14.10.1960
Efri deild: 4. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

30. mál, ríkisfangelsi og vinnuhæli

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Nú í vetur eru liðin rétt 200 ár frá því, að hafizt var handa um undirbúning að byggingu hegningarhússins á Arnarhóli, sem sínum tíma var reist af mikilli rausn, svo sem sjá má á því, að eftir nokkurn tíma var húsið tekið undir bústað æðsta embættismanns innanlands og er enn í dag notað í þágu ríkisstj., nú sem stjórnarráð Íslands. Þá var það talið eitt helzta bjargráð í erfiðleikum, sem yfir landið gengu, að reisa fangelsi fyrir landslýðinn, sem gert var á svo veglegan hátt sem ég drap á.

Það frv., sem hér er til umræðu, er flutt frá nokkuð öðrum sjónarhól og ekki með sömu oftrú á, að fangelsi séu allra meina bót. En hitt verður að játa, að fangelsismál landsins eru nú og hafa langa hríð verið í slíku öngþveiti, að ekki má lengur dragast, að úr sé bætt.

Tvö aðalfangelsi eru nú starfrækt af ríkinu, annars vegar hegningarhúsið í Reykjavík, sem byggt var nokkru eftir 1870 og var lengi aðalfangelsi landsins, og enn fremur vinnuhælið á Litla-Hrauni, sem tekið var til þeirra nota kringum 1930, hefur komið að góðu gagni, en var upphaflega reist í öðrum tilgangi, hefur aldrei hentað til fulls og er nú ásamt hegningarhúsinu við Skólavörðustíg orðið gersamlega ófullnægjandi og úrelt, þannig að ekki verður við unað. Að vísu verður að horfast í augu við það, að við Íslendingar munum seint geta komið á þeirri greiningu fanga og meðferð, sem æskileg þykir og tíðkanleg er með hinum stærri þjóðum, svo margföld sundurgreining sem þar á sér stað. Strandar hér fyrst og fremst á kostnaði, sem okkur yrði gersamlega ofviða, en einnig á því, að sem betur fer er fangafjöldi hér ekki svo mikill, að hægt sé að reka sem sérstofnanir ýmsar þær fangelsisstofnanir eða deildir, sem sjálfsagðar og nauðsynlegar þykja í öðrum löndum.

En þó að við getum ekki náð þessari sundurgreiningu, verður að játa, að því fer fjarri, að í þessum efnum hafi það verið gert, sem gera þarf og hægt á að vera að hrinda í framkvæmd.

Er þá það fyrst, að því fer fjarri, að fangelsisrúm sé fyrir alla þá, sem lögum samkvæmt eiga þangað að fara. Þess vegna verður oft ærinn og mjög óheppilegur dráttur á úttekt refsivistar, og einnig verður að stytta refsivist stundum meira en æskilegt kynni að vera og náða alveg frá henni, t.d. varðandi afplánun minni háttar sekta, meira en góðu hófi gegnir.

Þá hefur einnig gersamlega farið út um þúfur, að hægt væri að greina á milli fanga hér, jafnvel samkvæmt þeim lágmarkskröfum, sem gerðar eru. Í hegningarlögum er ráðgert, að sundur sé skilið á milli unglinga og roskinna afbrotamanna, enda gefur auga leið, að ekki er heppilegt og beinlínis spillandi fyrir unglinga að lenda til langdvalar með þeim, sem oft hafa áður setið í fangelsum og eru þannig skapifarnir eða búnir að ávinna sér þá skaphöfn, að ekki er sennilegt, að þeir láti af afbrotum vegna sinnar fangelsisvistar. Eins skortir mjög á möguleika til þess að taka þá fanga til sérgeymslu, sem þýðast ekki samneyti við aðra eða eru svo baldnir, að erfitt er að hemja þá nema með sérstökum varúðarráðstöfunum.

