10.03.1961
Neðri deild: 73. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

178. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þeir tveir hv. þm., sem hér hafa talað, hv. 3. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Norðurl. v., hafa óskað eftir því, að upplýst væri, til hverra framkvæmda ætti að nota þau lán, sem ábyrgðarhækkun fyrir Framkvæmdabankann snertir.

Nú er það þannig, að þegar Framkvæmdabankinn var stofnaður 1953, lagði þáv. fjmrh., núv. hv. 1. þm. Austf., það til, að ákveðið yrði í 9. gr. l. í fyrsta lagi, að ríkissjóður ábyrgðist allar skuldbindingar bankans innanlands, og í öðru lagi, að fjmrh. yrði heimilað að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs erlend lán og erlendar skuldbindingar bankans allt að 100 millj. kr. á hverjum tíma. Þáv. hæstv. fjmrh. taldi, að það væri nauðsynlegt með tilliti til þess hlutverks, sem bankanum er ætlað að inna af hendi, að hann gæti aflað sér viðbótarfjár við það stofnfé, sem hann fékk, og verður að telja eftir atvikum eðlilegt, að ábyrgðarupphæðin var fyrst ákveðin 100 millj. kr. Í meðförum Alþ. var þetta svo lækkað niður í 80 millj. Þegar frv. var lagt fram og var hér til meðferðar, var ekki á það minnzt, til hverra ákveðinna framkvæmda ætti að nota þessar ríkisábyrgðir, heldur væri það almenn heimild til þess að auðvelda starfsemi bankans. Strax á næsta ári, 1954, flutti sami hæstv. fjmrh. frv. um breytingu á þessu, þ.e.a.s. hækkun á þessari ábyrgðarheimild úr 80 millj. upp í 225 millj. Í frv. var ekki á það minnzt, til hverra einstakra framkvæmda ætti að nota þetta fé. Þremur árum síðar lagði sami hæstv. fjmrh. til og þá með stuðningi beggja þeirra hv. þm., sem hér töluðu, að enn yrði veitt viðbótarábyrgðarheimild fyrir Framkvæmdabankann, 150 milljónir, þannig að ábyrgðarheimildin var þá komin upp í 375 millj. kr. Þess var ekki getið, að þessa hækkun ætti að nota til einhverra tiltekinna framkvæmda, heldur væri nauðsyn á því vegna almennrar starfsemi bankans, til þess að hann á hverjum tíma, þegar hann þyrfti að taka erlent lán til einhverra nauðsynlegra framkvæmda, hefði þær heimildir, sem æskilegt væri, og þyrfti ekki í hvert sinn að leita til Alþingis.

Þessi hefur sem sagt verið hátturinn varðandi Framkvæmdabankann frá stofnun hans, og hafa báðir þessir hv. þm., sem nú heimta grg. um, hvaða ákveðnar, tilteknar framkvæmdir það séu, sem eigi að útvega lán og veita ríkisábyrgð til, þeir hinir sömu hafa tekið þátt í að hækka stórum á undanförnum árum þessar ábyrgðir án þess að minnast á slíkt. Það er því ástæðulaust miðað við fyrri afstöðu þeirra að fara frekar út í þetta. En ég vil aðeins til viðbótar því, sem hv. frsm. meiri hl. fjhn. sagði, undirstrika það, að aðalástæðan fyrir þessari hækkun, sem hér er lögð til nú, er gengisbreytingin á síðasta ári. Meiningin með þessu er sú, að bankinn hafi aðstöðu til þess að taka svipaðar upphæðir í erlendum gjaldeyri og fyrir gengisbreytinguna, en til þess þarf að sjálfsögðu að hækka verulega hina íslenzku fjárhæð. Þetta er gert eftir eindregnum óskum bankans. Auk þess hefur hann farið fram á, að nokkur viðbótarheimild yrði veitt, til þess að hann hefði möguleika til þess að taka lán erlendis til ákveðinna framkvæmda, sem ríkisvaldið ákvæði, ef ríkisábyrgð væri þar sett að skilyrði. M.ö.o.: hér er um að ræða annars vegar nokkra rýmkun á þessum heimildum bankans, alveg á sama hátt og veitt hefur verið tvisvar sinnum áður, og auk þess leiðréttingu á þessari ríkisábyrgðarupphæð vegna gengisbreytingarinnar.