22.11.1960
Neðri deild: 26. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

40. mál, skemmtanaskattsviðauki 1961

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í þessu frv., sem afgreitt var samhljóða í hv. Ed., felst það eitt að framlengja það álag, sem um mörg undanfarin ár hefur verið innheimt á skemmtanaskatt, og eftir sömu reglum og gilt hafa. Í þessu frv. felast því ekki tillögur um neinar breytingar á núgildandi innheimtu skemmtanaskatts. Vildi ég því leyfa, mér að vænta þess, að frv. geti gengið greiðlega í gegnum hv. deild.

Í þessu sambandi og að gefnu tilefni við umr. í hv. Ed. vil ég þó láta þess getið við þessa hv. d., að nokkrir embættismenn hafa nú með höndum athugun á framkvæmd skemmtanaskattslaganna. Menntmrn. hefur veitt því athygli, að nokkur breyting hefur orðið á skemmtanahaldi eða öllu heldur dansleikjahaldi hér í Reykjavík undanfarið. Sú breyting hefur siglt í kjölfar þess, að nokkur veitingahús hafa fengið leyfi til þess að hafa opið til kl. 1 eða 2 að nóttu án þess að greiða af því skemmtanahaldi nokkurn skemmtanaskatt, og hefur þetta valdið nokkru misræmi á milli þessara skemmtistaða, þar sem er dansað, og annarra, þar sem einnig er dansað, en aðgangur er seldur að dansskemmtuninni. Þetta hefur orðið tilefni til þess, að rn. fól þeim embættismönnum, sem sérstaklega eru kunnugir innheimtu skemmtanaskattsins, að athuga, hvaða breytingar þyrfti að gera á framkvæmdinni, til þess að tryggt yrði, að skemmtanaskatturinn tæki jafnt til allra aðila, sem teljast mega halda skemmtanaskattsskyldan dansleik. Jafnhliða þessu fer fram athugun á því, hvort ekki sé orðið tímabært að láta skemmtanaskattinn ná til alls landsins, en svo sem kunnugt er, er hann ekki innheimtur á stöðum, þar sem íbúar eru færri en 1500. Þá hefur framkvæmd skemmtanaskattsins einnig verið hagað þannig, að leikstarfsemi er talin skemmtanaskattsskyld, en menntmrn, hafa undanfarið borizt mörg tilmæli frá leikfélögum um það að verða undanþegin greiðslu skemmtanaskatts, eins og þjóðleikhúsið er undanþegið greiðslu slíks skatts. Heimild hefur skort í lögum til þess að verða við slíkum tilmælum, en sanngirni virðist þó mæla með því, að a.m.k. þær leiksýningar, sem haldið er uppi af leikfélögum, sem starfa að staðaldri, verði undanþegnar skemmtanaskatti, eins og sýningar þjóðleikhússins eru það. Þá virðist vera hægt að endurbæta sjálfa innheimtu skattsins í ýmsum atriðum, og er það mál einnig til athugunar.

Það er hugsanlegt, að tillögur frá embættismönnunum um þessi efni, sem ég hef nú drepið á, liggi fyrir innan skamms, og mun þá annaðhvort verða tekinn sá kostur að skýra hv. menntmn. frá niðurstöðum þessarar athugunar og tillögum embættismannanna, eða tillögum ráðuneytisins, ef þær verða öðruvísi, eða þá þær verða klæddar í búning sérstaks frv., sem þá yrði lagt fyrir hið háa Alþingi.

Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til . 2. umr. og hv. menntmn.