15.03.1961
Efri deild: 73. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

184. mál, Lánasjóður íslenskra námsmanna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þegar gengi íslenzku krónunnar var breytt í fyrra, hafði sú ráðstöfun víðtæk áhrif á kjör íslenzkra námsmanna erlendis. Þetta var hinu háa Alþ. ljóst þegar og gerði því við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1960 ráðstafanir til þess að hækka mjög fjárveitingar til styrktar íslenzkum námsmönnum erlendis. Alþ. hækkaði fjárveitingar til námsstyrkja og námslána í réttu hlutfalli við þá breyt., sem varð á verði þess gjaldeyris, sem námsmenn erlendis kaupa, þannig að eftir sem áður gátu íslenzkir námsmenn erlendis fengið jafnháa upphæð í erlendum gjaldeyri í lán og styrk.

Ríkisstj. var ljóst, að þó að hér hefði Alþ. gert mjög myndarlega, væri engu að síður nauðsynlegt að gera frekari ráðstafanir til aðstoðar námsmönnum erlendis, og hefur það mál því verið í athugun síðan á síðasta þingi.

Þær upphæðir, sem Alþ, hefur veitt til styrktar námsmönnum bæði erlendis og hér heima, hafa vaxið mjög á hinum síðari árum. Árið 1952 námu fjárveitingar til námsstyrkja og námslána alls 1.2 millj. kr., en síðar hafa þessar fjárveitingar smám saman vaxið mjög, einkum þó á árunum 1959 og 1960, og á gildandi fjárlögum eru veittar 6.6 millj. kr. til styrkja og námslána handa íslenzkum námsmönnum erlendis. Á s.l. 8 árum hefur því sú fjárveiting, sem Alþ. veitir til þessara þarfa, meira en fimmfaldazt. Jafnframt því að fjárveitingarnar hafa vaxið svo mjög sem þessar tölur bera vott um, hefur sú breyting orðið, að í vaxandi mæli hefur verið horfið frá beinum styrkjum og tekin upp námslán með hagkvæmum kjörum.

Menntamálaráð, sem ráðstafar fé því, sem Alþ. veitir til styrktar íslenzkum námsmönnum erlendis, tók allsnemma upp á því að skipta fjárveitingu sinni í námsstyrki og námslán með hagkvæmum kjörum. Síðan hefur menntamálaráð ávallt aukið námslánin hlutfallslega miklu meira en námsstyrkina. Þegar svo sú breyt. var gerð á s.l. ári á fjárveitingum Alþ., sem ég gat um áðan og er hin mesta, sem gerð hefur verið, var viðbótarféð að langmestu leyti notað til aukinna námslána.

Við Háskóla Íslands var 1952 eingöngu um að ræða styrki, svonefnda náms- og húsaleigustyrki. Fyrir forgöngu stúdentanna sjálfra var á árinu 1953 sett löggjöf um stofnun lánasjóðs stúdenta við Háskóla Íslands og styrkirnir þá afnumdir algerlega og allri fjárveitingunni, sem Alþ. veitti, varið til lánasjóðsins, þannig að síðan 1953 er eingöngu um að ræða námslán við Háskóla Íslands, en enga námsstyrki, og hafa engar óskir komið fram frá stúdentum við háskólann um að taka upp aftur styrki, heldur hafa þeir þvert á móti óskað eftir því, að þær auknu fjárveitingar, sem fáanlegar væru til þessara þarfa, gengju til aukningar á námslánum.

Meðalupphæðin, sem íslenzkir námsmenn erlendis fá nú í lán og styrk, er 15 þús. kr. á ári, en er allmisjöfn eftir því, hvar námsmennirnir stunda nám, hvort þar er hár námskostnaður eða tiltölulega lágur. Meðalupphæð þeirra lána, sem stúdentum við Háskóla Íslands eru veitt, er hins vegar allmiklu lægri, eða um 10 þús. kr.

