17.10.1960
Efri deild: 5. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

41. mál, Listasafn Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér urðu það nokkur vonbrigði, að hv. 9. þm. Reykv. (AGl) skuli taka þessu frv. eins og ræða hans bar vott um. Um það erum við alveg sammála, og kom það fram í ræðum okkar beggja, að stærsta hagsmunamál safnsins nú er að sjálfsögðu bygging yfir verk þess. Af því má auðvitað engan veginn draga þá ályktun, sem hann gerði, að þetta frv. sé þýðingarlaust, það þurfi ekki að ná fram að ganga og það væri bezt geymt í nefnd. Sannleikurinn er sá, að það mundi auðvelda alla baráttu fyrir fjáröflun til byggingarinnar, að mál safnsins séu komin á traustan og öruggan grundvöll. Það er baráttunni fyrir nauðsynlegu fé til safnbyggingarinnar nokkur fjötur um fót, að bókstaflega engin lagaákvæði eru til um safnið. Ég hef heyrt þá röksemd, þar sem fjármál safnsins eða safnbyggingar hefur borið á góma, að málefnum safnsins hafi á undanförnum áratugum ekki verið sinnt meira en svo, að það hafi ekki einu sinni verið hirt um að setja safninu sérstök lög, eins og þó eigi sér stað um flestar hliðstæðar stofnanir. Auk þess, að það er sjálfsagt og eðlilegt, að um allar mikilvægar stofnanir þjóðfélagsins séu til sérstök lög, má enn fremur segja, að það sé dálítill þáttur í baráttunni fyrir því að afla fjár til byggingar yfir safnið að treysta starfsgrundvöll þess eins vel og unnt er, og það er m, a. gert með því að búa því lagagrundvöll. Það má því segja, að að vissu leyti sé lagasetning nauðsynleg forsenda þess, að hafist sé handa um byggingarframkvæmdir, nauðsynleg forsenda þess, að hægt sé að berjast með þeim hætti, sem nauðsynlegt er, fyrir nauðsynlegum fjárveitingum til byggingarinnar og fjáröflun til hennar og á annan hátt.

Annars held ég, að það verði ekki sagt með nokkrum rétti, að mig hafi skort áhuga á því að afla fjár til byggingar safnsins. Ég beitti mér fyrir því, að veitt er nú árlega fé til byggingar safnsins, þó að það sé að vísu ekki nema 1/2 milljón kr. núna, sem í þessu skyni er varið á hverju ári. Ég setti einnig fram till. á sínum tíma um sérstaka fjáröflun til byggingar safnsins, og voru þær till. þannig, að gert var ráð fyrir því, að happdrætti SÍBS og happdrætti DAS greiddu í byggingarsjóð listasafnsins jafnmikinn hluta af árlegum tekjum sínum og háskólinn og háskólahappdrættið greiðir til atvinnudeildarinnar, en það er 1/5 hluti af árlegum tekjum háskólahappdrættisins. Ef þetta hefði náð fram að ganga eða næði fram að ganga, má gera ráð fyrir, að í byggingarsjóð listasafnsins rynnu um 1—11/2 millj. kr. árlega umfram það, sem ríkið veitir á fjárlögum hvers árs, og væri með því móti vel séð fyrir þörfum listasafnsins. Þessar till. hlutu því miður ekki nægilegan stuðning á sínum tíma, og vil ég því óska, að ég mætti draga þær ályktanir af ummælum hv. 9. þm. Reykv., að hans flokkur væri nú slíkum till. fylgjandi, en á það skorti því miður á sínum tíma, að hans flokkur vildi veita þessum till. nægilegt brautargengi.

Án þess að ég vilji nú hefja hér neinar ádeilur á hv. 9. þm. Reykv. eða hans flokk í þessu sambandi, get ég þó ekki stillt mig um að geta þess, þar sem hann sagði, að hann hefði vænzt annars af mér í þessu sambandi en þess, að ég legði fram þetta, sem hann kallaði falsfrumvarp, í stað raunhæfrar baráttu fyrir fjárveitingu til byggingar safnsins, að í þeirri stjórn, sem okkar flokkar báðir stóðu að, tókst aldrei að fá neitt samkomulag um það að taka upp fjárveitingu á fjárlögum til byggingar listasafnsins, og stóð það m.a. á afstöðu flokks þessa hv. þm. Ég lagði fram till. um það oftar en einu sinni, en hlaut ekki stuðning við það frá hans flokki, og þess vegna var það ekki fyrr en Alþfl. fór einn með ríkisstj., að ákvæði um framlag til byggingar listasafnsins var tekið upp í fjárlög. Nú þætti mér vænt um, ef skilja mætti ræðu hv. þm. þannig, að afstaða flokks hans í þessu máli væri breytt til batnaðar. Hefði ég að vísu heldur kosið, að það hugarfar hefði verið þar ofan á, meðan flokkurinn mátti sín einhvers í ríkisstj., því að það gagnar minna, að afstaða flokksins sé orðin þessi nú, eftir að hann er utan ríkisstj. En betra er þó seint en aldrei, þegar um slíka hugarfarsbreytingu er að ræða.

