16.12.1960
Neðri deild: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

134. mál, efnahagsmál

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég skal nú takmarka mína ræðu við það að svara aðeins þeim spurningum, sem til mín hefur verið beint.

Hv. 3. þm. Vesturl. (HS) spurði í fyrsta lagi, eða hann beindi til mín, óbeinlínis þó, að mér skildist, spurningu enn um, hvort loforð hefði verið gefið um greiðslu vátryggingariðgjaldanna. Eins og menn muna, var við 1. umr. málsins hér í þessari hv. d. því haldið mjög ákveðið fram; að ríkisstj. eða ég hefði gefið um það loforð, að öll vátryggingariðgjöld bátanna skyldu verða greidd.

Nú hef ég lýst því yfir fyrir mína parta, að þetta loforð hafi ég ekki gefið, og hér hafa borið vitni tveir hv. alþm., sem báðir sátu fund Landssambands ísl. útvegsmanna, um það, að þetta hafi svo verið, þetta loforð hafi ekki komið frá ríkisstj., og þeir staðfestu þar með algerlega það, sem ég hafði um þetta mál sagt. Hvað ráðuneytisstjórinn í efnahagsmrn. hefur sagt við hv. fjvn., þori ég náttúrlega ekkert að fullyrða um, því að um það veit ég ekki. En hitt veit ég með vissu, að ríkisstjórnarinnar meining var sú, að þessi greiðsla næði einungis til þess fjár, sem eftir yrði í útflutningssjóðnum, þegar hans skuldbindingar væru greiddar.

Þá spurði hv. þm. um loforð mín 1959 og taldi sig geta fullyrt, að ég hefði í ræðu — eða ræðum kannske, — haldið því fram, að sömu stefnu í efnahagsmálunum mundi verða haldið áfram eins og gert hefði verið. Ég hef ekki við þessu annað að segja en það sama, sem ég hef alltaf svarað, að þessari stefnu mundi stjórn Alþfl. halda fram, en vandi framtíðarinnar væri óleystur. Þessi ríkisstj., sem Alþfl. myndaði í árslok 1958, setti sér ekki hærra mark en það að freista þess að halda verðlagi og kaupi stöðugu, þangað til „óperasjónin“ færi fram, þangað til freistað yrði að leysa vandann, leysa kjarna málsins.

Þá spurði hv. þm. í þriðja lagi, hvort ég teldi það rétt, að vinstri stjórnin hefði haldið áfram störfum, þegar samstarfsgrundvöllurinn var brostinn, eins og hann orðaði það, og á hann þá sennilega við það, að vinstri stjórnin hafði gefið þá yfirlýsingu að starfa í nánu sambandi við verkalýðssamtökin og bændasamtökin í landinu, en verkalýðssamtökin höfðu haustið 1958 neitað forsrh. um frest á því að láta koma til framkvæmda vísitöluhækkunina, sem varð haustið 1958. Við töldum í Alþfl., að þó að þessi neitun hefði verið gefin af Alþýðusambandinu þá, hefði verið rétt, að ríkisstj. reyndi að starfa áfram til þess að finna lausn. Þennan vanda varð að leysa með einhverju móti, og Alþfl. taldi rétt, að stjórnin héldi áfram við að freista að leysa vandann á þeim grundvelli, sem finnanlegur væri. Vitanlega yrði þess freistað að ná sambandi við bæði verkalýðssamtökin og bændasamtökin um þær aðgerðir, sem gera þyrfti, en tækist það ekki, þá hefði þó tilraunin verið gerð, og okkur fannst ekki forsvaranlegt að gera ekki þessa tilraun. Þingflokkur Alþfl. skrifaði þá þáv. forsrh. bréf og lagði til, að þessi leið yrði reynd. Þetta tel ég rétt að komi fram í þessum umr., vegna þess að hér kom það fram í umr. fyrr, að það hefði raunverulega verið Alþfl., sem hefði rofið stjórnarsamstarfið. En það var nú síður en svo, því að hann var sá, sem lengst hékk í því að vilja halda því áfram.

Hv. 1. þm. Norðurl, v. var hálfhneykslaður yfir því, að ég hefði sagt, að þær tölur, sem nefndar hefðu verið í sambandi við útflutningssjóðinn, væru ekki frá ríkisstj. Ég held, að ég hafi ekki orðað þetta svona. Ég orðaði það víst þannig, að þessar tölur, sem komið hefðu fram um útflutningssjóðinn, væru ekki búnar til eða fundnar af ríkisstj. Hitt er náttúrlega rétt, að hún tók við þessum tölum frá stjórn útflutningssjóðs og skilaði þeim til réttra hlutaðeigenda, bæði hér og annars staðar, sem óskuðu eftir þeim. En það var ekki á valdi ríkisstj. sjálfrar að finna út þessar tölur, heldur stóð það náttúrlega næst stjórn útflutningssjóðs að gera það, og hún gerði það, og hún kom þessum tölum til ríkisstj. og svo ríkisstj. aftur áfram til þeirra, sem óskuðu eftir þeim.

Hv. þm. sagði líka, að þessi mismunur, sem nú væri á stöðu útflutningssjóðsins og þeirri áætlun, sem gerð var um þá hluti í árslok eða í nóvembermánuði árið 1959, bæri vott um svo hroðvirknisleg vinnubrögð, að óafsakanlegt væri. Ég bar hér fyrr í kvöld fram þá skýringu, sem er mjög nærtæk í þessu efni. Hún er sú, og hún hefur ekki verið vefengd, að mismunurinn á þessari stöðu sjóðsins kemur fyrst og fremst fram af því, að það færist sala á afurðum yfir skurðarpunktinn 15. febrúar og kemur á nýju gengi, en ekki með gamla genginu. Það verður til þess, að í staðinn fyrir að sjóðurinn gefi með þessum útflutningi, þá fær hann nú tekjur af honum.

Um spariféð og veltuinnlánin þarf ég ekki að ræða, því að það hefur hv. 5 þm. Reykv. gert, og það verður ekki af skafið, að veltuinnlán og sparlinnlán eru sitt hvað, sem má alls ekki blanda saman.