09.02.1961
Neðri deild: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

184. mál, Lánasjóður íslenskra námsmanna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það, sem er kosturinn við þetta frv., er, að námsmenn fá með þessu mótí meira fé til þess að geta kostað sig til náms en þeir hafa nú. Það, sem er gallinn hins vegar á þessu frv. frá mínu sjónarmiði, er, að það er notuð röng leið til þess að veita þeim þetta fé, Það er engum efa bundið, að fyrir þjóðfélagið er langheppilegasta aðferðin í sambandi við að tryggja, að þjóðfélagið fái sem bezta krafta til starfanna fyrir mannfélagið í framtíðinni, að allir hafi sömu efnahagslegu aðstöðu til þess að læra, þannig að auður eða fátækt geti ekki ráðið því, hvort menn geta setið á skólabekknum og lært, heldur séu það eingöngu hæfileikarnir, sem geri út um þetta. Og það er engum efa bundið, að það er nauðsynlegt fyrir íslenzka þjóðfélagið að stefna að því af fullri djörfung að skapa slíka aðstöðu. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að t.d. Bandaríkjamenn, þar sem þessi aðstaða hefur verið óskaplega misjöfn, eins og auður og fátækt er í því landi, eru að læra það nú m.a. einmitt af sósíalistísku ríkjunum, eftir að þau fóru að fara fram úr þeim á víssum sviðum tækninnar, að það er hin jafna aðstaða í þjóðfélaginu fyrir alla aðila til menntunar, sem skapar mestar framfarir í einu þjóðfélagi. Þess vegna væri það rétt stefna, að það, sem ríkið léti í té handa námsmönnunum, væru fyrst og fremst styrkir, sem gerðu þeim, sem eru fátækir, jafnmögulegt að læra og þeim, sem eiga efnaða að. Og það er vitanlegt, að jafnvel núna er það svo, að sumir þeir menn, sem hæst stúdentspróf hafa tekið á Íslandi á síðustu árum, mundu ekki hafa getað haldið áfram námi sökum fátæktar, nema því aðeins að þeir gætu notið slíkra styrkja í löndum sósíalismans. Og það er ekki rétt af íslenzka ríkinu, þegar það er að gera þarna verulega bót á, eins og víssulega felst í þessu stjórnarfrv., að reyna að tryggja námsmönnum meira fé til umráða, að gera hana með þessu móti. Ég álit þess vegna, að það eigi að taka það til alvarlegrar athugunar í þeirri nefnd, sem þetta mál nú fer til, að fara ekki inn á þessa leið, að afnema styrkina, alla nema stóru styrkina, heldur að halda styrkjunum að svo og svo miklu leyti. Ég sæi ekkert eftir bönkunum að leggja beinlínis fram nokkurt fé og það óafturkræft og án 8% vaxta. Bankar, sem græða 150–200 millj. kr. á ári, geta ósköp vel lagt þó nokkuð mikið af mörkum til, eins og hæstv. menntmrh. orðaði það, „beztu fjárfestingarinnar, sem til væri“. Þeir leggja í það mörg tvísýn fyrirtæki, að það að styrkja námsmenn með nokkru fé væri ekki nema eðlilegt. Hitt er aftur á móti eðlilegur hlutur, að þjóðfélagið geri allríkar kröfur til þeirra námsmanna, sem það styrkir á þann hátt, og jafnvel að betra eftirlit sé með því en oft hefur verið undanfarið.

Ég vil ekki á neinn hátt tefja fyrir þessu frv. Ég álít, að það eigi að ganga nú til menntmn. En ég vil eindregið mælast til þess, að hv. menntmn. athugi það, hvort ekki ætti að halda meira af styrkjunum en hér er gert ráð fyrir. Og enn fremur vil ég aðeins skjóta því fram, að jafnvel þó að bankarnir láni vextina, sem þeir mundu lána til lánasjóðsins, þá sé ekki rétt að láta þá reikna fulla vexti af þessum lánum, t.d. jafnvel upp í 8%, það sé of mikið.

Við Íslendingar eigum svo mikið undir því, að fyrst og fremst verði okkar fólk menntað, bæði til verklegs og bóklegs náms, að við verðum að reyna að tryggja, að allir hafi þar jafna aðstöðu og að við getum skapað öllum þeim, sem hæfileika hafa, möguleika til þess að afla sér þeirrar miklu þekkingar, sem mannfélagið nú getur látið í té. Þess vegna er það mjög ánægjulegt, að það skuli vera lagt til að stiga þarna stórt skref til þess að auka það fé aftur, eftir að það var minnkað hér um árið. Ég vænti, að menntmn. athugi að gera það á skynsamlegri hátt en þarna er gert.