09.02.1961
Efri deild: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

29. mál, héraðsfangelsi

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég get látið mér að nokkru leyti nægja að vísa til þess, er ég sagði í framsöguræðu minni um frv. til l. um ríkisfangelsi og vinnuhæli.

Héraðsfangelsin eru ætluð handa handteknum mönnum, gæzluföngum og þeim, sem dæmdir eru til skammrar varðhaldsvistar. Ástandið í fangelsismálum, að því er héraðsfangelsi varðar, er ef til vill ekki miklu betra en ástandið í málum ríkisfangelsa og vinnuhæla. Þó er það auðvitað nokkuð misjafnt í hinum einstöku lögsagnarumdæmum. Sums staðar eru viðunandi héraðsfangelsi fyrir hendi, en á öðrum stöðum eru þau ýmist ófullnægjandi ellegar þau skortir alveg. Valdimar Stefánsson sakadómari telur í skýrslu sinni, að brýnust þörfin til úrbóta í héraðsfangelsamálum utan Reykjavíkur sé í Vestmannaeyjum, Ólafsvík, Akureyri, Raufarhöfn og á Seyðisfirði. Í Reykjavík telur hann nauðsynlegt að byggja 60 klefa fangageymslu í stað núverandi lögreglustöðvarkjallara.

Frumvarpi því um héraðsfangelsi, sem hér liggur fyrir, er ætlað að koma fyrst og fremst í stað laga um fangelsi, nr. 29 frá 1936. Er hér ekki um neinar meginbreytingar að ræða. Aðalbreytingin er fólgin í því að setja skýrari reglur um samvinnu ríkisvaldsins og sveitarfélaganna um byggingu héraðsfangelsa og hvernig tekin skuli fullnaðarákvörðun um framkvæmdir og að tryggja betur en áður, að fé sé fyrir hendi til að ljúka þeim framkvæmdum, sem ráðizt hefur verið í.

Það hefur komið fram og heyrzt um það ýmsar raddir, kom m.a. fram hér í umr. um ríkisfangelsi, að eðlilegt væri, að ríkið annaðist að öllu leyti kostnað við rekstur og byggingu héraðsfangelsa. En samkv. þessu frv. er það óbreytt frá því, er áður var, að ríkið skuli greiða þetta að hálfu á móti viðkomandi sveitarfélögum. M.a. hefur verið vitnað hér til umsagnar Sambands íslenzkra sveitarfélaga, og það hefur líka verið vitnað hér í nágrannalöndin, hvernig þessu er fyrir komið þar. Það má sjálfsagt færa fram ýmis rök fyrir því, að það væri sanngjarnt, að ríkið greiddi þetta að öllu leyti. Þegar maður er þó að bera saman við önnur lönd, þá er auðvitað ekki nóg að taka einangruð tilfelli eins og héraðsfangelsi út úr, heldur yrði þá raunverulega að bera saman til þess að fá rétta mynd öll samskipti sveitarfélaga og ríkisvalds í þeim löndum. Út af fyrir sig er það ljóst, að héraðsfangelsin eru byggð í þágu héraðsins og ríkisins, þannig að það er a.m.k. ekkert óeðlilegt, þó að þessir aðilar skipti kostnaðinum með sér. Það er svo um margar framkvæmdir, að þær eru greiddar af báðum aðilum, ríki og sveitarfélögum, við skulum segja eins og skólar, sjúkrahús, hafnir o.fl., o.fl., og mér fyndist óeðlilegt, að farið væri að taka eitt og eitt af þessum atriðum út úr og gera þarna breytingu á, heldur yrði að taka þetta allt fyrir í heild og endurskoða þessi atriði í heilu lagi og þá jafnframt því, sem endurskoðaðar væru reglurnar um tekjustofna sveitarfélaga.

Það, sem ég held að verði þó fyrst og fremst að hafa í huga, þegar tekin er ákvörðun um það, hvort eðlilegt sé, eins og sakir standa, að ríkið taki þetta allt að sér eða sveitarfélag verði látið halda áfram að greiða þetta að hálfu, það sé, hvor aðferðin sé líklegri til þess að hafa áhrif í þá átt, að bætt sé úr skorti á héraðsfangelsum. Ég hygg, að ef ríkið tæki að sér að greiða þetta allt saman, mundu rísa upp gegndarlausar kröfur á hendur ríkisvaldinu frá héruðum og sveitarfélögum víðs vegar um landið, en ef þetta er hins vegar óbreytt, þá mundu sveitarfélögin vissulega vilja leggja það á sig að greiða sinn hluta óbreyttan af þessu, og það yrði til þess, að það kæmi raunhæft frumkvæði úr héruðunum sjálfum um uppbyggingu héraðsfangelsa, í stað þess að ef þessu yrði breytt, þá kæmu eingöngu kröfur á hendur ríkisvaldinu. Og ég held einmitt, að það sé líklegra til árangurs, að sveitarfélögin hafi líka skyldum að gegna í þessu efni.

Meiri hl. allshn., sem hefur fjallað um þetta frv., hefur mælt með því, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og fram kemur í nál. meiri hl. á þskj. 346.