17.12.1960
Efri deild: 42. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

134. mál, efnahagsmál

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir til 1. umr. í þessari hv. d., er breyting á lögum um efnahagsmál, þeirri löggjöf, sem stefna hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum er grundvölluð á. Þetta frv. gefur því ástæðu til að ræða stjórnarstefnuna á víð og dreif og árangur hennar á þeim tíma, sem hún hefur verið framkvæmd. Ég mun þó ekki með þeim orðum, sem ég segi hér að þessu sinni, hefja umr. um málið á svo breiðum grundvelli. En þetta frv. snýr sérstaklega að útflutningssjóði og reikningsskilum hans, og er því sérstök ástæða til í sambandi við þetta frv. að fara nokkrum orðum um þann þátt málsins.

Útflutningssjóður hefur á undanförnum árum haft til ráðstöfunar mikið fjármagn. Starfsemi útflutningssjóðs og reikningsskil hans eru því allstór þáttur í þjóðarbúskapnum. Það ætti því að vera áhugamál allra þm., að um þann þátt þjóðarbúskaparins séu á hverjum tíma gefnar svo áreiðanlegar skýrslur og upplýsingar sem nokkur kostur er og að það yfirlit, sem fyrir liggur á hverjum tíma um þennan þátt fjármála, sé sem allra aðgengilegast og gleggst. En á undanförnum tveimur árum, síðan þeir flokkar, sem nú fara með stjórn landsins, tóku raunverulega við stjórnartaumum, hefur ýmislegt komið fram í þessu efni, sem mjög erfitt er að samræma og finna eðlilegt samhengi á milli, svo að ekki sé meira sagt. Til þess að finna þessum. orðum nokkurn stað, ætla ég að leyfa mér að benda á nokkur atriði í þessu sambandi.

Snemma á árinu 1959 er í grg. með frv. til breyt. á l. um útflutningssjóð, sem hæstv. núv. félmrh. og sjútvmrh. stóð að, gefnar svofelldar skýringar um hag og afkomu sjóðsins á árinu 1958, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjárhagsafkoma útflutningssjóðs hefur reynzt tiltölulega góð á árinu 1958. Er þetta að sjálfsögðu afleiðing þeirrar hækkunar yfirfærslu- og innflutningsgjalda, er framkvæmd var á því ári. Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum hefur hagur sjóðsins breytzt úr 34 millj. kr. skuld í árslok 1957 í 5 millj. kr. sjóðseign í árslok 1958.“

Þessa skýringu. á hag sjóðsins er að finna í grg. fyrir því frv., sem ég áður nefndi. Síðar á árinu 1959 er opinberlega látin í té grg. um stöðu útflutningssjóðs, sem segja má að fari í sömu átt og sagt var í ársbyrjun þá. Í útvarpsræðu, sem fyrrv. fjmrh., Guðmundur Í. Guðmundsson, flutti 20. okt. 1959, segir svo orðrétt, eins og greint er frá ræðunni í Alþýðublaðinu daginn eftir, 21. okt., með leyfi hæstv. forseta:

„Viðskipti ríkissjóðs við bankana hafa á þessu ári sízt sýnt þrengri afkomu ríkissjóðs en áður, svo að ekki sé meira sagt. Og afkoma útflutningssjóðs hefur aldrei verið betri. Á þessu ári hafa .eldri skuldir hans verið greiddar upp og staðið í skilum með niðurgreiðslur og uppbætur, sem til hafa fallið. Ríkissjóður hefur greitt útflutningssjóði framlög sín reglulega.“

Þegar þetta er sagt í útvarp 20. okt. 1959, þá áttu almennar kosningar til Alþingis . að fara fram eftir fáa daga, eins og kunnugt er. Svo leið n ákvæmlega einn mánuður. En á þeim tíma fóru að sönnu fram kosningar. og þm. fengu sín kjörbréf, og á þeim tíma var líka núv. hæstv. ríkisstj. mynduð. En að liðnum nákvæmlega einum mánuði, frá því að þessi yfirlýsing var gefin, sem ég greindi, þ.e. 20. nóv. 1959, gefur núv. hæstv. forsrh. á fundi hér í Reykjavík allt aðra lýsingu á stöðu, útflutningssjóðs en áður hafði verið gefin. Þá sagði núv. hæstv. forsrh. um þetta orðrétt, tekið eftir Morgunblaðinu 21. nóv. 1959:

„Þá rakti forsrh. aðstöðuna út á við og brá upp nokkrum óhugnanlegum myndum. En því næst skýrði hann afkomuhorfur ríkissjóðs og útflutningssjóðs á næsta ári og komst að þeirri niðurstöðu, að vanta mundi 250 millj. kr. á, að rekstur þeirra, að óbreyttum tekjustofnum, yrði hallalaus. Þar við bættist svo, að allir sjóðir atvinnulífsins væru tómir og alger skortur á fé til húsbygginga. Sýndi forsrh. fram á, að þjóðin hefði lifað um efni fram, og væri ,tæplega ofmælt, að hún riðaði nú á gjaldþrotsbarmi.“

Þegar þetta er mælt eftir þá skyndiúttekt, sem núv. forsrh. virðist hafa staðið fyrir að gerð, yrði við stjórnarskiptin í nóv. 1959, þá er brugðið upp þessar mynd.