Þrátt fyrir þá miklu aukningu, sem varð á fjárveitingunum á s.1. ári og gerði kleift að auka sérstaklega upphæð til þeirra, sem stunda nám erlendis, og einnig nokkuð til hinna, sem stunda nám hér, hafa styrk- og námsupphæðir þó ekki getað orðið hærri en hér segir, 15 þús. kr. að meðaltali til námsmanna erlendis og um 10 þús. kr. að meðaltali til námsmanna hér. Þessar upphæðir er bráðnauðsynlegt að auka mjög verulega, raunar alveg burtséð frá þeirri hækkun, sem hefur orðið á framfærslukostnaði námsmanna erlendis. Þörfin fyrir sérmenntað fólk og langskólagengið á mörgum sviðum er orðin svo brýn, að það er æskilegt, að ríkisvaldið láti það í stórauknum mæli til sín taka að greiða fyrir slíku námi. Þess vegna athugaði ég undanfarna mánuði, hvaða leiðir væru líklegar til þess að auka stórlega skilyrði til lánveitinga til námsmanna bæði erlendis og hér heima. Ég hef rætt þetta mál við fulltrúa frá bönkunum hér i Reykjavík, Seðlabankanum og viðskiptabönkunum. Niðurstaðan af þeim umr. varð sú, að bankarnir reyndust reiðubúnir til þess að mynda samtök um að kaupa verðbréf frá lánastofnun, sem hefði með höndum lán til námsmanna, bæði erlendis og hér heima. Bankarnir reyndust reiðubúnir til þess að kaupa svo mikil verðbréf á næstu 20 árum, að unnt væri að auka meðallán til námsmanna heima og erlendis upp í 25 þús. kr. úr 10–15 þús. kr. Nákvæmir útreikningar, sem gerðir voru, leiddu í ljós, að slík ný lánastofnun mundi þurfa að geta selt verðbréf fyrir upphæð, sem næmi um 45 millj. kr., þannig að hámarksskuld stofnunarinnar yrði á næstu 20 árum rúmar 45 millj. kr. Mundi þörf þessarar nýju lánastofnunar fyrir verðbréfasölu verða mest næstu árin, 4–5 millj. kr., en síðan fara smálækkandi, eftir því sem lánin endurgreiddust, ofan í 3/4 úr millj. kr. eftir 20 ár, en að þeim tíma liðnum gæti slik lánastofnun byggt sig sjálfa upp með endurgreiðslu lánanna, svo að hún ætti að geta staðið undir þessari lánaupphæð áfram af eigin rammleik, jafnvel þó að gert hafi verið ráð fyrir um 5% aukningu á tölu námsmanna og þar með námslánum á hverju ári næstu áratugina.

Eftir að bankarnir höfðu sýnt þann mjög lofsverða skilning á þessu nauðsynjamáli og þar með stórhug að taka að sér að sjá nýrri lánastofnun fyrir því fé, sem nauðsynlegt væri, til þess að hún gæti starfað með þeim hætti, sem ég hef lýst, gerði ég ráðstafanir til þess, að samið yrði frv. um stofnun lánasjóðs íslenzkra námsmanna, en jafnframt yrðu afnumin lögin um þá tvo lánasjóði, sem nú starfa, lánasjóð stúdenta við Háskóla Íslands og lánasjóð íslenzkra námsmanna erlendis, en lög um hann voru sett á s.l. ári í sambandi við hina auknu fjárveitingu til námsmanna erlendis, sem ég hef þegar getið um.

