16.12.1960
Neðri deild: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

134. mál, efnahagsmál

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Án þess að ætla að ræða mikið um þetta mál nú, þá eru hér þrjú eða fjögur atriði, sem fram hafa komið í umr. og nefndarálitum, sem ég tel skylt að gera að umtalsefni og leiðrétta.

Er þá fyrst þess að geta, að í þessum umr. hafa sumir hv. þm. stjórnarandstæðinga viljað gera miklu minna en ástæða er til og rétt er úr þeim áhrifum, sem aflaleysi togaranna í ár og verðfallið á lýsi og mjöli hefur haft á þjóðarbúskapinn. Það er rétt að taka það fram hér, hvernig þau mál standa, vegna þess, hve mikil áhrif þessi atriði hafa á þjóðartekjurnar og þar með að sjálfsögðu á lífskjörin og m.a. á áhrif efnahagsaðgerðanna.

Ef vikið er fyrst að afla togaranna, þá er það staðreynd, að þrjá fyrstu ársfjórðungana í ár höfðu togararnir aflað um 85 þús. smál., þ.e. 42 þús. minna en í fyrra. M.ö.o.: afli togaranna þrjá fyrstu ársfjórðunga þessa árs var um þriðjungi minni en á sama tíma í fyrra, og þó er þess að gæta, að á þessu ári hafa bætzt við fimm nýir togarar. Það verður að fara alla leið aftur til ársins 1947 til að finna minni ársafla togaranna en nú, og er þess þó þar að gæta, að á árinu 1947 voru nær eingöngu gömlu togararnir, þar sem fyrstu nýsköpunartogararnir voru að koma á því ári. Þessar tölur gefa nokkra mynd af aflaleysi togaranna á þessu ári, og af því geta menn að sjálfsögðu gert sér í hugarlund, hver áhrif slíkt hefur á þjóðarbúið og þjóðartekjurnar í heild.

Ef litið er á heildarafla bátanna og togaranna, bæði á þorskveiðum og karfaveiðum, þá kemur það í ljós, að aflinn í ár mun verða um það bil 10% minni en á því marglofaða ári 1958, sem nokkuð hefur verið hér um rætt og sérstaklega hv. 4. þm. Austf, vitnaði mjög í til fyrirmyndar. Það ár var mikið góðæri, og mun heildaraflinn þá hafa verið um 400 þús. smálestir, en í ár mun hann verða, eins og ég sagði, um 10% minni, eða 360 þús. smálestir:

Þriðja atriðið, sem ég vildi upplýsa í þessu sambandi, er það, að síldaraflinn í ár er u.þ.b. 38% minni á skip en í fyrra. En um leið er þess að gæta, að margfalt meira er lagt í kostnað við nýjan veiði- og leitarútbúnað.

Um leið og rætt er um aflaleysið, þá er einnig rétt að geta um það verðfall, sem skall á á mjöli og lýsi, og það er áætlað af hinum fróðustu mönnum, að það verðfall þýði ekki undir 150 millj. kr. tekjutapi nú í ár frá því í fyrra.

Þetta allt verður að sjálfsögðu að hafa í huga, þegar menn reyna að gera sér mynd af afkomu þjóðarbúsins á þessu ári, og vissulega þarf engan að undra, þó að þessar staðreyndir, sem þannig blasa við, hafi sín áhrif á afkomu þjóðarinnar í heild og lífskjör fólksins. Þrátt fyrir þetta hefur það þó orðið, siðan gengisbreytingin var gerð, að gjaldeyrisstaða landsins hefur batnað verulega, og frá því í febrúarlok og til októberloka hefur gjaldeyrisstaðan batnað um 211 millj. kr.

