02.12.1960
Efri deild: 31. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

85. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Mér finnst, eins og ég áðan tók fram, mjög eðlilegt og æskilegt, að stjórnendur þessa sjóðs verði 5 eða 3, þannig að standi á stöku. Mér finnst það langtum lýðræðislegra, að mál séu afgreidd þar með meirihlutavaldi. En það verður ekki gert ævinlega, þegar um jafna tölu er að ræða. Tveir hv. þm. hafa mótmælt þeim tillögum, sem fram eru bornar um þetta efni. Ég get sagt fyrir mitt leyti, að ég gæti stutt hvora þessa till. sem er. Mér finnst það í sjálfu sér engin rök í málinu, að stjórn sjóðsins sé algerlega andvíg þeim tillögum, sem hér hefur borið á góma. Það kemur hv. þd. hreint ekkert við, hvað stjórn sjóðsins álítur um þetta. Það er hlutverk hv. þdm. að taka ákvörðun um slíkt og ekki hæfllegt að bera það fram sem nokkur rök í málinu, að stjórn sjóðsins sé andvíg því. Þar að baki geta legið heiðarleg og gild rök, að stjórnin er á móti þessu, en það getur líka hugsazt, að þar væri um einhvern klíkuskap að ræða, sem væri ekki vert að taka tillit til.

Hv. 5. landsk. þm. hafði orð á því, að til væru ráð og nefndir, þar sem væru aðeins fjórir menn. Þetta er alveg rétt. En stundum er það svo að segja gert af nauðung, að segja má. T.d. þegar rétt þykir, að allir stjórnmálaflokkar á þingi, fjórir að tölu, eigi fulltrúa í viðkomandi ráðum, þá er það stundum gert af þeirri ástæðu. Það má um það deila. hvort þungvægara sé að taka til greina þá kosti, sem því fylgja, að oddatala sé notuð, eða hitt, að taka tillit til, að hver einstakur flokkur eigi fulltrúa í viðkomandi ráðum. Þetta er svolítið annað mál en það, sem er hér um að ræða. Eins og ég tók fram áðan, finnst mér það mjög eðlilegt og æskilegt, að launþegasamtökin eigi þarna fulltrúa. Ég valdi Alþýðusamband Íslands eingöngu af því, að það eru langfjölmennustu verkalýðssamtökin hér á landi og ekki unnt að ætlast til þess, að fleiri en ein samtök launþega eigi þarna aðild að. Eins og ég sagði áðan, þá tel ég það alls ekki óeðlilegt á neinn hátt, að þessi samtök eigi fulltrúa í þessari stjórn, og má geta þess, eins og ég raunar minntist á, að atvinnuskort getur auðveldlega leitt af hallæri og því ekki nema heppilegt, að fulltrúi sé í þessari stjórn frá launþegasamtökunum.

Hv. 9. landsk. þm. var að tala um það hér, að það hefði komið í ljós fyrir hálfum mánuði, að Alþýðusamband Íslands væri lokaður félagsskapur. Hann talaði um, að það skipti miklu máli, hvort félagsskapurinn væri opinn eða lokaður, nú hefði það komið í ljós, að Alþýðusamband Íslands væri lokaður félagsskapur. Ég undrast mjög þessi orð hv. þm. Mér skilst á honum, að vegna þess að hann nú telur þessi samtök lokuð, þá vilji hann af þeirri ástæðu ekki greiða því atkv., að forseti Alþýðusambandsins eigi sæti sem fulltrúi í sjóðsstjórninni. Hvort það ber að líta á þessa yfirlýsingu hv. þm. sem refsiaðgerð af hans hálfu á hendur Alþýðusambandinu eða hefndarráðstöfun, veit ég ekki, en a.m.k. finnast mér þessi orð hins ágæta hv. þm. mjög óviðfelldin, ómakleg og fjarstæðukennd