16.12.1960
Neðri deild: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

134. mál, efnahagsmál

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér inn í þær umr., sem hér hafa farið fram, og mun því verða mjög stuttorður. Ég kem ekki heldur hingað til þess að gagnrýna ríkisstj. að þessu sinni, heldur til þess að lýsa mig samþykkan einu atriði, sem kom fram í ræðu hæstv. sjútvmrh. hér áðan. Hæstv. sjútvmrh. sagði, að það hefði komið í dag til ríkisstj. ósk frá Landssambandi ísl. útvegsmanna um það, að útflutningsgjaldinu yrði haldið áfram og að því er mér skildist notað til þess að greiða niður eitthvað af rekstrarkostnaði útgerðarinnar. Hæstv. ráðh. tók það fram sem sína skoðun, að mér skildist, að þetta væri óskylt mál því, sem hér lægi fyrir, og þess vegna teldi hann rangt að taka nokkur ákvæði á þessa leið upp í þetta frv. Um það er ég honum fullkomlega sammála. Það er allt annað það mál, sem hér liggur fyrir, og ósk útgerðarmanna um það, að útflutningsgjaldinu verði haldið áfram og notað til þess að borga niður rekstrarkostnað útgerðarinnar. Útflutningsgjaldið, sem hefur verið borgað á þessu ári, hefur verið greitt í öðru skyni, eins og kunnugt er, eða átti að vera til þess að borga gamlar skuldir útflutningssjóðs, sem hefðu orðið til jafnt vegna útvegsmanna og sjómanna eða vegna þess fiskverðs, sem til þeirra hafði verið borgað. Aftur á móti ef útflutningsgjaldið yrði lagt á núna sérstaklega og látið renna til útgerðarmanna einna, þá mundi í raun og veru þar vera ranglega tekið fé af sjómönnum.

Eitt hið versta, sem fylgdi því uppbótakerfi, sem horfið var frá hér á s.l. vetri, var það, að fiskverðið hafði verið tvenns konar, útgerðarmenn höfðu fengið annað fiskverð en sjómenn, og fiskverðið til sjómannanna hafði verið mun lægra. Því miður var þessum ágalla, sem var einn sá versti í sambandi við uppbótakerfið, ekki kippt í lag, þegar sú breyting var gerð á efnahagsmálunum, sem gerð var á s.l. vetri, og þetta tvenns konar fiskverð hefur þess vegna haldizt áfram á þessu ári.

Nú skilst mér, að það standi yfir samningar á milli útgerðarmanna og sjómanna um nýja kjarasamninga og að það sé í því sambandi lögð eðlileg áherzla á það af hálfu sjómanna, að það verði aðeins eitt fiskverð, að fiskverðið verði hið sama til útgerðarmanna og sjómanna, sem er fullkomlega eðlilegt.

Ef hins vegar væri nú horfið að því ráði að leggja á útflutningsgjald, sem rynni eingöngu til þess að borga niður rekstrarkostnað útgerðarinnar, þá mundi þar raunverulega ranglega vera tekið fé af sjómönnum, og það væri raunverulega verið að halda áfram tvenns konar fiskverði, hærra fiskverði til útgerðarinnar, en lægra fiskverði til sjómanna. Og útflutningsgjald gæti því aðeins verið réttlátt og gæti því aðeins átt nokkurn rétt á sér, að tekjunum, sem fengjust af því, yrði þá skipt á milli útgerðarmanna og sjómanna, t.d. í samræmi við hlutaskiptin, sem eru um það, hvað sjómenn eigi að fá af aflanum. Hitt væri fullkomlega ranglátt, að láta útflutningsgjald, sem legðist á allan útflutning, t.d. sjávarafurða, renna til útgerðarmanna einna. Ef réttlæti ætti að vera í þessum efnum, yrði gjaldið að skiptast á milli sjómanna og útgerðarmanna.

Ég vil þess vegna vænta þess og draga þá ályktun af því, sem hæstv. ráðh. sagði, að það væri allt annað mál, hvort það ætti að leggja á nýtt útflutningsgjald á næsta ári, og það mál, sem við værum að ræða hér, — að hann telji það ekki rétt að leggja á nýtt útflutningsgjald, a.m.k. ekki í því formi, að það rynni til útgerðarmanna einna, heldur yrði þá skipt eftir réttum hlutföllum milli útvegsmanna og sjómanna, ef að því ráði yrði horfið að hafa útflutningsgjald. En langsamlega eðlilegast og réttast væri þó hitt, að láta gjaldið alveg falla niður, eins og mér skilst að hafi verið markmið ríkisstj. fram að þessu.