28.11.1960
Neðri deild: 29. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

4. mál, ríkisreikningurinn 1958

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er svo sjaldan, að við fáum tækifæri til þess í hv. d. að ræða nokkuð við stuðningsmenn hv. ríkisstj. um hennar efnahagsmál, að það er ekki nema eðlilegt, að við notum tækifæri til þess, þá sjaldan það gefst.

Hv. 2. þm. Norðurl. v. gerði hér aths. út af ríkisreikningnum fyrir 1958 og mælti þar nokkur orð um, að það væri ekki efnilegt, hvernig menn stæðu í skilum með það,. sem þeir ættu að borga, þær væru 24 millj. kr., vanskilagreiðslurnar, sem hefðu ekki orðið inntar af hendi árið 1958. Á árinu 1959 munu þetta vera 28 eða tæpar 29 millj, kr. Það hefur sem sé sízt farið batnandi, síðan ný stjórnarsamsteypa tók við í landinu, og heildarlistinn yfir allar þessar ábyrgðir ríkissjóðs er rúmlega hálfur annar milljarður, — 1 milljarður og 572 millj. — í árslok 1959. Og mér skildist á hv. þm., að hann vildi gefa til kynna, að þetta væri ekki rétt góð þróun, og þar sem meginið af því væri viðvíkjandi sjávarsíðunni, þá bæri ekki að vera að tala neitt um það, þó að landbúnaðurinn kynni eitthvað að skulda eða eitthvað verið að ganga í ábyrgðir fyrir hann.

Það er alveg rétt, að það hefur verið stefna íslenzka ríkisins um allmarga áratugi að reyna að hjálpa atvinnuvegunum í landinu, jafnt landbúnaði, sjávarútvegi sem öðrum. M.ö.o.: ríkinu hefur að vissu leyti verið stjórnað með það fyrir augum, að þess máttur, t.d. til lánveitinga, ábyrgða og annars slíks, kæmi atvinnulífinu að haldi, þannig að hægt væri að byggja upp atvinnulif á Íslandi sem víðast og viðhalda því atvinnulífi. En þegar verið er að gefa okkur áminningu út af því, að landsbúar standi ekki rétt vel í skilum, þá er ekkert undarlegt, þó að við veltum ofur lítið fyrir okkur, hvernig þeir muni standa í skilum í ár, — ég tala nú ekki um næsta ár, m.ö.o., hvort það séu einhver líkindi til þess varðandi það, sem hv. þm. var að kvarta yfir að væri heldur slæm þróun, að það mundi eitthvað verða snúið við á þeirri braut á næstunni.

Hver er afstaða núv. ríkisstj., og hvernig er núv. ríkisvaldi beitt í þessum efnum? Það skyldi ekki undra mig, þótt það yrði allmiklu meiri upphæð á árinu 1960 og þó alveg sérstaklega á árinu 1961, ef ekkert yrði breytt til, sem ríkissjóður yrði að greiða vegna ríkisábyrgðarlána. Og það væri raunar nokkuð fróðlegt að fá nú þegar upplýsingar hjá hæstv. fjmrh., — ef hann sæist nú, — þegar ríkisreikningarnir eru ræddir, — um það, hvernig þróunin sé í þessum málum núna. Undanfarin ár og áratugi hefur það þó verið svo, að ríkið hefur ofur lítið verið að reyna að hjálpa til í þessum efnum. Hvernig er það núna? Nú er það þannig, að það er beinlínis ríkisstj., sem reynir að setja fyrirtækin á hausinn. Það eru gerðar sérstakar ráðstafanir af hálfu ríkisstj., — vísvitandi glæpsamlegar ráðstafanir, — til þess að reyna að setja sem flest fyrirtæki í landinu á hausinn með því að hækka vextina upp í 12%, sem vitað er, að enginn atvinnurekstur í eðlilegu þjóðfélagi yfirleitt þolir. Ég er þess vegna hræddur um, að það, sem hafi gerzt í ár, sé, að það séu frekar fleiri fyrirtæki en færri, sem hafi farið á hausinn í þessum efnum. Og það er ekki nóg með, að ríkisstj. hafi gert slíkar ráðstafanir, að hækka þannig vextina og gera mönnum miklu erfiðara með að standa í skilum. Jafnframt hefur ríkisstj. gefið bönkunum alveg sérstök fyrirmæli, og þau fyrirmæli eru á þá leið, að bankarnir skuli draga úr sínum útlánum, m.ö.o., að þeir skuli, þvert á móti því að hjálpa atvinnurekstrinum í landinu og reyna að gera honum mögulegt að starfa, þá skuli þeir gera ráðstafanir til þess að láta fara að ganga að honum, og máske alveg sérstaklega þegar í hlut eiga þau fyrirtæki, þar sem t.d. bæjarfélög eða aðrir slíkir eða einhverjir smákarlar hér og hvar úti á landi eiga hlut að máli. Það eru máske gerðar undantekningar, ef það eru t.d. ríkir samflokksmenn eða stórskuldugir samflokksmenn hv. 2. þm. Norðurl. v., þá eru kannske gerðar undantekningar. Ég hef áður spurt hér að því, hvernig standi með þessa hluti. Sá maður er horfinn af þinginu núna, sem hefði kannske getað gefið sérstaklega góðar upplýsingar í þessum efnum, hv. 3. varaþm. Austf. En það væri fróðlegt fyrir okkur að fá umr. um það hér, hvernig ástandið er með þessa hluti, þegar að völdum situr ríkisstj., sem virðist beinlínis vera að skipuleggja hrun í landinu.

