20.03.1961
Efri deild: 76. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (845)

178. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og kom fram í framsöguræðu hæstv. fjmrh. fyrir frv. þessu við 1. umr. málsins hér í hv. d. og eins og kemur fram í grg. með þessu frv., þá felur það í sér tvær meginbreytingar frá núgildandi lögum. Önnur er sú, að bankaráð Framkvæmdabankans verður eftirleiðis kosið á annan hátt en nú er eða þann, að allir bankaráðsmenn eru kosnir hlutbundnum kosningum af sameinuðu Alþingi. Er sú skipan í samræmi við það, sem gert er ráð fyrir hvað snertir bankaráð annarra ríkisbanka. Hin meginbreytingin er fólgin í því, að hækkuð er ábyrgðarheimild bankanum til handa til samræmis við breytingar, sem orðið hafa á verðgildi peninganna.

Fjhn. hefur haft þetta mál til meðferðar, og mæla fjórir nm. með því, að það verði samþ. óbreytt, svo sem nál. á þskj. 522 ber með sér, en einn af okkur fjórum, sem skrifuðum undir nál., hefur þó fyrirvara, hv. 5. þm. Norðurl. e. Hv. 1. þm. Norðurl. e., Karl Kristjánsson, hefur hins vegar ekki séð sér fært að mæla með samþykkt frv.