09.02.1961
Neðri deild: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

112. mál, ríkisreikningurinn 1959

Jón Pálmason:

Herra forseti. Þeir hafa nú talað hér tveir hv. fulltrúar Framsfl. og gert miklar athugasemdir út af því, sem ég tók fram í ræðu minni hér um daginn, og eins og vant er kemur það fram hjá þessum hv. þm., að það hafi allt átt að vera í góðu lagi, þegar vinstri stjórnin fór frá í des. 1958. Þeir tala um það sem ægilegar öfgar frá minni hálfu að nefna þrotabú í því sambandi. En þrotabú var það og þrotabú, sem stjórnir þær, sem siðan hafa verið, hafa verið og eru að stríða við. Það var ekki þrotabú í þeim skilningi, að ríkissjóðurinn væri orðinn alveg tómur, enda hefði það verið skárri ósköpin, ef slíkt hefði bætzt ofan á, eftir að þeir voru búnir á 21/2 ári að hækka tolla og skatta sem svaraði 1200 millj., miðað við heilt ár, og eftir að þeir voru búnir að auka skuldir ríkisins, aðallega erlendar, um 600 millj. Þrotabú vinstri stjórnarinnar lá í allt öðru, og þess vegna hrökklaðist hún frá við litinn orðstír. Þrotabúið lá í því, að dýrtíðin flaug upp og stjórnin réð ekki við neitt, og þrotabúið lá í því, að gengi krónunnar var orðið svo gífurlega fallið sem reynslan hefur síðan sannað.

Þetta voru merkin um þrotabú vinstri stjórnarinnar, og úr því að þessir hv. þm. stofna til þess að fara nú enn á ný í þrætu út af því ástandi, sem hefur verið og er og horfur eru á að verði nokkuð lengi, þá get ég ekki látið hjá líða að lýsa því hér yfir, að á þeim dögum, sem ég hef verið á þessu þingi, bæði fyrir jólin og síðan á nýári, hefur gengið alveg fram af mér að hlusta á allar þær rubbræður, sem hér hafa verið fluttar af hv. stjórnarandstæðingum. Þess vegna þykir mér nú ástæða til að taka hér dálítið nánar til athugunar það ástand, sem var, það ástand, sem þessir menn hafa komið á, það ástand, sem þeir skildu við, og fleira.

Hv. síðasti ræðumaður, 3. þm. Vesturl. (HS), var með brigzlyrði í minn garð og okkar yfirskoðunarmanna um það, að við hefðum brugðizt okkar skyldu með því að skila athugasemdum við reikninginn 1959, áður en allri endurskoðun ríkisendurskoðunarinnar væri lokið. Ef við hefðum gert þetta, þá höfum við gert þetta alla tíð og allir yfirskoðunarmenn á undanförnum árum, því að það er alveg rangt hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG), að það hafi nokkurn tíma skeð á undanförnum árum, að það hafi verið lokið allri endurskoðun. Það kann að vera, að það megi segja það, að við höfum ekki að fullu gegnt okkar skyldu með því að gera ekki alltaf á hverju ári athugasemdir út af þessu. Það er út af fyrir sig rétt, við höfum ekki alltaf gert það. En við vorum lengi tveir okkar hér á Alþ., og í umr. um reikningana höfum við aldrei dregið dul á, að það var mjög mikið eftir af endurskoðun og oft í mörgum stofnunum til margra ára.

Nú er það svo, að ef þetta er trúnaðarbrot frá minni hálfu, þá fellur það ekki síður á minn samstarfsmann, sem ég hef lengst verið með. Annar minn samstarfsmaður, Björn Jóhannesson, fulltrúi Alþfl., hefur verið tiltölulega stuttan tíma, og mætti segja, að það bæri þá ekki sérstaklega að ásaka hann — eða minnst. En ef ég er ásökunarverður sem yfirskoðunarmaður út af þessum hlutum, þá er það ekki síður minn samstarfsmaður, fulltrúi Framsfl., Jörundur Brynjólfsson, sem hefur verið hér á Alþ. lengur en flestir aðrir og lengur forseti í þessari hv. deild en nokkur annar maður fyrr eða síðar, og maður, sem allir vita að er einn af hæfustu mönnum Framsfl., sem setið hafa á Alþ. Ef hægt er að ásaka mig fyrir trúnaðarbrot fyrir að hafa skilað athugasemdum of fljótt þessara hluta vegna, þá er það ekki síður um þennan mann, sem var búinn að vera yfirskoðunarmaður, áður en ég kom að því starfi.