Í þessu sambandi vil ég nefna það, sem hv. 3. þm. Reykv. ræddi ýtarlega um í sinni ræðu hér í gær við 2. umr. og einnig er tekið fram í hans nál., og það er, að kaupmáttur launa en sá útreikningur er byggður á vísitölu vöru og þjónustu — hafi minnkað verulega, og á þeim grundvelli vill hann og samherjar hans byggja kröfu um 17% kauphækkun nú, og hv. þm. lét orð falla svo í umr., að það, sem skipti máli um launakjör fólksins í landinu, væri vísitala vöru og þjónustu.

Nú er þessi staðhæfing vægast sagt ákaflega villandi. Ef vísitala vöru og þjónustu, sem sagt verðlagið á vörum og þjónustu, er það eina, sem skiptir máli, þá finnst mér, að þennan hv. þm. skorti mjög átakanlega yfirsýn um ýmis veruleg atriði í þessu sambandi. Í hans augum, eftir því sem orð hans féllu, skiptir það þá engu máli fyrir launamanninn eða við skulum taka vísitölufjölskylduna, það skiptir engu máli fyrir þessa meðalfjölskyldu, þó að hún fái t.d. 5200 kr. í fjölskyldubætur á þessu ári umfram það, sem hún hefur áður fengið. Í öðru lagi skiptir það væntanlega engu máli fyrir þessa fjölskyldu, þó að tekjuskattur hennar lækki um 1444 kr. Það skiptir heldur engu máli fyrir þessa fjölskyldu, þó að útsvar hennar lækki um rúmar 900 kr. M.ö.o.: þó að þessi fjölskylda fái nú á þessu ári þannig meira en 7500 kr. meira að kaupa fyrir en áður, þá skiptir það engu máli, ef aðeins vísitala vöru og þjónustu og svokallaður kaupmáttur launa segir annað. Ég ætla í rauninni, að fáir verði sammála hv. þm. um þennan skilning, að þessi atriði skipti engu máli.

Sú vísitala, sem kauplagsnefnd varð öll sammála um og einnig fulltrúi Alþýðusambandsins að reikna út, sýnir það, að hækkun hefur orðið, síðan efnahagsaðgerðirnar voru gerðar, um 3–4 stig. Og ég ætla, að ekki verði með rökum mælt í móti því, að það sé rétt, þegar metin eru lífskjör fólksins í landinu og reynt að gera sér grein fyrir launakjörum þess almennt, að þá er það rétt að miða ekki aðeins við verðlag á vörum og verðlag á þjónustu, heldur einnig að miða við m.a. fjölskyldubæturnar og þá skatta og opinber gjöld, sem fólkið þarf að greiða.

Loks er það eitt atriði, sem ég vildi drepa á, og það er úr nál. hv. 1. minni hl. fjhn., hv. 1. þm. Norðurl. v., sem hann kom inn á í sinni framsöguræðu, en þar vill hann sýna fram á, að þrátt fyrir vaxtahækkunina hafi sparifjársöfnun eða aukning sparifjár landsmanna orðið miklu minni nú en tvö undanfarin ár. Svo segir í nál. hans á þskj. 229, með leyfi hæstv. forseta: „Þær hagskýrslutölur, sem hér eru birtar, eru eitt vitni af mörgum um þá fjárhagsörðugleika, sem efnahagsráðstafanir ríkisstj. hafa valdið.“ Og síðan segir hann: „Af þessum samanburði sést, að síðustu tólf mánuðina hefur sparifjáraukningin í bönkum og sparisjóðum orðið tiltölulega langtum minni en næstu tvö árin þar á undan, þrátt fyrir vaxtahækkunina.“

Við þennan samanburð hv. þm. er tvennt að athuga. Það er tvennt, sem gerir þessar upplýsingar hans mjög villandi. Annað er það, að hér er talað ekki aðeins um sparifé í venjulegri merkingu, heldur einnig hlaupareiknings- eða veltuinnlán talin með. Látum það nú vera. Hitt atriðið, sem sýnir, hvað lítið er byggjandi á þessum tölum hv. þm., er það, að til þess að sýna, að sparifjáraukningin hafi orðið minni nú, þá reiknar hann ekki tímabilið frá gengisbreytingunni, frá því að efnahagsaðgerðirnar komu til framkvæmda. Nei, hann tekur í einu lagi tímabilið frá október 1959 til október 1960.

