23.02.1961
Neðri deild: 68. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (501)

30. mál, ríkisfangelsi og vinnuhæli

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við frv. um ríkisfangelsi og vinnuhæli, sem hér er til 2. umr. í hv. d. Það má segja, að þau tvö frumvörp um fangelsismál, sem hér liggja fyrir og eru á dagskrá, séu svo nátengd hvort öðru, að annað þeirra verði tæplega rætt nema fara inn á hitt. Þær tillögur, sem ég hef leyft mér að flytja; fjalla um það að sameina þessi frumvörp í eitt.

Bæði þessi frumvörp voru flutt í Ed: af hæstv. dómsmrh. Þegar þau voru rædd í allshn., lagði hv. 9. þm. Reykv. fram nokkrar brtt., sem miðuðu að því að gera eitt frv. úr báðum og allur kostnaður við byggingu og rekstur fangelsanna, þ.e.a.s. ríkisfangelsa og héraðsfangelsa, yrði greiddur úr ríkissjóði. Ekki gat allshn. Ed. fallizt á þessi sjónarmið hv. 9. þm. Reykv. Lögðu fjórir nm. til, að frv. yrði samþ. með lítils háttar breytingum, og þegar frv. kom til umr. í d., voru tillögur minni hl. felldar.

Þegar frv. var tekið til umræðu á fundi í allshn. Nd., kom í ljós, að fjórir af nefndarmönnum voru samþykkir frv., eins og Ed. hafði gengið frá því, en ég áskildi mér rétt til að flytja eða fylgja breytingartillögum, sem fram kynnu að koma við frv. Nú hefur það orðið að samkomulagi milli mín og hv. 9. þm. Reykv., að ég tæki upp flestar brtt. hans við frv., sem hann flutti í Ed. Með því fengist þá úr því skorið, hvort hv. þm. Nd. væru sömu skoðunar og hv. þm. Ed. um afgreiðslu frv.

1. brtt. er við 1. gr., að við bætist nýr liður, sem yrði þá töluliður 4 og héti: Héraðsfangelsi. Þessi breyting þýðir það, ef hún yrði samþ., að þessi tvö frumvörp yrðu þá sameinuð í eitt, enda mælir margt með því, að svo verði gert, eins og ég mun síðar sýna fram á.

2. brtt. er við 3. gr. Orðin „að Litla-Hrauni í Árnessýslu“ falli burt. Flestum mun kunnugt, að húsið á Litla-Hrauni var ekki byggt í upphafi sem vinnuhæli fyrir fanga, heldur var það byggt í upphafi sem sjúkrahús fyrir Árnessýslu. Allan þann tíma, sem þetta hús hefur verið notað sem vinnuhæli og fangelsi fyrir afbrotamenn, hefur það verið talið af þeim, sem bezt þar til þekkja, óhentugt til þeirra nota, enda hafa því miður margír óhugnanlegir atburðir gerzt þar, sem talið er að rekja megi að einhverju leyti til þess, hvað húsnæði er ófullkomið og langt frá því að uppfylla þau skilyrði, sem þurfa og eiga að vera fyrir hendi á slíkum hælum. Ekki virðist nein endanleg rannsókn liggja fyrir um það, hvort ódýrara sé að byggja nýtt hæli eða gera nauðsynlegar endurbætur á Litla-Hrauni ásamt nauðsynlegri viðbótarbyggingu. Um þetta er rætt allýtarlega í skýrslu, sem liggur hér fyrir um fangelsismál. Eftir að maður hefur lesið þá skýrslu, sést, að ekkert slíkt liggur fyrir, sem bendir til þess, að endanleg áætlun um kostnað við byggingu slíks hælis hafi verið gerð. Engin slík áætlun endanleg liggur fyrir. Á meðan slík rannsókn ekki hefur farið fram, er, að mér virðist, lítil ástæða til að einskorða staðsetninguna við áðurnefndan stað í lögum. Fyrir því er lagt til, að orðið „Litla-Hraun“ falli niður.

Þá er lagt til, að ákvæði 5. gr. um afplánun meðlaga eða barnalifeyris verði fellt niður, enda slíkt ákvæði óþarft, þar sem í framfærslulögunum er sveitarstjórnum heimilað með vissum takmörkunum að afla sér úrskurðar um, að styrkþega skuli skylt að vinna af sér á vinnuhæli ógreidd barnsmeðlög. Um þetta ákvæði hafa verið og eru sjálfsagt enn mjög skiptar skoðanir, og virðist engin sérstök ástæða vera til þess að setja ný lagafyrirmæli þar um.

