23.02.1961
Neðri deild: 68. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

30. mál, ríkisfangelsi og vinnuhæli

Frsm. (Jón Kartansson sýslumaður):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð.

Fyrsta brtt. hv. 11. landsk. miðar að því að setja öll fangelsi undir ríkið. Ég er honum sammála um, að þannig hlýtur það að verða í framtíðinni. En eins og nú standa sakir og öll okkar fangelsismál eru óleyst og þessi stóru fangelsi eftir frv. verða á ríkissjóði, þá hefur hann víssulega nóg á sinni könnu. Nú er það svo, að bæði sveitarfélögin og ríkissjóður hafa héraðsfangelsin í sameiningu og reka þau í sameiningu. Ég held, að það sé rétt að halda þessu nokkuð um skeið, þó að ég sé sannfærður um, að það endar með því, að ríkið taki allt á sig.

Þá vildi hv. flm. brtt. ekki lögbinda það, að Litla-Hraun yrði vinnuhæli. Ég hygg, að það sé af hagkvæmnisástæðum, að þetta er gert, og ég hygg, að það verði hagkvæmara að stækka og styrkja svo þetta vinnuhæli, að það verði öruggt fyrir þessa miklu fjölgun, sem ráðgerð er, heldur en byggja nýtt vinnuhæli. Það er gefinn hlutur. Ég held, að það sé ekki hyggilegt að fella þetta út.

Ég skil satt að segja ekki þá umhyggjusemi, sem ýmsir hv. þm., bæði þessi hv. þm. og eins flokksbræður hans í Ed., hafa fyrir barnsfeðrum, sem vanrækja að greiða meðlag með börnum sínum. Ég þekki ekki sveitarfélög, sem ganga svo hart að, ef um fátæka menn og reglusama er að ræða, að þau sendi þá á vinnuhælið til þess að vinna meðlögin af sér. En venjulega hafa þessir menn nóga getu, en vanrækja að greiða með börnum sínum. Tel ég óhæfu að þola þetta. Ég hef enga samvizku af því, þótt það standi í lögunum, að þeir skuli afplána meðlögin á vinnuhæli.

Þetta eru aðalbrtt., sem hv. þm. flytur. Fyrir hönd meiri hl. n. legg ég til, að þær verði felldar.