allir íslenskir launþegar munu vera sammála um, að slíkrar launahækkunar sé alveg ótvírætt þörf. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj.: Álítur hún það bezta og eðlilegasta mátann að leiðrétta þetta á, að hér komi nú verkföll, máske alllöng verkföll? Síðast þegar víð háðum verkföll raunverulega til þess að reyna að afmá afleiðingar gengislækkunarinnar 1950 með verkfallinu 1955, þá stóð það í 6 vikur. Aðeins með 3 vikna verkfalli mundi eyðileggjast meira hvað þjóðarhag snertir heldur en sem nemur þeirri kauphækkun, sem felst í þeirri till., sem ég geri. Það, sem gerir það að verkum, að ég legg nú fram þessa till., sem er nr. 1 á þskj. 221, er, að ég vil reyna að forða þjóðfélaginu frá því, að atvinnurekendur og verkamenn þurfi að standa í vinnudeilum, máske vikum og mánuðum saman, með öllum þeim afleiðingum, sem það hefur fyrir þjóðarhag, og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj., þrátt fyrir ósköp kjánalegar yfirlýsingar, sem hún hefur stundum gefið að undanförnu: Álítur hún sér það ekki að neinu leyti neitt viðkomandi, hvernig fer um atvinnulífið í landinu?

Er ríkisstj. alveg nákvæmlega sama, þó að atvinnulífið stöðvist vikum saman? Álítur hún, að það sé eingöngu einkamál atvinnurekenda og verkamanna, og ef hún álítur það eingöngu þeirra einkamál, hvernig stendur þá á því, að hún grípur inn í í hvert einasta skipti, sem atvinnurekendur og verkamenn eru að semja um slík laun, og gefur jafnvel út brbl. til þess að binda endi á slíka samninga? Ég vil þess vegna gera tilraun til þess með þessari brtt. að gera, ef verða mætti, slík verkföll miklu styttri eða kannske jafnvel óþörf, ef það gæti orðið til þess, að atvinnurekendur og verkamenn semdu, án þess að til verkfalla eða verkbanna kæmi.

Í brtt. minni felst, að í fyrsta lagi er með umorðuninni á lagagreininni verkfallsbannið sjálft afnumið, og enn fremur er atvinnurekendum gert að skyldu að greiða kaupgjald til verkafólks, miðað við vísitölu, vöru og þjónustu, samkv. þeim grundvellí, sem kauplagsnefnd hóf að reikna hana 1. okt. 1960. Hvað mundi það þýða í praksís, ef þetta væri samþykkt nú? Ég býst við, að þessi vísitala fyrir vörur og þjónustu sé nú í desember 17%. Þetta mundi raunverulega þýða, að atvinnurekendur ættu að greiða uppbót, sem væri 17%. Nú er mér kunnugt um þann mikla áhuga ríkisstj. að hindra verðbólgu og man eftir hennar fögru yfirlýsingum um það, að kauphækkanir megi ekki fara út í verðlagið. Þess vegna hef ég sett inn í þessa lagagrein ákvæði um, að ekki mættu atvinnurekendur bæta þeim greiðslum, sem ég þarna legg til, við þá álagningu, sem þeim nú er leyfileg. M.ö.o.: af mikilli virðingu fyrir hæstv. ríkisstj. hef ég tekið höfuðstefnu hennar upp í þessa ályktun, sem sé þá, að verðbólga skuli ekki verða og víxláhrif kaupgjalds og verðlags skuli ekki verða, heldur skuli atvinnurekendur bera þetta. Og nú finnst mér sanngirni, að atvinnurekendur geri það. Sjálfstfl, segist vera flokkur allra stétta. Hann hefur sagt við verkamenn á undanförnum mánuðum: Þið verðið nú að fórna. Og verkamenn hafa fórnað. Og nú er þessi fórn komin upp í það, að nú í desembermánuði samsvarar það því, að verkamaðurinn, launþeginn, starfsmaður ríkisins eða hver sem er þyrfti að fá 17% uppbót á sín laun í desember til þess að hafa svipað og hann hafði í júní síðasta árs. Og nú segi ég með þessari brtt. við atvinnurekendur: Hæstv. ríkisstj., — sem mundi þá hafa léð samþykki sitt við þessu, ef brtt. yrði samþykkt, — hún ætlast til þess, að nú fáið þið að bera ykkar hluta af fórnunum, þó að það verði kannske ekki nema einn mánuð, sem verkalýðurinn hefur borið og starfsmenn ríkisins undanfarið. Nú ætlast hún til þess, að það sé komið að ykkur að fórna, og nú borgið þið þessi 17% og látið það ekki fara út í verðlagið. Í desember var það verkamaðurinn og starfsmaðurinn, sem fórnuðu þessum 17%.

