10.03.1961
Neðri deild: 73. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

184. mál, Lánasjóður íslenskra námsmanna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mig, langar að láta í ljós þakklæti til hv. menntmn. fyrir skjóta og góða afgreiðslu á þessu máli, sem telja má brýnt hagsmunamál íslenzkra námsmanna bæði hér heima og erlendis. Ég vil jafnframt láta í ljós ánægju mína yfir því, að samstaða skuli hafa náðst milli allra flokka þingsins um atbeina við framgang þessa máls, og láta í ljós þá ósk, að hér eftir gangi málið greiðlega gegnum þessa hv. d. og sömuleiðis gegnum hv. Ed.

Það var aðeins eitt atriði, sem ég vildi láta koma fram hér á hinu háa Alþingi í framhaldi af þeirri till. til breyt. á frv., sem ég leyfði mér að flytja á þskj. 439. Eins og hv. frsm. menntmn. tók fram í sinni ræðu, felst það í henni, að gert er ráð fyrir því, að menntamálaráð úthluti framvegis sömu upphæð til beinna styrkja handa íslenzkum námsmönnum erlendis, auk stóru styrkjanna svonefndu, og þeirri upphæð, sem veitt var í styrki á s.l. ári, eða 1.3 millj. kr., en hins vegar lækki framlag ríkissjóðs til námslána um sömu upphæð. Ég vildi láta það koma fram í framhaldi af þessari tillögu, sem ríkisstj. varð sammála um að ég flytti, að að baki hennar liggur sá skilningur, að þetta lækkaða framlag til lánasjóðsins til námslánanna, vegna þess að námsmenn erlendis eiga að halda styrkjum, verði ekki til þess að rýra þá námslánaupphæð, sem stúdentar við háskólann hér hefðu að öðrum kosti átt að fá samkv. frv. Ég vildi m.ö.o. láta koma skýrt fram, að sá skilningur liggur að baki flutnings þessarar till., að hér sé um að ræða skipti á styrkjum og lánum hjá íslenzkum námsmönnum erlendis, en þessi breyting eigi engin áhrif að hafa á þau kjör, sem íslenzkum stúdentum við háskólann hér annars hefðu hlotnazt. Það væri að sjálfsögðu ekki eðlilegt, að sú breyting yrði gerð, að íslenzkir námsmenn erlendis fái að halda styrkjum og að sú staðreynd verði til þess að lækka lán til allra íslenzkra námsmanna, bæði þeirra, sem eru erlendis, og þeirra, sem stunda nám hér heima.

Það, sem í tillögunni felst, er það, að íslenzkir námsmenn erlendis hafa kosið að halda styrkjunum, sem þýðir þó jafnframt það, að þeir afsala sér samsvarandi rétti til lána. Ég hygg, að allir hljóti að vera sammála um, að þessi skilningur sé eðlilegur, en ég vildi láta hann koma fram hér, til þess að um það gæti eftir á enginn vafi verið, hver tilgangurinn hafi verið með þessari brtt., og tel raunar víst, að hv. menntmn. hafi eðlilega lagt sama skilning í þetta mál.