28.11.1960
Neðri deild: 29. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

4. mál, ríkisreikningurinn 1958

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. hafði hér þau orð áðan, að það hlytu að vera tómir órar hjá mér, að ríkisstjórnarpólitíkin mundi leiða til atvinnuleysis og hruns, eða eins og ég orðaði það, að ríkisstj. væri að skipuleggja atvinnuleysi og hrun. Ég hef nokkrum sinnum minnzt á það hér, að sú lánsfjárstefna, sem ríkisstj. rekur, hennar alræði í lánamálum, hennar okurstarfsemi og hennar, alræði í útflutningnum, það, hvernig hún hindrar alla möguleika landsmanna til þess að bjarga sér sjálfir, að þetta mundi leiða til þess, að hér yrði atvinnuleysi og hér yrði efnahagslegt hrun, m.ö.o.: svo og svo mikið af smáatvinnurekendum mundi missa sínar eignir og það mundi verða lífskjararýrnun og atvinnuleysi hjá alþýðu manna.

Ég hef sagt, að ég áliti, að þetta hlyti að vera vísvitandi hjá ríkisstj., að hún stefndi að þessu. Það væri svo glöggt, að þetta yrði afleiðingin af hennar pólitík, að maður gæti ekki ætlað hæstv. ráðherra svo vitgranna, að þeir sæju það ekki. Þess vegna hef ég notað orðalagið, að ríkisstj. væri að skipuleggja atvinnuleysi og hrun. Ríkisstj. hefur allt vald yfir íslenzkri verzlun og allt vald yfir íslenzkum lánsfjármálum og ef afleiðingarnar af hennar pólitík með þessu alveldi hennar verða atvinnuleysi og hrun, þá lít ég svo á, að þetta sé hún vísvitandi að skipuleggja, af því að ég frýi þeim ekki vits, ráðherrunum.

Nú segir hv. 1. þm. Vestf.: Þetta eru órar. Það er alyeg óhugsandi. — Nú veit ég hins vegar ekki nakvæmlega hvort hann meinar, að það sé óhugsandi, að þetta verði afleiðingin af pólitík ríkisstj. eða að það sé óhugsandi, að þetta sé það, sem ríkisstj. stefni að því að skapa. Og nú vildi ég spyrja hv. 1. þm. Vestf.: Álitur hann, að pólitík ríkisstj. hafi tekizt, eða álítur hann, að pólitík ríkisstj. hafi mistekizt, ef það verður atvinnuleysi og hrun? Ég álít, að pólitík ríkisstj. hafi tekizt, ef það verður atvinnuleysi og hrun, vegna þess að ég geng út frá því, af því að ég ætla þessum mönnum fullt vit, að þeir stefni að því að fækka þeim mönnum á Íslandi, sem eiga atvinnutæki, fækka þeim mönnum, sem eru bjargálna, og setja þeirra eignir og nýjar eignir í hendurnar á fáum ríkum mönnum, jafnvel eignir, sem bæjarfélög eða ríkið hefur átt. Ég álít, að þetta sé stefnan. Einn þátturinn í því að skapa og koma fram þessari stefnu er að rýra kjör hjá almenningi, þannig að hann hugsi ekki lengur til að verða bjargálna-, og gera hann atvinnulausan. Og ef þetta verður afleiðingin af pólitík ríkisstj., sem mér virðist liggja í augum uppi að hver maður hljóti að sjá, þá held ég, að pólitík ríkisstj. hafi tekizt frá hennar sjónarmiði. Hins vegar virtist mér hjá hv. 1. þm. Vestf.; að hann hugsaði á gamaldags máta, eins og hann má raunar hugsa sem þm. fyrir Vestfirði, því að það yrði ekki mikið eftir af þeim, þegar svona pólitík væri búin að standa nokkurn tíma á Íslandi, — mér virtist hann hugsa upp á nokkuð gamaldags máta, ef hann héldi, að ríkisstj. ætti að hugsa um það t.d., að fátækir hreppar úti um allt land, smáútgerðir hér og hvar, gætu blómgazt; og svo framarlega sem það yrði ekki, þá hlyti pólitík ríkisstj. að hafa mistekizt, vegna þess að ríkisstj. gæti ekki gengið neitt annað en gott til gagnvart þessum aðilum. Vill þess vegna hv. 1. þm. Vestf. svara mér: Álitur hann, að pólitík ríkisstj. hafi mistekizt, ef hér verður atvinnuleysi og hrun? Og ætlar hann þá, ef hennar pólitík hefur mistekizt að hans áliti, að hætta að styðja hæstv. ríkisstj.? Ég veit, að það mun ríða henni að fullu, og ég vil ákaflega gjarnan hafa einhverja hugmynd um það, hvort ríkisstj. hefur fylgi í sölum Alþ. fyrir því að leiða atvinnuleysi og hrun yfir Íslendinga eða hvort það finnist góðir drengir í hennar hóp, menn, sem hafa svo mikla ábyrgðartilfinningu gagnvart atvinnuþróuninni á Íslandi, að þeir muni rísa upp ef þetta verður afleiðingin af hennar pólitík. Og ég held satt að segja, að við þurfum ekki að bíða lengi eftir að sjá þá afleiðingu.