18.10.1960
Efri deild: 6. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

40. mál, skemmtanaskattsviðauki 1961

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e. hefur vakið athygli á atriði varðandi innheimtu skemmtanaskattsins, sem nauðsynlegt er að taka til rækilegrar athugunar. Það eru raunar ýmis atriði í sambandi við innheimtu skemmtanaskattsins, sem full þörf væri á að endurskoða. Einna stærst er einmitt þetta atriði, sem hv. þm. nefndi í ræðu sinni, að það hefur farið að tíðkast mjög undanfarin ár, að samkomur, sem áður var seldur aðgangseyrir að, eru nú ókeypis, en aðgangseyrir í raun og veru tekinn sem líður í verði þeirra veitinga, sem fram eru reiddar. Er nauðsynlegt að láta fara fram sérstaka athugun á því, með hverjum hætti unnt sé að koma í veg fyrir slíka sniðgöngu við skemmtanaskattinn, og mun menntmrn. efna til slíkrar athugunar nú á næstunni og flytja frv. um breyt. á skemmtanaskattsl., ef sérfróðum mönnum um þessi efni sýnist nauðsyn bera til lagabreytingar.

Það eru raunar fleiri atriði í sambandi við skemmtanaskattinn, sem ég fyrir mitt leyti tel fulla ástæðu til þess að breyta, svo sem því atriði, að skatturinn tekur nú ekki til alls landsins, nær ekki til allra landsmanna, heldur aðeins til bæja, sem eru fyrir ofan vissa stærð. Það er ekki eðlilegt að mínu viti, að menn séu þannig að vissu leyti ekki jafnir fyrir skattalögum, og skuli það, hvort menn greiða skatt eða ekki, fara eftir því, hvort menn búa í bæ, sem er fyrir ofan ákveðna lágmarksstærð eða undir henni. Annað atriði í sambandi við skattinn vildi ég nefna, og það er, að mér sýnist tími til kominn að endurskoða þau ákvæði, að greiða skuli skemmtanaskatt af öllum leiksýningum. Í nokkrum stærstu bæjunum eru starfandi leikfélög, sem greiða skemmtanaskatt af sýningum sínum, eins og um dansleiki eða söngskemmtanir og því um líkt væri að ræða. Þessi starfsemi berst í bökkum fjárhagslega. Í sambandi við hana er unnið mikið sjálfboðastarf og starfsemin yfirleitt með þeim hætti, að það ætti að koma til athugunar, hvort ekki væri ástæða til þess að undanþiggja hana skemmtanaskatti, eins og leiksýningar sjálfs þjóðleikhússins eru undanþegnar skemmtanaskatti. En öll þessi atriði er nauðsynlegt að athuga, og mun ég að gefnu tilefni frá hv. 6. þm. Norðurl. e. sjá svo um, að slík athugun fari fram, og þá skýra þessari hv. d. frá niðurstöðu hennar síðar.