19.12.1960
Efri deild: 43. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

134. mál, efnahagsmál

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Lög um efnahagsmál voru samþ. á Alþ. 19. febr. 1960. Í 8. gr. þeirra var ákvæði um, að 5% skattur af allri útfluttri vöru skyldi lagður á. Skyldi andvirði þessa útflutningsskatts varið til greiðslu á halla útflutningssjóðs, eins og það heitir í lögunum. Með gengislækkuninni taldi hæstv. ríkisstj. hag útgerðarinnar svo vel borgið, að henni ætti að vera það vorkunnarlaust að greiða þennan 5% skatt um eins til tveggja ára skeið. Áætlað var, að skatturinn mundi gefa af sér um 120 millj. kr. á árinu 1960, og var sú upphæð ekki talin mega vera lægri, til þess að útflutningssjóður gæti staðið við skuldbindingar sínar. Þannig voru áætlanir hæstv. ríkisstj., eins og þær birtust í grg. lagafrv. snemma á árinu 1960.

Þrem mánuðum eftír samþykkt þessara laga birtist á Alþ. nýtt stjórnarfrv. Það fól í sér þá breyt. á 8. gr. l. um efnahagsmál, að útflutningsskatturinn skyldi lækkaður úr 5% niður í 21/2%. Var sú ástæða færð fyrir till. um þessa lækkun, að ósk hefði komið fram af hálfu fiskkaupenda og fiskseljenda um, að skatturinn yrði lækkaður um helming, en stæði að sama skapi lengur í gildi. Samkv. fyrri áætlun ríkisstj. átti hann, ef þessi lækkun yrði leyfð, þá að standa í 2–4 ár eftir því, hvernig áraði. Þetta frv. hlaut samþykki Alþ. 2. júní 1960.

En hvers vegna óskuðu fiskkaupendur og fiskseljendur eftir lækkun á útflutningsskattinum, og hvers vegna vildi hæstv. ríkisstj. verða við þessari ósk? Þeir töldu hag sínum sýnilega verr komið eftir efnahagsráðstafanir hæstv. ríkisstj. en fyrir, og það álit viðurkenndi hæstv. ríkisstj. með því að vilja verða við ósk útvegsmanna. Þess vegna vildi hún verða við óskinni, að hún sá sig nauðbeygða til þess. Áætlanir hennar og útreikningar í þessu efni féllu fyrir dómi reynslunnar þegar á fyrstu 2–3 mánuðum.

Það er vert að minnast þess, að þessi 5% skattur af útfluttri vöru var einn liðurinn í þeim breyt., sem hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir til varanlegrar viðreisnar í atvinnulífi landsmanna, svo sem komizt er að orði í grg. efnahagsmálafrv. Það átti að hverfa af þeirri óheillabraut að þurfa að gera árlegar breytingar á aðstöðu atvinnuveganna, og það átti að uppræta þá miklu óvissu, sem tíðar breytingar skapa, afköstum þjóðarbúsins til tjóns. Öllu þessu er fagurlega lýst með þeim orðum, sem ég hef viðhaft, og þessu heitið í nefndri grg.

Í desember 1960 er enn lagt fram stjórnarfrv., er snertir 8. gr. l. um efnahagsmál. Það er það frv., sem nú er hér til umr. Þar er lagt til, að ákvæðið um útflutningsskattinn skuli ekki gilda lengur en til ársloka 1960. Þar með eru á þessu eina ári, 1960, stjórnarfrumvörpin orðin þrjú, sem fjalla um þennan skatt. Fyrst er hann ákveðinn 5%, svo er hann lækkaður og loks er hann afnuminn. Allt gerist þetta á fyrsta ári viðreisnarinnar og tekur enda ekki heilt ár. Þannig fór um þessa ráðstöfun til varanlegrar viðreisnar í atvinnulífi landsmanna. Hér er breyting á aðstöðu atvinnuveganna ekki gerð einu sinni á ári, eins og í tíð fyrri ríkisstjórna, heldur þrisvar á sama ári.

Það er augljóst, að þessi hlekkur viðreisnarinnar, útflutningsskatturinn, brást þegar á fyrstu mánuðunum. Jafnvel hæstv. ríkisstj. neyddist til að viðurkenna það með lagafrv. sínu um lækkun hans snemma á árinu. Það var viðurkenning sannleikans í verki. Hins vegar streittist hún við að neita staðreyndinni í orði. Lækkunin jafngilti ekki eftirgjöf, því að útgerðarmenn yrðu látnir greiða skattinn lengur sem lækkuninni næmi. Þetta sagði hæstv. ríkisstj. í maí, en nú í desember ómerkir hún þau orð sín með frv. um algert afnám skattsins.

