14.10.1960
Efri deild: 4. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

29. mál, héraðsfangelsi

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta frv. fylgir hinu frv., sem hér var til umr. næst á undan, og er í nánu sambandi við það. Segja má, að í því sé byggt á sömu grundvallarreglum um samstarf ríkis og sveitarfélaga varðandi héraðsfangelsi og gilt hafa nú um hríð. Þó eru gerðar ráðstafanir til þess, að frekar sé líklegt eftir samþykkt frv., að um raunhæfar framkvæmdir verði að ræða, heldur en hingað til hefur reynzt, og þá ráðgert, að frumkvæði í þessum efnum geti komið hvort heldur frá ríki eða sveitarfélagi, en það sé Alþingi, sem af hálfu ríkisins hafi úrslitaákvörðunarvald um það, hvað gera skuli, og einnig reynt að tryggja,að þegar búið er að ákveða, að í slíka byggingu sé ráðizt, þá verði greiðslur inntar af hendi á skömmum tíma, þannig að báðir aðilar geti treyst því, að ekki sé látið sitja við orðin ein um greiðsluloforð, heldur verði féð raunverulega fyrir hendi.

Víðast hvar mundu héraðsfangelsi ekki verða sérlega kostnaðarmikil. Hér yrði víðast um tiltölulega litlar byggingar að ræða. En þó er þess að gæta, að margar þær byggingar, sem nú eru notaðar í þessu skyni, eru ekki til frambúðar, og þarf þar víða mjög mikilla umbóta víð.

Það kom mjög til álita að kveða á um, hvort e.t.v. ríkið eitt ætti að taka á sig að standa undir öllum kostnaði af þessum málum. Að ýmsu leyti er það æskilegra, að löggæzlan sé algerlega í höndum ríkisins, heldur en þessi tvískipting eigi sér stað. En hvort tveggja er, að önnur regla hefur hingað til gilt, að enn hefur ríkið einungis nokkurn hluta kostnaðar við löggæzlu á sinni könnu, og að á næstu árum verður ríkið sjálft að verja óhjákvæmilega svo miklum fjárhæðum til ríkisfangelsa, eins og ég gerði grein fyrir áðan, að ekki er rétt, að það taki á þessu stigi á sig meiri skuldbindingar í þessum efnum en í frv. eru ráðgerðar. Það verður svo að takast til athugunar siðar, þegar búið er að gera grundvallarframkvæmdir í þessum efnum, hvort menn þá telja fært, að ríkið taki að öllu leyti við kostnaðinum, eins og víða annars staðar er nú orðið.

Ég vonast til þess, að þetta frv. fái einnig greiðan framgang. Það þarf ekki um það að ræða. Okkur er jafnkunnugt um héraðsfangelsin eins og ríkisfangelsin, að þau eru víða og víðast allsendis ófullnægjandi. En það er rétt að geta þess, að vonir standa til þess í Reykjavík, að nokkurra umbóta sé von hér, áður en mjög langt líður. Búið er að veita töluvert fé til byggingar lögreglustöðvar. Nýlega hefur verið samþykkt í bæjarstjórn Reykjavíkur að láta henni í té ágæta lóð, og er nú í undirbúningi teikning að frambúðarlögreglustöð, þar sem komið yrði fyrir nýtízku fangageymslu, sem þá mundi koma í stað hins mjög óviðunandi kjallara, sem notaður er enn og oft hefur orðið að umræðuefni, einnig hér. á Alþingi, þó að skort hafi á fjárveitingar til þess að bæta þar um. En játa verður, að bygging lögreglustöðvar muni væntanlega með öllu og öllu taka svo langan tíma, að ekki sé viðhlítandi að bíða eftir henni til þess að komast frá þeirri forsmán, sem telja verður að kjallarageymslan sé, og þess vegna hefur verið ákveðið og lögreglustjóra heimilað að ráðast í bráðabirgðaframkvæmdir til að koma upp nýrri fangageymslu með þeim hætti, að það húsrými yrði þá þannig, að með litlum tilkostnaði yrði hægt að nota það til annarra þarfa eftir á, þegar hin væntanlega lögreglustöð er komin upp. En það er ljóst, að það er ekki hægt að koma upp bráðabirgðafangageymslu, þar sem lögreglustöðina á að byggja, meðan byggingarframkvæmdirnar standa yfir, og þær munu áreiðanlega taka nokkur ár, og verður því að koma upp þessari bráðabirgðabyggingu á öðrum stað.

Ég vil vænta þess, að þetta frv. fái að ganga til 2. umr. og verði einnig sent til hv. allshn. deildarinnar.