Nú er ég að vísu ekki svona slæmur við alla atvinnurekendurna a.m.k., að ég ætli að láta þá borga þetta alveg bótalaust. Í þeim till., sem ég mun gera grein fyrir á eftir, legg ég meira að segja til að gera a.m.k. fjölmörgum af þeim ekki aðeins kleift að bera þetta skaðabótalaust, heldur jafnvel hafa nokkuð upp úr því um leið.

Ef þessi till. mín væri samþ., þessi 1. gr., þá býst ég satt að segja við, að atvinnurekendurnir mundu koma og fara fram á það við ríkisstj., að það yrði ýmislegt lagað í þjóðarbúinu. Ég býst við því, að þeir færu fram á það jafnvel við hæstv. fjmrh., að það yrði sparað eitthvað meira í sambandi við ríkisreksturinn. Ég býst við, að þeir færu fram á það við bankana, að það yrðu lækkaðir vextirnir og gerðar ýmiss konar aðrar ráðstafanir til þess að létta undir með atvinnurekstrinum. Og ég býst við, að atvinnurekendurnir, sem hafa ekki verið sérstaklega óðfúsir í samninga viðverkalýðsfélögin undanfarið, færu, eftir að þetta hefði verið samþykkt, undireins að semja við verkalýðsfélögin. Og það væri ósköp heilnæmt fyrir þá einu sinni að semja einmitt nú í janúar með þessa grein, ef hún væri samþ., í bakhöndinni. Ég býst við, að samningarnir gengju tiltölulega vel. Ég held þess vegna, að það væri heillaráð, ekki aðeins frá réttlætisins sjónarmiði gagnvart verkalýðnum og frá sjónarmiði þjóðarhags, hvað snertir það að tryggja áframhaldandi fulla vinnu og engar vinnustöðvanir, heldur líka væri það heilnæmt fyrir atvinnurekendur að semja undir slíkum kringumstæðum. Þess vegna álít ég, að hæstv. ríkisstj. ætti að láta samþykkja þessa till. og sjá til, hvort það hefði ekki heilbrigð áhrif á atvinnurekendurna í landinu, sem mér satt að segja er ekki grunlaust um að hafi sumir hverjir, a.m.k. þeir stærstu þeirra, færzt nokkuð í aukana, hafi jafnvel hugsað sér gott til glóðarinnar að reyna að skara eld að sinni gróðaköku í skjóli þess ástands, sem ríkisstj. hefur skapað í landinu. Ég held, að það sé eins gott, að atvinnurekendastéttin fái að einhverju leyti að sýna það, hvort hún er til í að sínu leyti að leggja eitthvað fram til þess að tryggja afkomu þjóðarinnar og alþýðunnar í landinu.

Ég ræddi um það á fundi í fjhn. í morgun, að mér þætti fyrir því að geta ekki í sambandi við þetta mál lagt fram alveg beinar tölur um það, hvað 17% hækkun eins og þessi á kaupi verkafólks í landinu mundi þýða í milljónum kr., og ég hef ár eftir ár rætt þennan hlut, rætt þessar aðstæður hér á Alþ. og farið fram á það við þær ríkisstjórnir, sem að völdum hafa setið, að úr þessu sé bætt, m.ö.o. að fá að vita, hver er sú launafúlga, sem t.d. allur sá verkalýður, sem í Alþýðusambandi Íslands er, fær greidda á ári, í fyrsta lagi miðað við 8 tíma vinnudag, í öðru lagi sem heildaratvinnutekjur, miðað við alla eftirvinnu og næturvinnu. Það hefur verið gizkað á, en allt er það ekki nema ágizkun, að heildartekjur þeirra 30 þús. manna, sem í Alþýðusambandinu eru, væru e.t.v., miðað við 8 tíma vinnudag, 1300 millj. kr., og þá hefur maður miðað við tekjur atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég býst við, að þessi tala hljóti að vera of lág, en það mundi samsvara því, að að meðaltali væru tekjur hvers af þessum 30 þús. mönnum í A.S.Í. 40 þús. kr. á ári. Ef aðeins um þessar tekjur væri að ræða, — við skulum segja 1300 millj. kr., ef engin eftirvinna og næturvinna yrði á næstu árum, eins og atvinnurekendur nú á ýmsan hátt virðast vilja stefna að, — þá mundi, jafnvel þó að menn hefðu fulla vinnu, þessi 17% hækkun þó ekki þýða nema eitthvað í kringum rúmar 200 millj. á ári í tilfærslu.