Næst kemur svo grg. fyrir efnahagsmálatill. núv. hæstv. ríkisstj. í bókinni „Viðreisn“. Það er á bls. 10 í þessari bók látið í, ljós sama álit um afkomu útflutningssjóðs á árinu 1958 og fram hafði komið í grg.. fyrir breyt. á l. um sjóðinn á öndverðu ári 1959. Hér segir: „Í árslok 1958 taldi .stjórn sjóðsins, , að hagur hans væri um það bil 40 millj. kr. betri en í ársbyrjun, þ.e.a.s. ársbyrjun 1958. Svo er hér bætt við: „Fyrstu mánuði ársins 1959 versnaði hins vegar hagur sjóðsins mjög á nýjan leik.“ Annaðhvort er þetta ekki í samræmi við þá skýrslu, sem fyrrv. fjmrh. gaf í október það ár, eða búið hefur verið að jafna þann halla, sem skapaðist á fyrstu mánuðum ársins 1959, þegar sú grg. var flutt. En í þessari grg. fyrir efnahagsmálatillögunum segir miklu meira um stöðu útflutningssjóðs. Þar segir svo um horfur á fjárhag sjóðsins:

„Með vaxandi bótagreiðslum sjóðsins hafa ógreiddar kröfur vegna útflutningsins, sem gjaldeyri hefur þegar verið skilað fyrir, sífellt farið vaxandi. Ekki er hægt að segja um það með vissu, hversu miklar þessar skuldbindingar eru á hverjum tíma, en samkv. áætlun sjóðsstjórnarinnar námu þær um 270 millj. kr. í árslok 1959, og er varla hægt að gera ráð fyrir, að þær verði lægri þann dag,,sem lögin taka gildi“, þ.e.a.s. efnahagslögin.

Og í framhaldi af þessu, þar sem miðað er við 270 millj. kr. halla hjá útflutningssjóði, segir: „Ríkisstj. leggur til, að fjár verði aflað til þessara greiðslna á þann hátt, sem hér greinir: Í fyrsta lagi verði hið nýja gengi ekki látið gilda fyrir þær útflutningsafurðir, sem framleiddar voru fyrir 16. febr. 1960. Á þessar vörur verði greiddar bætur samkv. þeim reglum, sem í gildi voru, þegar afurðirnar voru framleiddar. Þetta er í, samræmi við þær venjur, sem fylgt hefur verið, þegar bætur hafa verið hækkaðar á undanförnum árum, og kemur í veg fyrir, að gengishagnaður sá, sem verður á birgðum útflutningsvöru, falli einstökum útflytjendum í skaut. Áætlað er, að mismunur bótagreiðslna og hins nýja gengis á þeim útflutningsbirgðum, sem til verða í landinu hinn 16. febr., muni nema um 150 millj. kr., og gert er ráð fyrir, að þessi upphæð gangi upp í þær skuldbindingar útflutningssjóðs, sem að framan greinir: Þessi upphæð mun þó ekki duga til að greiða skuldbindingar sjóðsins, og ef óhjákvæmilegt að afla meira fjár í þessu skyni, og er það tillaga ríkisstj., að það verði gert með því að leggja 5% skatt á allan útflutning. Er gert ráð fyrir, að þessi skattur gefi af sér um 120 millj. kr. á árinu 1960 og hann verði úr gildi felldur þegar eftir að skuldbindingar útflutningssjóðs hafa verið að fullu greiddar, nema því aðeins að ástæður hafi breytzt mjög verulega frá því, sem nú er.“

Hér er sem sé grundvallaratriði í útreikningunum, að halli sjóðsins sé 270 millj. og sá halli verði jafnaður, annars vegar með 150 millj. kr. gengismun og hins vegar með útflutningsskatti, sem gefi á árinu 1960 120 millj. kr. Og rökin fyrir því, að óhætt væri og jafnvel eðlilegt að lögfesta þennan 5% skatt á útflutninginn, eru þau, að með útreikningunum á hinu nýja gengi sé svo ríflega áætlað fyrir atvinnureksturinn, að hann muni vel geta staðizt það að greiða þennan skatt, bæði vegna þess, að atvinnureksturinn njóti hins gamla verðlags á rekstrarvörum sínum fyrst um sinn, og hitt sé þó þýðingarmeira atriði í þessum útreikningum, að nýja gengið sé við það miðað, að hægt sé að fyrna framleiðslutæki, sem keypt eru á hinu nýja gengi.

