16.12.1960
Neðri deild: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (334)

134. mál, efnahagsmál

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Þegar rætt er um efnahagsmál, þá verður ekki komizt hjá því að fara allvíða yfir, enda hefur það verið gert hér í þessum umr., og ég mun ekki eingöngu ræða um þau mál, þó að margt væri hægt um þau að segja.

Þegar hæstv. ríkisstj. kom til valda fyrir ári, var því lofað að gera allt, sem hægt væri, til þess að halda atvinnuvegunum gangandi. Því var enn fremur lofað, að ekki yrði gengið á kjör fólksins nema mjög takmarkað og að þar væri aðeins um mjög stuttan tíma að ræða. Það, sem stefnt væri að, væri að koma á heilbrigðu efnahagslífi í landinu, og það yrði um einhverja byrjunarörðugleika að ræða, en þegar fram í sækti, mundi þetta allt lagast og allt komast aftur á réttan kjöl. Þegar þessi mál eru athuguð dálítið nánar, kemur það í ljós, að t.d. kaupgjald í landinu hefur lækkað á þessu tímabili um hvorki meira né minna en 14%, þ.e.a.s. ef miðað er við fyrri vísitölu. Það er vitanlega sú eina vísitala, sem hægt er að miða við, vegna þess að sú vísitala, sem nú er talin gilda, er reiknuð út á allt öðrum forsendum en sú vísitala, sem kaupgjaldið var reiknað út eftir áður, og ég veit ekki til þess, að verkalýðsfélögin hafi viðurkennt þann útreikning, sem að baki liggur þeirri vísitölu, sem nú er talin gilda.

Við þessa 14% kauplækkun, sem þegar er orðin, er þó margt að athuga, og það er þegar vitað, að kauplækkunin er langtum meiri en þetta. Það er t.d. staðreynd, að húsaleiga hefur hækkað allverulega á þessu tímabili eða í tíð núverandi ríkisstj. og á örugglega eftir að hækka stórlega frá því, sem nú er. Þær orsakir, sem liggja til hækkunar húsaleigunnar, eru fyrst og fremst þær, að nú er miklu minna byggt af íbúðarhúsum en áður, t.d. hér í Reykjavík munu vera um helmingi færri íbúðir í smíðum en var í fyrra. Þetta segir alveg sína sögu. Hvað halda nú menn, að hv. þm. Sjálfstæðisfl. og blöð þeirra hefðu sagt um vinstri stjórnina, ef slíkt ástand hefði þá myndazt í húsnæðismálunum, sem nú er að myndast? Ég minnist þess, að fund eftir fund tróðu þessir menn upp í þennan ræðustól og töldu allar aðgerðir þeirrar ríkisstj. í húsnæðismálunum verri en ekki neitt. Þá var ekki verið að hika við að flytja till. upp á tugi milljóna, sem átti að verja til húsnæðismálanna. En það er nú þannig, að það er oft fljótt að skipast veður í lofti, og svo virðist hafa hér verið. Þrátt fyrir minnkandi húsabyggingar eru samt fjárhagsörðugleikarnir hjá húsnæðismálastofnuninni meiri og alvarlegri en nokkru sinni áður. Í sambandi við úthlutun lána til íbúðabygginga, sem núna er verið að framkvæma, er t.d. sá kvóti, sem á að renna til Siglufjarðarkaupstaðar, einar 100 þús. kr. Haldið þið, að það sé hægt að byggja margar íbúðir fyrir það? Til Hafnarfjarðarkaupstaðar er varið 1/2 millj. kr. Mér er ekki kunnugt um, hvað margar íbúðir eru þar í smíðum, en þær munu þó vera allmargar. Ég hef ekki heldur tölur um það, hvað miklu á að úthluta hérna til Reykjavíkur, til allra þeirra, sem telja sig vanta fé til þess að geta klárað sínar íbúðir, en það mun ekki vera hlutfallslega miklu hærra en þær tölur, sem ég hef hér nefnt. Ég vil segja, að það er ekki furða, þótt stjórnarherrarnir stæri sig af ötulli baráttu í húsnæðismálunum.