Ég segi það aftur: mér þykir fyrir því að þurfa í þessum ræðustól einu sinni enn að koma fram með ágizkunartölur um þessa hluti. Og ég sný ekki aftur með það, að með öllum þeim sérfræðingum, sem allar þær ríkisstjórnir, sem eru búnar að sitja hér að völdum á síðustu 10 árum a.m.k., eftir að farið var að gera eins mikið með hagfræðinga og gert hefur verið, er hneyksli, að allar þessar ríkisstjórnir skuli aldrei hafa útvegað okkur hér á Íslandi, sem deilum harðar um efnahagsmál en jafnvel nokkur önnur þjóð, einföldustu grundvallaratriði til þess að geta rökrætt þessi mál, sem hver einasta önnur þjóð í kringum okkur hefur aðgang að. Í Bandaríkjunum, þar sem menn skyldu halda að gróði og vinnulaun væru e.t.v. einhver feimnismál, þar er það svo, að ég get flett upp í hagskýrslu, tekið nákvæma tölu í hverri einustu iðngrein og í heildinni líka um, hver vinnulaun eru, við skulum segja í bílaiðnaðinum eða í öllum framleiðslugreinum Bandaríkjanna, og hvað gróðinn er í viðkomandi atvinnugreinum, — nákvæmar opinberar skýrslur. En hér neyðist maður ár eftir ár ekki aðeins til þess að eyða löngum tíma á Alþingi í að þrátta um þessi mál og stilla upp þessari tölu í þetta skipti og hinni tölunni í hitt, heldur neyðist maður til að berjast hér í vinnudeilum vikum og mánuðum saman, stundum án þess að aðilarnir, sem eru að berjast, verkalýður og atvinnurekendur, hafi fyrir sér nákvæmlega útreiknað, hvernig þjóðartekjurnar skiptast á milli þeirra.

Mér finnst mjög hart, ef okkar heildarþjóðartekjur eru, hvort við vildum telja 3 milljarðar eða 5–6, eins og gert er í öðrum útreikningi, ef þær 30 þúsundir manna, sem í Alþýðusambandinu eru, hafa af því einar einustu 1300 eða 1400 millj. Og ef svona hækkun, jafnvel þótt væri undir 20%, mundi aðeins þýða um 200 millj. kr. tilfærslu, þá sér hver maður, að það er auðvelt, ekki bara fyrir þjóðarbúskapinn, heldur meira að segja fyrir ríkisbúskapinn, að breyta þessu nú þegar. Hæstv. fjmrh. er stundum meira að segja í vandræðum með peninga, skildist mér á umr., sem fáru hér fram í dag. En þó að hann færi bara í Seðlabankann, þá gæti hann tekið þar einar 100 milljónir eða a.m.k. mjög nærri því, jafnvel bara sem tekjuafgang seinasta árs, a.m.k. 70–80 millj. af því í ríkiskassann, þar sem það væri betur geymt, og sett það jafnvel úr ríkiskassanum yfir til almennings, er þyrfti að fá þessa launahækkun.

Ég mun halda því fram og standa á því, meðan annað er ekki sannað, að íslenzkur þjóðarbúskapur geti leikið sér að því að bera, þó að það væri 20% hækkun á því venjulega dagkaupi verkafólks í landinu. Ég tala nú ekki um, ef þjóðarbúskapnum væri þar að auki stjórnað með einhverju viti, ef þær ráðstafanir væru gerðar viðvíkjandi áætlunarbúskap, viðvíkjandi utanríkisverzlun og öðru slíku, sem ég hef talað um.

En vegna þess að það frv., sem hér er flutt af hálfu hæstv. ríkisstj., á sérstaklega að miða að því að lepsa nokkur vandkvæði sjávarútvegsins, þá hef ég leyft mér að taka alveg sérstaklega út úr viðvíkjandi sjávarútveginum og geri með þeim brtt., sem ég flyt, nr. 2–5, sérstakar ráðstafanir, sem gera tvennt í senn, annars vegar að gera sjávarútveginum sérstaklega mögulegt að bera þessa kauphækkun, sem lagt er til að framkvæmd sé með 1. gr., og í öðru lagi að geri honum um leið mögulegt að fá hækkað fiskverð frá því, sem hann hefur núna, m.ö.o. leysa í senn þau vandamál verkalýðsins, sem verið er að reyna að leysa með 1. gr., og þau vandamál sjávarútvegsins, sem ríkisstj. virðist standa eiginlega hálfklumsa frammi fyrir núna.