Það er nauðsynlegt, að sjóðurinn sé einn, því að fjárreiður hans verða svo miklar og þær skuldbindingar, sem hann undirgengst, að eðlilegt er, að um eina stofnun sé að ræða, sem um gildi föst skipan og sé undir ákveðinni stjórn samkvæmt lögum. Gert er ráð fyrir því, að lánasjóðirnir báðir, sem nú eru starfandi, gangi inn í þennan nýja lánasjóð, sem gert er ráð fyrir að stofnaður verði með þessu frv. ef það nær fram að ganga. Hins vegar taldi ríkisstj. ekki rétt að gera neinar aðrar efnisbreytingar að því er snertir úthlutun á því fé, sem veitt er, eða því, sem aflað verður. Þess vegna er gert ráð fyrir því, að sjóðurinn skiptist í tvær deildir: lánadeild stúdenta við Háskóla Íslands og lánadeild námsmanna erlendis. Skulu sömu aðilar sem nú stjórna lánveitingum eða styrkjum til þessara tveggja hópa námsmanna stjórna hvorri lánadeildinni um sig, þ.e. 5 manna nefnd, sem skipuð er með sama hætti og stjórn lánasjóðs háskólastúdenta er nú, að því er snertir lán stúdentanna við Háskóla Íslands, og menntamálaráð ráðstafar því fé, sem veitt yrði til lánadeildar námsmanna erlendis. En sjóðurinn skal vera undir einni yfirstjórn, sem annast fjárreiður sjóðsins, tekur nauðsynleg lán honum til handa og skiptir fénu á milli þessara tveggja deilda. Er gert ráð fyrir því, að sú stjórn verði skipuð þannig, að í henni skuli eiga sæti fulltrúar frá háskólaráði og menntamálaráði annars vegar og frá stúdentaráði við Háskóla Íslands og Bandalagi háskólamanna hins vegar, þó þannig, að Bandalag háskólamanna skal ekki tilnefna aðila lengur í yfirstjórn sjóðsins en þangað til stúdentar erlendis bindast samtökum, sem hljóta þá viðurkenningu af hálfu menntmrn., að þau geti tilnefnt aðila í stjórnina. Formann stjórnarinnar er gert ráð fyrir að menntmrh. skipi.

Ég vil undirstrika, að það er verkefni þessarar yfirstjórnar sjóðsins að annast um fjárreiður hans og skipta heildarfénu, sem sjóðurinn hefur til ráðstöfunar, milli hinna tveggja deilda hans. En brýna nauðsyn ber til þess að rannsaka vandlega, með hvaða hætti er eðlilegast og sanngjarnast að skipta þessu fé, sem Alþ. veitir hverju sinni, og því mikla fé, sem bankarnir ætla nú að veita þessari nýju stofnun, milli þessara tveggja hópa námsmanna, námsmannanna erlendis og stúdentanna við háskólann hér. Sú skipting, sem Alþ. hefur gert í fjárlögum til eins árs í senn, þarf að ýmsu leyti endurskoðunar við, og það er ekki eðlilegt að binda skiptinguna á milli þessara tveggja hópa námsmanna í fjárlögum, heldur er eðlilegt, að fram fari gaumgæfileg athugun á því, með hverjum hætti fénu verði sem sanngjarnast skipt, þannig að aðstaða námsmannanna verði sem jöfnust, hvort sem þeir stunda nám erlendis eða hér heima. Það er eitt höfuðverkefni aðalstjórnar sjóðsins að gera rannsókn á slíku og skipta síðan fénu árlega á milli hinna tveggja deilda.

