28.11.1960
Neðri deild: 29. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

4. mál, ríkisreikningurinn 1958

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það voru fáein orð út af því, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði. Ég held, að hann hafi misskilið þetta skjal, sem hér liggur fyrir, þ.e.a.s. frv. um samþykkt á ríkisreikningnum fyrir árið 1958, því að hann tók niðurstöðutölur þess og sagði, að frv. sýndi, að umframgreiðslur, sem hefðu verið inntar af höndum án heimilda 1958, væru hvorki meira né minna en 154 millj., fór svo hörðum orðum um það, sem von var, ef honum fannst þetta liggja fyrir, að nokkur ríkisstj. hefði leyft sér að borga 154 millj. umfram, án heimilda. Ég held, að hv. þm. hafi misskilið þetta alveg, eins og ég skal nú sýna fram á.

Það er nefnilega ekki nægilegt að líta á þetta frv. til að fella dóm um þetta, vegna þess að það er venja, — gömul venja, býst ég við, — að setja þetta ríkisreikningsfrv. upp á þann hátt, að það eru teknar útborganir undir 28. liðinn, teknar útborganir úr sjóði og innborganir í sjóð. Þar koma undir ýmsir viðskiptaliðir, sem ekkert eiga skylt við venjulegar fjárveitingar eða útgjöld og tekjur eða skylt við það, hvort greitt er umfram heimildir í fjárlögum eða ekki.

Ég skal skýra þetta með fáeinum orðum, til þess að þessi mynd verði skýr.

Ef við lítum á rekstrarreikninginn fyrir 1958, kemur í ljós, að fjárveitingar á honum eru 721 millj., en útborganir alls á rekstrarreikningi eru 739 millj., þ.e.a.s. , það eru 18 millj, fram yfir. Ég veit, að það eru lægstu umframgreiðslur, sem nokkurn tíma hafa komið til greina tiltölulega, miðað við fjárveitingar. Það er að vísu dálítið, vegna þess að það er nokkur fúlga þarna til dýrtíðarráðstafana, sem þurfti ekki að nota í því skyni, en að öðru leyti er það af því, að áætlanir fjárlaganna á útgjaldaliðum hafa reynzt þannig nær lagi en stundum áður.

En síðan komum við að hínum hluta reikningsins, þ.e.a.s. eignahreyfingunum, því sem er ekki fært á reksturinn. Þá kemur fyrst kafli, sem eru fjárveitingar á eignahreyfingum, sem voru samtals á fjárlagafrv. 85 millj. 782 þús. En þessir liðir reyndust 88 millj. 638 þús. eða m.ö.o. 3 millj. hærri en fjárveitingarnar til þeirra sömu liða. Þetta sést efst á bls. 123 til hægri. En ef við lítum svo á, í hverju þessar umframgreiðslur liggja, þessar 3 millj. og 100 þús., sem hafa orðið á þessum liðum, kemur í ljós, að þær eru einmitt allar á ríkisábyrgðunum, og það eru ekki umframgreiðslur án heimildar, því að ríkinu er skylt að greiða sinar ábyrgðir. Það er bara áætlunartala, sem hefur reynzt of lág. Það er ekki hægt að deila á neinn fyrir að láta greiða nauðsynlegar greiðslur vegna ríkisábyrgða. Þannig eru umframgreiðslur í venjulegri merkingu á 20. gr., þ.e.a.s. á þeim köflum hennar, sem fjalla um fjárlagagreiðslurnar, engar, ef við drögum þennan ábyrgðamismun frá.

Þetta er hvort tveggja nokkuð óvenjulegt, því að það hefur oft viljað verða þannig, að þó að menn hafi ekki borgað ólöglega. þá hafa orðið umframgreiðslur. En umframgreiðslur eru ekki allar ólöglegar greiðslur, því að það er fjöldinn allur af lögum, sem segir, hvað eigi að borga. Síðan er áætlað í fjárl., hvað muni þurfa, og það verður að greiða eftir lögum, þó að það kunni að vera miklu meira en það, sem áætlað er í fjárl. Það getur því enginn þm. verið þekktur fyrir að slá því föstu, að umframgreiðsla hljóti að vera greidd án heimildar.

En þá eru það allir hinir liðirnir, sem koma mismuninum á frv. svona hátt, eins og hv. þm. benti á. Hvernig stendur á því, að þetta frv. um ríkisreikninginn skuli við fyrstu sýn benda til, að þetta, sem hv, þm. sagði, gæti átt rétt á sér?

