09.02.1961
Neðri deild: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

184. mál, Lánasjóður íslenskra námsmanna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. (GíslJ) ræddi þá vaxandi þörf, sem væri á mönnum, sem stundað hefðu iðnnám og hvers konar tækninám, og þá nauðsyn, sem á því væri að bæta aðstöðu þeirra til þess að stunda námið, sem í mörgum greinum er orðið mjög langt. Ég er honum algerlega sammála um það, sem hann sagði í þessum efnum, um það, hve stórvaxandi þörf okkur Íslendingum, eins og raunar öllum öðrum þjóðum, er á mönnum, sem hafa til að bera grundvallaða tæknimenntun, tækniþekkingu, þótt ekki sé um háskólamenntun að ræða. Kannske er það einmitt á því sviði, sem skórinn kreppir einna mest hér á Íslandi núna, að það er hér alvarlegur og vaxandi skortur á mönnum, sem hafa meiri menntun en iðnskólar veita, en hafa þó ekki þörf fyrir jafnmikla menntun og háskólar veita. Ég er honum líka sammála um það, að í sumum greinum, sérstaklega að því er snertir vélstjóranám, er það orðið svo langt, að mjög æskilegt væri að geta stutt þá menn, sem út á þá námsbraut leggja, en þeir eiga nú ekki völ neins opinbers stuðnings nema þess, sem í því felst, að þeir eiga kost á ókeypis skólavist.

Það mun hafa verið fyrir líklega tveimur árum, sem fulltrúar frá nemendum vélskólans og kennurum hans, undir forustu skólastjóra vélskólans, komu til mín og ræddu þessi vandamál. Niðurstaðan af þeim viðræðum varð sú, að ég skipaði nefnd manna til þess að athuga þörf vélskólanema á aðstoð í námi þeirra með sérstöku tilliti til þess, að stofnaður yrði lánasjóður til þess að veita nemendum vélskólans lán, en einmitt það nám er sérstaklega langt, eins og hv. þm. rakti. Þessi nefnd skilaði störfum í fyrra, í ársbyrjun 1960, ef ég man rétt, og hefur það frv., sem hún samdi um stofnun lánasjóðs vélskólanema, síðan verið til athugunar í ríkisstj. Ef það á að samþykkjast, mundi þurfa nokkra fjárveitingu á fjárlögum í þennan sjóð, vegna þess að stuðningurinn er eðlilega í því fólginn að veita lánin með lægri vöxtum en hægt er að fá lánsfé fyrir á almennum lánsfjármarkaði. Það mundi því hvort tveggja þurfa að ske, annars vegar að byggja sjóðinn smám saman upp með ríkisframlögum, líkt og gert hefur verið með þá tvo lánasjóði, sem nú eru til í landinu, til handa námsmönnum, og svo hins vegar til þess að jafna þann vaxtahalla, sem yrði á sjóðnum, ef hann tæki lán og endurlánaði með hóflegum eða lágum vöxtum. Þetta mál er enn til athugunar í ríkisstj., og ég er þeirrar skoðunar, að hér sé um nauðsynjamál að ræða, sem eigi að fá jákvæða afgreiðslu á sínum tíma.

Um þetta frv., sem hér liggur fyrir, er hins vegar það að segja, að það gerir ráð fyrir ráðstöfun á fé, sem í gildandi fjárlögum er veitt, annars vegar til íslenzkra námsmanna erlendis og hins vegar til stúdenta við háskólann hér. Þess vegna tel ég ekki ákvæði um lánveitingar til t.d. vélskólanema eða annarra tæknifræðinema hér innanlands eiga heima í þessu frv. og hitt væri heppilegra, að setja sérstök lög um nýjan námslánasjóð fyrir þá nemendur hér innanlands, sem taldir væru verðugir nokkurs stuðnings. Auðvitað væri hugsanlegt að breyta ákvæðunum um þennan lánasjóð, sem nú er gert ráð fyrir að stofna, þannig, að hann taki einnig til annarra námsmanna en stúdenta, sem stunda nám hér innanlands, en þá verður að koma til ný fjárveiting frá Alþingi í sjóðinn til stuðnings þessum námsmönnum. Ef það yrði gert, er að sjálfsögðu ekkert því til fyrirstöðu að breyta lögunum og víkka hlutverk þessa námslánasjóðs. En meðan það fé, sem Alþingi veitir á fjárlögum, er eingöngu ætlað annars vegar stúdentum við háskólann hér og hins vegar námsmönnum erlendis, er ekki hægt að breyta þessum lögum og láta þau taka einnig til annarra námsmanna innanlands en stúdentanna, vegna þess að þá er ríkisframlag, sem nú er veitt til stúdenta og námsmanna erlendis, tekið til annarra námsmanna, sem Alþingi veitir nú ekkert fé til á fjárlögum.