Það er vitanlegt, að svo og svo mikið af öllum fyrirtækjum, sem við sjávarútveg fást, sérstaklega bátunum, er nú þegar meira eða minna á uppboði. Það eru máske sum fyrirtæki, sem eru ekki auglýst, en ég veit ekki, hvort þau standa nokkuð betur í skilum en hin.

Ég kann þess vegna hálfilla við, að það sé verið að gefa svona áminningar hér í þessum efnum úr stjórnarliðinu. Ég sé ekki betur en það sé vitandi vits verið að vinna að því að setja sem mest af íslenzkum atvinnurekstri á hausinn, sérstaklega í sjávarútveginum, að það sé verið að vinna að því að eyðileggja þann grundvöll, sem sjávarútvegurinn starfar á, bæði efnahagslegan og mér liggur við að segja líffræðilegan, — á ég þar við að undirbúa að hleypa Bretunum inn í landhelgina.

Ég held þess vegna, að það komi úr hörðustu átt, ef það er verið að koma með nokkrar siðferðilegar bollaleggingar út af þessum málum, út af vanskilaskuldum hjá þeim mönnum og bæjarfélögum og öðrum aðilum á Íslandi, sem hafa reynt að gera eitthvað á undanförnum árum, frá þeirri ríkisstj. og hennar fylgdarliði, sem er beinlínis að reyna að koma þessu öllu í kaldakol, máske til þess að einstaka menn geti að sama skapi keypt upp ódýrt. Það er þegar farið að bera á því, að þeir menn, sem hæstv. ríkisstj. lætur lána út úr bönkunum, hvernig sem þeir annars standa þar, þeir kaupa upp eignir, m.ö.o. einn maður, sem skuldar í bankanum, er settur á hausinn, annar maður, sem skuldar í bankanum, fær aukin lán í bankanum til þess að kaupa eignir hins fyrir gjafverð. Í gamla daga mundi þetta hafa verið kallað fyrirsát og að ræningjar hefðu þetta með höndum. Núna fer ránskapurinn fram á miklu siðaðri hátt. Nú koma menn sér saman um það í einni ríkisstj., að það skuli taka upp slíka pólitík, að menn skuli ekki fá lán nema með 12% vöxtum og jafnvel einu sinni varla það, og svo skulu bankar ganga að ákveðnum mönnum og setja þá á hausinn, síðan skuli aðrir menn fá lán úr bönkunum til þess að kaupa upp eignir hinna fyrir gjafverð. Það þarf ekki að setja skammbyssu fyrir brjóstið á neinum manni til að gera þetta. Þetta er bara gert með því að skrifa upp á nokkra víxla — jákvætt á suma þeirra, en neikvætt á suma þeirra — af hálfu bankastjóranna. Þessi ránskapur er að verða reglan í íslenzkum peningamálum nú sem stendur. Svo koma hér þm. utan af landi, sem mega vita það, ef þeir hugsa nokkurn skapaðan hlut um, hvað er að gerast í íslenzkum stjórnmálum, að það er verið að undirbúa að eyða landsbyggðinni, — eyða landsbyggðinni vitandi vits, — og þm. stjórnarflokkanna eru þá heimskari en ég held, ef þeir gera sér ekki ljóst, að verið sé að stefna að þessu. Og svo koma þessir menn og segja: Þetta er óttalegt með þessar vanskilaskuldir. Þarna eru hreppar og alls konar útgerðir hér og hvar úti um allt land, sem standa ekki í skilum. Það er eins og menn hafi engan áhuga fyrir að borga sínar skuldir. — Á sama tíma eru þeir að taka þátt í að styðja ríkisstj. eða stjórnarpólitík, sem gerir mönnum ómögulegt að standa í skilum. Sannleikurinn er, að það er ekki bara gagnvart útgerðarmönnum, bæjarfélögum, hreppum og öðru slíku, sem verið er að leika þennan leik. Þennan leik er verið að leika jafnvel gagnvart einstaklingum hér í Reykjavík og alls staðar úti um allt land. Það fjölgar með degi hverjum þeim uppboðum, sem haldin eru t.d. á íbúðum manna hér, vegna þess m.a., að menn séu að missa vinnu, menn geti ekki lengur t.d. unnið eftirvinnu, eins og menn gjarnan vildu gera hér áður, til að vinna fyrir sinum íbúðum, vegna þess að ríkisstj. rekur þá pólitík, sem stefnir beint að atvinnuleysi, sem þegar er byrjað víða úti um land og er að byrja hér í Reykjavík, vitandi vits, vegna þess að það væri vitlaus maður, sem sæi ekki afleiðingarnar af þeirri pólitík, sem hún rekur. Það er þegar farið að selja hér fokheldar íbúðir á verði, sem er undir því, sem kostað hefur að gera þær, þannig að þeir menn, sem eru í náðinni hjá yfirvöldunum, fá aðstöðu til þess að safna eignum á fáar hendur nú, og það er það, sem er tilgangurinn með núverandi ríkisstjórnarpólitík, að koma öllum eignum á Íslandi á fárra manna hendur.

Ég vildi minnast á þetta, fyrst einn hv. stjórnarþm. fór að taka til máls um fjármál ag um það, hvernig vanskilaskuldirnar væru, og virtist vera eitthvað undrandi á þeirri þróun. Ég held, að það sé nauðsynlegt, ef einhver af hv. þm. stjórnarliðsins hefði ekki gert sér ljóst, hvert stefndi með þessu, að það kæmi til með að síga nokkuð meir og hraðar á ógæfuhliðina með þeirri stjórnarpólitík, sem nú er verið að framkvæma, og það er bezt fyrir menn að gera sér ljóst í tíma.