Ég skal nú lesa þá liði, sem koma þar til greina og gera það að verkum, að þessi mismunur verður þarna svo mikill á fjárlögum og reikningi. Það er fyrst eignaaukning og aukið rekstrarfé ríkisstofnana. Fyrir því er engin fjárveiting og er aldrei, en þetta er til orðið þannig hjá bæði ríkiseinkasölunum og fleiri stofnunum, að það hafa aukizt hjá þeim birgðir, kannske vörubirgðir og alls konar rekstrarfé. Þá kemur það þarna út sem gjaldaliður, þá að það sé aldrei í fjárlögum gert ráð fyrir slíku, því að stundum minnkar rekstrarféð og stundum eykst það. Hér er því ekki um neinar umframgreiðslur að ræða eða neitt, sem líkist slíku, þó að þetta komi í reikningshaldinu á „eignahreyfingar út“. Þá er lagt í húsbyggingarsjóð áfengisverzlunarinnar 366 þúsundir, sem er líka fé, sem áfengisverzlunin fær að halda og setja í þennan sjóð af sínum hagnaði: Þá er til byggingar landsspítala 3 millj. 675 þús., sem tekið er að láni, kemur þarna sem útgjaldaliður á eignahreyfingum. Það er ekki umframgreiðsla, því siður heimildarlaus greiðsla, því að þetta er gert eftír heimild í fjárlögum á 22. gr. Loks koma veitt lán, og það er mjög há fjárhæð. Það er til ýmissa 4 millj. 812 þús. Það er allt samkv. heimildum, sérstökum heimildum í 22. gr. og á fleiri stöðum. Og svo er til sementsverksmiðju, rafveitna ríkisins, Sogsvirkjunarinnar samtals um 14 millj., sem eru aðflutningsgjöld, sem þessar stofnanir áttu að borga, en með sérstöku fjárlagaákvæði var heimilað að lána þeim. Það er fært tekjumegin, með tekjum ríkissjóðs. og svo aftur sem lán til þessara stofnana á 20. gr. og er því langt frá því að vera umframgreiðsla í venjulegri merkingu þess orðs, því síður gert án heimildar. Það er greinilega heimilað og ráðgert í fjárlögunum að hafa þetta svona. Þá er bráðabirgðagreiðsla til raforkusjóðs, sem er bráðabirgðalán, sem raforkusjóði var lánað um áramótin, en aftur hefur verið jafnað eftir stutta stund og mun standa í sambandi við úthlutun til framkvæmda af erlendu lánsfé, um 12 millj.

Þá er liður, sem heitir „greitt af lausaskuldum“, 34 millj. 322 þús., og kemur það sem „útgjöld“ líka á frv. og er inni í þeirri fúlgu, sem hv. þm. taldi að hefði verið greidd án nokkurrar heimildar úr ríkissjóði. Það er hreinlega lækkun á lausaskuldum ríkissjóðs um 34 millj. Það er afar hart, að hv. þm. skuli rísa upp með miklum þjósti og kalla það með stórsökum að lækka lausaskuldir ríkissjóðs um 34 millj. og 300 þús. En reikningslega kemur það svona út, því að það er ekki gert á fjárlögum ráð fyrir því að lækka lausaskuldirnar. Það ræðst, hvort efnahagurinn verði þannig, að það reynist mögulegt.

Ef maður lítur á þetta blessaða plagg, sem heitir frv. til laga um samþykkt á ríkisreikningnum, þá geta menn í flýti ályktað, að þarna væri um venjulega umframgreiðslu að ræða. En það þarf að líta aðeins á, hvað þetta er í raun og veru, áður en dómurinn er felldur.

Loks er liður, sem heitir „greitt af geymdu fé“. Það eru 26 millj, og það eru ekki greiðslur í neinu heimildarleysi, heldur eru það fjárveitingar fyrri ára, sem hafa verið geymdar, ekki notaðar þá, en menn eiga aðgang að eða hafa átt aðgang að á þessu ári. Og á móti er svo annar póstur, sem er kallaður „geymslufé“ eða ónotaðar fjárveitingar og er nákvæmlega 26 millj: líka. Það er nú raunar tilviljun auðvitað, að þetta skuli standast alveg á- tölulega. Þessir liðir á 20. gr. eiga í sjálfu sér ekkert skylt við ríkisútgjöld þess árs, sem —reikningurinn er gerður fyrir, en kemur samt inn í reikningsskilin auðvitað eins og allt það, sem útborgað er.

Þarna eru 60 millj., sem greiddar eru af lausaskuldum og greitt af geymdu fé, og ekkert eiga skylt við; að fé hafi verið greitt án heimildar.

Þetta fannst mér nauðsynlegt að kæmi fram. Það er því alveg byggt á misskilningi, að þarna hafi orðið umframgreiðslur í stórum stíl. Þvert á móti hefur verið óvenjulega lítið um þær.