Það kom snemma í ljós, að viðreisnin var byggð á ótraustum grunni, og urðu margir til að benda á það þegar í upphafi, áður en reynslan hafði talað. Einkum hafði stjórnarandstaðan hér á þingi uppi mörg varnaðarorð um áform hæstv. ríkisstj., en á þau varnaðarorð var tæpast hlustað, hvað þá að eftir þeim væri farið. Síðan voru áformin framkvæmd, og þá lét reynslan ekki á sér standa að staðfesta haldleysi þeirra.

Flestar ráðstafanir hæstv. ríkisstj. til viðreisnar efnahagslífinu voru víssulega í samræmi við íhalds- og afturhaldsstefnu stjórnarflokkanna. En það var ekki nóg með það, svo illt sem það er í sjálfu sér. Við þetta bættist, að þær voru illa undirbúnar. Þær voru í mikilsverðum atriðum byggðar á hæpnum áætlunum og skökkum útreikningum. Þess vegna urðu áhrifin önnur en fyrirhugað var, og þess vegna verður að gera breytingar, ef komast á hjá hreinu öngþveiti. Útflutningsskatturinn og meðferð hans er glöggt dæmi þessa. Framleiðslan þoldi ekki það álag, sem skatturinn var, og það kom strax í ljós í byrjun ársins, án þess að til kæmi aflatregða þá. Hagur útflutningssjóðs um síðustu áramót var skakkt metinn og sömuleiðis þarfir hans á þessu ári. Sá útreikningur, að gengislækkunin gerði sjávarútveginum fært að greiða 5% útflutningsskatt, reyndist einnig rangur. Allt reyndist byggt annaðhvort á óvissu eða skekkju, og á slíku voru stoðir viðreisnarinnar reistar flestar hverjar. Útflutningssjóð vantar 120 millj. kr. á árinu 1960, var sagt í byrjun þessa árs. Til þess að ná því fé, þarf 5% skatt. Lækkun skattsins um helming hlaut samkv. þessu að leiða til aðeins 60 millj, kr. tekna á árinu. Í árslokin kemur svo loks í ljós, að þetta var ekki aðeins nægilegt, heldur á sjóðurinn afgang, er mun nema um 90 millj. kr. í dag. Svona haldgóðir reyndust þessir útreikningar, og því miður eru þeir ekki einsdæmi.

Það er nú orðið ljóst fyrir löngu, að gengislækkunin ásamt öðrum ráðstöfunum hæstv. ríkisstj. tryggir ekki hag útflutningsframleiðslunnar. Þvert á móti eru þær nú að koma henni á kaldan klaka. Viðreisnin reynist ekki varanlegri en þetta. Um næstu áramót verður óhjákvæmilegt að gera fjárfrekar breytingar sjávarútveginum til bjargar. Slíkt hefur að vísu þekkzt um mörg undanfarin áramót, en nú átti að hafa verið brotið blað í því efni. Þá tókst svona til; staða þessa atvinnuvegar aldrei lakari en nú og styrkjaþörfin aldrei meiri.

Þennan vanda, sem hæstv. ríkisstj. hefur komið sjávarútveginum í á þessu ári, er þjóðarnauðsyn að leysa. Þess vegna er sjálfsagt að afnema útflutningsskattinn og skila aftur því, sem hann gaf. En þetta er auðvitað ekki nóg, Fleiri breytingar verður að gera og er unnt að gera þessum mikilvægasta atvinnuvegi okkar til bjargar. Vaxtaokrið þarf að afnema, en það mun eiga einna drýgstan þátt í öllum ófarnaðinum, og enn fleiri ráð þurfa til að koma, ef vel á að fara um sjávarútveginn á næsta ári.

Viðreisnin hefur öll reynzt feigðarflan. Í sjávarútveginum blasir við tvöfaldur vandi. Það er ekki einasta, að leita verði ráða til að koma fiskiflotanum af stað eftir áramót, tryggja afkomu hans á næsta ári, eins og orðið hefur að gera árlega hingað til síðustu árin, heldur verður nú einnig að lyfta honum upp úr því feni, sem hann hefur sokkið í á þessu ári. Þannig er verkefnið á þessu sviði nú tvöfalt á við það, sem hefur verið, vandinn tvöfaldur, og er það táknrænt og einkennandi fyrir viðreisn hæstv. ríkisstj.