Svo kóróna þessir ágætu þm. stjórnarflokkanna vilja sinn til húsnæðismálsins með því, að þeir allir sem einn fella till. frá þm. Alþb., sem lögð var fram við 2. umr. fjárlaganna um heimild fyrir ríkisstj. til að taka 50 millj. kr. lán innanlands eða utan, sem varið skyldi til að bæta úr brýnustu þörf þess fólks, sem stendur í íbúðabyggingum og er í yfirvofandi hættu við að tapa húsum sínum, vegna þess að hvergi reynist auðið að fá lán, svo að hægt sé að ljúka við íbúðirnar. Fjöldi þess fólks, sem lagði í það að reyna að koma yfir sig og fjölskyldu sína eigin húsnæði í þeirri góðu trú, að eitthvað væri að marka þau loforð, sem þegar hafði verið búið að gefa af hæstv. ríkisstj. í sambandi við þetta mál, stendur nú alveg gersamlega úrræðalaust. Núna vofa beinlínis yfir nauðungaruppboð á fjölda íbúða hér í þessum bæ og jafnvel víðar, og það er ekki langt síðan seld var hér stór húsablökk, þar sem viðkomandi maður gat ekki staðið í skilum. Hún var seld fyrir mjög vægt verð. En það var bara einn af stórgróðamönnum Reykjavíkur, sem keypti hana og það fyrir mjög lítið verð. Getur viðkomandi maður komið til með að græða um 100 þús. kr. a.m.k. á hverri íbúð, sem hann keypti.

Já, auðmenn Reykjavíkur, þeir sjá sér sannarlega leik á borði að kaupa slíkar hálfgerðar íbúðir og það langt undir kostnaðarverði. En maðurinn, sem hefur lagt í íbúðarbyggingu fyrir fjölskyldu sína, stendur uppi eignalaus og máske með mikið af skuldum, sem hann sér enga leið út úr að geta greitt.

Húsnæðismálin og sú alvarlega þróun, sem þar er að verða, er ekki nema einn angi af viðreisn hæstv. ríkisstj. og stuðningsfl. hennar. Það gefur vitanlega auga leið, að hin gífurlega vaxtahækkun, sem ríkisstj. lét framkvæma og samþ. hér á Alþ. í byrjun s.l. árs, torveldar og stöðvar gersamlega allar íbúðabyggingar í landinu sem og allar aðrar framkvæmdir. Þeir einir geta nú leyft sér að byggja hús á Íslandi, sem eiga nægilega mikla peninga, nægilega mikið fé, sem þeir geta lagt í viðkomandi byggingu, svo að þeir þurfi ekki að leita á náðir lánastofnana. Að ætla sér að byggja hús og taka til þess lán með slíkum okurvöxtum og hér eru er hrein fjarstæða. Það hlýtur að koma að því fyrr eða síðar, að hér í Reykjavík og í öðrum bæjum á Íslandi hlýtur að skapast algert vandræðaástand í þessum málum. Húsnæði er nú þegar leigt út á okurhúsaleigu. Ég gæti komið með dæmi, sem sönnuðu þetta. Og þar við bætist, að viðkomandi húseigendur, margir hverjir, leyfa sér það að krefjast stórkostlegrar fyrirframgreiðslu, jafnvel svo að skiptir tugum þúsunda. Slíka húsaleigu og slíkar fyrirframgreiðslur er vitanlega ekki fært fyrir aðra að greiða en þá, sem eiga miklar eignir. Aðrir geta ekki snarað slíku út. Hinn almenni launþegi, verkamaðurinn hérna við höfnina í Reykjavík, sem hefur innan við 4 þús. kr. á mánuði, hefur engar 2 þús. kr. til þess að leigja sér húsnæði fyrir..Hann hefur engar 10 eða 20 þús. kr. til þess að borga fyrir fram til þess að komast inn í íbúð. Nei, þeir verða að fara á hanabjálkaloftin hér í Reykjavík og í kjallarana, fulla af raka. Þar eiga börn Reykjavíkur að alast upp að dómi þeirra manna, sem þessum málum stjórna, svo fagurt sem það er. Því siður hefur hinn almenni launþegi, eins og ég tók fram, efni á því að taka íbúð á leigu, sem kostar máske 2 þús. kr. á mánuði, og borga svo og svo mikið fyrir fram til að fá lykilinn að íbúðinni. Þetta er gamla ástandið, sem var hér ríkjandi áður. Þá var það þannig, að ef maður ætlaði að fá sér íbúð hér í Reykjavík, þá fylgdi það, að hann fékk ekki lykilinn að íbúðinni, nema hann léti viðkomandi mann fá nokkur þúsund, helzt 10 eða 20 þús., í vasann um leið. En þær 10 eða 20 þús., sem sá, sem leigði íbúðina, lét húsráðanda fá, komu ekki fram á skattskýrslunni. Verkafólks höfuðstaðarins og íbúa annarra kaupstaða, sem hafa ekki getað komið yfir sig húsnæði, eignazt sitt eigið húsnæði, bíður ekkert annað en alger vandræði og hörmungar, ef áfram verður haldið á þeirri braut, sem nú er, sem því miður allt bendir til að áframhald verði á.