Fyrsta till., sem ég geri í þessu sambandi, er till. 2 á þskj. 221 um að lækka vextina í landinu niður í það, sem var fyrir 1. jan. 196l. Þó geri ég með 3. brtt. þá undantekningu þarna á viðvíkjandi framleiðsluatvinnuvegunum og þá fyrst og fremst sjávarútveginum náttúrlega, sem það kemur hvað mest til góða, að ekki skuli látið þar við sitja að færa vexti afurðavíxlanna eða endurkaupavíxlanna, sem þeir hafa verið kallaðir, niður í það, sem var, áður en viðreisnin og kreppan hófst, heldur séu þeir lækkaðir enn þá meira. Ég legg til, að þeir vextir séu lækkaðir niður í 2% fyrstu 6 mánuðina og 21/2%, þegar framlengt er. Og ef nú einhverjir hæstv. ráðh. vildu bera brigður á, að atvinnureksturinn bæri þá kauphækkun, sem ég fer fram á, þá vil ég biðja þá um að hrekja eftirfarandi dæmi.

Við skulum taka hraðfrystihús, sem 1959 hefur í vaxtaútgjöld 1 millj. kr. og borgar í laun 3,3 millj. Hvernig fer fyrir þessu hraðfrystihúsi á árinu 1960? Vextirnir hækka fyrir ráðstafanir ríkisstj. um 700 þús. kr. eða upp í 1 millj. 700 þús. Hverju samsvarar þessi vaxtahækkun, þessar 700 þús. kr., ef við hefðum í staðinn notað þetta til þess að hækka kaupið? Það samsvarar 22% kauphækkun. M.ö.o.: ef vextirnir væru lækkaðir hjá hraðfrystihúsunum á endurkaupavíxlunum úr þeim 91/2 %, sem þeir eru núna, niður í 5%, þá gætu þau staðið undir 22% kauphækkun. Nú legg ég þar að auki til að lækka þá ekki niður í 5, heldur niður í 2%. Það þýðir, að þau gætu staðið undir næstum annarri eins kauphækkun í viðbót, sem ég hins vegar legg ekki til, heldur segi, að þetta gætu þau notað til þess að fá hærra fiskverð, bæði handa útvegsmönnum og handa sjómönnum. Aðeins með þessum vaxtalækkunum, sem þarna eru lagðar til, er tryggt fyrir hraðfrystihúsin að geta í senn borið þá kauphækkun, sem verkalýðurinn fengi samkv. 1. gr., og að hækka verð á fiskinum til útvegsins. Og þó er þetta ekki eina ráðstöfunin, sem ég legg til að gerð sé. Ég skal taka hins vegar fram, að í þessari 3. gr, minni felst um leið sú ákvörðun, að hlutfallstalan af þeim víxlum eða þeim lánum, sem bankarnir verða að veita og Seðlabankinn að endurkaupa, er hækkuð úr 50 í 67%, og jafnframt felst í þessu sú ráðstöfun gagnvart viðskiptabönkunum, að í staðinn fyrir að núna er ástandið þannig, að af 91/2 %, sem vextirnir almennt verða af endurkaupavíxlunum, fá viðskiptabankarnir 1/2%, en Seðlabankinn 9, þá mundi samkv. minni till., ef hún verður samþ., Seðlabankinn fá 1%, en viðskiptabankinn 1%, og þegar fram í sækti, ef framlengt yrði, 11/2%. Ég álít ekki neina ástæðu til þess, að Seðlabankinn sé að safna neinum gróða. Það er hrein vitleysa, hrein þjóðhagsleg vitleysa. Þessi gróðasöfnun Seðlabankans og allt, sem í sambandi við það stendur, er aðeins ráðstöfun til að skapa kreppu, — ég var næstum því búinn að segja kreppuráðstöfun, það var hér á árunum, að við höfðum það orð oft, en þá meintum við venjulega ráðstöfun til að bæta úr kreppu. Við höfum nú langalengi ekki þurft að taka þetta orð okkur í munn, en ég er hræddur um, að ef maður færi að taka sér þetta orð í munn núna aftur, þá mundi maður kalla þetta kreppuráðstafanir, sem sé ráðstafanir ríkisstj. til þess að skapa kreppu, því að aðrar ráðstafanir höfum við til allrar hamingju ekki þurft að gera á undanförnum árum, sem standi í einhverju sambandi við kreppu, því að við höfum ekki þekkt hana, nema þegar ríkisstjórnir undir utanaðkomandi áhrifum hafa verið að reyna að skapa kreppur í okkar þjóðfélagi.