Þá er það þetta, sem hv. síðasti ræðumaður var að tala um sem ógurlegar öfgar frá minni hálfu, að ég tók það fram, að gjöldin hefðu lækkað frá því, sem þau voru á árinu 1959, til fjárl. 1960 um á 9. hundrað millj. kr. Hann sagði nú 900 millj, og bætti þar nokkrum tugum milljóna við það, sem ég tók fram, og allar tölur, sem ég fór þar með, eru réttar. Það er samlagning á gjöldum ríkissjóðs og útflutningssjóðs, sem urðu rúmlega 2300 milljónir, og frá því eru dregnar 1500 millj., sem fjárlögin námu. Ég tók það fram í minni ræðu um daginn, að þessi mismunur, þessar rúmar 800 millj., það var það, sem gengisbreytingin verkaði, því að eins og ég tók þá fram, þá voru á árinu 1959 veittar i útflutningsstyrki á sjávarafurðir um 800 millj. kr., og það var fellt niður. Breytingin að öðru leyti á útgjöldunum var tiltölulega mjög lítil. Hún hefur orðið nokkur síðan, sem eðlilegt er, því að gengislækkun hlýtur alltaf að draga dilk á eftir sér og hafa í för með sér mikla hækkun á ýmsum útgjaldaliðum.

En úr því að ég er út í það kominn að tala við hv. þm. úr stjórnarandstöðunni, sem eru meðal þeirra, sem á þessum vetri hafa haldið hverja ræðuna á fætur annarri til ásökunar núv. ríkisstj. og um það, hvað hafi verið alblómlegt, þegar vinstri stjórnin sáluga skildi við, er rétt að ræða við þá nánar. Þessir andstæðingar núv. stjórnar, sem hér hafa haft sig mest í frammi á þessum vetri, hafa talað mikið um stefnur. Þetta ættu þeir ekki að gera, vegna þess að sumir þessara manna eru stefnulausari menn en hægt er að finna nokkurs staðar annars staðar, og það á þó sérstaklega við framsóknarmennina. Félagar þeirra í kommúnistaflokknum, Alþb., hafa, eins og allir vita, stefnu. Það er rússneska stefnan, það er hinn alþjóðlegi kommúnismi, sem er þeirra stefna, og á síðustu árum hefur hún komið fram hér á Alþingi og í landinu sem hrein niðurrifsstefna, og þegar hún þjappast upp að óreiðustefnu Framsfl., þá er engin furða, þó að faðmlagið sé sterkt. En þessir menn tala sí og æ um stefnu núv. ríkisstj. og kalla hana samdráttarstefnu. Ég er nú nokkuð kunnugur núv. stjórnarflokkum og þeirra mönnum, og ég þekki þar ekki þessa samdráttarstefnu. Ég þekki engan mann í stjórnarflokkunum, sem hefur þá stefnu að draga saman framkvæmdir, framleiðslu, viðskipti og atvinnu. Áhugi fyrir því og óskir um það eru hvergi fyrir hendi. Allt þetta tal um samdráttarstefnu er þess vegna rugl eitt. Hitt er annað mál, að þeir menn, sem hafa fengið það hlutverk að stríða við það þrotabú, — ég sný ekki frá því orði, — það þrotabú, sem óreiðustefna liðinna ára hefur eftir sig látið, þeir eru auðvitað bundnir við óhjásneiðanleg lífslögmál, eins og það, að sá, sem hefur á allan hátt hagað sér ráðlauslega og hefur farið á hausinn, eins og kallað er, hann verður að breyta um lifnaðarhætti og getur ekki haldið áfram að gana át í hverja vitleysuna annarri verri og hirða ekkert um afleiðingar.

