16.12.1960
Neðri deild: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (335)

134. mál, efnahagsmál

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. Það er út af atriðum, sem komu fram hér við 1. umr, í ræðu hæstv. sjútvmrh., sem ég kvaddi mér hljóðs.

Í fyrsta lagi var það, að ráðh. hafði kynnt sér yfirlýsingu þá, er hæstv. fjmrh. gaf hér um ákvörðun ríkisstj. viðvíkjandi greiðslu á tryggingagjöldum bátaútvegsins. Og hv. 2. þm. Vesturl. (SÁ) vitnaði um þetta mál líka.

Ég tók það fram í umr. um fjárlögin, en þá mun þessi hæstv. ráðh. ekki hafa verið við, að þær upplýsingar, sem ég hefði um þetta mál, væru frá ráðuneytisstjóranum í efnahagsmrn. Hann lýsti því yfir í fjvn. aðspurður, að ríkisstj. væri búin að taka að sér að sjá um greiðslur á tryggingagjöldunum, en ekki þar með, að það yrði greitt úr ríkissjóði. Ráðuneytisstjórinn upplýsti, að það mundi verða notaður sá afgangur, sem væri í útflutningssjóði, sem hann gerði þá ráð fyrir að væri um 60 millj. með því óinnheimta gjaldi af útflutningsvörunum, sem gert væri ráð fyrir að innheimtist. Um það, hvernig það, er á vantaði, yrði greitt, væri allt í óvissu, enda væri það líka í óvissu, hvað tryggingagjöldin í heild væru há. Ef ég hef farið þar rangt með, þá er það af því, að ráðuneytisstjórinn hefur misskilið þessa afstöðu hæstv. ríkisstj. og þess vegna er mín frásögn, ef röng er, á hans ábyrgð. Hins vegar hygg ég, að skýring í þessu máli sé nú að koma fram í ósk útvegsmanna, sem hæstv. ráðh. skýrði frá í kvöld.

Hæstv. ráðh. sagði svo í ræðu sinni, að það væri rétt, að verðlag hefði hækkað, vextir væru háir og lánsfjárkreppa væri. En ráðherrann taldi, að engin leið hefði verið til að leysa úr vandræðum efnahagsmálanna önnur en þessi. Í sambandi við það langar mig að spyrja þennan hæstv. ráðh. um þetta: Í fyrsta lagi: Fyrir kosningarnar í fyrrahaust, þegar hann var forsrh. og lýsti því yfir, að honum og hans ríkisstj. hefði tekizt að halda dýrtíðinni í skefjum árið 1959, þá bætti hann við, að kosningarnar væru örlagaríkar, vegna þess að þær skæru úr um það, hvort vandamál framtíðarinnar yrðu leyst með svipuðu hugarfari og á sama hátt og gert hefði verið 1959. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Átti hann við þær aðgerðir, sem núv. ríkisstj. hefur gert í efnahagsmálum, þegar hann talaði um „með svipuðu hugarfari og á sama hátt“ og hann lýsti yfir að gert hefði verið 1959? Í öðru lagi: Hæstv. ráðherra talaði um, að vinstri stjórnin hefði haft möguleika til þess að leysa efnahagsmálin haustið 1958, þar sem þeir Alþfl: menn hefðu lagt til, að málið yrði lagt fyrir Alþingi, þ.e. sú leið, sem helzt hafði verið rædd í ríkisstj. Telur hæstv. ráðh., að það hefði verið í samræmi við þá yfirlýsingu þeirrar ríkisstjórnar, sem var fyrsti liður í stefnuyfirlýsingu hennar, að hafa samráð við stéttarfélögin í landinu um lausn efnahagsmála? Hafði ríkisstj. rétt til þess eða var rétt gert af ríkisstj. að leysa efnahagsmálin með lagaboði, eftir að samstarfsgrundvöllurinn við stéttafélögin var brostinn? Ég endurtek: Hefði það verið rétt hjá vinstri stjórninni að leysa efnahagsmálin með lagaboði á Alþingi, eftir að þetta fyrsta atriði í stjórnarsáttmálanum var brostið?