Ég efast um, að nokkur hæstv. ráðh. geri nokkra tilraun til þess að hrekja þetta, vegna þess að reynslan er sú, að í hvert einasta skipti sem hæstv. ráðherrar horfast í augu við þessar staðreyndir, þá þagna þeir. Hins vegar er það ekki aðeins þessi till., sem út af fyrir sig væri alveg næg varðandi þetta hraðfrystihús til þess að gera því mögulegt að standa undir kauphækkunum og standa undir hækkuðu fiskverði, heldur legg ég til, að það séu gerðar fleiri ráðstafanir. Ég legg til með 5. brtt., a-lið, nýrri grein, sem ég set hér, 34. gr., að það sé fyrirskipuð lækkun flutningsgjalda. Sú lækkun skuli vera á öllum flutningsgjöldum fyrir útfluttar afurðir 10–20% og ríkisstj. heimilað með reglugerð að ákveða það innan þessara takmarka. Ég veit ekki, hvort menn gera sér ljósar þær fúlgur, sem fara í flutningskostnað til útlanda. Ég hef að vísu ekki nákvæmar tölur, en ef ég man rétt, þá voru a.m.k. fyrir nokkrum árum greidd, held ég, 10 pund fyrir tonnið af freðfiskinum til vissra staða á meginlandinu, og ég gæti trúað, að það væri það enn þá. Ef flutt eru 75 þús. tonn af freðfiski á ári, þá er það með núverandi pundskráningu hvorki meira né minna en 75 millj. kr., sem greitt er fyrir það, og mér þætti undarlegt, ef ekki væri hægt að spara eitthvað á þeirri upphæð, þegar hins vegar liggur við, að útvegurinn stöðvist. Ég held a.m.k., að það væri þess virði, að það væri rannsakað, hvað borgað er í flutningsgjöld. Og ef einhverjum þætti of djúpt í árinni tekið, þá gæti hann komið fram með till. um að hafa þetta heldur minna og reynt að rökstyðja, hvað þetta væri, en ekki bara slegið hnefanum í borðið og sagt: Það skulu allir Íslandi græða, sem eiga skip eða eiga einhver önnur slík tæki, en verkalýðurinn skal fá að borga, og ríkið skal fá að hækka sína söluskatta, og fjmrh. skal verða að ganga á bak orða sinna. Ég held þess vegna, að það sé full nauðsyn á, að það sé athugað, hvort ekki megi einhvers staðar á þessum liðum spara.

Í öðru lagi legg ég til með b-liðnum í 5. brtt., með nýrri gr., sem ég legg til að setja 35. gr., að komið sé upp sérstakri ríkisvátryggingu, að vátrygging á sjávarútveginum sé þjóðnýtt, m.ö.o., það sé komið upp sérstakri stofnun, og fyrir mitt leyti, þó að ég leggi það ekki til hér, legg til, að sjútvmrh. sé gefið vald til að ráðstafa því með reglugerð. Ég býst við, að annar ríkisbanki landsins gæti tekið að sér að sjá um alla þá vátryggingu og reksturinn á slíkri ríkisstofnun fyrir litið gjald, ef hæstv. ríkisstj. dytti allt í einu í hug að fara að spara í ríkisbákninu. Till. er, að það sé komið upp ríkisvátryggingu sjávarútvegsins, þar sem sé skyldutryggður allur fiskiskipastóllinn, bátaflotinn og togaraflotinn og þar sem sé skyldutryggður líka allur fiskurinn, meðan hann er í geymslunum hér heima, meðan hann er í skipunum, bæði sjálfum fiskiskipunum og í flutningaskipunum, enn fremur þær ábyrgðartryggingar og annað slíkt, sem er í samþandi við þetta. Ég held, að þessi þjóðnýting á tryggingunum hefði raunverulega átt að vera komin á fyrir löngu. Ár eftir ár hefur það gengið þannig til, að ríkissjóður borgar þessar vátryggingar. Hvaða ástæða er til þess, að meira eða minna erlend félög eða þeirra umboðsfélög hér séu að mata krókinn á þessum tryggingum? Iðgjöld fyrir fiskibátana á Íslandi eru 7–9% eða lægst 5, á sama tíma eru þau í Noregi 2–3%. Skyldi ekki mega spara eitthvað á þessum lið? Bara iðgjöldin fyrir fiskiskipastólinn eru yfir 100 millj. kr. á ári. Iðgjöldin fyrir vörurnar skipta tugum milljóna. Og ástandið er þannig ár eftir ár. Það er bara sagt: Verkalýðurinn verður að borga með lækkuðu kaupi. Starfsmenn ríkisins verða að borga með lækkuðu kaupi. Ríkið verður að borga. — Og þessi till., sem hér liggur fyrir hjá hæstv. ríkisstj., er um það, að ríkið eigi að borga vátryggingargjaldið. Hvað lengi á þetta að ganga til? Er ekki eins gott, að ríkið taki sjálft að sér tryggingar og sjái sjálft um þetta? Það getur gert það að öllu leyti miklu ódýrara.