Ekki verður annað séð en stórfellt atvinnuleysi sé alveg á næstu grösum. Nú þegar er farið að bera á allmiklu atvinnuleysi, t.d. á Akureyri og víðar í bæjum á Norðurlandi. Að ekki er nú þegar skollið á algert atvinnuleysi í sjávarþorpunum, þorpum og bæjum t.d. á Norðurlandi, stafar af því að menn hafa getað stundað sjó og sæmilega hefur fiskazt. Annars væri nú þegar skollið yfir geigvænlegt atvinnuleysi í öllum sjávarþorpum á Norðurlandi. Og ég geri ráð fyrir því, að sömu sögu sé að segja yfirleitt frá öðrum plássum, bæði frá Austfjörðum og Vestfjörðum. Nei, það er sannarlega ekki fyrir aðgerðir hæstv. ríkisstj., að ekki er komið í meira óefni en er á þessum sviðum. Þar ræður mestu um einmuna góð veðrátta og að fiskurinn hefur gengið á grunnmiðin.

En það er engu líkara en þessari hæstv. ríkisstj. sé alls varnað, sem til heilla horfir fyrir fólkið í landinu. Nú hefur þessi hæstv. ríkisstj. verið að rembast við það eins og rjúpan við staurinn að reyna að ná samningum við Breta, sem eins og allir vita krefjast þess, að togarar þeirra fái að fiska upp að 6 sjómílum í stað 12 mílna, eins og nú er. Það er nú ekki einu sinni það, að Bretarnir einir, ef af samningum kynni að verða, fái að fara inn fyrir línuna og skafa grunnmiðin, bæði fyrir Norður- og Austurlandi. Það kemur öll hersingin á eftir, því skulum við alveg gera okkur grein fyrir. Vestur-Þjóðverjar eru nú í samningum við Norðmenn um það, að þeir fái að njóta sömu réttinda og Bretinn fékk hjá Norðmönnum. Haldið þið virkilega, að þeir verði linari við okkur en við Norðmenn? Nei, síður en svo. Svo koma allar hinar þjóðirnar, yrði gengið að þessari kröfu Bretanna, eins og þeir hafa nú líka komið skemmtilega fram við okkur bæði nú og áður. Menn minnast margra atburða í sambandi við þau mál. Menn minnast þess t.d., þegar Bretinn lét sig hafa það að stíma niður skip á Dýrafjarðarhöfn og drepa þar nokkra menn og handtaka þar yfirvald sýslunnar. Menn minnast margra slíkra. Það er við þessa herra, sem á að fara að semja. Það er við þessa herra, sem hafa verið að beina fallbyssukjöftunum að varðskipum okkar og jafnvel að fiskiskipum okkar, það er við þá, sem á að fara að semja.

