23.02.1961
Neðri deild: 68. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

30. mál, ríkisfangelsi og vinnuhæli

Frsm. (Jón Kjartansson sýslumaður):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað þetta frv. og leggur til, að það verði samþ. Einn nm., hv. 11. landsk., hefur skrifað undir nál. með fyrirvara, en sá fyrirvari er bundinn brtt., sem hann flytur á þskj. 394 og eru að efni til flestar hinar sömu sem voru fluttar í hv. Ed.

Allir hv. þdm. eru án efa sammála um, að í fangelsismálum vorum ríki hið mesta ófremdarástand. Svo slæmt er ástandið, að ósamboðið verður að teljast menningarríki.

Á s.l. ári fól hæstv. dómsmrh. sakadómara, Valdimar Stefánssyni, að kynna sér ástand fangelsismálanna og fangelsi nágrannalandanna og gera síðan tillögur til úrbóta í þessum efnum hér á landi. Það var ekki unnt að fá heppilegri mann til þess að vinna þetta verk en sakadómarann, því að hann er allra manna kunnugastur þessum málum. Frá honum eru komnar tillögur þær til úrbóta, sem felast í þessu frv. og frv. því um héraðsfangelsi, sem er næsta mál á dagskrá.

Samkv. frv. því, sem hér liggur fyrir til umr., skal ríkið reka þessi fangelsi samkv. 1. gr.: ríkisfangelsi, vinnuhæli, unglingafangelsi. Samkv. 2. gr. skal ríkið stofna ríkisfangelsi í Reykjavík eða nágrenni, en það skiptist í sex deildir, sem eru: einangrunarfangelsi, öryggisgæzludeild, geðveilladeild, kvennafangelsi, varðhald og gæzluvarðhald. Ég býst við, að einhverjir hafi rekið augu í kvennafangelsi í sambandi við þetta og þyki ekki viðeigandi, að það sé í tengslum við ríkisfangelsi karla. En sem betur fer, er það svo, að það kemur örsjaldan fyrir, að konur séu dæmdar til refsivistar hér á landi, í þessu efni sem ýmsum öðrum eru blessaðar konurnar til fyrirmyndar okkur karlmönnunum. Óskandi er, að það verði svo um langa framtíð, og meðan svo er, er ekki þörf á sérstöku kvennafangelsi. Samkv. 3. gr. frv. skal stækka og fullkomna vinnuhælið á Litla-Hrauni, þannig að þar verði rúm fyrir 60 fanga, en er núna fyrir 29. Og samkv. 4. gr. skal stofna í sveit unglingafangelsi fyrir 25 fanga. Þetta er í stuttu máli efni þessa frv., sem hér liggur fyrir.

Það er augljóst mál, að það þarf mikið átak og það kostar mikið fé að koma fangelsismálum vorum í það horf, sem frv. gerir ráð fyrir. Sú eina millj. kr., sem ráðgert er í 7. gr. frv. að lögð verði fram í þessu skyni, segir vitaskuld sáralítið. En það er trú mín, að þegar einu sinni er búið að lögfesta fangelsin, hvernig skipulag þeirra skuli vera, þá komi Alþingi og ríkisstj. og verji miklum fjárfúlgum til þess að koma fangelsum upp. Og ég hef ekki trú á, að það bíði mörg ár, þegar þessi lög hafa verið samþ., að það rísi upp fangelsi.

Herra forseti. Ég leyfi mér fyrir hönd meiri hl. allshn. að leggja til, að frv. verði vísað til 3. umr.