18.10.1960
Efri deild: 6. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

40. mál, skemmtanaskattsviðauki 1961

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu eðlilegt og sjálfsagt að framlengja skemmtanaskattsviðaukann, eins og hér er lagt til, að gert verði. Ég kvaddi mér hins vegar hljóðs út af aths., sem ég vildi koma á framfæri hér í sambandi við skemmtanaskattinn.

Mér sýnist, að það geti verið mikil þörf á því að taka til endurskoðunar þær reglur, sem gilda um skemmtanaskatt. Það er ekki víst, að í því efni sé bein þörf nema að takmörkuðu leyti á beinum lagabreytingum. En í sambandi við það, að það er sýnilegt, að ýmsar tilraunir eru gerðar til þess að komast undan skemmtanaskatti, þá virðist vera óumflýjanlegt að taka það mál til athugunar. Ég á hér fyrst og fremst við það, að það gerist nú í æ ríkara mæli, a.m.k. hér í Reykjavík, að samkomuhús séu hætt að halda dansleiki, heldur séu þau höfð opin þar til kl. eitt að nóttu eða þann tíma, sem er hinn venjulegi tími, sem dansleikir standa. Þetta leiðir eðlilega til þess að enginn skemmtana: skattur er greiddur af þessum samkomum. Ég skal ekki segja um, hvaða áhrif þetta hefur á skemmtanaskattinn, en þó má ætla, að þau áhrif séu allmikil, vegna þess að ég hygg, að meginhluti skattsins sé af samkomum hér í Reykjavík og stærstu kaupstöðunum og þá náttúrlega bróðurparturinn héðan úr Reykjavík. Ég hygg sannast sagna, að sú tilhögun á samkomum, sem hér hefur tíðkazt að undanförnu í veitingahúsum, þ.e.a.s. þeim veitingahúsum, sem vínveitingaleyfi hafa, að hafa opið svo lengi sem raun ber vitni um án þess að selja aðgang, brjóti í bága við ákvæði áfengíslaga um þetta efni. En hvernig sem því er háttað, þá hefur þetta þó verið liðið átölulaust, að því er virðist vera. Fyrst munu það hafa verið fá hús, sem þetta gerðu, en að sjálfsögðu hlaut þetta að draga þann dilk á eftír sér, að það yrðu fleiri hús, sem inn á þessa braut færu, og niðurstaðan mun vera sú, að flest þeirra samkomuhúsa, sem hafa vínveitingaleyfi, munu að töluvert miklu leyti hafa horfið frá því að halda dansleiki og hafa opið í þess stað, eins og ég gat um, venjulegan dansleikjatíma, en taka engan aðgangseyri.

Ég vildi í tilefni þess, að hér er til umræðu mál um skemmtanaskattinn, sem að sjálfsögðu er þess eðlis, að þetta kemur ekki beint til athugunar í sambandi við það frv., engu að síður beina því til hæstv. menntmrh., að hann tæki þetta mál til athugunar og þá framkvæmd á dansleikjahaldi, sem hér hefur verið upp tekin, því að ég er mjög hræddur um það, að ef svo heldur áfram sem hér hefur verið byrjað og í ríkara mæli, þá muni skemmtanaskatturinn sem tekjustofn rýrast svo stórkostlega, að þær stofnanir og sú starfsemi, sem lögum samkvæmt í ýmsum greinum á að byggja afkomu sína á þessum skatti, muni verða fyrir þungum áföllum af þeim sökum. Ég er viss um það, að hæstv. menntmrh. hefur fullan hug á að tryggja það, að þessi tekjustofn rýrni ekki. En ég vildi aðeins vekja athygli á þessu með það í huga, að tekið yrði til athugunar, hvort hugsanlegt væri að finna einhver úrræði í þessu efni, annaðhvort beinlínís með því að stöðva þá tilhögun á samkomuhaldi, sem hér hefur veríð tekin upp og ég hygg að sé ekki lögum samkvæm, eða þá að farið verði inn á aðrar brautir til þess að tryggja, að skemmtanaskatturinn rýrni ekki af þessum sökum.