Það, sem hlyti að koma, ef Bretunum væri hleypt inn fyrir, er ekkert annað en það, að grunnmiðin fyrir öllu Norðurlandi og Austurlandi og yfirleitt þar, sem þeim væri hleypt inn að þessum 6 mílum, yrðu þurrausin. Það mundi ekki fást eitt kvikindi á eftir, eftir eitt eða tvö ár. Áður en landhelgin var færð út í 12 sjómílur, var svo komið, að það var alger ördeyða fyrir öllu Norðurlandi. Menn voru beinlínis hættir að vonast eftir fiskigöngu. Menn voru að skrölta á opnum bátum rétt út fyrir fjarðarkjaftinn og renna þar færi og vita, hvort það fengist nokkur fiskur. Menn gerðu út stærri báta og reru vestur í Flóa og austur á Mið. Það var alveg sama, það var alltaf sama ördeyðan. En hvernig er ástandið í dag? Það er mjög eftirtektarvert. Síðan fiskveiðitakmörkin voru færð út í 12 mílur, hefur orðið á þessu alveg gerbreyting til batnaðar. Nú virðist vera sæmilegur fiskur á grunnmiðum fyrir öllu Norðurlandi og menn eru mjög bjartsýnir um það, að á þessu verði framhald, svo framarlega sem Bretanum og öðrum slíkum ránfuglum verði ekki leyft að fara inn fyrir til að skafa okkar grunnmið.

Ég skal taka það fram, að ég ber mjög takmarkað traust til hæstv. ríkisstj., en þrátt fyrir það vildi ég þó mega vonast til þess og vænta þess, að hæstv. ríkisstj. sæi sóma sinn í því að hætta nú öllu samningamakki við þessa brezku ræningja. Að skerða fiskveiðiréttindi okkar og hleypa öðrum þjóðum inn í núverandi fiskveiðilandhelgi okkar, þó að um takmarkaðan tíma væri, er einn versti og mesti glæpur, sem hægt væri að drýgja gagnvart því fólki, sem á allt sitt undir afla úr sjó. Það væri beinlínis að stela lambinn frá fátæka manninum og afhenda það þeim ríka.

Aðgerðir hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum þjóðarinnar eru samdráttur í öllu atvinnulífi þjóðarinnar samfara óðri verðbólgu, sem nú þegar hefur verkað þannig, að fjöldi fólks hefur þegar yfirgefið heimili sín og flutzt til annarra staða, þar sem það heldur, að yfirvofandi kreppuástands komi til með að gæta minna. Frá mínu byggðarlagi hafa t.d. flutzt um 12 fjölskyldur síðan í haust, beinlínis af ótta við það kreppuástand, sem er verið að búa til. Það er engin ástæða til að búa til kreppu á Íslandi, það vita allir. Ef hér myndast kreppa, þá er það vegna þess, að stjórnarvöldin hafa búið hana til. Hún kemur ekki öðruvísi.

Ég tel nú rétt að ræða að nokkru þær verkanir, sem þegar eru komnar fram beinlínis vegna aðgerða hæstv. ríkisstj. og efnahagsráðstafana hennar. Nokkur af stærstu hraðfrystihúsum landsins hafa verið stöðvuð um lengri eða skemmri tíma. Í öðrum þeirra er unnið 2–3 daga í viku. Það er t.d. mjög algengt hér í Reykjavík, að það sé ekki unnið nema 2–3 daga hér í hraðfrystihúsunum. Hinn tímann hefur fólkið ekkert að gera. Ástæðurnar fyrir slíku ófremdarástandi eru m.a. þær, að togararnir sigla með afla sinn á erlendan markað. Á tæpu ári, eða frá því að núverandi ríkisstj. kom í gegn sínum dæmalausu efnahagsráðstöfunum, hafa togararnir farið 200 söluferðir til útlanda í stað 30 söluferða á sama tíma í fyrra. Þetta segir sína sögu.

