25.11.1960
Efri deild: 28. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (536)

10. mál, almenn hegningarlög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er í nánu sambandi við öll frumvörpin, sem eru síðar á dagskránni. Það má segja, að þau séu í raun og veru sama málið, þó að af formlegum ástæðum hafi þótt réttara að flytja það í svo mörgum frumvörpum sem hér liggja fyrir, og er þó eitt sama eðlis enn eftir í Nd., vegna þess að þar hafði verið boðuð brtt. við það. Ég mun því leyfa mér að ræða um öll málin samtímis.

Frumvörp þessi eru samin af þrem mönnum, sem á sínum tíma voru skipaðir til þess af dómsmrh. að endurskoða hegningarlögin, og hafa nú þegar verið lögfestar nokkrar af þeirra tillögum. Það mál, sem hér liggur fyrir, var borið fram fyrst á þingi 1957, en varð þá ekki útrætt. Að athuguðu máli þótti rétt að flytja þessi frumvörp að nýju nú. Hv. Nd., sem hefur haft málið til meðferðar og stöðvaði málið 1957, hefur nú samþykkt þessi frumvörp.

Í mjög stuttu máli er aðalefni þeirra, að í stað þess, að það leiði, ef svo má segja, af sjálfu sér af meiri háttar refsingum, að menn missi almenn mannréttindi, þá verði mannréttindamissirinn ýmist alveg felldur niður eða það verði látið undir úrskurði dómara hverju sinni, hvort ástæða sé til að svipta sakborning einhverjum tilteknum réttindum, og þá miðað við það, hvort brotin séu þess eðlis, að líklegt sé, að hann sé ekki verður réttindanna þeirra vegna. Þessi almenna mannréttindasvipting hefur verið lengi í lögum, en að skoðun sérfróðra manna í refsirétti þykir það fyrirmæli ekki heppilegt, horfa til þess að gera þann, sem fyrir réttarsviptingunni verður, óstýrilátari, setja hann í andstöðu við þjóðfélagið, gera honum erfiðara fyrir um að samlaga sig því og reglum þess, eins og nú er viðurkennt að sé ein höfuðnauðsyn um þá, sem komizt hafa í ósátt við lögin og hlotið refsingar fyrir þær sakir.

Sums staðar annars staðar, þar sem svipuð réttarskipun gildir og hér, er búið að fella niður það skilyrði, að maður þurfi að hafa óflekkað mannorð til þess að geta notið almenns kosningarréttar. Stjórnarskrám hefur sums staðar verið breytt í þessu skyni, þar sem þörf hefur verið á því. Á okkar landi er það ákveðið í stjórnarskránni, að þessu skilyrði þurfi að fullnægja, og er þess vegna ekki hægt að breyta því með einföldum lögum. Hins vegar er hér lagt til, að önnur túlkun stjórnarskrárákvæðanna verði tekin upp en hefur gilt nú um sinn, — túlkun, sem á að verða mildari fyrir sakborning en sú skilyrðislausa regla, sem í gildi hefur verið. Jafnframt er svo mannorðsflekkur felldur burt sem skilyrði kosningarréttar, þar sem um einfalt lagaákvæði er að ræða, sbr. sveitarstjórnarkosningar og sóknarnefndir.

Þetta eru aðalatriði þess máls, sem hér liggur fyrir, og hygg ég, að það verði í raun og veru ekki ljósara með því að fjölyrða meira um það á þessu stigi. Ég vonast til þess, að hv. d. taki það til vinsamlegrar meðferðar, vísi því til 2. umr. og hv. allshn., og legg ég til, að sú meðferð verði ekki aðeins höfð um þetta frv., heldur öll hin frumvörpin, sem síðar eru á dagskránni.