Hv. þm. gat þess, að engin lög væru til um þjóðminjasafnið, hefði það þó vel dafnað hingað til, og mætti af þessu bezt sjá, að listasafninu væri heldur engin nauðsyn á lögum. Í sambandi við þetta vil ég upplýsa, að frv. til laga um þjóðminjasafn er nú í samningu á vegum menntmrn., og vona ég, að frv. um það efni verði lagt fyrir þetta þing. Ég vil segja sama um það efni og ég sagði áðan um listasafnið, að það er engan veginn vansalaust, að ekki skuli vera til lagasetning um sjálft þjóðminjasafnið. Úr því á að sjálfsögðu að bæta, og úr því er verið að bæta núna.

Hv. þm. vék einnig að áliti menntamálaráðs á þessu frv. Ég vil aðeins endurtaka og undirstrika það, sem ég sagði í framsöguræðu minni, að það álit er byggt á misskilningi. Menntamálaráð hefur látið þess getið í bréfi, að það væri ekki í samræmi við þá stefnu, sem kom fram í hinni nýju lagasetningu um ráðið frá 1957, að taka stjórn listasafnsins undan menntamálaráði, Að þetta er misskilningur, sést begar á því, að í sjálfu frv. er yfirstjórn menntamálaráðs yfir safninu bundin við þann tíma, þar til sérstök lög verði sett um listasafnið. Nefndin, sem undirbjó hina nýju lagasetningu fyrir menntamálaráð, var á einu máli um, að eðlilegt væri, að sérstök lög yrðu sett um listasafnið, og kemur það greinilega fram í nál. hennar, sem prentað var sem fylgiskjal með frv. um menntamálaráð frá 1957, enda var n., sem samdi þetta frv., skipuð um svipað leyti og n. til þess að endurskoða löggjöfina um menntamálaráð og menningarsjóð.

Þá gat hv. þm. um, að húsnæðismál fræðslumyndasafnsins væru í óefni og þyrfti sömuleiðis að bæta þar um. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hefur kunnugleika á því, sem fyrir ekki alllöngu hefur gerzt einmitt í þessum málum. Kann að vera, að hann hafi það ekki, og ekki heldur hægt til þess að ætlast, en húsnæði fræðslumyndasafnsins hefur fyrir nokkru verið aukið mjög verulega, þó að það sé að vísu ekki komið í það horf, sem ég vildi gjarnan kjósa að það kæmist. En ég mundi einnig halda, að framgangur þess frv., sem stjórnin hefur einnig lagt fyrir þetta þing, mundi bæta aðstöðu menntmrn. og væntanlegrar yfirstjórnar fræðslumyndasafnsins í baráttunni fyrir því að koma húsnæðismálum fræðslumyndasafnsins endanlega á þann grundvöll, sem nauðsyn ber til.

Ég vil einnig bæta nokkru við ummæli hv. þm. um húsnæði náttúrugripasafnsins, þar sem hann sagði, að lög hefðu verið sett um náttúrugripasafnið, en því ekki fengið viðunandi húsnæði. Þetta átti við eða var rétt til skamms tíma. En einmitt nú fyrir tveimur árum hefur verið bætt mjög myndarlega úr brýnni húsnæðisþörf náttúrugripasafnsins, þar sem það hefur fengið mjög rúmgott og mjög fullkomið nýtt húsnæði til umráða innarlega við Laugaveg og er einmitt nú þessar vikurnar að koma því fyrir í hinu nýja húsnæði, sem eflaust mun duga náttúrugripasafninu um nokkur komandi ár, meðan bygging endanlegs safnhúss er í undirbúningi og meðan hún verður framkvæmd. Hygg ég, að enginn, sem að náttúrugripasafninu stendur og til hagsmuna þess og þarfa þekkir, hafi nú ástæðu til þess að kvarta yfir húsnæðisleysi, ekki einu sinni yfir lélegu eða þröngu húsnæði náttúrugripasafnsins, og mætti þvert á móti segja, að vel væri, ef öll söfn í landinu byggju við jafngott og glæsilegt húsnæði og náttúrugripasafnið nú hefur yfir að ráða.

Þessi atriði vil ég láta koma fram í tilefni af ræðu hv. þm. Mér þykir vænt um áhuga hans á því, að byggingu yfir Listasafn Íslands sé hraðað, þó að ég segi það aftur að síðustu, að enn vænna hefði mér þótt um áhuga hans, ef ég hefði orðið hans svona ríkulega var undanfarin 3–4 ár.