Ástæðan fyrir þessum auknu söluferðum togaranna er fyrst og fremst sú, að togaraeigendur fá greitt þar út fyrir aflann um leið og hann er seldur, en aftur á móti leggi togari fisk á land til frystingar innanlands, er aflinn ekki greiddur fyrr en seint og síðar meir. Með því að sigla með aflann á erlendan markað losna togararnir við hið gífurlega vaxtaokur, sem er vitanlega ákaflega stór þáttur í allri útgerð. Auk þess fæst svo að jafnaði betra verð fyrir fiskinn á erlendum markaði. Við erum nú einu sinni þannig settir, að sjómenn og útgerðarmenn fá langtum lægra fiskverð en t.d. Norðmenn. Nú er þetta dálítið einkennilegt, þegar það er haft í huga, að íslenzkir fiskimenn eru mestu afkastafiskimenn í heiminum, vinna eða a.m.k. framleiða 8–9 sinnum meira fiskmagn en nokkrir aðrir sjómenn í víðri veröld. Þrátt fyrir það búa íslenzkir sjómenn og útgerðarmenn við lægra fiskverð en flestar aðrar þjóðir í heiminum. Þessi óheillaþróun bitnar vitanlega mjög harkalega á öllum þeim, sem hafa haft atvinnu við að vinna að fiskinum í hraðfrystihúsunum. Annað er það líka, sem ýtir undir þessar auknu söluferðir fiskiskipanna, og það eru hin smánarlega lágu laun, sem togaramenn búa við. Það er ekki óalgengt, að nú til dags sé kaup togaraháseta á mánuði 4 þús. kr., þ.e.a.s. ef aflinn er lagður upp hér innanlands. Aftur á móti ef siglt er með aflann og heppnin er með, þá fá sjómenn mun hærra verð og mun hærri hlut, ef siglt er með aflann á erlenda markaði. Nú sjá það allir, að þessi þróun er mjög alvarleg, sem sést bezt á því, að togari, sem leggur upp afla sinn innanlands, fer með í túrinn 16–17 daga, þ.e.a.s. ef hann er á heimamiðum, þar með talið löndunarfríið og sá tími, sem tekur að skipa fiskinum upp og sigling frá og á miðin, en togari, sem siglir með afla sinn til sölu í Þýzkalandi, fer með í túrinn alltaf 26–27 daga. Með þessu tapast því beinlínis 10 dagar, sem viðkomandi togari gæti verið við veiðar, ef hann sigldi ekki og ef hann legði upp afla sinn hérlendis.

Um gjaldeyrishlið þessa máls er það að segja, að sterkur grunur leikur á því, að sá gjaldeyrir, sem fæst fyrir aflann erlendis, komi ekki allur til skila. Ég er ekki dómbær á það að gefa neinar frekari skýringar um þetta, þetta er bara almennt mál manna. Annars væri mjög fróðlegt að fá um það upplýsingar, hve miklum gjaldeyri er skilað hingað heim úr sölutúr togara, sem selur fyrir t.d. 80 þús. þýzk mörk, en sú sala mun ekki vera langt frá því að vera meðalsala togara þeirra, sem selt hafa á þýzkum markaði nú að undanförnu.

Í sjálfu sér er það ekkert undarlegt, þótt togarasjómennirnir vilji ekki fara á sjóinn. Kjör þeirra eru svo léleg, að það má telja alveg furðulegt, að hægt skuli vera að fá menn fyrir þau kjör, sem þeir búa nú við. Aðgætandi er, að þessir menn leggja á sig meira erfiði og eru í stöðugri lífshættu og í meiri lífshættu en nokkrar aðrar stéttir þjóðfélagsins. Vinnutími togarasjómanna við veiðar er lögskipaður 12 klst. á sólarhring. Ætli skrifstofufólki hér í Reykjavík og annars staðar og t.d. okkur þm. mundi ekki þykja slíkur vinnutími nokkuð langur? Ég er ekki viss um, að það færi í gegn að lögskipa hér 12 tíma vinnudag í Alþingi. Ég er anzi hræddur um, að það yrðu ekki margir til að vilja samþykkja slíkan vinnudag. En þetta er bara það, sem togarasjómönnunum er boðið upp á. Þeir verða að vinna sína 12 tíma. Og þó er að sumu leyti enn þá verra á línubátunum, því að þar er yfirleitt algengt, að menn vinni yfir vertíðina upp í 18 og 20 tíma á sólarhring. Auk þessa eru laun togarasjómanna beinlínis smánarlaun, sem eru ekki mönnum bjóðandi í siðuðu þjóðfélagi, miðað við það erfiði, sem þeir verða að leggja á sig daglega. Ég fullyrði það, að á þessu verður að verða breyting, sjómönnum okkar verður að greiða svo góð kjör, að það verði eftirsóknarvert að gerast fiskimaður.