Ég gat þess áðan, að breytingin við 1. gr. frv. miðaði að því að samræma þessi tvö frv., frv. um ríkisfangelsi og vinnuhæli og frv. um héraðsfangelsi. Í beinu framhaldi af breytingum á 1. gr. er lagt til, að 5. gr. orðist svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Héraðsfangelsi til geymslu handtekinna manna og gæzlufanga skulu reist og rekin þar, sem þeirra er þörf að áliti dómsmrn. og að fengnum till. hlutaðeigandi sveitarstjórna. Sveitarfélög leggja til á sinn kostnað lóðir héraðsfangelsa, en annar kostnaður greiðist úr ríkissjóði. Bygging nýrra fangelsa í samræmi við þessa grein skal háð leyfi Alþingis, enda samþykki það fjárveitingu til hennar. Dómsmrh. ákveður, að fenginni umsögn viðkomandi héraðslæknis, í hvaða héraðsfangelsum skuli heimíl fullnusta varðhaldsrefsinga og í hve langan tíma.“

Eins og þessar tillögur, sem ég hef hér lýst, bera með sér, er lagt til, að öll fangelsi í landinu skuli vera í eigu ríkissjóðs og rekin af honum. Það er í alla staði eðlilegt, að ríkið eigi og reki slíkar stofnanir, enda mun sá háttur vera á hafður á Norðurlöndum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að sveitar- og bæjarfélög eru yfirleitt í mikilli fjárþröng og oft og tíðum í hreinustu vandræðum með að standa við skuldbindingar sínar með að sjá íbúum byggðarlaganna fyrir nauðsynlegri þjónustu. Um þetta þarf ekki að ræða. Þetta er augljóst mál og öllum vitanlegt, enda hefur ríkisvaldið vanrækt að tryggja bæjar- og sveitarfélögum aukna tekjustofna til að mæta sívaxandi kröfum á hendur þeim. Samband ísl. sveitarfélaga hefur á fundum sínum margsinnis gert samþykktir þess efnis, að sveitarsjóðirnir verði leystir undan greiðslu lögreglukostnaðar. Á nýafstöðnum fulltrúaráðsfundi sambandsins var gerð sérstök ályktun þess efnis, að sveitarfélög yrðu losuð við allan kostnað við löggæzlu. Allshn. Ed. sendi bæði frumvörpin til umsagnar nokkrum aðilum, m.a. Sambandi íslenzkra sveitarfélaga. Í því tilefni gerði sambandsstjórnin svo hljóðandi samþykkt, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga vísar til fyrri samþykkta sambandsþinga, fulltrúaráðsfunda og bæjarstjórafunda þess efnis, að sveitarsjóðirnir verði leystir undan greiðslu lögreglukostnaður, og telur eðlilegt, að fangelsi hér á landi verði reist og rekin fyrir fé ríkissjóðs, svo sem tíðkast hjá öðrum norrænum þjóðum.“

Brtt. þær, sem hér eru fluttar við umrætt frv., eru því í fullu samræmi við skoðanir og kröfur bæjar- og sveitarfélaga og sveitarstjórna og landssamtök þeirra. Virðist allt mæla með því, að í þessu máli verði orðið við óskum þeirra.

Það munu flestir vera sammála um það, að á því sé mesta nauðsyn, að gerðar verði varanlegar úrbætur á fangelsismálum Íslendinga, og þau frumvörp, sem hér hafa verið flutt, stefni í rétta átt. Hitt dylst sjálfsagt engum, að slíkt stórátak sem það er að byggja upp fullkomin fangelsi muni kosta mikið fé og verður því ekki framkvæmt á einu eða tveimur árum. Aðalatriðið er það, að byggt sé á réttum grundvelli í upphafi. Hitt geta menn sjálfsagt deilt um, hver skuli greiða kostnaðinn við byggingu og rekstur fangelsanna. Ég er þeirrar skoðunar, að ríkissjóður eigi að bera slíkan kostnað, og eins og fjármálum sveitarfélaganna er háttað, sé ekki fært að láta þau bera helming kostnaðar af byggingu og rekstri héraðsfangelsanna, eins og frv. gerir ráð fyrir. Það hefur verið og er krafa sveitarfélaganna að losna við allan kostnað af lögregluhaldi og þá að sjálfsögðu við allan kostnað við byggingu og rekstur fangelsanna. Úr því ætti nú að fást skorið, hvort hv. Alþ. sér sér fært að mæta þessum kröfum og óskum sveitarfélaganna.