17.12.1960
Efri deild: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

112. mál, ríkisreikningurinn 1959

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem nál. á þskj. 237 ber með sér, eru aðeins 3 nefndarmanna fjhn., sem undir það rita. Ég skal geta þess hér, sem vafalaust mun koma fram frá þeirra hendi, að efnislega varð ekki ágreiningur um það, að eðlilegt væri að afgreiða ríkisreikninginn, en hins vegar voru tveir hv. nm. ekki alls kostar ásáttir um orðalag á nefndaráliti þessu og hafa því ekki kosið að undirrita það, eins og það liggur hér fyrir. Mun vafalaust koma fram frá þeirra hendi, hvaða orsakir liggja því til grundvallar.

Þessi ríkisreikningur er óvenjulega snemma á ferðinni, og það hefur aldrei komið fyrir áður, að ríkisreikningur hafi verið lagður fyrir Alþingi til samþykktar svo skömmu eftir lok þess fjárhagsárs, sem ríkisreikningurinn gildir fyrir. Þetta eru óneitanlega miklar framfarir, vegna þess að sannleikurinn er sá, eins og hv. þm. áreiðanlega eru sammála um, að það hefur verið næsta fánýtt að vera að meðhöndla ríkisreikning, kannske mörgum árum eftir að viðkomandi fjárhagsári er lokið, og það því nánast verið sögulegt plagg, sem litla þýðingu hefur að öðru leyti haft. Það er hins vegar ljóst, að það horfir nokkuð öðruvísi við að fá ríkisreikning fyrir tímabil, sem enn er öllum í fersku minni. Það má því gera ráð fyrir, að menn athugi slíkan reikning af meiri gaumgæfni, og því líkur til einmitt, ef slíkum hætti er á komið, að það verði til aukins aðhalds fyrir ríkisstj., og að þessu leyti ætti það að vera mjög mikið áhugamál Alþingis, að þessari reglu verði haldið.

Það kemur hins vegar í ljós í athugasemdum yfirskoðunarmanna þessa ríkisreiknings, sem raunar mátti við búast, að þessi breyting, þessi aukni hraði á samningu ríkisreiknings veldur því, að allmikið er enn eftir af hinni umboðslegu endurskoðun reikninga fyrir þetta ár. Í upplýsingum yfirskoðunarmanna er þess getið, að skv. grg, frá ríkisendurskoðuninni, sem þeir hafi fengið, er þeir undirrituðu reikninginn um miðjan októbermánuð, hafi verið lokið endurskoðun reikninga fyrir árið 1959 frá 15 stofnunum, en hins vegar hafi verið ólokið reikningum 42 stofnana. Það gefur auga leið og gefur því ekki sérstaka ástæðu til aðfinnslu um störf ríkisendurskoðunarinnar, að það hafi verið henni litt mögulegt, eða raunar ógerlegt að ljúka endurskoðun reikninga allra stofnana fyrir árið 1959. Það var svo hér fyrir nokkrum árum, að ríkisendurskoðunin var mjög langt á eftir með sína endurskoðun, og það er því ekkert nýtt, að ríkisreikningar séu lagðir fyrir Alþingi, án þess að hinni umboðslegu endurskoðun sé lokið, þó að það sé að sjálfsögðu svo nú, að þar vantar miklum mun meira á en hefur verið undanfarin ár, af þeirri augljósu ástæðu, hversu reikningurinn er nú snemma lagður fram. Starf endurskoðunarinnar hefur hins vegar á undanförnum árum þokazt mjög í þá átt, að henni sé lokið, þegar ríkisreikningur er lagður fram, og það er að sjálfsögðu nauðsynlegt, ef á að hafa þennan hátt á framvegis, sem víssulega er til fyrirmyndar og eftirbreytni, að reyna að stuðla að því, að endurskoðun reikninga geti að mestu leyti verið lokið. Það er ekki um að sakast, þó að eitthvað sé þar eftir, en því þyrfti þó að vera þannig háttað, að umboðslegu endurskoðuninni væri að mestum hluta lokið. Þetta hefði ekki verið auðið nú nema bæta mjög við starfskrafta endurskoðunarinnar og raunverulega naumast, enda þótt slíkt hefði verið gert, og er því ekki ástæða til þess að finna sérstaklega að því. Á það er hins vegar bent, og ég veit, að nefndin er öll sammála um, að það sé mjög æskilegt að leggja á það áherzlu í framtíðinni, að hinni umboðslegu endurskoðun verði hraðað svo, að henni geti að mestu verið lokið, þegar ríkisreikningur er fram lagður.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um ríkisreikninginn. Engum athugasemda endurskoðenda nú, að undanskilinni þessari, sem ég vék að, varðandi það, að hinni umboðslegu endurskoðun væri ekki lokið, hefur verið vísað til Alþingis til aðgerða. Að vísu er um aðra athugasemd þannig ástatt, en gefur ekki sérstaklega tilefni til aðgerða í þessu efni. Mér sýnist, að Alþingi geti ekki annað varðandi þessa athugasemd gert en beina því til ríkisstj., að það verði reynt að haga þessum vinnubrögðum svo, að hin umboðslega endurskoðun sé við það miðuð, hvað nú er gert ráð fyrir að hraða afgreiðslu ríkisreiknings. Hins vegar er naumast annað hægt en hafa þó þann fyrirvara varðandi samþykkt reikningsins nú, sem meiri hluti nefndarinnar leggur til að verði samþ., eins og hann liggur fyrir, en þó með þeim fyrirvara, að það kunni að verða einhverjar breytingar á einstökum liðum að hinni umboðslegu endurskoðun lokinni. En slíkar breytingar ættu naumast að vera þess eðlis eða það veigamiklar, að þær geti haft nokkra þýðingu varðandi heildarniðurstöðu reikningsins.