Fyrir 5–6 árum var aðalslagorðið hjá sumum framsóknarmönnum það, að efnahagslíf Íslendinga væri helsjúkt. Þetta var, þegar þeir voru að sundra ríkisstj. Sjálfstfl. og sinni eigin. Þetta var, þegar þeir voru að undirbúa verkfallið mikla 1955 og stofna Hræðslubandalagið fræga. Þá ætluðu þeir að lækna hið helsjúka efnahagskerfi. Þeir töldu sig þeim vanda vaxna að gerast læknarnir og til þess þyrfti að fá hina voldugu samstarfsmenn, kommúnista og Alþfl. Nú skyldi sjúkdómurinn ekki grassera lengur í efnahagskerfi Íslands. Við vitum, hvernig þetta fór. Aldrei fara sögur af slíkri meðferð á neinum sjúklingi. Vinstri stjórnin fékk völd, ekki vantaði það. Hún notaði þau völd til að auka og margfalda allar sjúkdómsorsakir þess sjúklings, sem hún þóttist ætla að lækna og hún taldi helsjúkan áður. Laun og kaupgjald var hækkað í stórum stíl, skattar og tollar hækkaðir á annan milljarð miðað við heilt ár, eins og ég tók áðan fram, skuldir stofnaðar alls staðar þar, sem það var hægt, með einni undantekningu þó, sem ég kem síðar að. Framkvæmdir ríkisins voru stórum auknar, einkum stórar og dýrar byggingar. Eyðslan, óhófið, óreiðan og ráðleysið óx og margfaldaðist. Auðvitað elnaði sjúkdómur þjóðfélagsins að sama skapi. Eftir tveggja og hálfs árs hrakfallagöngu gáfust læknarnir upp. Þeir yfirgáfu sjúklinginn og sögðu: Sjúklingurinn er að deyja. Hann er kominn fram á glötunarbarminn. — Manni fannst, að það hlyti að vera grafarbarmurinn. Manni fannst það, þar sem hinn helsjúki sjúklingur yrði þá að vera jarðaður. Orsakirnar lágu ljóst fyrir. Dýrtíðarmælikvarðinn óx um 17 stig á einum mánuði, skuldir og ábyrgðir vaxnar þjóðinni yfir höfuð og gengi íslenzkra peninga fallið svo ofboðslega, að engin dæmi eru til slíks áður, þó að fyrr hefði verið svart vegna aðgerða sömu manna, þeirra sem úr þeim flokkum voru þá við völdin.

Þegar svona var komið, hlutu aðrir menn að taka við. Þeir menn í þjóðfélaginu, sem helzt er hægt að treysta, hafa stjórnað síðan. Þeir hafa verið, eru og verða að meðhöndla þrotabúið. Að tala um stefnu, þegar svo er komið, er nokkuð hæpið, því að allar fyrri stefnur hafa orðið fyrir áföllum. Það, sem helzt kemur til mála um starfsemi núverandi stjórnar, er að kalla hana bjargráðastefnu.

En það hefur þegar sannazt, sem áður mátti vera kunnugt, að það er dýrt að verða gjaldþrota, það er dýrt, og það er alltaf þægilegra að hleypa hesti sínum út í fenið en draga hann upp aftur. Það fer ekki neitt á milli mála, að ýmsar ráðstafanir núv. ríkisstj. eru neyðarráðstafanir, — það vitum við, — sem var ekki unnt að sneiða hjá. Sú hin stærsta þeirra og alvarlegasta var sú að viðurkenna í verki þann sannleika, að gengi íslenzku krónunnar var fallið svo hroðalega sem kunnugt er. Þetta er í þriðja sinn, sem skráningu okkar krónu er breytt til lækkunar með lögum. 1939, 1950 og 1960 eru ártölin, sem þetta miðast við. Í öll skiptin gerist þessi saga á sama hátt, þótt síðasta hrapið sé mest og hættulegast, enda telja nú fróðir menn, að okkar króna sé komin niður í 6 fullgilda aura eða jafnvel lægra en það.

