10.03.1961
Neðri deild: 73. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (805)

184. mál, Lánasjóður íslenskra námsmanna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þegar mál þetta var lagt fyrir, lýsti ég fylgi mínu við frv., eins og það var borið fram á þskj. 350. Nú sé ég, að málið hefur tekið nokkrum breytingum, eins og bæði hæstv. ráðh. hefur lýst og hv. frsm., og er breytingin aðallega í því fólgin, að styrkjunum er haldið, en lánaupphæðirnar lækka hlutfallslega eða samsvarandi. Ég tel, að þessi stefna sé röng. Ég mun þó ekki gera neina tilraun til þess að stöðva málið í þetta skipti, en vildi vænta þess, að hæstv. ráðh. ynni að því í framtíðinni, að sú regla yrði tekin upp að halda lánunum, eins og hugsað var, og láta

þau vera hærri en hér er gert ráð fyrir, en minnka styrkina, beinlínis vegna þess, að það hjálpar í framtíðinni miklu fleiri mönnum og hjálpar þeim betur en það kerfi, sem hér er tekið upp. Þetta þótti mér rétt að taka fram þegar við þessa umræðu. Ég sé, að það er fullt samkomulag um málið. Ég mun því greiða því atkv. nú í þetta skipti, en vænti þess, að þetta mál verði tekið til athugunar og því breytt í það horf síðar meir, sem það var upphaflega.