14.12.1960
Neðri deild: 38. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

4. mál, ríkisreikningurinn 1958

Jón Pálmason:

Herra forseti. Hv: síðasti ræðumaður hefði getað sparað sér þessa athugasemd, því að hér fór ég ekki að neinu leyti vilhallt eða rangt með, og það hefði verið miklu betra fyrir hann að hreyfa ekki þessu máli heldur en að rjúka upp á þennan hátt, því þó að það sé rétt, að sú regla hafi skapazt, að vélasjóði sé borgað með styrkjunum í árslok, þá er hér komið út í svo miklar öfgar, að það dugir ekki til. Ég fór ekkert út í að tala um þetta að öðru leyti en því að nefna bara upphæðina, sem væri þarna óinnheimt. En úr því að hv. þm. víkur að þessu, skal ég fara nánar út í þetta eftir athugasemdinni, og þá er því þannig varið á þessu ári, að það eru útistandandi í árslok hjá þessum vélasjóði 5.9 millj., en allar tekjur á árinu fyrir skurðgröfur eru miklu minni, þær eru ekki nema 4.8 millj. M.ö.o.: það er óinnheimt miklu meira hjá þessari stofnun heldur en allar árstekjurnar, og þess vegna vil ég halda, að það sé ekki alveg út í bláinn, þó að við yfirskoðunarmenn gerum athugasemd við svona ráðstafanir. Hitt er náttúrlega ósköp eðlilegt, að það sé mikið af skurðgröfuleigum, sem borgast ekki fyrr en í árslok. Það er út af fyrir sig rétt hjá þessum hv. síðasta ræðumanni. En svona er þetta á ýmsum sviðum, að það er komið alveg út í öfgar með óinnheimtar tekjur víðs vegar í starfsemi ríkisins.