08.11.1960
Efri deild: 18. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

85. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. um Bjargráðasjóð Íslands fer í þá átt að breyta að nokkru þeim lögum um bjargráðasjóðinn, sem nú gilda.

Bjargráðasjóður Íslands var stofnaður með lögum frá 1913 og var til þess ætlaður að styrkja menn, er hallæri bæri að höndum, og til þess að koma í veg fyrir áhrif hallæris. Þessi sjóður var þá stofnaður með 25 aura gjaldi á hvern einasta mann í landinu, sem hreppssjóðir eða sveitarsjóðir inntu af hendi, og ríkissjóður greiddi svo jafnháa upphæð úr sínum sjóði, til þess að mynda sjóð, sem undir þessu stæði. Þessi sjóður var að vísu eitthvað notaður, en þó lítið, en 1932–1941 voru tekjurnar í hann úr ríkissjóði felldar niður, þannig að það orkaði raunar tvímælis, hvort hann væri þá til eða ekki. 1946 kom svo til orða að leggja hann formlega niður og að skipta upp eignum hans, sem þá voru um 2 millj. kr., en varð ekki úr. Það var þá talið réttara að halda þessum sjóði gangandi og láta hann vera til, ef til kæmi, að hann ætti einhverju verkefni að sinna.

1950 voru tekjurnar til bjargráðasjóðs hækkaðar úr 25 aurum á mann í 2 kr. á mann, og 1953 var sérstakur forstöðumaður skipaður til þess að annast daglegan rekstur sjóðsins. Í stjórn sjóðsins voru þá skipaðir ráðuneytisstjóri félmrn., fiskimálastjóri og formaður Búnaðarfélags Íslands. Við þetta ástand hefur verið búið til þessa dags.

Árið 1958 var flutt frv. af hv 1. þm. Norðurl. e. og hæstv. forseta þessarar d. um það, að tekjur sjóðsins yrðu auknar og þannig að sjóðnum búið, að hann væri betur fær til þess að sinna sínu hlutverki. Þetta frv. var að einhverju leyti eða ég vil segja að verulegu leyti fram komið vegna frumkvæðis Sambands ísl. sveitarfélaga og Stéttarsambands bænda, sem óskuðu eftir því, að sjóðurinn yrði gerður öflugri en hann hefði verið að undanförnu. Í þessu frv. þeirra var lagt til, að 2 kr. gjaldið yrði hækkað í 5 kr., að breyting yrði gerð á stjórn sjóðsins og í þriðja lagi, að heimild yrði veitt til þess að lána úr sjóðnum sveitarfélögum, sem á því kynnu að þurfa að halda, og eitthvað fleira var af nýmælum í því frv., en það náði þá ekki fram að ganga.

Sjóðurinn á nú í skuldlausri eign 20 millj. og 300 þús. kr., sem að verulegu leyti er orðið til — auk framlags sveitarfélaganna og ríkissjóðs — á þann hátt, að ríkissjóður hefur afhent bjargráðasjóðnum skuldabréf, sem urðu til, þegar nokkur hallærislán voru veitt 1955 vegna óþurrka á Suðvesturlandi og vegna harðinda og óþurrka á Norðausturlandi 1949–50. Þessi skuldabréf voru að upphæð rúmar 13 millj. kr. og hafa aukið eign sjóðsins mjög verulega, samanborið við það, sem hann átti áður, og hafa gert honum mögulegt að starfa meir og betur í samræmi við sitt upprunalega hlutverk en hann hafði möguleika til með framlögum sveitarfélaganna og framlögum ríkissjóðs einum. Eignaafhending þessi, afhending skuldabréfanna, var þó að vísu skilyrði bundin um það, að taka ætti tillit til möguleika þeirra, sem skuldabréfin höfðu undirskrifað og gefið út, um það, að þeir væru færir um að greiða þessi lán, og er því vísast, að eitthvað af þessu fé komi ekki til skila, eins og upphaflega hafði verið gert ráð fyrir. En eins og sjóðurinn stendur í dag, er sem sagt sjóðseign hans þessi.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir nú, fer í mjög svipaða átt og frv. þeirra tveggja hv. þm., sem ég nefndi hér og flutt var é þinginu 1958–59. Aðalbreytingarnar frá núgildandi lögum eru þær, að framlag sveitarfélaga skuli miðast við 5 kr. gjald af hverjum íbúa sveitarfélagsins og að ríkissjóðsframlagið verði einnig miðað við sömu upphæð. Þá er einnig gert ráð fyrir því, að nokkur breyting verði á stjórn sjóðsins, þannig að fulltrúi frá sveitarfélagasambandinu fái þar aðild að, og er það einnig í samræmi við það, sem var í frv. þeirra tveggja hv. þm., sem ég minntist á áðan. Þá er loks í frv. nú heimild til þess að lána sveitarfélögum úr sjóðnum, ef talin er ástæða til þess og möguleiki, að sjóðurinn hafi ráð á því og geti gert það, án þess að skertir verði möguleikarnir til þess, að hann sinni sínu upprunalega hlutverki. Ef miðað er við lögin frá 1950 um ráðningu framkvæmdastjóra, þá er lítils háttar breyting þar á gerð, þannig að gert er nú ráð fyrir í frv., að framkvæmdastjóri sjóðsins verði ráðinn af sjóðsstjórninni, en ráðh. þurfi þar ekki að að koma.

Ég held, að þetta frv. um breytingu á bjargráðasjóðnum sé til bóta og að sjóðurinn verði betur fær eftir en áður til þess að sinna sínu hlutverki, ef það verður samþykkt; sérstaklega vegna þess að framlagið til hans bæði úr sveitarsjóðunum og úr ríkissjóði hækkar samkv. frv. úr 2 kr. í 5 kr. sem viðmiðunartölu, og er það nokkuð í samræmi við breytt verðgildi peninganna, alveg eins og frv. frá 1950 breytti þessari tölu úr 25 aurum í 2 kr. árið 1950.

Ég vil leyfa mér að vona, að þetta frv. verði samþ. í þessari hv. d. og að sjóðurinn megi þannig fá möguleika til þess að eflast og dafna og sinna sínu hlutverki, sem honum hefur verið ætlað, betur en áður, ef þetta verður samþykkt.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og félmn. að þessari umræðu lokinni.