09.02.1961
Neðri deild: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

184. mál, Lánasjóður íslenskra námsmanna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. menntmrh. fyrir þær undirtektir, sem hann hafði hér við mína till. í sambandi við þetta mál, og ég felli mig að sjálfsögðu fullkomlega við þá meðferð á málinu, sem hann lýsti. Ég skil mjög vel hans rök, að það sé ekki rétt að taka upphæð, sem ákveðin hefur verið þegar til háskólastúdenta, til láns eða styrkja, og dreifa á aðra aðila, og mun því ekki gera neina tilraun til þess að fá þessi ákvæði sett inn í það frv., sem hér er til umr. Ég vænti hins vegar, að þessari athugun verði haldið áfram og að henni verði lokið svo snemma á árinu, að það sé vitað, hve stóra fjárupphæð þarf til viðbótar á fjárlögum til þessara mála, áður en gengið er frá undirbúningi fjárlaga. Ég ber það traust til hæstv. fjmrh., að hann muni ekki skjóta sér undan því að taka sanngjarna upphæð til þessara má]a inn á næstu fjárlög, Ég skal svo ekki ræða meira um það atriði.

Ég er hæstv. menntmrh. alveg sammála um það og er þar á öndverðum meið við þá aðra, sem hér hafa talað, að það beri að halda sér fast að lánastefnunni. Öll þau rök, sem hann færði fyrir því máli, eru sannarlega rétt. En þar kemur og enn meira til. Við vitum, að eins og nú er málum komið, er mjög mikill fjöldi þeirra nemenda, sem fá styrk til að nema erlendis, ekki einungis háskólanám, heldur og ýmsan annan fróðleik, sem hefur tilhneigingu til þess að ná í þennan styrk, jafnvel þó að menn stundi ekki nám sem aðalgrein erlendis. Ef um það væri að ræða, að þessir menn ættu að bera ábyrgð á endurgreiðslu fjárins, gæti það verið stærsta og bezta vörnin gegn þeirri ásælni, sem er í að fá styrki, án þess að það sé knýjandi þörf fyrir sömu aðila að vera við nám erlendis, sem ef til vill mætti nema hér heima. Í þessu liggur mjög mikill vandi fyrir þá menn, sem eiga að úthluta þessum fríðindum, að gera upp á milli þeirra manna, sem sækja um þetta. En það mundi veita mikið aðhald, ef þetta skilyrði yrði sett, að það séu einmitt veitt lán, en ekki styrkir, eins og gert hefur verið.