06.12.1960
Neðri deild: 33. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (737)

25. mál, atvinna við siglingar á íslenskum skipum

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 5. þm. Vestf., hv. 4. þm. Austf. og hv. 2. þm. Vesturl. leyft mér að flytja á þskj. 176 brtt. við. það frv., sem hér liggur fyrir. Brtt. fjallar um það, að breytt verði 15. gr. laga nr. 47 frá 1958, sem fjallar um breyt. á lögum frá 1946, um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum. Þegar þessi breyt. var gerð með l. nr. 47 1958, hefur svo til tekizt, að í 15. gr. l. frá 1958 eru tvenns konar ákvæði um það, hve margir vélstjórar skulu vera á skipi, sem hefur vél milli 600 og 900 hestöfl. Þessi ákvæði eru í d-lið og e-lið greinarinnar og eru ekki samhljóða. Þessa ósamkvæmni þarf að sjálfsögðu að leiðrétta, og Landssamband ísl. útvegsmanna hefur nú nýlega á aðalfundi sínum beint því til stjórnar Landssambandsins að vinna að því við Alþingi, að þessi ákvæði verði samræmd.

Með tilliti til þess, sem ég nú hef sagt, höfum við þessir fjórir þm. leyft okkur að bera fram brtt. á þskj. 176, þar sem farið er fram á, að lagfært sé þetta misræmi í löggjöfinni frá 1958, sem við ætlum að hafi komizt inn í lögin á sínum tíma fyrir vangá.