Í frv., eins og það upphaflega var lagt fyrir hv. Nd., var gert ráð fyrir því, að styrkir til íslenzkra námsmanna erlendis féllu framvegis niður, aðrir en stóru styrkirnir svonefndir, en það eru 30 þús. kr. styrkir, 7 að tölu, sem veittir eru árlega til náms annaðhvort við háskólann hér eða erlendis. Var þetta gert til þess að koma á samræmi á milli þeirrar aðstöðu, sem námsmenn hér heima búa við og námsmenn erlendis, en námsmennirnir hér heima höfðu sjálfir haft forgöngu um það fyrir tæpum 10 árum eð breyta þeim styrkjum, sem við háskólann voru veittir, í námslán. Þess vegna þótti ríkisstj. í fyrstu eðlilegt, að líkt gilti um námsmennina erlendis, að þeim væri gefinn kostur eingöngu á lánum, sem þá gætu orðið mun hærri bæði í nútíð og þó einkanlega í framtíð, þar sem lánin endurgreiddust og mætti þá endurveita. Það kom hins vegar í ljós við meðferð málsins, að íslenzkir námsmenn erlendis óskuðu mjög eftir því, að styrkveitingum til þeirra væri haldið, en styrkir til þeirra námu í heild á s.l. ári 1.3 millj. kr. Að athuguðu máli þótti ríkisstj. rétt að verða við þessum tilmælum, með sérstöku tilliti til þess, að íslenzkir námsmenn erlendis hafa fastan árlegan útgjaldalið, sem stúdentar við háskólann hér hafa ekki, þ.e. ferðakostnað út og heim, og enn fremur er námsár yfirleitt mánuði lengra erlendis en heima, þannig að segja má, að beinn námskostnaður þeirra, sem stunda nám erlendis, sé nokkru meiri eða a.m.k. skilyrði til sumarvinnu nokkru minni. Þess vegna þótti ríkisstj. rétt að leggja til þá breyt. á frv. í Nd., að haldið væri sömu upphæð til námsstyrkja handa námsmönnum erlendis og notuð var á s.l. ári, eða 1.3 millj. kr., en framlagið í lánasjóðinn minnkað að sama skapi. Þetta mun hafa þá þýðingu, að meðalnámslán til námsmanna erlendis mun lækka úr 25 þús. kr., eins og gert hafði verið ráð fyrir, í um það bil 20 þús. kr. Meðalstyrkur til námsmannanna mun verða milli 3 og 4 þús. kr. Þess ber þó að geta, að ekki fá allir styrk, þannig að styrkur til þeirra, sem styrk fá á annað borð, verður hærri en sú upphæð, sem ég nefndi.

Um það varð samstaða í hv. menntmn. Nd. og síðar í neðri deild allri að fallast á þessa breytingu á frv., enda höfðu þegar við 1. umr. í hv. Nd. komið fram raddir af hálfu nokkurra þm. um það, að ekki væri æskilegt að hverfa algerlega frá styrkjakerfinu, eins og gert var ráð fyrir í upphaflega frv. En eftir að samstaða hafði náðst um að gera þessa breytingu meðal allra flokka hv. Nd., var einnig samstaða um frv. í heild, og var það afgreitt með shlj. atkv. úr hv. Nd. á fundi fyrir nokkurri stundu.

Ég vona, að eins fari um málið hér í hv. efri deild, að samstaða náist um að mæla með frv. og það geti síðan gengið greiðlega gegnum hið háa Alþingi. Það er enginn vafi á því, að hér er um mikla hagsbót að ræða fyrir námsmennina, bæði hér heima og erlendis. Þeir styrkir, sem verið hafa, bæði stóru styrkirnir og dreifðu styrkirnir svonefndu, haldast, en í stað lána, sem áður námu 10–15 þús. kr. og voru til aðeins 10 ára, eiga nú að geta komið lán, sem nema 20–25 þús. kr., auk þess sem lánstíminn verður lengdur úr 10 árum í 15 ár. Það, sem um er að ræða, er m.ö.o. það, að lánsupphæðin rúml. tvöfaldast, auk þess sem lánstíminn er lengdur um 50%.

Þetta er tvímælalaust til mikilla hagsbóta fyrir þá, sem hér eiga hlut að máli og raunar eiga þessa hagsbót fyllilega skilið. Ég vil gjarnan segja það hér, eins og ég hef sagt í hv. Nd., þegar málið var til umr. þar, að mér er til efs, að nokkur fjárfesting sé íslenzku þjóðfélagi hagkvæmari en aukinn stuðningur við íslenzka námsmenn.

Ég vildi svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að málinu yrði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.