23.02.1961
Neðri deild: 68. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (523)

29. mál, héraðsfangelsi

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Frv. þetta um héraðsfangelsi var lagt fram í Ed. samhliða frv. því til laga um ríkisfangelsi og vinnuhæli, sem var rætt hér næst á undan. Hvor tveggja þessi frumvörp eru byggð á athugunum og tillögum sakadómarans í Reykjavík, sem fékk það verkefni á hendur að athuga um fangelsismál hér á landi. Sakadómari hefur gefið mjög ýtarlega og greinargóða skýrslu um fangelsismálin í heild, óg niðurstaðan af hans tillögum er, eins og ég sagði, tvö frumvörp um ríkisfangelsi og vinnuhæli annars vegar og héraðsfangelsi hins vegar.

Allshn. hefur athugað þetta frv. og mælir með samþykkt þess. Einn nm., hv. 11. landsk., hefur þó áskilið sér rétt til þess að flytja brtt. eða fylgja slíkum, ef fram kynnu að koma, og þessi hv. þm. hefur í sambandi við ríkisfangelsi komið fram með brtt., sem hefðu breytt mjög þessu máli, sem ég nú ræði og hér er á dagskrá, ef samþykktar hefðu verið.

Það er ekki vafi á því, að það markmið, sem stefnt er að með þessu frv., er að bæta úr brýnni þörf. Fangelsismál okkar Íslendinga hafa lengi verið í hinni mestu óreiðu, og því hefur verið lýst hér áður og allir sammála um. Allir þeir, sem hugsa um þessi mál og hafa hug á og vilja leysa þau, vita um þá nauðsyn, sem er á því að koma upp sæmilegum fangelsum.

Það hefur komið í ljós, að það er ekki samstaða um það, hvernig greiða skuli stofnkostnað annars vegar og rekstrarkostnað hins vegar í sambandi við héraðsfangelsi. Till. hefur komið fram um það varðandi ríkisfangelsi, að um héraðsfangelsin færi í kostnaði eins og ríkisfangelsi, en í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður greiði helming kostnaðar og viðkomandi sveitarsjóður hinn helminginn.

Það hefur lengi verið með okkur sú regla uppi um löggæzlukostnað, að sveitarsjóðir hafi tekið að sér víssan hluta á móti ríkinu, og þetta hefur verið svo framkvæmt vegna þess, að ríkissjóður hefur aldrei talið sig vera það efnum búinn, að hann gæti tekið þessi mál á sína arma einvörðungu, enda má telja það nokkurn veginn ljóst og rökrétt, ef litið er til þess, í hverju horfi ríkisfangelsi hafa verið um langt skeið. Þess vegna tel ég og meiri hl. allshn. rétt að samþykkja þá tilhögun, sem gert er ráð fyrir í ákvæðum þessa frv., — þá tilhögun, að ríkissjóður greiði helming, en víðkomandi sveitarsjóðir hinn hlutann, á meðan ríkissjóður þarf að leggja stórfellt kapp á og mikla fjármuni fram til þess að koma höfuðfangelsum ríkisins í viðunandi horf. Á þessa röksemd verður maður að fallast að sinni. Hitt er svo vitað, að þróunin hlýtur að verða sú, eins og er með öðrum þjóðum mörgum, t.d. nágrannaþjóðum okkar, að ríkissjóður einn taki á sig allan kostnað af þessum málum, fangelsismálum þjóðarinnar, enda í raun og veru ákaflega eðlilegt og rökrétt. En meðan svo er um fjárhag ríkissjóðs sem er í dag og þá venju, sem hefur ríkt í þessum efnum, að því er varðar héraðsfangelsi, þá þykir okkur í allshn. rétt að fylgja þessu frv. með þessum ákvæðum um greiðsluskyldu eða kostnaðargreiðslu.

Það er ekki ástæða til þess fyrir mig að hafa öllu fleiri orð um þetta mál. Í fyrra máli hér á dagskrá var rætt nokkuð af framsögumannsins hálfu um þessi mál almennt, og eiga hans orð hér vel við. Mér er ljóst og okkur nm., að hér er stefnt í þá átt að færa þessi mál í betra horf, og þess er hin fyllsta nauðsyn. Við væntum þess, að hv. alþm. hér í d. geti greitt frv. atkvæði, og það er mjög mikil þörf því, að framkvæmdir hefjist sem fyrst í þessu efni. Það ber nokkurn vott þess, að svo verði, að ákvæði eru í frv., að Alþ. skuli koma til í upphafl í sambandi við áætlunarkostnað, sem bendir til þess, að ríkið ætli sér að vinna skipulega að fjárhagsmálum í þessu efni, og það verður að telja til hins betra, að ekki sé lagt meiri stofnkostnað í sambandi við héraðsfangelsi, nema nokkurn veginn sé tryggt, að málið komist fram. Þetta er mikilsvert ákvæði, sem hefur ekki verið áður í löggjöf um fangelsi.

Að svo mæltu vildi ég óska þess, að málið fari að lokinni þessari umr. til 3. umr.