Af þessu tímabili, sem hann er að birta tölur um, er sem sagt liðinn einn þriðji hluti, fjórir mánuðir, áður en efnahagsaðgerðirnar eða vaxtahækkunin kom til framkvæmda.

Svona dæmi þýðir náttúrlega ekki að vera að leggja fyrir Alþingi, og það sér hver maður, sem les þessar tölur hv. þm., að þær sýna eða sanna ekki nokkurn skapaðan hlut í þessu sambandi, sem hann vill sanna. Tölurnar eru vafalaust út af fyrir sig réttar, en þær gefa ekki rétta mynd af því, sem hann er að reyna að sýna.

Ef við viljum gera okkur grein fyrir sparifjáraukningunni, frá því að gengisbreytingin og efnahagsaðgerðirnar komu til framkvæmda, verður auðvitað að miða við tímabilið — við skulum segja t.d. frá 1. marz. Þessi lög öðluðust gildi 20. febr., ef ég man rétt. Það er rétt að taka tímabilið frá 1. marz og þangað til í dag eða þess tíma, sem skýrslur ná. Ég hef upplýsingar hér um tímabilið frá marz til októberloka. Og hvernig lítur það út? Það ]ítur þannig út, að á þessum tíma hefur sparifjáraukningin hjá bönkunum og sparisjóðunum orðið samtals 225.3 millj. kr., og það er aukning um 11.5%. Ef menn vilja fá samanburð á sama tímabili, sömu mánuðum undanfarin tvö ár, þá líta tölurnar þannig út, að árið 1959 var sparifjáraukningin 183.7 millj., eða 10.5%, og 1958 var hún 116.6 millj., eða 7.7%.

Það má auðvitað setja upp margvísleg samanburðardæmi. En ég held, að því verði ekki á móti mælt, að það er villandi og rangt dæmi að ætla að sanna, að spariféð hafi ekki aukizt, eftir að vaxtahækkanirnar komu til framkvæmda, og taka inn í það dæmi fjóra mánuði fyrir gengisbreytinguna og vaxtahækkunina. Það er rangt og villandi dæmi. Ég held, að eðlilegasta og gleggsta dæmið hljóti að vera þetta, að miða við tímann frá því að vaxtahækkunin kom til framkvæmda og svo langt sem skýrslur bankanna ná, og þá líta tölurnar þannig út á þessu 8 mánaða tímabili: 1958 var sparifjáraukningin 7.7%, 1959 var hún 10.5 og nú í ár 11.5%. M.ö.o.: sparifjáraukningin hefur orðið heldur meiri á þessu tímabili en í fyrra þrátt fyrir allt það, sem ég nefndi í upphafi minnar ræðu, aflabrestinn hjá togurunum, hið mikla verðfall á mjöli og lýsi, að heildaraflinn bæði hjá bátum og togurum er töluvert minni nú í ár en hann var 1958, og loks þegar það er einnig haft í huga, að vitanlega hlaut gengisbreytingin að hafa í för með sér tímabundna kjaraskerðingu.

Ég vil í þessu sambandi leiðrétta þær hvimleiðu staðhæfingar, sem hér koma hvað eftir annað frá hv. stjórnarandstæðingum, að við í stjórnarflokkunum höfum heitið því, að kjör manna mundu ekkert skerðast við efnahagsaðgerðirnar. Við höfum frá upphafi tekið það fram, að vitaskuld þýddu þessar efnahagsaðgerðir kjararýrnun í bili, en okkar von væri sú, að sú kjararýrnun þyrfti ekki að standa lengi og síðar kæmi að því, þegar efnahagsaðgerðirnar hefðu tekizt og jafnvægi skapazt, að þá mundu kjör manna fara batnandi úr því.