22.11.1960
Efri deild: 26. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

112. mál, ríkisreikningurinn 1959

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er um samþykkt á ríkisreikningnum fyrir árið 1959. Efni reikningsins og niðurstöðutölur mun ég ekki rekja hér, þar sem ég gerði nýlega í fjárlagaræðunni við 1. umr. fjárlaga allýtarlega grein fyrir afkomu ríkissjóðs á þessu ári, bæði rekstrarafkomu, eignahreyfingum og greiðslujöfnuði.

Ég hef áður gert grein fyrir því í umr. á Alþ., að brýna nauðsyn bæri til þess að breyta afgreiðslu ríkisreikninga á þá lund að hraða henni meir en verið hefur. Það hefur tíðkazt hér, að ríkisreikningur hefur ekki verið afgreiddur á Alþingi eða afgreiðslulög um samþykkt á honum fyrr en á öðru, þriðja eða jafnvel fjórða ári, eftir að reikningsárinu lauk. Ég hef látið taka saman, hvernig háttað hefur verið samþykkt á ríkisreikningum, hinum síðustu 30, eða ríkisreikningunum fyrir árin 1928–1957. Þá kemur í ljós, að 4 þeirra hafa verið afgreiddir á Alþingi á öðru ári eftir reikningslok, 19 þeirra afgreiddir á þriðja ári á eftir og 7 þeirra ekki verið afgreiddir fyrr en á fjórða ári, eftir að reikningsárinu lauk.

Nú liggur hér fyrir frv. um samþykkt á ríkisreikningnum fyrir 1959, og mun það vera í fyrsta sinn, sem fram er lagt á Alþ. frv. til samþykktar á ríkisreikningi á fyrsta ári eftir reikningsárið. Ég vænti þess, að framhald geti orðið á því og sú fastaregla komist á, að ríkisreikningur verði lagður fyrir Alþingi og lögfestur þegar á fyrsta ári eftir reikningsárið.

Ég vil svo leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn., og vil bera fram þau tilmæli, að n. afgreiði málið sem fyrst frá sér, þannig að unnt verði að afgreiða frv. sem lög frá Alþingi nú á þessu ári.