Okkar þjóðarbúskap er þannig háttað, að 90% af gjaldeyristekjum okkar eru fengnar fyrir fiskafurðir. Svo eru menn sí og æ að bölsótast út í útgerð og telja slíkt mikinn bagga á þjóðinni. Ég held, að það sé ekki hægt að koma með yfirleitt meira öfugmæli en slíkt. Það eru til jafnvel menn, — ég hef hlustað á þá í útvarpi ekki alls fyrir löngu, — sem vilja láta leggja alla útgerð niður, þurrka hana út. Við menn með slíkan hugsunarhátt er náttúrlega ekki hægt að ræða, svo fjarstæðukenndar sem slíkar skoðanir eru og ákaflega langt frá raunveruleikanum. Þess hefur maður orðið var svo að segja daglega, að það er alltaf verið að tala um þetta mikla tap á útgerðinni, þann mikla bagga, sem sé lagður á landsfólkið í sambandi við þessar miklu greiðslur til hennar.

Hvernig færum við að því að lifa á Íslandi, ef ekki væri útgerð? Íslendingar hafa verið og verða um ófyrirsjáanlegan tíma fiskveiðiþjóð, og allir aðrir atvinnuvegir, hversu mikilvægir sem þeir annars eru, eiga beint eða óbeint allt sitt undir afkomu sjávarútvegsins. Það var engin tilviljun, að biskupsstólarnir á sínum tíma seildust eftir því að fá verstöðvar og alls konar fríðindi við sjó og að aðalmatvælaframleiðsla þeirra var einmitt í sambandi við sjávarútveg. Þeir skildu sannarlega hvers virði sjávarútvegurinn var. Svo eru til menn hér, já, jafnvel menn í ábyrgðarstöðum, sem eru sí og æ að glamra um það, að útvegurinn sé einhver baggi á þjóðfélaginu og það sé jafnvel bezt að leggja hann niður.

Í sambandi við siglingarnar er rétt að benda á, að það eru nú ekki eingöngu togararnir, sem sigla með afla sinn á erlendan markað, heldur eru hinir stærri fiskibátar líka farnir að sigla með afla sinn. Þannig er stefnt að því, að út sé flutt í hraðvaxandi mæli meira magn en áður af ísvörðum fiski. T.d. það magn, sem hraðfrystihúsin framleiða í ár, mér er sagt, að það verði 10–12% minna en var s.l. ár. Þetta er ákaflega alvarleg þróun og hlýtur náttúrlega að þýða minni gjaldeyristekjur, því minna sem unnið er af fiskinum hér heima. Viðreisninni svokölluðu hefur sannarlega tekizt að lama íslenzkan fiskiðnað stórlega, sem aftur á móti þýðir minnkandi atvinnu í landi og minnkandi gjaldeyristekjur.

Vaxtaokrið segir nú til sín á öllum sviðum framleiðslunnar. Það er t.d. talið, að Seðlabankinn einn græði í ár um 100 millj. í stað 25 eða 30 millj. s.l. ár, og þótti þá víst flestum nóg að gert. Hvaðan eru þessar 100 millj., sem talið er að Seðlabankinn græði? Hvaðan haldið þið að þær séu teknar? Þær eru beinlínis teknar af framleiðslunni. Það er ekkert um það að villast. Það býr enginn til 100 millj. úr ekki neinu, og þær eru fyrst og fremst teknar frá sjávarútveginum. Það eru því engin undur, þó að sjávarútvegurinn standi höllum fæti í dag, vegna þess að það er hann, sem er fyrst og fremst látið blæða. Af hverri einustu síldartunnu t.d., sem seld er út úr landinu, er greitt beint til ríkissjóðs um 10% af verðmæti viðkomandi síldartunnu. Þannig er þetta á öllum sviðum. Þar við bætast svo okurvextir og allt sem því tilheyrir, vátryggingar o.s.frv. Sjálfsagt verður gróði annarra banka og peningastofnana í landinu mjög álitlegur, og það er svo sem ekki að furða, þó að menn óskapist yfir taprekstri hjá útgerðinni, þegar þannig er að farið.

