19.12.1960
Efri deild: 43. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

134. mál, efnahagsmál

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er aðeins út af þessari fyrirspurn hv. 4. þm. Vestf. Ég skal upplýsa það, að í hv. Nd. skýrði ég frá því, að sú ósk hefði borizt frá stjórn Landssambands íslenzkra útvegsmanna, að 21/2% gjaldinu yrði haldið áfram, en að ríkisstjórnin hefði talið, að það væri ekki rétt, hvað sem ofan á yrði um það að lokum, að tengja það við afgreiðslu efnahagsmálanna. Það yrði þá að taka upp sérstaklega síðar, ef við því yrði orðið, en um það hefur engin ákvörðun enn verið tekin. Það hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að endurskoða vátryggingarkerfi skipastólsins í heild, og hefur rétt nú nýlega, eða nánar tiltekið fyrir 2 dögum, borizt umsögn þeirra, sem það hafa gert, og ég tel víst, að það verði engin ákvörðun um þetta tekin, fyrr en það álit hefur verið athugað.