En hverjir voru það, sem felldu krónuna nú? Það var ekki núv. ríkisstj. Núv. stjórn gerði það eitt að viðurkenna í verki þann sannleika í okkar gengismáli, sem fyrir lá. Það voru aðrar stjórnir, sem voru við völd 1950–59, sem felldu krónuna. Það var óreiðustefnan, og hlutur vinstri stjórnarinnar var þar auðvitað langsamlega mestur. Þegar svo þeir syndaselir, sem mesta sök eiga á þessum ráðstöfunum, tala sig hása og skrifa sig þreytta um það, að núv. stjórn sé að skerða kjör fólksins og beita samdráttarstefnu í öllum framkvæmdum, þá er það andstyggilegra en flest, sem áður hefur heyrzt og sézt. Kjaraskerðing hlaut að verða óumflýjanleg afleiðing af verkum þessara manna. Annað gat ekki skeð. Og ef hún verður ekki meiri en hingað til og enn er orðið, þá gengur það kraftaverki næst. Sama er að segja um framkvæmdir og lánamöguleika. Þar hlutu afleiðingar að fylgja orsökum eins og ævinlega. En vinstristjórnarherrunum þykir ekki nóg komið, þeim þykja ekki enn nógar skuldir. Þeim er ekki nóg, að ríkisábyrgðir eru komnar í 2300 millj, kr. eða jafnmikið og allt sparifé landsmanna, og þeim þykir ekki nóg að vera búnir að koma gengi okkar krónu niður í 6 aura, sem svarar til þess, að 1000 kr. fjárhæð, sem lögð var í banka fyrir 50–60 árum, er ekki meira virði nú en 60 kr. voru þá. Þeir vilja fella gengi krónunnar miklu meira. Það sýnir öll þeirra starfsemi, innan þings og utan. Að tala um aðfarir þeirra, síðan núv. ríkisstj. tók við, og kalla það stefnu, er ekki hægt. Stefnuleysi er sanni nær. Fullkomið ábyrgðarleysi er þó réttasta orðið. Ég hef til glöggvunar skrifað hér niður hjá mér aðalútdráttinn úr ræðum og greinum þessara manna síðustu 10–12 mánuðina. Sú formúla er í aðalatriðum á þessa leið:

Allar aðgerðir núv. stjórnar til uppgerðar á þrotabúi vinstri stjórnarinnar telja þessir menn óþarfar, en hægt að halda áfram hinni fyrri stefnu með þrotlausum ríkisuppbótum á alla framleiðslu, áframhaldandi vísitöluskrúfu, launahækkunum, auknum framkvæmdum á öllum sviðum. Þannig tala fulltrúar Alþb., og þannig tala sumir framsóknarmennirnir, — ég segi sumir, því að þeir eiga þar engan veginn allir óskilið mál. Þeir tilbiðja heimskuna til að vekja óánægju í öllum stéttum og lofa öllum betri kosti. Við verkamenn og sjómenn segja þeir: Þið verðið að fá hærra kaup, styttri vinnutíma, meiri frí. — Þeir spana þessa menn til verkfallsuppreisna og eru nú í þann veginn að stöðva alla útgerðina í byrjun vertíðar, þegar einna bezt lítur út með veiðiföng. Við fastlaunamenn segja þeir: Þið verðið að fá miklu hærri laun til að geta lifað mannsæmandi lífi. — Ég hef ekki heyrt kröfuna þar um styttri vinnutíma, enda er það svo, að flestir fastlaunamenn hafa þetta 5–7 tíma vinnu á dag og margir þeirra hafa frí þriðja hvern dag á árinu. Við útgerðarmenn segja vinstristjórnarherrarnir: Þið verðið að fá hærra afurðaverð. Ríkið verður að greiða uppbætur. — Sama segja þeir við bændur. Verzlanirnar verða að fá hærri álagningu, segja þessir menn, og þeirri kröfu er einkum hampað í kaupfélögum landsins. Við alla landsmenn segja þessir menn: Þið verðið að fá lægri skatta og tolla og útsvör, lægra verð á neyzluvörum, lægri vexti, meiri lán og miklu meiri framkvæmdir í sveitum og kaupstöðum. Þetta er það, sem þessir menn hafa verið að útmála, ræðu eftir ræðu, dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, síðan núv. ríkisstj. tók við. Allt er þetta sá boðskapur, sem dunið hefur í eyrum þings og þjóðar síðustu mánuði og allt frá sömu mönnum, sem fyrir 5–6 árum lofuðu að lækna okkar helsjúka efnahagskerfi, en steyptu því fram á gjaldþrotsbarminn.