Það er t.d. dálítið eftirtektarvert hér í Reykjavík, að aðalhúsin, sem byggð eru hér í Reykjavík, — hvaða hús haldið þið að það séu? Það eru bankar og aftur bankar, og það eru stórhýsi upp á 7 eða 8 hæðir fyrir tryggingar, og þannig mætti lengi telja. Það eru ekki íbúðarhús, sem er verið að byggja núna. Nei, nei, það er banki, sem er nýstofnaður, sem heitir Iðnaðarbanki, hann er að byggja allra stærsta stórhýsið hér við Lækjargötu. Hann hlýtur að hafa mikla peninga. En mér datt í hug, þegar ég gekk hér um bæinn um daginn og var að telja þessar miklu bankabyggingar, sagan af karlinum, sem keypti buddu fyrir alla sína aura. Það færi því betur, að bankarnir væru ekki að byggja fyrir alla sína peninga og ættu svo enga peninga til að lána út. Annað eins hefði nú getað skeð.

Það má segja, eins og þar stendur, að „á áklæðinu þekkjast þeir, sem á ferð eru“. Það væri hægt að benda á ótalmörg dæmi því til sönnunar, hvernig hin svokallaða viðreisn hefur orðið til þess að draga úr öllum framkvæmdum. T.d. eru fjölmörg iðnaðarfyrirtæki að draga saman seglin, og sum hafa þegar hætt starfsemi sinni, a.m.k. í bili. Mér er sagt t.d., að mörg trésmíðaverkstæði hér í Reykjavík séu búin að smíða svo stóran lager, að það pláss, sem þau höfðu, sé orðið alveg fullt, og að þau séu farin að leigja sér pláss úti í bæ, og sum þeirra eru þegar búin að loka. Og af hverju haldið þið, að þetta sé? Það kemur til af því, að kaupgeta almennings er búin, fólk getur ekki leyft sér það núna að kaupa sér stól í stofuna sína eða borð til að borða við. Nei, það verður bara að taka upp gamla lagið, eins og var þegar ég var að alast upp. Fyrst þegar ég kom til Reykjavíkur, var ástandið þannig, að verkafólkið hér í Reykjavík hafði bara tóman kassa fyrir borð og tjaldaði utan um með einhverjum dúk, og stóllinn þess, — hvað haldið þið, að það hafi verið? — það var líka kassi. Það er þetta ástand, sem er núna verið að vinna að því að koma á hér á Íslandi, því miður.

Ég gat þess áðan, að laun verkafólksins og annarra launþega hefðu þegar lækkað um 14% miðað við verðlag. Mitt álit er það, að lækkunin sé miklu meiri, tel mig hafa fært rök að því. Það eru ýmsar duldar leiðir, sem farnar eru til þess að rýra kaupgetuna. Svo eru margar vörur, sem koma ekki inn í vísitöluna, jafnve] þó að hún sé nú þannig upp byggð, að reynt sé að setja sem flest þar inn í, þ.e.a.s. ef það getur orðið til þess að lækka hana frá því, sem hún ætti að vera.

Nei, nú er svo komið, að það er alveg óhugsandi, það er tómt mál að tala um, að hið vinnandi fólk geti unað öllu lengur við núverandi ástand. Það getur enginn verkamaður, hvorki hér í Reykjavík né annars staðar, látið sér detta það í hug, og sízt af öllu ættu valdhafarnir að láta sér það til hugar koma, að fólk geti lifað við 4 þús. kr. mánaðarkaup, þegar svo þar við bætist, að það eru fjölmargir dagar í hverjum mánuði, sem falla úr, að maður ekki tali um alla helgidagana, sem vitanlega falla úr, þegar um tímakaupsákvæði er að ræða. Ég segi fyrir mig, ekki get ég lifað af 4 þús. kr. á mánuði. Ég býst við, að enginn þm. hér inni geti það.