Ekki hafði þetta verið framkvæmt lengi, þegar í ljós kom, að útvegsmenn þeir, sem framleiðsluna höfðu á hendi eða önnuðust rekstur framleiðslutækjanna, töldu, að hér hefði verið veila í útreikningunum, því að í maímánuði s.l., þegar nýja gengið hafði staðið og efnahagsmálastefna ríkisstj. verið framkvæmd um þriggja mánaða skeið, þá er það eftir eindreginni ósk útgerðarmanna sjálfra, að hæstv. ríkisstj. fann sig knúða til að beita sér fyrir breytingum á efnahagslöggjöfinni, breytingum í þá átt, að 5% skatturinn yrði lækkaður í 21/2%. En þá er látið líta svo út af stjórnarliðinu, í sambandi við þá breytingu, að það sé svo sem ekki vegna skekkju í útreikningum eða áætlunum, að þessi skattur sé lækkaður, því að breyt. á prósentutölunni muni hafa það í för með sér, að það verði að lengja tímann að sama skapi, sem skatturinn verði innheimtur. Í nál. fjhn. Nd., sem gefið var út 24. maí s.l. og að stóðu nm. Sjálfstfl. og Alþfl., eru rök fyrir þessu færð fram með þessum orðum:

„Við undirritaðir teljum sanngjarnt að verða við óskum fiskkaupenda og fiskseljenda um að lækka útflutningsskattinn úr 5% í 21/2%, sem mun þó óhjákvæmilega hafa í för með sér hlutfallslega jafnlengingu tímans, sem skattheimta þessi verður að vara, til öflunar á þeirri heildarupphæð, sem nauðsynleg er til greiðslu á skuldbindingum útflutningssjóðs, og mælum við því með samþykkt frumvarpsins.“

Það er talið óhjákvæmilegt, að lækkunin á prósentunni hafi í för með sér hlutfallslega jafnlengingu tímans, sem skattheimta þessi verður að vara. En í nál. minni hl. fjhn. Nd., sem gefið er út um sama leyti, segir frá því, að fyrir fjhn. hafi þá legið ný áætlun frá stjórn útflutningssjóðs um hag sjóðsins og sú áætlun sýni, að nú er talið, að af útflutningsskattinum þurfi 65.5 millj. til að jafna halla útflutningssjóðsins, en ekki 120 millj., eins og áætlað var í febrúar í vetur.

Þrátt fyrir það, að það komi fram í áliti minni hl. fjhn. Nd. 28. maí í vor, að fyrir þeirri nefnd hafi þá legið ný áætlun og greinargerð um hag útflutningssjóðs, sem sýni, að það muni ekki þurfa 120 millj., heldur 65.5 millj. til að jafna halla sjóðsins, þá lætur stjórnarliðið lita svo út í einu nál. og grg. við meðferð málsins, að allt sé nákvæmlega útreiknað í hvítu bókinni, það verði bara að lengja tímann, sem innheimtan varir, ef prósentan er lækkuð. Og nú fyrir skömmu hefur verið útbýtt meðal þm. nál. fjhn. Nd. um frv. það, sem hér liggur fyrir. Þar kemur fram í áliti 1. minni hl. hið sama og ég hef rakið um þetta, því að í áliti minni hl. er minnt á þá áætlun, sem fjhn. Nd. fékk í maí s.l. og sýndi, að gengismunurinn var á þeim tíma ekki áætlaður 150 millj., heldur 227.5 millj. Í framhaldi af þessu segir svo í nál. 1. minni hl., með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar stjórnarfrv., sem hér liggur fyrir, var til umr. í fjhn., óskaði ég (þ.e. Skúli Guðmundsson) eftir nýjum upplýsingum um ástæður útflutningssjóðsins. Og nú barst n. ný áætlun um væntanlegar tekjur og gjöld útflutningssjóðsins, gerð um síðustu mánaðamót. Þar er niðurstaðan sú, að gert er ráð fyrir tekjuafgangi hjá sjóðnum um 60 millj. kr. Tekið er fram, að í áætluninni séu ekki taldar með væntanlegar tekjur af útflutningsskattinum hér eftir, það er 25–28 millj. kr. Tekjuafgangurinn ætti því að nema alls 85–88 millj. kr., og er það 40 millj. kr. hærri upphæð en talið er að allur útflutningsskatturinn muni verða. Sé byggt á þessum upplýsingum, hefði þannig orðið um 40 millj. kr. tekjuafgangur hjá útflutningssjóði, þó að enginn útflutningsskattur hefði verið á lagður til tekjuöflunar handa sjóðnum. En í febrúar s.l. sagði ríkisstj., að innheimta þyrfti 120 millj. kr. með útflutningsskatti til þess að jafna halla útflutningssjóðs, og fékk skattinn lögfestan. Ef tekið er mark á nýjustu skýrslum, sem borizt hafa, hefur álagning útflutningsskattsins verið byggð á röngum upplýsingum frá ríkisstj. um hag útflutningssjóðs.“

Þetta segir í áliti 1. minni hl. fjhn. Nd. um það frv., sem hér er til umr.