Segja má, að með öllu sé ómögulegt, eins og nú háttar til, að hafa konur í fangelsi. Það er að vísu svo, sem betur fer, að ekki er mjög títt, að konur séu þangað dæmdar, en þó kemur það fyrir og kann að vera óumflýjanlegt að svipta þær frelsi af þessum sökum. En eins og nú háttar til, má segja, að það sé ógerlegt.

Geymsla til öryggis, ef ekki er um beina refsingu að ræða, heldur varúðarráðstöfun til frambúðar, er einnig mjög erfið, eins og nú háttar til, því að ekki er heppilegt að láta slíka menn vera að staðaldri innan um þá, sem beinlínis eru dæmdir til refsingar.

Aðbúnaður í fangelsunum er einnig mjög ófullkominn. Þar vantar vinnustofur, þar vantar vistarverur fyrir fangana sjálfa utan þeirra klefa, sem þeim er ætlað að dveljast í að næturlagi. Segja má, að ómögulegt sé að veita þeim kennslu, hvað þá halda með þeim samkomur, gera þeim dægrastyttingu, halda með þeim guðsþjónustur eða annað slíkt. Til alls þessa skortir með öllu húsrými.

Því sé sleppt, sem alkunnugt er, að fangelsi okkar eru nú naumast mannheld. Hvað eftir annað hefur fyrir komið, að fangar hafa brotizt út. Að vísu kemur það fyrir í hinum rammbyggðustu fangelsum, en hefur hér borið að með þeim hætti, að ljóst er, að eingöngu er að kenna um ófullkomnum húsakosti og erfiðleikum gæzlumanna að halda uppi vörzlu við þau lélegu skilyrði, sem þeir hafa við að búa.

Þannig mætti lengi telja, en ég skal ekki rekja þessa sögu, hún er í stórum dráttum alkunnug.

Oft hefur verið rætt um nauðsyn á bótum, en litið orðið úr framkvæmdum annað en þegar gengið hefur úr hófi, hefur lítillega verið lappað upp á bæði hegningarhúsið í Reykjavík og vinnuhælið á Litla-Hrauni. Það er hvort tveggja góðra gjalda vert, en ræður alls ekki bót á þeim mikla vanda, sem hér er við að etja.

Allar þessar ástæður urðu til þess, að ég á s.l. vori fékk Valdimar Stefánsson sakadómara í Reykjavík, sem þessum málum er allra manna kunnugastur af langri dómarareynslu, til þess að taka að sér að undirbúa greinargerð og tillögur um raunhæfar framkvæmdir í þessum efnum. Þau tvö frv., sem eru á dagskrá hv. Ed. í dag, eru ávöxtur af starfi hans og samráði hans og dómsmrn., eftir að hann sendi því sína mjög ýtarlegu grg., sem ég hef hér með höndum og hv. nefnd, er þetta mál fær til meðferðar, mun fá til athugunar.

Í því frv., sem nú er til umræðu, frv. til laga um ríkisfangelsi og vinnuhæli, er ráðgert, að ríkið sjálft reki og komi upp, að svo miklu leyti sem ekki eru nú þegar fyrir hendi, þremur fangelsum: i fyrsta lagi ríkisfangelsi í Reykjavík eða nágrenni hennar, í öðru lagi vinnuhæli og í þriðja lagi unglingafangelsi.

Í 2. gr. er talið, hvernig ríkisfangelsið skuli skiptast í deildir. Þar á að vera einangrunarfangelsi, — öryggisgæzludeild, geðveilladeild, kvennafangelsi og gæzluvarðhald. Í vinnuhælinu að Litla-Hrauni í Árnessýslu skal vera rúm fyrir 60 fanga. Skal það fullnægja fangelsisrefsingum, öðrum en þeim, sem 4. gr. tekur til, en samkvæmt 4. gr. skal í sveit stofna unglingafangelsi fyrir 25 fanga, og skal þar fullnægja fangelsisrefsingum þeirra, sem við dómsuppsögn hafa eigi náð 22 ára aldri.