Það er líka mjög eftirtektarvert, sem ég gat um hér áðan og reyndar allir vita, að kaupgjald vinnandi fólks á Íslandi er orðið langtum lægra en á Norðurlöndum. En þrátt fyrir það, þó að kaupið á Norðurlöndum sé þetta miklu hærra, eru þeir ekki alveg búnir að leggja hendur í skaut. Nei, flestöll verkalýðssambönd Norðurlanda eru í undirbúningi með stórfelldar kauphækkanir, og ekki nóg með það, þau eru að fara fram á styttri vinnutíma. Og halda menn svo virkilega, að íslenzkir verkamenn séu slíkir ættlerar, að þeir láti bjóða sér áfram þetta ástand? Nei, síður en svo. Hæstv. ríkisstj. getur huggað sig við það, að það verður ekki látið líða svona óendanlega. Það er þegar búið að sýna sig, hvað hæstv. ríkisstj. er að gera, og verkalýðurinn er seinþreyttur til átaka, en þegar hann fer af stað, þá heldur hann áfram. Því má hver gera sér fulla grein fyrir.

Já, íslenzkur verkalýður mun ekki una því ástandi, sem nú er. Hann mun fyrr en varir gera sínar kröfur og hefur þegar gert þær, um hækkuð laun, styttri vinnutíma og afnám tímavinnufyrirkomulagsins, þar sem því verður við komið. Þetta er alveg eins gott að hæstv. ríkisstj. viti. Það eru víst engir ráðherranna hérna við, en það skiptir ekki máli, það er hægt að koma þessu til hennar á annan veg, enda líka veit hún það sjálfsagt.

Ísland er svo gott land og býr yfir svo miklum möguleikum, að hér ættu allir að geta lifað ágætu lifi, ef rétt og skynsamlega væri haldið áfram. Að bjóða fólki upp á smánarlaun, að viðbættu atvinnuleysi, er hreinasti glæpur, sem engri ríkisstj. er samboðið. Íslenzkur verkalýður mun aldrei una við, að komið verði á atvinnuleysi. Fólk man allt of vel eftir atvinnuleysisárunum. Það man það, þegar það var að fara í hungurgöngur frá verkamannaskýlinu og upp til stjórnarherranna. Ég man þá tíma og reykvískur verkalýður man þá líka, og verkalýðurinn um allt land man það, og slíkt ástand mun ekki verða þolað til lengdar. Ef hér á eftir að myndast atvinnuleysi, er það fyrst og fremst að kenna rangri og vitlausri stjórnarstefnu. Það er staðreynd, að hér ættu allir að hafa nægjanlegt að bíta og brenna, nægilega vinnu og hana vel borgaða. En því miður er þessi óheillastefna núv. ríkisstj. þannig, að hún stefnir mjög öruggt að samdrætti á öllum sviðum atvinnulífsins. Á móti slíkri óheillaþróun verða allir góðir menn að berjast. Atvinnuleysið er einn allra mesti bölvaldur, sem getur komið fyrir í einu þjóðfélagi. Hugsum okkur fjölskylduföður með fullt hús af börnum. Hann fær hvergi atvinnu, hans bíður ekkert annað en hungur og alls konar eymd. Halda menn, að íslenzk verkalýðshreyfing láti bjóða sér slíkt ástand? Nei og aftur nei. Og alveg er sama að segja um kaupgjaldsbaráttuna. Hún verður hafin. Íslenzkur verkalýður, íslenzk alþýða unir ekki þessu ástandi, og fyrr en varir verða þeir ágætu menn, sem hafa komið þessu ástandi á, krafðir sagna, og það færi betur, að þeir sæju að sér og mættu kröfum verkalýðsins með fullum skilningi. Ekkert verkalýðsfélag og enginn meðlimur verkalýðshreyfingarinnar óskar eftir vinnustöðvun. En verkfallið og vinnustöðvunin er það eina vopn, sem verkalýðurinn hefur til að koma sínum kröfum fram, og fái hann þeim ekki framgengt á annan hátt, mun verkfallsvopninu verða beitt og það í fullri alvöru.