09.02.1961
Neðri deild: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

112. mál, ríkisreikningurinn 1959

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. v. (JPálm), sem er yfirskoðunarmaður ríkisreikninga, flutti ræðu um þetta mál, seinast þegar það var hér á dagskrá. Hann nefndi m.a. í ræðu sinni ríkisstj., sem sat hér 1959 og hann studdi, og hann komst svo að orði, að þessi stjórn hefði verið að fleyta þrotabúi. Ég verð nú að segja það, að ég hef aldrei heyrt slíka öfugmælavísu fyrr frá hv. þm. Það er alkunnugt, að sú stjórn tók við verulegum greiðsluafgangi frá þeirri stjórn, sem áður var, og notaði hann til að fleyta sér yfir árið 1959.

Hv. þm. nefndi það einnig í ræðu sinni, eins og hann hefur gert stundum áður, að tekjur og gjöld útflutningssjóðs hefði átt að telja með tekjum og gjöldum ríkissjóðs. Þetta hefur vitanlega ekki við nein rök að styðjast og allir útreikningar og talnalestur hans í sambandi við það því alveg út í hött. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta, vegna þess að ég tel mjög vafasamt, að það sé nokkur hv. þdm. annar, sem lítur eins á þetta mál. A.m.k. er það kunnugt, að núv. hæstv. ríkisstj., sem hann styður, og einnig fyrrv. hæstv. ríkisstj., sem hann studdi sömuleiðis, líta allt öðruvísi á þetta. Um það vitnar ríkisreikningurinn, sem hér liggur fyrir.

Annars þótti mér gott að heyra það í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. v., yfirskoðunarmannsins, að mér virtist hann vera mér sammála um, að það væri ekki það lag á þessum hlutum með endurskoðunina sem þyrfti að vera, tölulega endurskoðunin væri langt á eftir, og hann sagði, að það hefði verið skoðun yfirskoðunarmanna, að tölulegri endurskoðun ætti að vera lokið, þegar reikningurinn væri afgreiddur. Það kom þarna fram, að hann er mér alveg sammála um þetta, og ég vænti þess, því að hann er endurskoðandi áfram, að hann og félagar hans vinni þannig að þessu, eins og vera ber, að þeir leggi ekki ríkisreikning fyrir Alþ., fyrr en endurskoðun hans er lokið. Það eiga þeir vitanlega ekki að gera, og hæstv. fjmrh. hefur ekkert yfir þeim að segja, hinum þingkjörnu endurskoðendum, þeir eru kosnir af Alþingi og eru þess starfsmenn, en ekki ráðuneytisins.

Hæstv. fjmrh. flutti hér ræðu áðan, og var þá útsynningur í deildinni, alveg eins og úti. Hann sagði, að við í minni hl. fjhn. hefðum tafið afgreiðslu ríkisreikningsins fyrir áramótin. Reikningurinn var ekki afgr. þá vitanlega fyrir það, að það var alls ekki tímabært að afgreiða hann og ekki hægt, málið var þannig undirbúið af hálfu fjmrn., að það var ekki sæmilegt að afgreiða reikninginn, og það er ekki heldur enn.

Hæstv. ráðh. fór að rekja gang reikningsfærslunnar og endurskoðunar í ráðuneytinu og sagði í fyrsta lagi, í öðru lagi o. s. frv. og taldi upp átta atriði, en honum yfirsást þarna hrapallega, því að hann sleppti úr einum þýðingarmiklum lið, sem hann átti þó ekki að gleyma.