En nú er ástæða til að spyrja. Er þetta nokkuð nýtt? Er ekki þetta sama, sem alltaf fylgir ábyrgðarlausum valdastreitumönnum, og þar eru framsóknarmenn og kommúnistar fremstir í flokki? Vissulega er þetta ekki nýtt. Þetta er sami boðskapurinn og þessir menn sumir fluttu 1949, þegar þeir voru að sundra ríkisstj. Stefáns Jóh. Stefánssonar og stofna til eins hins óþarfasta og fráleitasta þingrofs, sem sagan geymir, og þetta er sami boðskapurinn, sem flestir þessir sömu menn fluttu 1955 og 1956, þegar þeir voru að spana til verkfallsins mikla og undirbúa mestu óreiðustjórn, sem nokkru sinni hefur starfað á Íslandi.

Ég minntist hér á atburðina árið 1949, þegar ríkisstj. Stefáns Jóhanns var við völd. Auk margs annars var þar lagt allt kapp á að takmarka innflutning sem allra mest, svo að ríkissjóður fengi sem minnstar tekjur að spila úr, og þá var það fjármálaráðherrann þáv., Jóhann Þ. Jósefsson, sem var aðalskotmarkið hjá þessum mönnum, sem gerðu á allan hátt tilraunir til að sprengja þessa stjórn. Og þessi iðja bar árangur. Stjórninni var sundrað, þingrof og kosningar fóru fram. Eitt ár mátti ekki líða, þar til kosningar áttu að verða. Hlutföllin í þingi breyttust lítið, en eftir kosningar var ekki hægt að mynda þingræðislega meirihlutastjórn. Það ráð var því tekið, að stærsti flokkurinn, Sjálfstfl., myndaði flokksstjórn í minni hl. Hún vann mikið verk á stuttum tíma og lagði fyrir Alþingi tillögur um viðtækar ráðstafanir. En hún fékk engan frið til að framkvæma sínar tillögur. Framsóknarmenn fluttu vantraust á stjórnina og fengu það samþykkt. Stjórnin fór frá. En samvinnuhugur, drengskapur og góðvilji sumra sjálfstæðismanna gengur stundum á ýtrustu mörk. Í þetta sinn varð endirinn sá, að þeir gengu til samvinnu við Framsfl. og undir þeirra forustu til að framkvæma þær ráðstafanir, sem framsóknarmenn fluttu sitt vantraust út af og flokksstjórnin féll á. Framsóknarmenn náðu sínu aðaltakmarki, því að gera Eystein Jónsson að fjmrh. Það var hann síðan í nærri 9 ár og þar með auðvitað Framsfl., sem réð fjármálunum meira en aðrir. Tíunda árið eða árið 1959 sýnir á ljósastan máta afleiðing þeirrar fjárstjórnar, af því að fyrst á því ári komu að fullu í ljós afleiðingar þeirra laga, sem samþ. voru af vinstristjórnarliðinu í maí 1958, en giltu aðeins hálft það ár.

Ég hef í minni fyrri ræðu, sem ég flutti hér um daginn, skýrt nokkuð ríkisreikninginn fyrir árið 1959, sem hér er til umr. og ég hef hér við höndina. En ég hef hér líka annan ríkisreikning. Það er reikningur ársins 1949. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Þegar fundinum var frestað fyrir tæpum klukkutíma, var ég kominn þar í ræðu minni að geta þess, að ég hefði hér í höndunum tvo ríkisreikninga. Annað er reikningur ársins 1949, siðasta ársins sem Jóhann Jósefsson var fjmrh. Hinn reikningurinn er fyrir árið 1959, sá sem hér er til umr. og meðferðar.