Ég verð að segja það, ef menn ekki fást til að taka tillit til eða ræða svona tillögur, hvað er það þá, sem vakir fyrir hæstv. ríkisstj.? Er hún þá beinlínis að reyna að hjálpa til þess að stinga undan gróðanum, sem er á íslenzku atvinnulífi, láta það koma fram í einhverjum baksamningum í sambandi við það, þegar verið er að fá skipin til flutninga, baksamningum í sambandi við vátryggingarfélögin, að gera það mögulegt að fela gróðann á allan mögulegan hátt, en prédika svo yfir þjóðinni, að veslings þjóðarbúið og veslings útvegurinn og veslings hraðfrystihúsin og allt saman þetta beri ekki kaupið? Því í ósköpunum má ekki þjóðnýta vátryggingarnar á fiskiskipastólnum

og sjávarútveginum? Þó eru þetta menn, sem ár eftir ár geta komið með tillögur um stórkostlegar fórnir, sem almenningur eigi að færa, menn, sem vilja skera niður á ríkisfjárlögunum og neita skáldum og listamönnum um þau smánarlaun, sem Þorsteini Erlingssyni var úthlutað, 600 krónunum, fyrr á þessari öld og þótti lítið, en væru tvöföld heiðurslaun á við það hæsta, sem til er á fjárl. nú. Ég vil því minna menn á, þegar þeir eru með allan þennan naglaskap í sambandi við fjárlögin, þegar þeir eru með árásir á lífskjör almennings, starfsmanna ríkisins og verkalýðsins í sambandi við efnahagsráðstafanirnar, en fást ekki til þess að ræða þessa hluti, hvernig stendur þá á þessu? Er það af því, að það sé eitthvað óhreint í pokahorninu? Er það af því, að þeir, sem völdin hafa, hafi svo góð sambönd við öll þessi vátryggingarfélög og allt, sem þarna er, og þá, sem á ýmsan hátt eru að mata krókinn þarna í, að þeir vilji ekki ræða einu sinni þessi mál, eða við skipafélögin og annað slíkt? Það eru ótal músarholur fyrir gróða í þessu þjóðfélagi, og í þær músarholur verður að fara, svo að ég noti orðatiltæki, sem ég held jafnvel, að sjálfur hæstv. forsrh. hafi viðhaft einu sinni. Ég held, að það sé nauðsynlegt að fara í þær músarholur, áður en - (Gripið fram í: Það voru rottuholur.) Voru það rottuholur þá? Nei, ég held, að það hafi verið músarholur, en þær stórar, sem þá var talað um. Ég held þess vegna, að hæstv. ríkisstj. mætti fyllilega athuga þessar till. Ég skal fyllilega vera reiðubúinn til þess að ræða um þær, öðruvísi fyrirkomulag á þessu og annað slíkt, ef það gæti frekar orðið til þess, að þær yrðu samþykktar. En mér sýnist, að ein ríkisstj. geti ekki komið fram með till. eins og þær, sem hér liggja fyrir, en þverneitað að ræða þessi mál.