Hann nefndi aldrei endurskoðunardeildina í fjmrn., sem hefur miklu hlutverki þarna að gegna samkvæmt landslögum og ber skylda til að endurskoða reikninginn og skila endurskoðunarskýrslu til hinna þingkjörnu endurskoðunarmanna, til þess að þeir geti látið sína umsögn um reikninginn í té til Alþingis. Hann sleppti þessu alveg. En hann er einmitt sjálfur húsbóndi yfir þessari endurskoðunardeild, hún heyrir undir hans ráðuneyti. Hann segir, að það hafi óhæfilega langur tími liðið frá lokum reikningsárs að undanförnu til endanlegrar afgreiðslu ríkisreiknings á Alþ. Það hefur orðið dráttur á afgreiðslu reikningsins, og það er einmitt vegna þess, að það hefur verið beðið eftir því, að endurskoðun reikninganna væri lokið, og það hefur staðið fyrst og fremst á endurskoðuninni í fjmrn. Það hefur ekki staðið á því að gera upp ríkisreikninginn í ríkisbókhaldinu.

Eins og ég hef áður gert grein fyrir og öllum er kunnugt, hefur það verið þannig um mörg ár, að á hverju fjárlagaþingi höfum við fengið ríkisreikning síðasta árs í hendur til þess að hafa hann til hliðsjónar við undirbúning fjárlagaafgreiðslu og annarra fjármála. Þetta er öllum kunnugt. Það hefur ekki staðið á því. En það, sem hefur valdið drættinum á því, að ríkisreikningurinn væri endanlega afgr. á þingi, er endurskoðunin, hún hefur verið langt á eftir. Það er því alveg út í hött, þegar hæstv. ráðh. var að tala um, að þingmenn þurfi við undirbúning fjárlaga að hafa reikning síðasta árs til hliðsjónar. Þetta hafa þeir haft um fjölda undanfarinna ára á hverju fjárlagaþingi. Svo spyr hann: Hver hefur orðið árangur af viðleitni núv. ríkisstj. til þess að flýta þessu? Árangurinn er ekki enn meiri en það, að endurskoðuninni er enn ólokið. Ég er ekkert að ásaka þá sérstaklega fyrir það. Það hefði sjálfsagt kostað aukin útgjöld, aukinn mannafla í endurskoðunardeild fjmrn., ef þessu hefði verið flýtt svo, að endurskoðun reikningsins fyrir 1959 væri nú að fullu lokið.

Það hefði vitanlega ekki verið nokkur vandi að afgr. ríkisreikning fyrr á undanförnum árum en gert hefur verið, ef það hefði þótt rétt að afgr. óendurskoðaða reikninga. Þá hefði verið hægt á hverju einasta þingi að samþ. hér ríkisreikning fyrir næstliðið ár. Þetta hefur bara ekki verið gert.