Breytingin á þessu tíu ára tímabili er sá lærdómur, sem allir stjórnmálamenn á Íslandi þurfa að kunna. Ég skal hér aðeins nefna eina hlið þessa máls, en það eru ríkisútgjöldin. Á árinu 1949 urðu þau öll skv. þeim reikningi 404 millj. á sjóðsyfirliti. Það eru öll útgjöldin. Árið 1959 urðu gjöldin á sjóðsyfirliti þess árs reiknings 1193.3 millj. kr., en gjöld útflutningssjóðs það ár, og hann var enginn til 1949, voru 1135.3 millj. Þetta eru alls 2328.6 millj. kr. M.ö.o. hafa árleg ríkisútgjöld á þessu tímabili hækkað um 1935.6 millj. kr. En þar með er ekki sagan öll sögð. Á báðum þessum reikningum voru stórkostleg ríkisgjöld, sem eru ekki talin með í samlagningunni. Það eru útgjöld margra ríkisstofnana, sem gerðar eru upp og aðeins færður inn í samlagningu mismunur á tekjum og gjöldum, eins og ég vék að hér um daginn. Gjöld þessara stofnana voru 1959 hátt á fjórða hundrað millj. kr. og hafa hækkað á tíu ára tímabilinu nokkuð yfir 200 millj. kr. miðað við heilt ár. Ég hef ekki reiknað þetta út nákvæmlega. Allt þetta sýnir það, að á þessu tímabili, þessum tíu árum, hafa útgjöld ríkisins og stofnana þess hækkað miðað við heilt ár um nokkuð yfir 2000 millj. kr., þ.e. meira en tvo milljarða. Þegar þetta er haft í huga, þá er það furðulegt, að mennirnir, sem þessu hafa stjórnað, skuli sí og æ vera með aðfinnslur og úthrópanir í garð annarra manna, sem fara með fjármál.

Ég hef hér að framan nokkuð lýst öllum þeim beinu og óbeinu loforðum, sem núv. stjórnarandstæðingar gefa stéttum þjóðfélagsins á víxl um betri kjör og bætta aðstöðu, ef þeir hefðu nú völd. Öllum venjulegum mönnum með heilbrigða skynsemi finnst, að um það allt gildi hið sama, sem skáldið sagði forðum.

„Eitt rekur sig á annars horn, eins og graðpening hendir vorn.“

Það virðist allt vera í mótsögn hvað við annað og allt til samans í mótsögn við það, sem átti sér stað á valdatíma sumra þessara manna, sem sagt: Það stangast hvað við annað. Menn hafa því verið að velta því fyrir sér, hvernig því sé varið með þessa forustumenn Framsóknar og kommúnista, hvort þeir hafi yfir einhverjum töfrasprota að ráða, hvort þeir eigi einhvern Aladdínslampa í fórum sínum eða hvort þeir séu haldnir einhverri geggjun og séu að leika sér að því að gera sig að undri frammi fyrir þjóð og þingi. Allt er þetta nokkuð örðug ráðgáta, einkum vegna þess, að við, sem þekkjum þessa menn, vitum, að margir þeirra eru allgreindir menn að eðlisfari. Það er þó svo með þessar gátur eins og allar aðrar, að einhver ráðning er til, og ég þykist sjá, hver hún sé. Segjum, að kosningar færu fram á næsta vori og þessir flokkar fengju völd, eins og þeir þrá heitara en allt annað, mundu þeir þá geta framkvæmt allt sitt loforðaspjall við allt og alla? Ja, hver veit um það? En til þess hafa þeir þó einn möguleika og aðeins einn. Hann er sá að ganga Rússum á hönd í einu og öllu. Fyrsta sporið yrði sennilega það að taka 1–2 þús. millj. að láni hjá Rússum eða Austur-Þjóðverjum, ausa því út í nýjar framkvæmdir og hækkuð laun. Rússneska stórveldið munaði ekki mikið um slíkt, og sjálfsagt yrðu vextirnir lágir og fresturinn langur, því að aldrei væri til þess ætlazt, að lánið yrði greitt í sömu mynt. Í leiðinni mundu hinir nýju valdamenn segja Ísland úr Atlantshafsbandalaginu, reka burt varnarliðið og færa öll okkar viðskipti austur fyrir járntjald. Á þessa lundina mundi það verða, þetta hálofaða hlutleysi, sem þeir menn eru alltaf að flagga með, sem kalla sig hernámsandstæðinga. Ég efast ekki um, að þessi möguleiki hefði verið til árið 1958, en Alþfl. var ekki líklegur til að fylgja honum, og Hermann Jónasson vildi það ekki heldur. Þess vegna sagði hann af sér, eins og kunnugt er. Það geta kommúnistarnir aldrei fyrirgefið honum. Þeir ásaka hann leynt og ljóst um það, og það lítur út fyrir, að margir hans eigin flokksmenn séu þar alveg á sömu línu. Víðs vegar um land telja þeir þennan formann flokksins hálfgerðan varg í véum fyrir það að hafa sleppt völdunum, eins og þeir segja.