Þá legg ég enn fremur til með c-liðnum í brtt. 5, 36. gr., að tryggja örari gjaldeyrisskil en verið hafa fram að þessu. Þar er lagt til til þess að tryggja betur hag útgerðarmanna og framleiðenda, að innan mánaðar, frá því að vöru er afskipað, skuli gerð gjaldeyrisskil fyrir henni og innan hálfs annars mánaðar skuli gert uppgjör til framleiðenda. Nú sem stendur er það svo, að það getur dregizt 5, 6, ég hef jafnvel heyrt sagt upp í 8 og 9 mánuði og e.t.v. lengri tíma, frá því að menn hafa afhent sína vöru til útflutnings hér á Íslandi, þangað til þeir sömu hringar, sem hafa með þetta að gera, skila andvirði. Og ég hef satt að segja rekið mig á það, að fátækir sjómenn og útvegsmenn utan af landi hafa verið að rexa í og jafnvel orðið að fara í hálfgerð mál út af tveggja ára gömlu uppgjöri á þeirra fyrstu inneign. Ég held þess vegna, að það sé alveg óumflýjanlegt að gera þarna stórbreytingu á. Vextir í landinu hafa verið hækkaðir. Peningar í landinu eru hlutfallslega minna í umferð en áður vegna lánbannsins. Það er dýrt fyrir framleiðendurna, hvort það eru sjómenn, útvegsmenn eða aðrir, að hafa sína peninga, andvirði sinnar vöru, lengi í geymslu hjá söluhringunum. Og staðreyndin, sem við okkur blasir, er sú, að söluhringarnir, eins og t.d. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, hafa sett upp Stór fyrirtæki úti í heimi, í Bandaríkjum Norður-Ameríku, í Bretlandi, í Hollandi, jafnvel með styrk á fjárlögum frá ríkinu, og velta þar milljónum og milljónatugum, koma upp verksmiðjum, borga þar svertingjum lágmarkslaun, sem borguð eru í Ameríku, en eru tvöfalt hærri en Dagsbrúnarkaup hér, og þeir peningar, sem þeir eru að velta þarna raunverulega, eru peningarnir, sem vantar í þjóðarbúið hér heima. Mér virðist þess vegna, að það sé raunverulega eitt það minnsta, sem hægt væri að gera gagnvart sjávarútveginum, gagnvart sjálfum sjómönnunum og útvegsmönnunum, að tryggja þeim, að varan, sem þeir afhenda, sé greidd þeim ekki síðar en einum til hálfum öðrum mánuði eftir að hún er farin í skip, það sé skilyrði í sambandi við útflutninginn.

Þetta er eitt af því, sem mundi leiða til þess, að útvegsmenn fengju sinn fisk miklu fyrr greiddan of, sjómennirnir og útvegsmennirnir fengju sitt uppgjör miklu fyrr. Og ég efast ekki um, að þetta, sem ég nú hef talið, till. um vaxtalækkun, till. um lækkun á flutningsgjöldum á afurðum sjávarútvegsins, till. um þjóðnýtingu vátrygginga og þar með lækkun á iðgjöldum fyrir sjávarútveginn og till. um fljótari skil á gjaldeyrinum og uppgjör við útvegsmenn og sjómenn, — ég efast ekki um, að allt þetta mundi hjálpa stórkostlega til þess, ekki aðeins að standa undir þeim kauphækkunum, sem 1. brtt. mín mundi hafa í för með sér, heldur mundi líka verða til þess að hækka verulega fiskverðið, eins og brýn nauðsyn er á, til þess að tryggja útgerðina.

Enn fremur legg ég til með 2. og 3. brtt., að 32. gr. í núverandi efnahagsmálalöggjöf sé breytt og 33. gr. felld niður. Það eru þær greinar, sem fjalla um vald ríkisstj. til þess að ráða yfir vöxtunum af öllum stofnlánasjóðunum, sem atvinnulífið hefur, og hins vegar 33. gr., það er sú grein., sem skyldar sparisjóðina úti um land og innlánsdeildir kaupfélaganna að afhenda helminginn af sínu sparifé til Seðlabankans. Hvort tveggja er alger vitleysa og óþarfi eða réttara sagt skaðlegt.

Enn fremur hef ég ásamt hv. 6. þm. Sunnl. lagt fram brtt. við 1. gr., till. ríkisstj. sjálfrar, við 4. málsgr. í henni, um að tryggja, að megnið af því fé, sem væri í útflutningssjóðnum og kæmi inn fyrir 21/2 %, færi til sjómannanna til þess að bæt:a þeim upp kaupið, sem skorið var niður hjá þeim með lagaboði á síðasta ári. Með þeim ráðstöfunum öðrum, sem ég hef lagt til að gera á þskj. 221, er útgerðinni áreiðanlega bætt það vel upp, að hún má fyllilega sjá af þessu, enda sjómennirnir þeir raunverulegu eigendur að þessu fé. Og það veitir ekki af að bæta þeim upp það, sem þeir hafa verið rændir með þeim ákvæðum, sem lögbundu raunverulega þeirra samninga.