Hæstv. ráðh. segir, að það sé einsdæmi að leggja til, að reikningi sé vísað frá. Það er áreiðanlega einsdæmi, að ríkisreikningur sé lagður fyrir Alþ. að svo miklu leyti óendurskoðaður eins og þessi núna. Hann talar um endurskoðun eftír á í fjmrn. Ég veit ekki betur en sú endurskoðun, sem allir hinir þingkjörnu yfirskoðunarmenn framkvæma, sé líka eftir á.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það hefði aldrei komið fyrir, að ríkisendurskoðun hafi verið búin að ljúka endurskoðun, þegar reikningur var afgr. á Alþ. Þetta fær alls ekki staðizt, og ég sé ekki ástæðu til að eyða tíma í að endurtaka það, sem ég sagði í minni framsöguræðu. Ég rakti þar gang mála síðasta áratuginn. Ég minnist þess, að á árunum um og fyrir 1950, þeim árum, þegar flokksbræður hæstv. núv. fjmrh. fóru með yfirstjórn fjármálanna, þá var oft rætt um þetta á Alþ. hvað endurskoðunin væri langt á eftir, og ég get búizt við því, að á þeim árum hafi menn samþykkt hér ríkisreikning, þó að endurskoðun hafi ekki verið að fullu lokið. En þó að slíkt hafi komið fyrir, þá er það sízt til fyrirmyndar. Siðan var þessu að verulegu leyti kippt í lag, og eins og ég gat um í minni framsöguræðu, þá er það svo um ríkisreikningana fyrir 1951, fyrir 1953, 1954, 1955 og 1956, að þá er engin athugasemd við reikningana frá yfirskoðunarmönnum hinum þingkjörnu um það, að ólokið sé hinni tölulegu endurskoðun í fjmrn., — engin athugasemd um það. Og það er algerlega rangt, sem hæstv. ráðh. heldur fram, að þessir reikningar hafi verið afgr. án þess, að endurskoðun væri lokið. Að minnsta kosti hefur alþm. þá ekki verið kunnugt um það. Ég geri fastlega ráð fyrir því, að hinir þingkjörnu yfirskoðunarmenn hafi gætt svo skyldu sinnar, að þeir hefðu látið þess getið, þegar þeir afgr. reikningana til Alþingis, ef hinni umboðslegu endurskoðun hefði þá verið ólokið. Ég er ekki í vafa, að þeir hefðu gert það. Þessi fullyrðing hæstv. ráðh. fær því alls ekki staðizt, frekar en margt annað af því, sem hann var hér með áðan. Drátturinn, sem orðið hefur, er einmitt vegna þess, að það hefur verið beðið eftir því, að endurskoðun væri lokið, og það er það, sem á að gera. Hitt er sjálfsagt, að reyna að flýta endurskoðuninni eins og hægt er, og þar ætti hæstv. núv. fjmrh. að sýna sinn dugnað. Það er einmitt stofnun, sem hann ræður yfir, endurskoðunardeildin í fjmrn., sem hér stendur á og hefur verið beðið eftir undanfarin ár. Hann er húsbóndi þar, og þar á hann að koma fram endurbótum, til þess að hægt verði að afgr. ríkisreikninginn eftirleiðis fyrr en verið hefur.

Það er bara tilgáta út í loftið hjá hæstv. ráðh., að ég sé á móti því að afgr. reikninginn núna fyrir það, að ég óttist, að núv. stjórn fái eitthvert lof í sambandi við málið. Hún getur aldrei hlotið neitt lof fyrir það eða hæstv. fjmrh. að knýja fram samþykkt á ríkisreikningi hér, sem er ekki tímabært að samþykkja, vegna þess að endurskoðun hans er að miklu leyti ólokið. En jafnvel þótt svo væri, að stjórnin gæti fengið einhverja viðurkenningu í sambandi við afgreiðslu á ríkisreikningi, þá mundi það hrökkva skammt á móti öllu öðru, sem er á hinn veginn. Ég mundi ekkert sjá eftir því, og ég mundi þvert á móti fagna því, ef hæstv. núv. fjmrh. yrði sá maður að koma þessu í betra lag, jafnvel þó að þyrfti einhverju til að kosta við aukið mannahald í fjmrn., að koma endurskoðuninni þar í það horf, að það þurfi ekki að bíða árum saman eftir henni með afgreiðslu á ríkisreikningi.

Ég þykist nú alveg vita það, að ýmsir í stuðningsliði hæstv, fjmrh. sjái, að það sé alveg rétt, sem við í minni hl. höldum fram, að það eigi ekki, það séu óeðlileg vinnubrögð að samþykkja ríkisreikning, fyrr en endurskoðun hans er að fullu lokið. Ég skal ekki segja samt, hvernig fer með afgreiðslu málsins. Það getur vel verið, að þeir geri það fyrir hæstv. fjmrh. að fella okkar rökstuddu dagskrá og samþykkja reikninginn nú þegar. En ég vænti þess, að þetta verði þó til þess, þessar athugasemdir, sem við höfum gert um þetta atriði, að það verði ekki gert framvegis að afgreiða ríkisreikninginn með þessum hætti. Það getur vel verið, að stuðningsmenn hæstv. ráðherra, þó að þeir séu í raun og veru með okkur í þessu máli, fari eftir hans vilja, af því að þeir óttist. að hann verði heldur önugur í sambúðinni að öðrum kosti, og vilji ógjarnan fá útsynning rétt strax aftur í deildina, svipaðan þeim, sem geisaði hér áðan.