10.03.1961
Efri deild: 70. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

10. mál, almenn hegningarlög

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað frv. þetta til breytinga á almennum hegningarlögum, sem hér liggur fyrir, og er n. sammála um að mæla með því, að frv. verði samþykkt óbreytt ásamt 18 öðrum lagafrv. á þskj. 11–28, sbr. þskj. 192, sem fjalla um breytingar á sérlögum, sem standa í nánum tengslum við aðalfrv. Einn nm., hv. 3. þm. Norðurl. v., var fjarverandi, þegar málið var afgreitt á nefndarfundi.

Frv. þetta hefur áður verið flutt á Alþingi, veturinn 1957–58, en var þá ekki útrætt. Fylgdi því þá mjög skilmerkileg greinargerð og glöggar skýringar við einstakar greinar, og er í rauninni alveg nægjanlegt að vísa til þessara gagna. Þar stendur í rauninni allt, sem segja þarf um þetta mál.

Frv. ásamt greinargerðinni, er fylgdi því í fyrra skiptið, var samið af hegningarlaganefndinni, en í henni sátu hæstaréttardómararnir Þórður Eyjólfsson og Jónatan Hallvarðsson og prófessor Ármann Snævarr, en þetta eru fremstu menn þjóðarinnar á sviði refsiréttar.

Höfuðtilgangur þessa frv. er að draga úr því, að menn missi borgaraleg réttindi og atvinnuréttindi vegna refsiverðra brota. Er með þessu fetað í fótspor þeirrar réttarþróunar, sem átt hefur sér stað í Danmörku, Noregi og Svíþjóð á undanförnum árum og áratugum. Sem dæmi um hin nýju sjónarmið má nefna, að sé vélstjóri dæmdur í refsingu fyrir að falsa tékka og fái þannig flekkað mannorð og missi þar af leiðandi vélstjóraréttindi, þarf sá verknaður ekki að veita neina bendingu um það, að maðurinn sé líklegur til að misfara með vélstjóraréttindi sín, og því ástæðulaust að setja það að óhjákvæmilegu skilyrði fyrir vélstjóraréttindum, að maður hafi óflekkað mannorð.

Eftir hinum nýju reglum, sem koma fram í 6. gr. aðalfrv., er réttindasviptingin bundin við skilyrði, að brotið gefi til kynna, að veruleg hætta sé á því, að sakborningur mundi fremja brot í stöðu sinni eða starfsemi. Þegar brot er stórfellt, má einnig svipta sakborning réttindum, ef hann telst ekki framar verður til að rækja starfa eða njóta réttindanna.

Í þessum frv. felst það m.a., að óflekkað mannorð verði fellt niður sem skilyrði kosningarréttar og kjörgengis við sveitarstjórnarkosningar. Að því er kjörgengi varðar sérstaklega, tekur hegningarlaganefndin fram, að það geti ekki verið varhugavert að láta kjósendum það eftir, hvort þeir vilji kjósa dómfelldan mann eða ekki. Hegningarlaganefndin tekur einnig fram, að hún sé þeirrar skoðunar, að rétt sé að nema úr lögum óflekkað mannorð sem skilyrði kosningarréttar og kjörgengis við alþingiskosningar. Þessu verður hins vegar ekki breytt með lagasetningu, heldur þarf til þess stjórnarskrárbreytingu, eins og kunnugt er.

Ég vil svo að lokum endurtaka tilvísun mína til skýringa og grg. hegningarlaganefndarinnar, þegar frv. kom hér fram hið fyrra sinn á Alþingi. Jafnframt vil ég taka fram, að frekari framsaga verður ekki flutt fyrir fylgifrv., sem hér koma á eftir.