Ég held, að þetta, sem ég nú hef sagt, þó að það sé ekki nema lítill hluti af því, sem þyrfti að segja um þessa efnahagsmálalöggjöf í heild og þann ófarnað, sem hún er að leiða yfir landslýðinn, þá held ég, að það nægi til þess að sýna, að það eru nægir möguleikar til að breyta nú þegar um stefnú, hækka kaup verkalýðsins, hækka fiskverðið. Aðeins hjá bönkum landsins munu í ár safnast í gróða á annað hundrað millj. Í Seðlabankanum einum býst ég við, að gróðinn sé nú kominn upp í einar 70 millj. Gróðamyndunin innanlands er mikil, eri hún er vel falin, og hún fæst venjulega ekki fram í dagsljósið, fyrr en komið er út í harðvítug verkföll og yfirstéttin farin að óttast um sig. Það er sama og var 9. nóvember 1932, þegar bæjarstjórnin sat hér á fundi og sagði, að það væru engir peningar til til þess að borga mönnunum, sem voru í atvinnubótavinnu og höfðu einnar viku vinnu í mánuði, að halda áfram að borga þeim kr. 1.36, þegar átti að lækka það niður í 1 kr. Þá voru engir peningar til allan daginn, sem bæjarstjórn Reykjavíkur sat á fundinum. En eftir að slagsmálin urðu, þá voru peningarnir til um kvöldið. Ég held, að það sé ekki slík stefna, sem við eigum að hafa á Íslandi. Ég held, að við eigum ekki að bíða eftir því, að allt sé komið í uppnám í þjóðfélaginu. Ég held, að við eigum, á meðan við getum rætt málin með rökum innan þessara sala, að láta rök mæta rökum. Og ég vil skora á hæstv. ríkisstj. að sýna fram á, að eitthvað í því, sem ég hef hér sagt, sé ekki rétt og þær tillögur, sem ég hef flutt fram, fái ekki staðizt. Það er nægur gróði hjá bönkunum, hjá olíufélögunum, hjá skipafélögunum, hjá einstökum auðmönnum og auðfélögum hér til þess að borga þær hækkanir, sem þyrftu að verða. Hagfræðingarnir virðast vera sérfræðingar í því að reyna að dylja þennan gróða. En það, að þessi gróði er til, og það, að hægt væri að borga hann nú til fólksins, það er meira að segja ekki stærsta atriðið í þessu öllu saman, og það er máske ekki einu sinni það skaðlegasta í sambandi við alla þessa viðreisn, að þessir atvinnurekendur skuli hafa náð til sín þessum gróða og þetta skuli hafa verið tekið af verkalýðnum, svo slæmt sem það er. Það allra skaðlegasta er, að það er verið að eyðileggja það, sem verkalýðurinn hefur getað treyst á meira eða minna í 18 ár, og það er atvinnuöryggið. Það er verið að svipta hann því, sem hann álítur sér allra dýrmætast, og það er gert af ráðnum hug.

Þess vegna er það, að það, sem er allra veigamest í sambandi við þetta, er, að nú sé staðar numið um þá stefnu, sem kennd hefur verið við viðreisnina, um þá hrun- og kreppustefnu, sem hér hefur verið innleidd, að nú sé breytt um, eins og ég gat um, tekin upp sú stefna, sem einkennist af áætlunarbúskap, yfirstjórn á utanríkisverzluninni, sem einkennist af því, að þjóðarbúskapur Íslendinga sé rekinn með hagsmuni almennings fyrir augum, en ekki með það fyrir augum að gera tilraunir til þess að skapa gróða handa nokkrum mönnum. Það er sú stefnubreyting fyrst og fremst, sem þarf að verða. Og þær till., sem ég hér hef flutt, annars vegar um að tryggja verkalýðnum það, sem mundi þýða nú, miðað við desember, 17% kauphækkun með því að afturkalla vísitölubannið og það án verðbólgu, og hins vegar að tryggja sjávarútveginum í fyrsta lagi aðstöðu til þess að standa undir þeim kauphækkunum, í öðru lagi aðstöðu til þess að geta hækkað fiskverðið, þetta eru aðeins tveir þættir í því, sem gera þarf, tveir partar úr þeirri heildarmynd, þeirri heildarstefnu, sem þarf að skapa. Ég vildi mega vona, að hæstv. ríkisstj. og hennar fylgismenn fengjust til þess að ræða þessi mál. Það er gott að geta rætt þessi mál hér í þingsölunum. Það er betra að kljást um þau hér og reyna að finna lausnir á þeim hér heldur en utan þeirra.