Ég vil bæta því við, að sú niðurstaða, sem hér er komizt að í sambandi við þá heildarfjárhæð, sem nú kann að vera til ráðstöfunar, virðist mér vera alveg í samræmi við það, sem fram kom hjá hæstv. ráðh. í ræðu hans hér áðan, þar sem hæstv. ráðh. minntist á 80–88 millj. kr.

Ég ætla, þó að ekki sé farið lengra út í þetta mál heldur en benda á þessi dæmi, þá sýni þau svo skýrt sem verða má hið furðulega ósamræmi, sem á s.l. tveim árum hefur komið fram í sambandi við grg. um hag útflutningssjóðs, þar sem í stað þess að í þeim útreikningum, sem lagðir eru til grundvallar efnahagslöggjöfinni í heild og sjálfri stjórnarstefnunni í efnahagsmálum, þar sem miðað er við halla um 120 millj., sem verði að ná, jafna með sérstakri skattheimtu, þá virðist það nú vera komið á daginn, að þeir útreikningar séu ekki nákvæmari en svo, að í stað þess að staða útflutningssjóðs hafi raunverulega reynzt með þeim halla, sem talið var, þá sé hér um tugmilljóna króna fjárhæð að ræða, sem nú megi verja til sérstakrar ráðstöfunar. Út af fyrir sig er það gott að hafa fé til ráðstöfunar. En þetta er aðeins glöggt dæmi, — eitt af mörgum, — sem sýnir, hvernig reikningslist sú reynist, sem sjálf stjórnarstefnan virðist vera grundvölluð á. Og ef við lítum bara á þennan eina þátt, sem ég geri hér að umtalsefni, þá sjáum við strax af þeim tölum, sem ég hef nefnt, þá reikningsskekkju, að gengismunur útflutningssjóðs reynist ekki 150 millj., heldur á þriðja hundrað millj., að útflutningsskattinn hefði ekki þurft að leggja á, og kollvarpar sú reynsla þeim rökum, sem fram voru flutt í bókinni „Viðreisn“. Við sjáum, að reynslan hefur orðið sú, að grundvöllur framleiðslunnar með hinu nýja gengi hefur ekki reynzt eins traustur og reikningarnir sýndu, og það var í raun og veru þegar sýnt með kröfu útgerðarmanna um lækkun á prósentunum úr 5% niður í 21/2%. Og til enn fyllri sönnunar því er það, að nú skuli þurfa að grípa til sérstakra ráðstafana til að greiða tryggingagjöld bátaflotans. En þar sem sérstaklega er tekið fram, að hið nýja gengi sé miðað við, að það sé hægt að standa straum af fyrningu nýju tækjanna, þá finnst mér liggja í augum uppi, að það hafi verið talið sjálfsagt, að atvinnurekendur stæðu sjálfir straum af tryggingagjöldum atvinnutækja sinna og að nýja gengið væri vitanlega við það miðað að skila atvinnurekendunum nægum fjármunum til þess. Þannig er svo að segja hvar sem litið er á þessa útreikninga. Hér segir enn fremur orðrétt: „Hitt vill ríkisstj. aftur á móti taka fram, að hún telur, að útflutningsatvinnuvegirnir að öðrum aðstæðum óbreyttum þurfi á hinu nýja gengi að halda óskertu eftir eitt eða tvö ár.“ Atvinnuvegirnir áttu í raun og veru ekki að þurfa á því að halda fyrr en eftir eitt til tvö ár. Svo væri allt ríflega reiknað að dómi ríkisstjórnarinnar. En ég hygg, að það hafi komið allt annað fram á landssambandsfundi útvegsmanna, sem haldinn var fyrir nokkru, og skal ég ekki fjölyrða frekar um þann þáttinn.

Með þessari ráðstöfun, sem lagt er til að gera í frv., að greiða tryggingagjöld bátaflotans af fé, sem þannig hefur safnazt í útflutningssjóð, er vitanlega á vissan hátt gripið til uppbótakerfis, sem lýst var yfir að ætti algerlega að falla niður með efnahagsmálalöggjöf, sem samþykkt var á síðasta þingi. En það, sem er eftirtektarverðast og raunar alvarlegast við þetta frv., er, að það minnir á hina miklu reikningsskekkju, sem öll stjórnarstefnan er byggð á, gagnvart atvinnuvegum landsmanna.