Ég vil taka það hér skýrt fram, að ég er öllum þeim meginatriðum, sem hv. 1. þm. Vestf. rakti í ræðu sinni um þessi mál, sammála og vil mjög gjarnan hafa samstarf við hann, sem ég veit að er áhugamaður sérstaklega um tækninámið, um það að flýta fyrir því, að þetta mál fái þá afgreiðslu, fyrst í ríkisstj. og síðan hér á Alþingi, sem ég veit að við erum sammála um að nauðsynleg og eðlileg sé.

Hv. 3. þm. Reykv. (EOl) lýsti því í sinni ræðu, að hann teldi nauðsynlegt eða a.m.k. miklu heppilegra að halda styrkjum, auk stóru styrkjanna svonefndu, í stað þess að hverfa algerlega yfir á námslánabrautina að stóru styrkjunum frátöldum. Á s.l. ári var 1.3 millj. kr. varið til námsstyrkja til handa námsmönnum erlendis, en engu til námsstyrkja handa stúdentum við háskólann hér. Í fyrsta lagi má segja, að það sé óeðlilegt að gera í þessu efni upp á milli námsmannanna erlendis og stúdentanna við háskólann hér. Annaðhvort á að veita báðum hópunum styrki eða hvorugum hópnum styrki. Þetta er þó ekki mergurinn málsins, heldur hitt, að það að hverfa frá styrkjunum og nota það fé sem uppistöðu í lánasjóð gerir kleift að hafa námslánin svo miklu meiri en styrkina, að ég fyrir mitt leyti er í engum vafa um, að það er rétt stefna að taka upp lánin f stað námsstyrkjanna. Ég lét athuga það við undirbúning málsins, hvaða áhrif það mundi hafa, ef þeim 1.3 millj. kr., sem á síðasta ári var varið til námsstyrkja til handa námsmönnum erlendis, — ef þeirri upphæð til styrkja yrði haldið, hvaða áhrif það hefði á getu sjóðsins til að veita námslán á næstu 20 árum. Að halda styrkupphæðinni mundi þýða, að hver námsmaður héldi að meðaltali rúmlega 3 þús. kr. styrk, en áhrifin á upphæð námslánanna mundu verða sú, að eftir 3 ár yrði að lækka námslánin úr 25 þús. i 22 þús. kr., og siðan yrði um áframhaldandi lækkun að ræða, þangað til lánin yrðu að síðustu komin ofan í 12 þús. kr. Það, sem m.ö.o. er um að velja, er annars vegar sú braut, sem þetta frv. gerir ráð fyrir að lagt verði út á, að menn eigi kost á 25 þús. kr. láni á næstu 20 árum, og hins vegar að menn eigi kost á 3 þús. kr. styrk að meðaltali og lánum, sem fari lækkandi úr 22 þús. í 12 þús. kr. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að frá sjónarmiði námsmannanna sjálfra er hin fyrri leiðin æskilegri og heppilegri. Það er heppilegra að eiga kost á 25 þús. kr. láni allan tímann frekar en þessum tiltölulega litla styrk og síðan hríðlækkandi láni. Hitt er annað mál, að mér finnst það vei koma til athugunar, þegar sjóðurinn er orðinn svo öflugur, að hann þarf ekki lengur á ríkisstyrk að halda til þess að standa undir óbreyttum lánum, að þá sé það fé, sem þá losnar hjá ríkinu, tekið til lánveitinga jöfnum höndum, auk þess sem lánin yrðu aukin. Það kæmi líka til athugunar, að þegar ekki þarf lengur á að halda nýjum fjárveitingum til stóru styrkjanna svonefndu, eftir tvö ár, en til þeirra eru veittar 210 þús. kr. á hverju ári, þá sé þeim fjárveitingum haldið og þær notaðar til þess að taka upp nýja styrki, sem séu mun lægri en stóru styrkirnir. En þetta mun geta komið til ákvörðunar þegar eftir tvö ár, því að þetta er þriðja árið, sem kerfi stóru styrkjanna er í gangi.

Þetta hvort tveggja finnst mér sem sagt vel koma til athugunar. En á þessu stigi fannst mér það ekkert áhorfsmál, að skynsamlegra væri að nota það fé, sem Alþingi veitir, og það fé, sem hægt er að fá að láni í bönkum, til lánveitinga eingöngu, því að með því móti kemur féð hraðast námsmönnunum að gagni og með því móti er unnt að tryggja, að það fé, sem þeir fá til ráðstöfunar, að vísu sem lán, en með mjög hagstæðum kjörum, verði sem hæst.

Að öðru leyti þakka ég þær góðu undirtektir, sem meginefni frv. fékk hjá öllum þeim þremur hv. þm., sem tóku til máls.