En alls þessa vegna er íslenzk pólitík mjög einföld í dag. Þjóðin á um tvennt að velja og aðeins tvennt. Þetta er vesturs- eða austursbandalagið, annaðhvort núverandi stjórn og völd þeirra flokka, sem hana styðja, eða austursbandalag kommúnista og Framsóknar, með þeim tilfæringum, sem ég hef hér nefnt, eða einhverjum öðrum svipuðum. En það verða allir Íslendingar að gera sér ljóst og hugleiða vandlega, að þótt brosin verði vafalaust blíð og faðmlögin mjúk, á meðan verið er að draga allan fjárhag Íslands austur fyrir tjaldið, þá mundi það breytast fljótt, þegar frá liði. Afkomendur Íslendinga fengju ekki að njóta þeirra verka, sem unnin yrðu fyrir rússnesku lánin. Þau yrðu krafin inn, ekki með íslenzkum peningum, því að þeir væru engir til, heldur með frelsi þjóðarinnar. Okkar land gæti þá búizt við sömu örlögum og Litháen, Lettland, Eistland, Ungverjaland og önnur þau lönd, sem rússneska tígrisdýrið hefur klófest, og þá er ekki víst, að eftirkomandi kynslóðir væru líklegar til að hrósa Framsfl. og Alþb. fyrir allt þeirra framferði. En ég vil samt segja þetta: Það er ákaflega ólíku saman að jafna í sjálfu sér um Framsfl. og Alþb. Því verður þjóðin að gera sér grein fyrir.

Alþb., kommúnistaflokkurinn, er flokkur með stefnu. Hann hefur rússnesku stefnuna ómengaða, stefnu yfirgangs og einræðis. Hann hefur síðustu 30 árin leikið sér að blekkingum nafnaskipta og hræsnismála, allt í þeim tilgangi að blekkja þjóðina. Hann hét til að byrja með Kommúnistaflokkur Íslands og kom þá hreinlega til dyranna sem eindreginn fylgisþjónn rússnesku öfgastefnunnar. Hann fann brátt, að með þessu væri varla hægt að ginna nægilega marga Íslendinga. Þess vegna skipti hann um nafn, og næsta nafnið var Sameiningarflokkur alþýðu, Sósíalistaflokkurinn, sem jafnvel er til enn þá í fórum flokksins. En það reyndist augljóst, að þetta dugði ekki til lengdar. Þegar lögbrotafélagið var stofnað, sem kallaðist Hræðslubandalag, þá mátti til að stofna annað bandalag, — og hvað skyldi það heita? Gert var ráð fyrir, að alþýðan á Íslandi væri einna auðunnast land, og því var valið nafnið Alþýðubandalag. Það skyldi berjast eins og ljón á móti úlfum gegn Hræðslubandalagi Framsóknar og Alþfl. Þannig gekk í kosningunum 1956, en eftir þær runnu bæði saman í eitt og mynduðu v-stjórn, sem þýðir vinstri stjórn, vandræðastjórn, vond stjórn. Við vitum, hvernig hún endaði. Kommúnistarnir voru óánægðir, Hermann Jónasson forsætisráðherra brást rússneska bandalaginu, sagði af sér völdunum og gekk úr félaginu í bili og er vegna þess, eins og ég var að geta um, hjá mörgum þessum mönnum illa séður.