Áreiðanlega reynir hæstv. ríkisstj. eftir mætti að dylja þessar ófarir sínar í efnahagsmálunum. Hún mun leitast við að dulbúa þær ráðstafanir, sem hún nú neyðist til að gera til stuðnings sjávarútveginum, dulbúa það bótakerfi, sem hún nú neyðist til að koma á fót. Hún mun reyna að koma sökinni af sér og kenna aflaskorti og öðru óviðráðanlegu um. Slíkar afsakanir munu þó reynast henni haldlitlar, þegar fram í sækir. Viðreisnin svokallaða átti að koma atvinnulífi þjóðarinnar á traustan og heilbrigðan grundvöll að sögn forustumannanna. Hafi þeir meint þetta, hefur viðreisnin mistekizt herfilega. Hafi það hins vegar aðeins verið slagorð, eins og marga grunar, og tilgangurinn alltaf verið sá með viðreisninni að skapa samdrátt í framleiðslu og atvinnu og skerða lífskjörin, þá hefur hún heppnazt og það vonum fyrr.

Ýmsir eru þeirrar skoðunar, að hæstv. ríkisstj. muni lítt æðrast, þótt hún verði að kasta nokkrum hundruðum milljóna í bætur til sjávarútvegsins, til þess að hann fái skrimt enn um sinn, hitt sé henni meira kappsmál og verði, að lífskjaraskerðingin mistakist ekki. Í rauninni sé það upphaf og endir allrar hennar viðreisnarstefnu, að almenningur í þessu landi hafi ekki mikið milli handanna. Í fljótu bragði sýnist þessi skoðun á stefnu hæstv. ríkisstj. fjarstæðukennd. En við nánari athugun bendir þó ýmislegt til, að hún kunni að vera réttmæt. Fátækir launþegar og lítil eftirspurn eftir vinnuafli veikir samtök vinnustéttanna og gerir launastéttirnar auðveldari viðfangs.

Núv. hæstv. ríkisstj. hefur sýnt það greinilega, að hún lítur á launafólk í landinu sem sinn helzta og fremsta andstæðing. Kjör þess hefur hún skert stórkostlega og í verki síðan sýnt, að hún er þess albúin að verja þá skerðingu fram í rauðan dauðann. Þetta hefur hún þegar sýnt, m.a. með bráðabirgðalögum um bann gegn verkfalli.

Lág launakjör verkafólks í landinu geta á ýmsan hátt létt undir fjáröflun hæstv. ríkisstj. á erlendum vettvangi. Það er auðveldara að lokka erlent fjármagn inn í landið, ef hægt er að benda á, að hér séu verkalaun miklu lægri en annars staðar, að hér séu atvinnuleysingjar og að hér séu viðráðanleg launþegasamtök. Starfsfólkið í herstöðinni á Keflavíkurflugvelli græddi ekki á gengislækkuninni. Það stórtapaði á henni. Það voru hins vegar bandarískir atvinnurekendur þar, sem græddu álitlegar fúlgur á þeirri gengisbreytingu. Nú sækir hæstv. ríkisstj. um uppbætur fyrir þessa lækkun launanna í herstöðinni, ekki til þess að skila þeim í hendur verkafólksins, heldur til þess að ráðstafa þeim sjálf samkv. eigin pólitískum hagsmunum og stefnu. Þannig verður kjaraskerðingin á ýmsan hátt núv. valdhöfum til framdráttar, enda líklegt, að hún sé sá miðdepill, sem allt snýst um í starfi hæstv. ríkisstj.

Skattur að upphæð 5% átti að vera sú fórn, sem útgerðin færði á altari viðreisnarinnar. Sú fórn var þó aukaatriði og nánast til að sýnast, enda sjálfsagt að gefa hana eftir, ef nauðsyn krefði. Sama gildir um allt annað í viðreisninni. Það eru aukaatriði allt saman, nema það, sem viðheldur og eykur kjaraskerðingu launastéttanna í landinu. Við getum því vænzt þess, að hæstv. ríkisstj. muni lítt kippa sér upp við, þótt hver viðreisnarráðstöfunin fari út um þúfur af annarri, svo lengi sem unnt reynist að halda laununum niðri. Hún er skilningsgóð á, að útflutningurinn þolir ekki 5% skatt. Fyrir því telur hún ekki ástæðu til að loka augunum. En þegar kemur að þörfum launþegans, gegnir allt öðru máli. Þótt hagskýrslur birti, að fjögurra manna fjölskylda með 50 þús. kr. árstekjur þurfi 70 þús. kr. til brýnustu lífsnauðsynja, er ekki rokið upp til handa og fóta um að leiðrétta það ranglæti. Slík skulu kjörin vera, hvort sem þau eru lífvænleg eða ekki, því að ef kaupið hækkar, þá er viðreisnin rokin út í veður og vind, og hæstv. ríkisstj. ætlar að standa og falla með sinni ástkæru viðreisn.