Svo sem menn sjá af þessu, er ætlazt til þess samkv. frv., að komið verði upp tveimur nýjum fangelsum, ríkisfangelsinu, sem ákveðið er að staðsett skuli vera hér í Reykjavík eða nánd Reykjavíkur, og svo unglingafangelsi sérstöku, og er þá jafnframt ráðgert, að hegningarhúsið í Reykjavík verði lagt niður. Vinnuhælið á Litla-Hrauni á að halda áfram, en þó þannig, að það verði stórum stækkað og bætt frá því, sem verið hefur.

Um röð þessara framkvæmda er ekki fastákveðið, en á, þessu stigi tel ég líklegast, að ráðlegt þyki, að auk endurbóta að Litla-Hrauni, — og það er a.m.k. brýn nauðsyn á því sem tafarminnst að bæta vinnuskilyrði með vinnuskálum stórlega frá því, sem verið hefur, — þá verði ráðizt í það að byggja ríkisfangelsið, sem um er rætt í 2. gr. frv., það sé sú stofnunin, sem mest kallar að og sízt má dragast að reist verði. Samkvæmt því mundi unglingafangelsi sitja á hakanum, og verða að bíða. En þá er þess að gæta, að nú hefur verið ákveðið að taka að nýju upp starfrækslu Kvíabryggju með sérstöku samkomulagi ríkisins og Reykjavíkurbæjar. Er þá hugmyndin sú, að hægt verði að nota Kvíabryggju að verulegu leyti fyrir unglinga, sumpart vegna þess, að ekki sé þörf á því hæli að fullu fyrir þá menn, sem þar eiga fyrst og fremst að sitja, þ.e.a.s. þá, sem hafa ekki greitt barnsmeðlög, en einnig ef hentara þykir að ráðstafa þeim þá að Litla-Hrauni og flytja hina yngri fanga frá Litla-Hrauni og að Kvíabryggju, eftir því sem hagkvæmt reynist í framkvæmd. Það er ljóst, að Kvíabryggja hentar ekki sem frambúðarfangelsisstaður. Erfitt er um samgöngur þangað og fleiri annmarkar, sem ég skal ekki telja upp. En þangað til unglingafangelsi hefur verið reist, er enginn vafi á, að það getur orðið til stórmikilla bóta, ef rekstri Kvíabryggju er þannig háttað, sem ég nú hef gert grein fyrir.

Mér er það ljóst, . að þessar framkvæmdir munu kosta mjög mikið fé. En það er ekki hægt að segja á þessu stigi, hversu mikið það muni verða. Fyrst er að fá heimildina til þess að ráðast í þessar framkvæmdir. Þá verður að hugsa nánar um skipulag þeirra, láta teikna þær og undirbúa svo sem tíðkanlegt er. En nú þegar er ráðgert, að ein millj. kr. á ári verði lögð til hliðar úr ríkissjóði í þessu skyni. Því fer fjarri, að ég trúi, að sú fjárveiting verði nóg til þess, að viðunandi hraði verði á þessum framkvæmdum. Miklu æskilegra væri að leggja strax meira fé til hliðar en þarna er gerð tillaga um, en það verður að sjálfsögðu að fara eftir fjárhagsgetu ríkisins, ríkissjóðs. Hafa verður í huga, að þegar framkvæmdir verða eitthvað komnar áleiðis, verður með einhverju móti að afla árlega miklu hærri upphæða, til þess að nógu ört gangi, heldur en þarna er ráðgert. Það er rétt, að menn átti sig á því til hlítar þegar í byrjun.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um málið. Ég veit, að allir þdm. eru mér sammála um, að ekki er viðhlítandi fyrir þjóðina að una því ófremdarástandi lengur, sem í þessum efnum ríkir. Hér verður að hefjast handa með þessum tillögum og þeirri grg., sem sakadómari hefur samið. Þar eru lagðir frumdrættir að því, sem gera þarf, og ég vil vænta þess, að málið fái greiðan framgang hér í hv. d. Ég vil leggja til, að frv. að lokinni 1. umr. fái að ganga til 2. umr. og verði vísað til hv. allshn.