Framsfl. er annars eðlis. Hann er valdastreituflokkur, stefnulaus með öllu. Hann hefur lafað og lifað á því að hafa völd, vinna á víxl og svíkja á víxl. Á tímabilinu 1934–1958 hefur það gengið svo, að framsóknarmenn hafa blekkt og svikið Alþfl. og Sjálfstfl. sitt á hvað, svo að öllu lengra verður ekki komizt. Þess vegna hefur nú þessi pólitíski braskaraflokkur þann einn kost að þjappa sér upp að kommúnistaflokknum á hinn innilegasta máta. Enginn annar ber neitt traust til hans. Þó er mjög mikið vafamál, að kommúnistar treysti enn sterkt. Þeir vita líka, að ekki er miklu að treysta. En er það nú víst, að allir framsóknarmenn séu þarna á einni línu? Því fer fjarri. Innan þings og utan, um allar byggðir landsins, eru framsóknarmenn, sem í hjarta sínu eru gersamlega andstæðir rússnesku stefnunni. En flokkurinn er hagsmunasamband, samantjóðrað af persónulegum valdadraumum og fjármálalegum fríðindum. Að slíta bandið er ekki suðgert. Það er dýrt að hlýða fyrirskipun, en er orðið mörgum þessum mönnum undarlega tamt. Þeir geta varla hugsað sér slíkt, hafa líka gert það að trúarbrögðum, að í Sjálfstfl. eða Alþfl. geti þeir aldrei farið. Þessir menn virðast því nauðugir, viljugir píndir til þess að fylgja Framsóknarforustunni, hvað sem hún gerir og hversu fjarlæg sem hennar starfsemi er þeirra vilja og skoðunum. Samtök og forustu til mótstöðu vantar algerlega. Fordæmi Bændaflokksins þykir þeim ekki sérlega aðlaðandi. Þróttinn og samtökin vantar, og þess vegna má við öllu búast, alveg eins og á 400 manna flokksþinginu 1956, þegar skynsamleg tillaga frá Vilhjálmi Þór bankastjóra var felld með öllum atkv. gegn 6. Alls vegna er því Framsfl. það lið á Íslandi, sem mest hætta stafar af fyrir frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar. Á því getur framtíðin oltið. Allt tal þessara manna er bundið við þá röksemd, að völdin séu fyrir öllu, skoðanir, stefna og afstaða til annarra manna sé aukaatriði. Þess vegna má við öllu búast. En það er nauðsynlegt, að þetta breytist. Framsóknarmennirnir sjálfir verða að sýna það í verki, að einhverjum þeirra sé óhætt að treysta. Því aðeins geta þeir gert sér von um hugsanlega samvinnu við aðra en Alþb., og því er ekki að leyna, að margir drengilegir menn eru til innan Framsfl., og þeir ættu að sjá það og skilja, að fyrir þá er mikið verkefni og gott að hefja sinn flokk upp úr því forarsvaði, sem honum hefur verið steypt í á undanförnum árum.

Allt það, sem hér hefur verið sagt um það, að ég hefði farið með einhverjar skakkar tölur eða rangar upplýsingar varðandi þann ríkisreikning, sem hér er til meðferðar, er alveg út í bláinn. Ég hef farið hér með réttar tölur eingöngu.

Herra forseti. Ég get alveg búizt við því, að það komi einhverjar hríðargusur frá austurdyrunum í sambandi við það, sem ég hef hér sagt. En ég hef ekki rétt til að taka hér til máls aftur við þessa umr., og þess vegna verða mín svör, ef mér þykir ástæða til einhverra svara, að bíða, þangað til 3. umr. um þennan reikning fer fram.