Enn fer dýrtíðin vaxandi með mánuði hverjum, og að sama skapi fara lífskjörin Versnandi. Enn eru stjórnarvöld íhaldsins að beita sér fyrir hækkun verðlagsins. Nýlega var rafmagn t.d. hækkað um 15%, og fá rafmagnsnotendur að þreifa á þeirri hækkun bráðlega. Þannig er enn ekki séð fyrir endann á dýrtíðinni. Slíkt eru hæstv. ríkisstj. engin sorgartíðindi, og hún mun anda rólega, svo lengi sem kaup hækkar ekki. Það er þannig augljóst eða má vera augljóst hverjum sjáandi manni, að lífskjörin mega ekki batna í þessu landi. Alla viðleitni til þess skoðar hæstv. ríkisstj. sem hættulegt tilræði við sig. Þess vegna er sérhver tillaga, sem miðar að því að draga úr broddi dýrtíðar og kjaraskerðingar, felld umsvifalaust hér á þingi, eins og um skaðræði væri að ræða.

Á tæpu ári hefur þjóðinni lærzt að líta á viðreisn hæstv. ríkisstj. sem hreinustu plágu. Það hefur bitur reynsla kennt henni á ótrúlega skömmum tíma. Trúin á fögru loforðin um bætt lífskjör er farin veg allrar veraldar, en við blasir auðnin tóm. Hins vegar virðist hæstv. ríkisstj. ekki hafa orðið fyrir neinum vonbrigðum. Það bendir óneitanlega til þess, að hún hafi lagt annan skilning í orðið viðreisn en fólk almennt gerir. Er sú skýring sennileg, eins og ég hef þegar bent á. (Forseti: Má ég spyrja hv. þm., hvort hann á mikið eftir af ræðu sinni, hvort það væri rétt að fresta henni?) Ég get stytt mál mitt og lokið því á fáum mínútum.

Herra forseti. Um efni þessa frv. þarf ekki að deila. Að efni til er það leiðrétting á einu reikningsdæmi, sem hæstv. ríkisstj. og ráðunautar hennar höfðu reiknað með ótrúlega mörgum villum. Þær villur er nauðsynlegt að leiðrétta. En dæmin eru því miður fleiri, sem vitlaust eru reiknuð hjá þessari hæstv. stjórn. Skyldu t.d. ekki vera einhverjar skekkjur í því dæminu, sem fær þá útkomu, að launamenn muni endalaust þola þá svívirðilegustu kjaraskerðingu, sem um getur í heiminum síðustu áratugina? Ég efast stórlega um, að það dæmi hafi verið rétt reiknað hjá hæstv. ríkisstj., en tíminn einn mun þó leiða það í ljós.

Um leið og sú leiðrétting er rædd, sem felst í þessu frv., mun þess freistað til hins ýtrasta að fá aðrar leiðréttingar fram á lögunum um efnahagsmál. Fyrir því beitir stjórnarandstaðan sér eftir mætti. Er þá einkum lögð áherzla á að fá þau lagaákvæði afnumin, sem mestu tjóni hafa valdið atvinnulífi landsmanna á þessu ári, svo sem vaxtaokrið. Einnig er þess freistað að fá eitthvað dregið úr þeirri áþján, sem launafólk nú á við að búa. Úr vaxtaokrinu mun hæstv. ríkisstj. ef til vill eitthvað draga, þótt síðar verði. En hitt verður erfiðara verk, að fá hana til að bæta lífskjörin, enda mun þar komið við hennar aumasta blett. Hv. alþm, fá þar litlu um þokað og raunar ef til vill engu. Þar verður launafólkið sjálft að láta til sín taka, enda það eitt fært um að hafa í fullu tré við fjandsamlega ríkisstj., ef það er sameinað. Það er orðin full þörf á, að samtök launþeganna láti þessi mál til sín taka. Með degi hverjum eykst það tjón, sem viðreisnarplágan veldur. Það mun taka langan tíma að bæta úr því tjóni, sem hún hefur þegar gert, en lengri tíma tekur það þó, fái hún enn að geisa óhindruð fram á næsta ár. — Læt ég svo máli mínu lokið, herra forseti.